Hjónin Jón Björn og Hildur Vala frá liðnu sumri stödd í Flórens á Ítalíu.
Hjónin Jón Björn og Hildur Vala frá liðnu sumri stödd í Flórens á Ítalíu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jón Björn Hákonarson er fæddur 27. janúar 1973 á Norðfirði, á Fjórðungssjúkrahúsinu. „Ég ólst upp í Efri-Miðbæ í Norðfjarðarsveit þar sem foreldrar mínir voru bændur. Fyrst með sauðfé og svo með kúabúskap og var búið fyrsti vinnustaðurinn sem…

Jón Björn Hákonarson er fæddur 27. janúar 1973 á Norðfirði, á Fjórðungssjúkrahúsinu. „Ég ólst upp í Efri-Miðbæ í Norðfjarðarsveit þar sem foreldrar mínir voru bændur. Fyrst með sauðfé og svo með kúabúskap og var búið fyrsti vinnustaðurinn sem ég vann á og er því ýmsum hnútum kunnugur í sveitastörfum frá fyrri tíð og slíkt er góður grunnur í hverju sem maður tekur sér fyrir hendur í lífinu.“

Jón Björn gekk í grunnskóla Norðfjarðarhrepps sem var á Kirkjumel en þegar kom að gagnfræðaskóla þá var haldið í Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað en þar var hann til húsa ásamt framhaldsskólanum. Hann lauk svo stúdentsprófi frá sama skóla 1993. „Ég kíkti aðeins við í Háskóla Íslands en hélt svo út á vinnumarkaðinn.“

Hann vann sem þjónustufulltrúi hjá Sparisjóði Norðfjarðar, var upplýsinga- og kynningarfulltrúi Fjarðabyggðar hinnar fyrstu, sölustjóri hjá Landsbankanum á Austurlandi, hjá VÍS ásamt því að starfa í Lögreglunni á Austurlandi um langt skeið í hlutastarfi ásamt ýmsum fjölbreyttum störfum á námsárum. Hann tók við sem bæjarstjóri Fjarðabyggðar árið 2020 og gegnir því starfi í dag.

Félags- og sveitarstjórnarmál hafa verið stór hluti hjá Jóni Birni og sameinað bæði vinnu og áhugamál. Hann tók sæti fyrst í fræðslunefnd Neskaupstaðar á kjörtímabilinu 1994-98 og hefur verið síðan þá þátttakandi á sveitarstjórnarvettvangnum í gegnum nefndarsetur og bæjarstjórn allar götur síðan. Hann var varamaður í bæjarstjórn Fjarðabyggðar á kjörtímabilinu 2006-2010 og hefur verið bæjarfulltrúi síðan 2010. Hann varð þá forseti bæjarstjórnar það ár og varaformaður bæjarráðs og var í því hlutverki til 2020 þegar hann varð bæjarstjóri.

„Þetta hefur verið reglulega skemmtilegur tími og annasamur, eðlilega. Við erum að sjá fram á að á þessu ári muni glæðast húsnæðismarkaðurinn hérna. Við höfum liðið fyrir það að okkur hefur vantað húsnæði því það er nóg af störfum hjá okkur, enda er Fjarðabyggð öflugt sveitarfélag. Við vorum að ganga frá lóðaleigusamningi við danska fjárfestingasjóðinn CIP sem hyggur á að byggja vetnisverksmiðju í Reyðarfirði. Við erum að horfa á að þarna sé komin enn ein stoðin undir fjölbreytta atvinnu og að þetta sé liður í orkuskiptingu vegna loftslagsbreytinganna. Það er því að nægu af taka á hverjum degi í vinnunni.“

Fjarðabyggð er eitt af víðfeðmustu sveitarfélögum landsins og nær í suðri til Breiðdals, eftir sameininguna við Breiðdalshrepp árið 2018, og í norðri til Mjóafjarðar. „Yfir vetrartímann er Mjóifjörður ekki með landsamgöngur en þangað fer ferja frá Norðfirði. Á milli Norðfjarðar og Breiðdals eru 100 km akstursvegalengd.“ Íbúar Fjarðabyggðar eru rúmlega 5.200.

