Sósíalistar í borgarstjórn minna á fyrir hvað þeir standa

Furðuleg tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokksins og áheyrnarfulltrúa í umhverfis- og skipulagsráði var felld þar á dögunum með öllum greiddum atkvæðum, nema atkvæði fulltrúa Vinstri-grænna sem sat hjá. Tillagan gekk út á að setja reglur til að koma í veg fyrir að íbúðarhúsnæði stæði autt til lengri tíma. Væri íbúð auð í ár kæmi til sektargreiðslu og í kjölfarið myndu borgaryfirvöld hlutast til um að aftur yrði flutt inn í íbúðina!

Í áliti skrifstofu stjórnsýslu og gæða hjá borginni kom fram að í stjórnarskránni væri ákvæði um að eignarrétturinn væri friðhelgur. Borgin hefði enga heimild til að fara að tillögu borgarfulltrúa Sósíalistaflokksins. Þetta er auðvitað augljóst og hefði vart þurft sérstakt álit lögmanns til að komast að þessari niðurstöðu. En það er áhyggjuefni að í borgarstjórn skuli vera fulltrúar sem telja slíka tillögu frambærilega og enn fremur að þar sé ekki full samstaða um að fella slíka tillögu, þó að nærri því hafi farið.

Vissulega hafa húsnæðismál lengi verið í ólestri í borginni, allt of lítið byggt og á allt of dýrum svæðum, í nafni þéttingar byggðar. Slíkt vandamál réttlætir þó vitaskuld ekki slíkar tillögur, en þessi staða hefur þó verið nýtt til annars konar stjórnsemi og inngripa hins opinbera.

Þar er vissulega ekki um jafn alvarleg inngrip að ræða og í fyrrnefndri tillögu, en kvaðir sem settar hafa verið á húsbyggjendur með vísan til hás húsnæðisverðs, sem skýrist af heimatilbúnum skorti á húsnæði í borginni, eru engu að síður óeðlilegar.

Húsnæðismarkaðurinn þarf ekki á slíku að halda. Það sem þarf er að skapa skilyrði til að hægt sé að byggja nóg af hagkvæmu húsnæði. Það er hlutverk borgarfulltrúa og í því hafa þeir brugðist.