Íslenskir ríkisborgarar voru með skráð lögheimili í alls 100 löndum af 193 aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna þann 1. desember síðastliðinn. Þetta kemur fram í nýrri samantekt Þjóðskrár. „Alls var 48.951 íslenskur ríkisborgari með skráð lögheimili erlendis þann 1

Íslenskir ríkisborgarar voru með skráð lögheimili í alls 100 löndum af 193 aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna þann 1. desember síðastliðinn. Þetta kemur fram í nýrri samantekt Þjóðskrár.

„Alls var 48.951 íslenskur ríkisborgari með skráð lögheimili erlendis þann 1. desember sl. Flestir voru skráðir í Danmörku eða alls 11.590 einstaklingar. Næstflestir eða 9.278 einstaklingar voru skráðir í Noregi og í þriðja sæti var Svíþjóð þar sem 8.933 íslenskir ríkisborgarar voru skráðir með lögheimili.

62,1% íslenskra ríkisborgara sem eru með skráð lögheimili erlendis eru á Norðurlöndunum,“ segir í frétt á vef Þjóðskrár um samanburðinn.

Danmörk, Noregur og Svíþjóð hafa verið þrjú vinsælustu löndin á seinustu árum ef marka má fjölda Íslendinga í þessum löndum og hefur Danmörk haldið toppsætinu á umliðnum árum eða allt frá árinu 2004 þegar þróunin er skoðuð yfir síðustu tvo áratugi.

Sex í Úkraínu og fimm í Írak

Bandaríkin eru í fjórða sæti en þar voru skráðir 6.492 þann fyrsta desember sl. eða 13,3% allra Íslendinga með lögheimili erlendis. Röð landanna hefur breyst á seinustu 20 árum en árið 2004 voru fleiri skráðir í Bandaríkjunum eða 4.791 en í Noregi en þar voru þá 4.458 Íslendingar skráðir með lögheimili. Bretland er í fimmta sæti en þar voru 2.485 skráðir og Þýskaland kemur næst í röðinni þar sem 1.837 íslenskir ríkisborgarar voru með lögheimili. Á Spáni eru svo skráðir 873 Íslendingar með lögheimili og hefur fjölgað umtalsvert frá 2004 þegar þeir voru 294 talsins.

Fram kemur að í 15 löndum er aðeins að finna einn íslenskan ríkisborgara með skráð lögheimili samkvæmt gögnum Þjóðskrár. „Þetta eru löndin Albanía, Angóla, Belís, Ekvador, Gana, Gínea, Indland, Íran, Kenía, Líbanon, Makedónía, Máritíus, Pakistan, Panama og Sómalía.“

Á yfirliti Þjóðskrár má einnig sjá að 39 íslenskir ríkisborgarar eru með lögheimili í Rússlandi og sex í Úkraínu. 16 íslenskir ríkisborgarar eru með lögheimili í Sádi-Arabíu, fimm eru í Írak, fimm í Máritaníu, 25 eru skráðir í Kína, tveir í Argentínu, fjórir í Hondúras, en 541 í Ástralíu og 50 á Grænlandi svo dæmi séu tekin. omfr@mbl.is