[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Keflvíkingar renndu sér upp fyrir Valsmenn á topp úrvalsdeildar karla í körfuknattleik í gærkvöld en þeir sóttu þá Grindvíkinga heim og lögðu þá að velli, 104:93. Liðin eru jöfn að stigum á toppnum en Valsmenn eiga leik til góða og sækja Breiðablik heim í kvöld

Körfuboltinn

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Keflvíkingar renndu sér upp fyrir Valsmenn á topp úrvalsdeildar karla í körfuknattleik í gærkvöld en þeir sóttu þá Grindvíkinga heim og lögðu þá að velli, 104:93.

Liðin eru jöfn að stigum á toppnum en Valsmenn eiga leik til góða og sækja Breiðablik heim í kvöld.

Grindvíkingar voru með forystu fram í seinni hálfleikinn en Keflvíkingar voru sterkari þegar á reyndi og sigu fram úr.

Keflvíkingurinn Eric Ayala var stigahæstur allra í leiknum með 27 stig, en ásamt því tók hann tvö fráköst og gaf þrjár stoðsendingar. Halldór Garðar Hermannsson átti góða innkomu í liði Keflavíkur, skoraði 17 stig og tók sex fráköst.

Ólafur Ólafsson var atkvæðamikill í liði Grindavíkur með 21 stig, átta fráköst og fimm stoðsendingar. Gkay Gaios Skordilis skoraði 24 stig.

Pavel Ermolinskij náði ekki að innbyrða sigur í fyrsta heimaleiknum sem þjálfari Tindastóls. Njarðvíkingar gerðu góða ferð í Skagafjörð í gærkvöld og lögðu Stólana í Síkinu, 94:86.

Njarðvíkingar eru því áfram á hælum toppliðanna í þriðja sæti deildarinnar en Tindastóll missti af tækifæri til að taka skref nær fjórum efstu liðunum.

Nicolas Richotti var atkvæðamestur í liði Njarðvíkur með 20 stig, fimm fráköst og átta stoðsendingar. Mario Matasovic var með 17 stig, fjögur fráköst og eina stoðsendingu og Dedrick Basile með 14 stig, fimm fráköst og sex stoðsendingar.

Antonio Woods leikmaður Tindastóls var stigahæsti maður leiksins með 27 stig. Hann var einnig með fimm fráköst og sex stoðsendingar. Pétur Rúnar Birgisson var næstatkvæðamestur í liði Tindastóls með 16 stig, fimm fráköst og fjórar stoðsendingar.

Stjarnan vann án Arnars

Stjarnan kom sér af mesta hættusvæði deildarinnar og styrkti um leið stöðu sína í áttunda sætinu með allöruggum heimasigri á ÍR-ingum, 94:76.

Stjörnumenn höfðu aðeins unnið einn af síðustu sex leikjum sínum í deildinni. ÍR-ingar deila sem fyrr 10. til 11. sætinu með Þór og hafa aðeins unnið þrjá leiki á tímabilinu. Þá hafa Breiðhyltingarnir nú tapað sex leikjum í röð síðan þeir unnu botnlið KR 1. desember.

Arnar Guðjónsson þjálfari Stjörnunnar sat í stúkunni í gærkvöld og tók út eins leiks bann vegna brottvísunar gegn Keflavík á dögunum. Ingi Þór Steinþórsson, sá þrautreyndi aðstoðarmaður hans, stýrði liðinu af bekknum.

Sænski framherjinn Niels Gutenius átti stórleik í liði Stjörnunnar með 26 stig, 15 fráköst og tvær stoðsendingar. Adama Kasper Darbo lék einnig afar vel og skoraði 19 stig, tók fimm fráköst og gaf 11 stoðsendingar fyrir Garðbæinga. Friðrik Anton Jónsson átti góða innkomu í liði Stjörnunnar og setti 16 stig ásamt því að taka 10 fráköst.

Hákon Örn Hjálmarsson var atkvæðamestur í liði ÍR-inga með 22 stig, tvö fráköst og þrjár stoðsendingar.

Þór frá Þorlákshöfn komst ekki í Egilsstaði til að leika við Hött og sá leikur fer fram annað kvöld.