Neyðarskýli Flestir nýttu sér dagopnun í Gistiskýlinu við Lindargötu.
Neyðarskýli Flestir nýttu sér dagopnun í Gistiskýlinu við Lindargötu. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Neyðarskýli Reykjavíkurborgar fyrir heimilislausa hafa verið opin 23 sinnum á daginn vegna kulda eða óveðurs það sem af er vetri. Er þetta óvenjulega oft. Til samanburðar má geta þess að frá 2019 hefur neyðaráætlun málaflokksins verið virkjuð vegna veðurs einu sinni til þrisvar á vetri

Neyðarskýli Reykjavíkurborgar fyrir heimilislausa hafa verið opin 23 sinnum á daginn vegna kulda eða óveðurs það sem af er vetri. Er þetta óvenjulega oft. Til samanburðar má geta þess að frá 2019 hefur neyðaráætlun málaflokksins verið virkjuð vegna veðurs einu sinni til þrisvar á vetri. Hins vegar var opnað um tíma á meðan kórónuveirufaraldurinn herjaði.

Fólk nýtti öll skýlin til að dvelja inni á kuldatímabilum eða í slæmu veðri í vetur. Samkvæmt upplýsingum Reykjavíkurborgar nýttu að meðaltali 17 einstaklingar neyðarskýlið á Grandagarði í dagopnun og 21 nýtti gistiskýlið á Lindargötu.

Á virkum dögum hafa heimilislausar konur aðgang að Skjólinu sem Hjálparstarf kirkjunnar rekur. Þá virku daga sem neyðaráætlunin hefur verið virk hafa konurnar fengið far með leigubíl í Skjólið og aftur til baka. Þegar neyðaropnunin hefur fallið á helgi og Skjólið verið lokað hefur Konukot verið opið allan sólarhringinn. Að meðaltali nýttu 11 konur dagopnunina þá daga. helgi@mbl.is