Jóhann Hlíðar Verður hann fulltrúi Írlands?
Jóhann Hlíðar Verður hann fulltrúi Írlands?
Fréttamenn Bylgjunnar eru frægir fyrir að lifa sig inn í viðfangsefni sín og jafnvel sogast sjálfir inn í fréttirnar sem þeir eru að segja þjóðinni. Frægt var til dæmis þegar Snorri Másson lést, reis upp frá dauðum og gerðist bæjarstjóri á Akureyri – allt í einum og sama hádegisfréttatímanum

Orri Páll Ormarsson

Fréttamenn Bylgjunnar eru frægir fyrir að lifa sig inn í viðfangsefni sín og jafnvel sogast sjálfir inn í fréttirnar sem þeir eru að segja þjóðinni. Frægt var til dæmis þegar Snorri Másson lést, reis upp frá dauðum og gerðist bæjarstjóri á Akureyri – allt í einum og sama hádegisfréttatímanum.

Um liðna helgi stóð kollegi hans líka í stórræðum. Gefum fréttaþul orðið: „Þjóðirnar 37 sem taka þátt í Júróvisjón-söngvakeppninni í vor eru smám saman farnar að velja framlag sitt. Írland, sem hefur unnið keppnina sjö sinnum eða oftar en nokkur önnur þjóð, velur framlag sitt í byrjun næsta mánaðar. Þar hefur einn keppandi algjörlega stolið senunni og í raun reitt marga til reiði, Jóhann Hlíðar Harðarson.“

Þessi inngangur kveikti hressilega í mér og ábyggilega fleiri hlustendum. Jóhann Hlíðar Harðarson, sem í seinni tíð er fréttaritari Bylgjunnar á Spáni, að gera allt snælduvitlaust á Írlandi og að reyna að komast í Júróvisjón. Þessi annars prúði og skeleggi fréttamaður var að sjálfsögðu með fréttina sjálfur.

Ég man ekki eftir að hafa heyrt Jóhann Hlíðar syngja en hef engar efasemdir um að hann valdi því verkefni og gaman verður að sjá hann á stóra sviðinu í Liverpool, fái hann til þess fylgi.