Fljótshlíð Fögur er hlíðin þótt ekki séu bara bleikir akrar og slegin tún. Skógrækt hefur verið góð í Fljótshlíðinni í landi Tungu og Tumastaða.
Fljótshlíð Fögur er hlíðin þótt ekki séu bara bleikir akrar og slegin tún. Skógrækt hefur verið góð í Fljótshlíðinni í landi Tungu og Tumastaða. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Dóra Ósk Halldórsdóttir doraosk@mbl.is

Sviðsljós

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

Það eru heilmikil verðmæti fólgin í skóglendi og þau eru alltaf að koma betur í ljós,“ segir Þorbergur Hjalti Jónsson skógfræðingur, sem hefur gert stóra rannsókn þar sem mismunandi aðferðir við verðmat voru bornar saman við markaðsverð breskra skóga í einkaeigu. „Hér á landi hefur skógur verið verðmetinn í skaðabótamálum en það mat sýnir ekki endilega hvert markaðsverð skógarins væri í frjálsum viðskiptum. Markaðsverð skógareignar getur þurft að meta vegna sölu eða kaupa á skógi, vegna eignamats í bókhaldi, skiptingar dánarbús, veðhæfni og trygginga svo nokkuð sé nefnt,“ segir hann.

Skógur er sjaldan seldur sér heldur sem hluti af jarðeign með margs konar öðrum gæðum svo sem húsum og hlunnindum. Jarðasölur eru fáar og jarðir með skógi mjög fáar. Því er ógerningur að meta þátt skógarins í heildarverði jarðeignar.

Þorbergur segir að á Bretlandi ólíkt Íslandi hafi skógar aðgreindir frá öðrum eignum gengið kaupum og sölum um langan aldur. Þar er verulegur hluti skóganna í einkaeign og góðar upplýsingar um þá, verð og kostnað. Við rannsóknina mat hann meðalverðmæti allra skóga í einkaeign á Bretlandi skipt eftir aldri og skógargerð með mismunandi aðferðum sem almennt tíðkast við verðmat á skógi, og aðferð sem hann setti fram og nefndi sjálfbærniaðferðina. Hann skoðaði hvaða aðferð kæmist næst raunverulegu markaðsvirði. Niðurstaðan var sú að sjálfbærniaðferðin stóðst prófið en aðrar aðferðir gáfu skekkt mat.

Verðgildi eykst með tímanum

Sjálfbærniaðferðin byggist á tímagildismati og er óháð því hvort skógurinn skili tekjum en tekur tillit til tekna sem skógurinn skilar eða gæti skilað. „Ég byggði á þekktri hugmynd um að tímagildismat mannsins væri mótað af því að viðhalda tegundinni kynslóð fram af kynslóð.“ Hann segir að aðferðin sé teoretísk en hafi staðist prófið á bresku gögnunum og leggur til að hún verði notuð til að verðmeta íslenska skóga.

„Eftir að landshlutaverkefnin komu fram varð til fjöldinn allur af skógareigendum og síðan hafa erlendir sjóðir og íslensk fyrirtæki byrjað að planta hér skógi út af kolefnisjöfnun,“ segir Þorbergur. Hann bætir við að eigendurnir þurfi að vita hvaða eign þeir hafi í höndunum.

Skógar upp á milljarða

Þegar hann er beðinn að skjóta á heildarverðmæti skóga í landinu segist hann einungis gera það með miklum fyrirvörum. Samkvæmt upplýsingum frá Arnóri Snorrasyni sem sér um landsúttektir á skógum landsins er nettó flatarmál ræktaðra skóga 40.500 hektarar og þá eru öll rjóður í trjáþekjuna frátalin. „Flatarmálsveginn meðalaldur skóganna er 23 ár. Með sjálfbærniaðferðinni má giska á að markaðsvirði allra ræktaðra skóga í landinu sé nú liðlega sex milljarðar króna. Þetta er verðmæti þess að eiga skóg án allra tekna af skóginum (yndisgildi) og verðmatið er án landsins sem trén standa á. Verðmætið tekur ekki mið af framtíðartekjum sem munu vaxa mjög bratt á næstu áratugum, ekki síst vegna verðmætis kolefnisbindingar sem er í hámarki eftir 20 ára aldur. Flatarmál náttúrulegra birkiskóga í landinu er liðlega 125.000 hektarar. Hér er ekki reynt að setja verðmiða á þá.“

James Goldsmith

Skóglendi
á spottprís

Lávarðurinn og fjárfestirinn breski James Goldsmith sá óvenjulegt fjárfestingartækifæri í Bandaríkjunum í efnahagslægð níunda áratugarins. Hann keypti í félagi við tvo aðra Breta skógarfyrirtækin Diamond International og Crown Zellerbach og skildi að skógana sjálfa frá timburvinnsluhlutanum og seldi síðan hlutana, hvorn í sínu lagi, með miklum gróða. Goldsmith þekkti frá sínu heimalandi hvers virði skógarnir eru, þar sem verðmat og markaður með skóga á sér langa sögu. Goldsmith áttaði sig á galla í bandarískum bókhaldsreglum sem stórlega vanmátu verðgildi skógarins og undanskildu verðmætisvöxt trjánna. Hann og viðskiptafélagar hans nýttu sér tækifærið en sýndu einnig öðrum að það er hætta á að stórtapa ef skógurinn er vanmetinn. Þetta varð til þess að bókhaldi á skógareignum var breytt og vöxturinn tekinn inn í virðismatið.

Höf.: Dóra Ósk Halldórsdóttir