Undir Jökli Leifar skipsflakanna setja sterkan svip á Djúpalónssand sem sífellt fleiri ferðamenn heimsækja.
Undir Jökli Leifar skipsflakanna setja sterkan svip á Djúpalónssand sem sífellt fleiri ferðamenn heimsækja. — Morgunblaðið/Skapti
Nýtt þjónustuhús með salernum fyrir ferðafólk sem sækir heim Djúpalónssand og Dritvík á Snæfellsnesi verður reist við vegamót afleggjarans niður á sandinn. Þar sem þjónustuhúsið er við þjóðveginn mun það einnig nýtast öðrum gestum Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls og ferðamönnum sem aka fyrir Jökul

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Nýtt þjónustuhús með salernum fyrir ferðafólk sem sækir heim Djúpalónssand og Dritvík á Snæfellsnesi verður reist við vegamót afleggjarans niður á sandinn. Þar sem þjónustuhúsið er við þjóðveginn mun það einnig nýtast öðrum gestum Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls og ferðamönnum sem aka fyrir Jökul.

Snæfellsbær hefur auglýst tillögur að breytingum á aðal- og deiliskipulagi vegna áformanna. Fá bílastæði eru niðri við Djúpalónssand og erfitt getur verið fyrir stórar rútur að athafna sig.

Kristinn Jónasson bæjarstjóri segir að áformað hafi verið að færa þjónustuna upp fyrir vegamótin en það hafi verið talið geta haft slysahættu í för með sér. Niðurstaðan hafi orðið sú að skipuleggja bílastæði og aðstöðu fyrir þjónustuhús neðan við vegamót Dritvíkurvegar sem liggur niður að Djúpalónssandi en einnig verða bílastæði ofan við þjóðveginn.

Með því mun álagið á svæðinu við Djúpalónsand minnka og mögulegt verður að stækka bílastæðina þar.

Draumur um skutlþjónustu

Hugmyndin er að með tíð og tíma verði komið upp skutlþjónustu frá rútustæðunum við nýju þjónustumiðstöðina og niður á Djúpalónssand. Kristinn segir að draumurinn sé að hafa rafmagnsrútu í stöðugum ferðum á þessari leið á mestu annatímum, til dæmis á daginn í júní, júlí og ágúst.

Búið er að bora eftir vatni þar sem nýja þjónustumiðstöðin mun rísa og setja niður rotþrær og leggja rafmagn og ljósleiðara á svæðið.

Þjóðgarðurinn framkvæmir

Framkvæmdir verða á vegum Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls. Reiknar Kristinn með að strax og skipulagsbreytingar verði frágengnar verði ráðist í gerð bílastæða og bygging þjónustumiðstöðvar boðin út. Ef ekki tekst að koma upp aðstöðu fyrir næsta sumar mætti leigja salernishús til bráðabirgða.