Litadýrð Eggert og Butterly með litrík verk Eggerts í bakgrunni á sýningunni sem opnuð var í i8 fyrir viku.
Litadýrð Eggert og Butterly með litrík verk Eggerts í bakgrunni á sýningunni sem opnuð var í i8 fyrir viku. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eggert Pétursson og Kathy Butterly þekktu ekki til verka hvort annars þegar sú hugmynd kviknaði að setja upp sýningu með verkum þeirra í i8 galleríi við Tryggvagötu sem opnuð var 19. janúar. Eggert er þekktur listmálari og viðfangsefni olíuverka…

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Eggert Pétursson og Kathy Butterly þekktu ekki til verka hvort annars þegar sú hugmynd kviknaði að setja upp sýningu með verkum þeirra í i8 galleríi við Tryggvagötu sem opnuð var 19. janúar. Eggert er þekktur listmálari og viðfangsefni olíuverka hans fjölbreytt og litskrúðug flóra Íslands en Butterly bandarískur skúlptúristi sem býr og starfar í New York og býr til litrík verk úr keramiki sem hún brennir allt að 40 sinnum. Bæði nota þau tímafrekar aðferðir við listsköpunina og leggja mikið upp úr litum, eins og sjá má af sýningunni í i8.

Butterly er fædd árið 1963 og hefur sýnt víða bæði ein og með öðrum, nýverið í Contemporary Art Museum í St. Louis og Metropolitan Museum of Art í New York. Eggert er fæddur 1956 og býr og starfar í Reykjavík. Hann hefur sýnt víða hér á landi sem erlendis, m.a. í Museum Fodor í Amsterdam og Pori Art Museum í Finnlandi.

Ekki hrædd við liti

Eggert og Butterly ræddu við blaðamann skömmu fyrir opnun sýningarinnar og voru spurð að því hvort þeim hefði þótt borðleggjandi að þau sýndu saman. „Þegar ég sá verk hennar skildi ég það fullkomlega,“ svarar Eggert og Butterly segist hafa séð myndir af verkum Eggerts og litist vel á að sýna með honum.

„Við erum bæði að fjalla um nánd með ólíkum hætti. Eggert rýnir í heim hins smáa og stækkar hann upp en ég nota hversdagslega hluti og bý til ákveðna nánd úr þeim,“ útskýrir Butterly. Þau séu því í raun að fjalla um svipaða hluti en með ólíkum hætti. „Og við erum ekki hrædd við liti, er það?“ bætir Butterly við og hlær og Eggert kinkar kolli því til staðfestingar.

Þrotlaus vinna býr að baki verkum listamannanna, eitt verka Eggerts var um tvö ár í vinnslu og eru þau alltaf með mörg verk í vinnslu hverju sinni. Butterly segir hvern skúlptúr taka um hálft til eitt ár að gera þar sem hún brenni hann í tugi skipta, aftur og aftur. Þessa eljusemi þekkir Eggert vel og ekki þarf annað en að skoða verk hans gaumgæfilega til að átta sig á því hversu mikla vinnu hann hefur lagt í þau.

Tilfinning fyrir landinu

Butterly segist hafa unnið verkin sérstaklega fyrir sýninguna á Íslandi og reynt að fá tilfinningu fyrir landinu sem hún hafði aldrei heimsótt. Þetta er því hennar fyrsta heimsókn til landsins og segir hún sýn sína á íslenskt landslag og liti náttúrunnar birtast í skúlptúrunum, t.d. skæran grænan lit sem sjá megi á sumrin. „Þetta var heilmikið ferðalag,“ segir hún um sköpun verkanna og er greinilega hæstánægð með að fá að sýna á Íslandi.

Verk Butterly eru öll eins að forminu til en breytileg í litum og blæbrigðum. Hún segist hafa unnið efri hlutann úr móti af skál sem hún hafi formað til og breytt. „Þetta er eins og „readymade“ sem er endurgert mörgum sinnum,“ útskýrir hún. Hlutur sem áður þjónaði tilteknum tilgangi hefur nú fengið annað listrænt hlutverk, í stuttu máli. Skálarformið hvílir ofan á ferningslaga formi sem er þó ekki stöpull, útskýrir Butterly. Þessi tvö ólíku form mynda einn skúlptúr saman og list Butterly er tengd hugmyndinni um „readymade“ sem Marcel Duchamp kynnti til sögunnar árið 1913 með verki sem hann vann úr fjöldaframleiddum hlutum.

Líkt og ástarsamband

Áhugi og ástríða Eggerts og Butterly fyrir efninu sem þau vinna með eru greinileg og Butterly líkir því við ástarsamband. „Maður þekkir efnið og þú finnur kannski fyrir því að hver litur er með sína skapgerð og hegðun?“ spyr Butterly Eggert og hann segist kannast vel við þá eiginleika litanna. Listamennirnir eru spurðir að því hvort þeir komist í hið þekkta algleymisástand listsköpunar þegar vel gangi og þeir komist í stuð, svo að segja. Já, þau kannast vel við slíkt ástand, þegar hugurinn nær einhverju æðra stigi og staður og stund gleymist.

Hvert verk vel undirbúið

Eggert er spurður að því hversu vel hann undirbúi hvert málverk, hvort hann skissi það upp fyrst eða máli meira af fingrum fram. Hann segir hvert verk vel undirbúið og skissað og síðan tekin ákvörðun um stærð. „Ég er með skissubók sem ég nota til að ákveða innihaldsefnin, hvaða blóm eigi að vera og hvar. Þetta er eins og uppskrift að súpu,“ segir Eggert kíminn.

Listsköpun beggja virkar strembin á blaðamann sem segist ekki búa sjálfur yfir þeirri miklu þolinmæði sem þau Eggert og Butterly hljóta að búa yfir. „Ég er þolinmóð,“ segir Butterly og brosir út að eyrum en Eggert segir þetta frekar spurningu um þrjósku en þolinmæði.

Þarf að passa hálsinn

Og þrjóska kemur sér vissulega vel þegar eitthvað fer úrskeiðis, eins og Butterly bendir á, t.d. þegar skúlptúr dettur í sundur og hún þarf að búa hann til aftur. „Þetta er ákveðin hugleiðsla og verkefni,“ segir Butterly og að hún geti setið tímunum saman við listsköpun. Eggert kannast líka vel við að gleyma sér á vinnustofunni og bæði segjast hafa glímt við álagsmeiðsli. Butterly nefnir sérstaklega hálsinn, hann þurfi að passa vel og Eggert kinkar kolli þessu til staðfestingar.

Sýningin er án titils og segja Eggert og Butterly að það hefði orðið erfitt að finna titil og því standi nöfn þeirra einfaldlega á rúðu gallerísins sem er á Tryggvagötu 16.

Sýningunni lýkur 4. mars og galleríið er opið frá miðvikudegi til laugardags kl. 12 til 17.

Höf.: Helgi Snær Sigurðsson