Viðurkenning Rektorinn fyrrverandi segist alltaf hafa haft mikinn metnað til að standa sig vel.
Viðurkenning Rektorinn fyrrverandi segist alltaf hafa haft mikinn metnað til að standa sig vel. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Baksvið Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Guðfinna Sesselja Bjarnadóttir, fyrsti rektor Háskólans í Reykjavík, HR, fékk í gær þakkarviðurkenningu Félags kvenna í atvinnurekstri, FKA. Viðurkenningin er veitt fyrir eftirtektarvert ævistarf sem stjórnandi í atvinnulífinu.

Baksvið

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Guðfinna Sesselja Bjarnadóttir, fyrsti rektor Háskólans í Reykjavík, HR, fékk í gær þakkarviðurkenningu Félags kvenna í atvinnurekstri, FKA. Viðurkenningin er veitt fyrir eftirtektarvert ævistarf sem stjórnandi í atvinnulífinu.

Guðfinna segir að á þessum tímamótum hugsi hún ósjálfrátt til allra þeirra kvenna sem á undan komu, bæði þeirra sem fengið hafa viðurkenningar og allra hinna. „Við konur berum uppi svo mikinn hluta af öllu sem er að gerast í lífinu. Mér finnst ég vera fulltrúi minnar kynslóðar. Ég er auðmjúk og þakklát fyrir þessa viðurkenningu.“

Fyrir 55-75 ára

Guðfinna stofnaði nýverið, ásamt félögum sínum þeim Benedikt Olgeirssyni og Sigríði Olgeirsdóttur, fyrirtækið Magnavita eða „Magnað líf“. Nú leiðir hún nýtt nám við HR miðað að fólki á þriðja æviskeiðinu svokallaða, á aldrinum 55 til 75 ára. Markmið þess er að fjölga spennandi og heilbrigðum æviárum fólks með markvissu námi til að efla hreysti, lífsfyllingu, félagsleg tengsl og virkni eins og Guðfinna útskýrir. „Þegar maður er kominn á ákveðinn aldur er viðeigandi að skoða stóru myndina, það sem er liðið og það sem fram undan er. Þá er bæði krefjandi og áhugavert að huga að því hvernig hátta á lokakaflanum í lífinu. Margar spennandi spurningar blasa við,“ segir Guðfinna.

Hún segir þriðja æviskeiðið frábrugðið hinum. „Fyrri skeiðin tvö eru á dálítilli sjálfstýringu. Leikur og nám, sem hjá mér lauk með doktorsprófi. Fór svo á vinnumarkaðinn og hef lengst af verið með sjálfstæðan rekstur hér heima og erlendis. Svo varð ég einnig fyrsti rektor HR, alþingismaður og ráðgjafi. Í námi og starfi er maður á vegferð og skipuleggur lífið út frá því. Svo kemur sá tími að þú lýkur föstu starfi og getur átt ýmiss konar valkosti. Ég hef þá bjargföstu trú að við eigum að velja okkur viðfangsefni á eigin forsendum. Nú er ég til dæmis 65 ára og farin að hugsa um hvað tekur við.“

Geti farið í útrás

Um tildrög þess að Magnavita var stofnað segir hún að vinur hennar hafi haft samband fyrir einu og hálfu ári. Þau hafi rætt á almennum nótum um hvort eitthvað spennandi væri hægt að gera fyrir fólk á þriðja æviskeiðinu. „Menntamál eru ástríða mín í lífinu og þegar ég tók boltann byrjaði ég á að kanna hvað háskólar víða um heim væru að gera til að sinna þessum aldurshópi. Þrátt fyrir umtalsverða leit greip ég í tómt, þótt eflaust megi finna fordæmi. Þess vegna höfum við frá byrjun haft í huga að geta farið í útrás með verkefnið. Þörfin er greinilega fyrir hendi.“

Guðfinna segir að vel megi hugsa sér að fólk eigi 25-30 heilbrigð ár eftir af lífinu þegar 65 ára aldri er náð. „Fólk lifir lengur og lengur. Það er ekki heillandi tilhugsun að lifa löngu eftir að líf manns er farið að einkennast af líkamlegum og andlegum heilsubresti. Kveikjan að Magnavita er að hlúa að hreysti fólks eins og kostur er. Við stofnuðum félagið síðastliðið sumar og fórum strax að skoða tækifærin sem fólk á þessu aldursskeiði hefur til að gera lífið spennandi og heilbrigt á eigin forsendum.“

Guðfinna segir að Ragnhildur Helgadóttir núverandi rektor HR hafi tekið hugmyndinni um Magnavita-nám innan HR fagnandi enda vilji skólinn þjóna öllum aldurshópum. „Við fórum af stað nú í janúar í Opna háskólanum í HR með gríðarlega spennandi eins árs nám. Við vinnum út frá niðurstöðum rannsókna og fjórum meginstraumum í náminu. Einn lýtur að líkamlegu heilbrigði, annar að andlegu heilbrigði, sá þriðji að félagslegri heilsu og í fjórða lagi skoðum við fjárhagslegt heilbrigði. Allir þessir þættir tengjast. Námið er að ég tel afar hagnýtt og hver nemandi skoðar eigin valkosti og tækifæri á þriðja æviskeiðinu.“

Nýr hópur í september

Fyrsti Magnavita-hópurinn útskrifast í desember 2023. Nýr hópur mun svo hefja nám í september nk. Guðfinna segir að þriðja æviskeiðið sé mikið rannsakað þessi misserin víða um heim. „Góðu fréttirnar eru að þú getur hvenær sem er tekið ábyrgð á eigin lífi og jafnvel snúið við óheillaþróun. Vitað er að lífsstílssjúkdómar skerða lífsgæði og valda dauða margra. Áherslan í náminu er að sporna við þeim og fjölga þar með heilbrigðum æviárum. Námið er í senn samfélagslega ábyrgt, m.a. gagnvart útgjöldum í heilbrigðiskerfinu, og auðvitað ekki síður gagnvart einstaklingunum sjálfum og fjölskyldum þeirra.“

Guðfinna segist vona að eftir útskrift muni einhverjir nemendur stofna eigin fyrirtæki, eða skrifa bækur, svo dæmi séu tekin. „En fyrst og fremst snýst þetta um að við höfum spennandi viðfangsefni og lifum innihaldsríku lífi.“

Spurð um aðsókn segir Guðfinna að eftirspurn hafi verið umfram væntingar. „Við erum með 31 nemanda, sem er mjög heppilegur fjöldi. Flestir eru á aldrinum 60-70 ára.“

Hætt að þeysast um heiminn

Blaðamaður spyr Guðfinnu að lokum um hennar eigin ævi og hvort hún hafi verið í samræmi við væntingar. Auk þess að vera rektor starfaði Guðfinna m.a. sem ráðgjafi risafyrirtækja í Bandaríkjunum, félaga eins og General Electric. „Ég hafði alltaf mikinn metnað til að standa mig vel. Ég sá fyrir mér að verða öflugur ráðgjafi sem ynni víða um heim. Það gekk ágætlega en sem betur fer er ég hætt að þeysast um heiminn. Ég lenti óvart í HR á sínum tíma, en það reyndist eitt skemmtilegasta ævintýrið. Á þeim tíma var ég rétta manneskjan með rétta bakgrunninn og ég hef verið svo lánsöm það sem af er ævinni að hafa fengið ótrúlega mörg spennandi tækifæri að spreyta mig á.“