Hrafnar Viðskiptablaðsins fjölluðu um það í gær að hópur þingmanna Vinstri grænna hefði lagt fram þingsályktunartillögu um að íslenska rokið yrði skilgreint sem sameign þjóðarinnar í lögum og að heimilt yrði að krefjast auðlindagjalds af nýtingu vindorkunnar.

Hrafnar Viðskiptablaðsins fjölluðu um það í gær að hópur þingmanna Vinstri grænna hefði lagt fram þingsályktunartillögu um að íslenska rokið yrði skilgreint sem sameign þjóðarinnar í lögum og að heimilt yrði að krefjast auðlindagjalds af nýtingu vindorkunnar.

Flutningsmenn eru að sögn Hugins og Munins „meðal annars hin annáluðu frelsisblys Orri Páll Jóhannsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Lilja Rafney Magnúsdóttir. Tillagan er vissulega reiðarslag fyrir Suðurnesjamenn, seglskútueigendur og þá sem enn kjósa að þerra þvott utandyra. Eigi að síður telja hrafnarnir tillöguna til marks um hversu undarleg og fjarstæðukennd umræða um þjóðarauðlindir og skattlagningu er. Þarf að skattleggja þá sérstaklega sem kjósa að virkja vindinn sem blæs yfir land í þeirra eigu? Hvað með sólarljósið? Gilda ekki sömu lögmál um það? Erlendis færist það í vöxt að heimili framleiða eigið rafmagn með því setja sólarsellur á þök. Eru þá menn ekki að ganga freklega á sameign þjóðarinnar? Allt þetta styrkir þá skoðun hrafnanna að sú sameign þjóðarinnar sem er af hvað skornustum skammti sé mannvitið.“

Allt er þetta umhugsunarvert en ekki þó síður að þingmenn VG skuli ekki hafa áhyggjur af náttúrunni í þessu sambandi frekar en sköttunum. Má ekki standa með fuglunum og landslaginu – jafnvel frekar en með ríkissjóði?