Jón Björn hefur setið í ýmsum stjórnum, nefndum og starfshópum á vettvangi sveitarfélaganna í gegnum tíðina, s.s. í stjórn Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) á árunum 2012-2017, í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga frá árinu 2018, var formaður skólanefndar Verkmenntaskóla Austurlands 2009-2022, hefur setið í stjórn Sparisjóðs Austurlands frá 2012, stjórn Landsvirkjunar síðan 2014 (að undanskildu 2017-2018), formaður samtaka sjávarútvegssveitarfélaga frá 2022 svo eitthvað sé nefnt. Þá var hann ritari Framsóknarflokksins á árunum 2016-2022 ásamt því að sitja í stjórnum og taka þátt í starfsemi ýmissa félagasamtaka s.s. björgunarsveitarinnar Gerpir, hestamannafélagsins Blæs og Blús-, rokk- og jazzklúbbsins á Nesi svo eitthvað sé nefnt.

„Ég á fullt af vinum sem eru tónlistarmenn, þar lágu hæfileikar mínir ekki en ég tók þátt í heilmiklum uppsetningum hjá þeim, var kynnir og skemmtanastjóri og fleira. Ég var í þessu menningarfélagi í mörg ár sem var mjög skemmtilegt og við settum upp sýningar bæði hér á Norðfirði og í Reykjavík. Svo breyttist þetta þegar ég fór í bæjarpólitíkina, þá fór krafturinn inn á vettvang sveitarstjórnarmála.

Ég hef verið hálfgert félagsmálafrík í gegnum tíðina enda fátt skemmtilegra en vinna með fólki að góðum málum fyrir samfélagið hvort sem er nær eða fjær og er afskaplega þakklátur fyrir það traust sem ég hef fengið til þeirra starfa.“

Áhugamál Jóns Björns eru af ýmsum toga. „Það er frekar vandamálið að finna tíma til að sinna þeim í annríki daganna. Mér finnst afskaplega gaman að lesa og er með netta kvikmyndadellu. Ég reyni einnig að taka góðar gönguferðir með heimilishundinn þar sem við reynum að leysa lífsgátuna daglega og svo reynir maður að taka þann tíma sem gefst til að sinna fjölskyldunni og því sem börnin eru að gera í gegnum íþróttirnar og fleira. Þá hefur alltaf fylgt mér nett tækja- og bíladella sem ég reyni að beisla en nær stundum að brjótast fram.“

Fjölskylda

Eiginkona Jóns er Hildur Vala Þorbergsdóttir, f. 8.2. 1972, rannsóknarmaður hjá MATÍS. Þau eru búsett í Hlíðargötu á Norðfirði, Fjarðabyggð. Foreldrar Hildar Völu eru hjónin Þorbergur Gunnlaugur Jóhannsson, fv. útgerðar- og hrefnuveiðimaður, f. 11.1. 1936 og Jóna Matthildur Þorsteinsdóttir, fv. útgerðarmaður og skrifstofustjóri, f. 8.9. 1940. Þau eru búsett í Kópavogi.

Börn Jóns Björns og Hildar Völu eru Hákon Þorbergur Jónsson, f. 9.1. 2003, háskólanemi við HR, og Embla Fönn Jónsdóttir, f. 20.6. 2007, grunnskólanemi.

Systkini Jóns Björns eru Bjarni Hákonarson, f. 30.4. 1959, verktaki, búsettur í Dilksnesi í Hornafirði; Halldóra Hákonardóttir, f. 6.9. 1960, stuðningsfulltrúi á Norðfirði; Sigurborg Hákonardóttir, f. 28.8. 1961, fjármálastjóri á Norðfirði, og Guðröður Hákonarson, f. 30.4. 1963, veitingamaður á Norðfirði, búsettur í Efri-Miðbæ.

Foreldrar Jóns: Hjónin Hákon Guðröðarson, f. 10.11. 1937, d. 24.4. 1991, bóndi í Efri-Miðbæ, og Sigurlaug Bjarnadóttir, f. 14.3. 1941, fyrrum bóndi í Efri-Miðbæ, búsett þar.