Miðstjórn ASÍ og stjórn Eflingar sendu frá sér ályktanir í gærkvöldi þar sem lýst var yfir rýrð á trausti til embætt­is rík­is­sátta­semj­ara. Ályktanirnar voru gefnar út eftir að ríkissáttasemjari lagði fram miðlun­ar­til­lögu í kjara­deilu Efl­ing­ar og Sam­taka at­vinnu­lífs­ins

Urður Egilsdóttir

urdur@mbl.is

Miðstjórn ASÍ og stjórn Eflingar sendu frá sér ályktanir í gærkvöldi þar sem lýst var yfir rýrð á trausti til embætt­is rík­is­sátta­semj­ara. Ályktanirnar voru gefnar út eftir að ríkissáttasemjari lagði fram miðlun­ar­til­lögu í kjara­deilu Efl­ing­ar og Sam­taka at­vinnu­lífs­ins. Ef miðlun­ar­til­lagan verður samþykkt í at­kvæðagreiðslu er hún bind­andi og nýr kjara­samn­ing­ur tek­ur gildi.

Aðal­steinn Leifs­son rík­is­sátta­semj­ari greindi frá þessu á blaðamanna­fundi í gærmorgun, en í samtali við mbl.is eftir að ályktanirnar voru gefnar út í gærkvöldi kvaðst hann ekki myndu tjá sig um vantraustið. ASÍ sagði í sinni ályktun að traust á embætti ríkissáttasemjara hefði skaðast með tillögunni og skoraði á embættið að draga hana til baka. Efling lýsti yfir vantrausti á ríkissáttasemjara, en félagið hafði ekki skilað inn félagatali til embættisins klukkan hálfellefu í gærkvöldi, eins og því bar að gera fyrir klukkan átta, eftir ítrekun. Þetta staðfesti Elísabet S. Ólafsdóttir skrifstofustjóri ríkissáttasemjara við Morgunblaðið. Því verður önnur ítrekun send félaginu.

Miðlunartillagan felur í sér þrennt. Í fyrsta lagi að þeir sem starfa á kjara­samn­ingn­um fái sömu launa­hækk­an­ir og samið var um við 18 fé­lög Starfs­greina­sam­bands­ins. Í öðru lagi að all­ir fái aft­ur­virk­ar hækk­an­ir frá 1. nóv­em­ber og í þriðja lagi að all­ir fé­lags­menn Efl­ing­ar greiði at­kvæði um hana.

Miðlunartillaga telst felld ef meira en helmingur greiddra atkvæða er á móti henni og ef mótatkvæði eru fleiri en fjórðungur atkvæða.