Vonandi verður vinnufriður í landinu eftir undarlegt brölt

Ákvörðun ríkissáttasemjara um að skera verkalýðsfélagið Eflingu niður úr snörunni, sem hún hékk í, með hugsanlegum nokkrum útgjöldum fyrir atvinnulífið, er umdeilanleg, en þó eftir atvikum afsakanleg vegna tilrauna óprúttinna forystumanna til misbrúkunar á gildandi lögum.

Tilþrif formanns Eflingar hafa verið með miklum ólíkindum og gengu reyndar þvert á almenna afstöðu launþega um land allt og það sem verra var að þarna var reynt að afmarka lítinn hóp starfsmanna, sem foringjar Eflingar töldu að stæðu veikir fyrir, til að ganga í vatnið fyrir verkalýðsfélagið. Yfirmenn á hótelunum sem Efling beindi árásum sínum að töldu þó reyndar eftir samtöl sín við starfsmenn sína að langlíklegast væri að flestir starfsmannanna myndu hafna tilraunum til þess að lama hótelin sem í hlut áttu.

Útspil forystumanna verkalýðsfélagsins og tilraunir til að fá örfáa aðila úr þeim hópi til að sprengja hagfellda samninga í loft upp, samninga sem yfirgnæfandi meirihluti launamanna hafði þegar samþykkt, er undarlegt. Samninga, sem eru að auki til tiltölulega skamms tíma. Það sýndi ótvíræðan vilja og jákvætt mat á samningunum að þótt formaður VR, stærsta stéttarfélagsins, hefði ekki haft þrek til að mæla með þeim fengu þeir engu að síður yfirgnæfandi stuðning.

Það hlýtur að hafa komið formanninum á óvart og veikt stöðu hans í félaginu enda var með nokkrum ólíkindum hversu illa læs hann reyndist á vilja félaga sinna. Þessir atburðir á vinnumarkaði hljóta að kalla á það, þegar þessari samningatörn lýkur, að farið verði rækilega yfir þau lög sem gilda í landinu um þennan mikilvæga þátt þjóðlífsins. Það er auðvitað óþolandi að stórt félag leitist við að sprengja upp samninga annarra stéttarfélaga, þar sem samningar hafa hlotið mjög öflugan stuðning nánast allra þeirra launþega sem áttu hlut að máli. Það átti að gera með því að beita brögðum og gloppum í lagasetningu, en þær gloppur hafa ekki verið misnotaðar hingað til, því enginn hafði haft vilja eða hugmyndaflug til þess.