Stúkan Elísabet Gunnarsdóttir í stúkunni á heimavellinum í Kristianstad, þar sem hún hefur náð afar góðum árangri undanfarin 15 ár.
Stúkan Elísabet Gunnarsdóttir í stúkunni á heimavellinum í Kristianstad, þar sem hún hefur náð afar góðum árangri undanfarin 15 ár. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristianstad Jóhann Ingi Hafþórsson johanningi@mbl.is „Þetta eru búin að vera fimmtán frábær ár,“ sagði Elísabet Gunnarsdóttir, þjálfari kvennaliðs Kristianstad í fótbolta, í samtali við Morgunblaðið er ofanritaður heimsótti hana á keppnisvöll félagsins í sænska bænum, sem ber sama nafn og félagið.

Kristianstad

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

„Þetta eru búin að vera fimmtán frábær ár,“ sagði Elísabet Gunnarsdóttir, þjálfari kvennaliðs Kristianstad í fótbolta, í samtali við Morgunblaðið er ofanritaður heimsótti hana á keppnisvöll félagsins í sænska bænum, sem ber sama nafn og félagið.

„Ég gæti lýst þessum árum eins og tröppunum hjá Akureyrarkirkju. Það eru mörg skref, það er langt upp og þér finnst þú einhvern veginn aldrei komast að kirkjunni. Ég hugsa að það sé besta lýsingin,“ sagði Elísabet.

Hún hefur undanfarin 14 tímabil staðið að mikilli uppbyggingu hjá félaginu, en Kristianstad var ekki á góðum stað þegar íslenski þjálfarinn tók við. Með mikilli uppbyggingu og þolinmæði hefur Elísabetu tekist að koma Kristianstad í fremstu röð og lék liðið t.a.m. í Meistaradeild Evrópu tvö tímabil í röð, tímabilin 2020/21 og 2021/22. Þá var liðið í titilbaráttu á síðustu leiktíð, en fataðist flugið undir lokin.

Þrjósk og ofurbjartsýn

„Við höfum tekið smáskref, nánast á hverju ári. Við höfum kannski þurft að taka einhver skref til baka á leiðinni, en smátt og smátt erum við að nálgast okkar markmið. Ég var þrjósk og ofurbjartsýn þegar ég flutti hingað. Ég vildi gera topplið úr Kristianstad og þú sérð það þegar þú kemur hingað að þetta er bara pínulítill bær. Það búa ekki margir hérna, en það ríkir sterk íþróttahefð og -áhugi en að búa til topplið á sænskan mælikvarða var kannski frekar klikkað markmið þegar þú horfir til baka,“ útskýrði Elísabet og hélt áfram.

Fengið að gera mistök

„Við höfum tekið lítil skref í átt að því og komist nær og nær því að vera topplið. Við erum það í dag. Ég sé alls ekki eftir því að hafa verið hérna svona lengi. Mér hefur tekist að móta mína sýn á fótbolta, hvernig ég vil hafa liðið mitt og hvernig ég vil að það spili. Ég hef fengið tækifærið til að gera fullt af mistökum og prófa alls konar nýja hluti, án þess að það sé einhver að skipta sér af því.

Ég held að það hafi verið gott val að gera það hérna, í staðinn fyrir að vera að flakka á milli liða og kannski enda í einhverju stórliði, þar sem maður hefði getað verið tekinn af lífi við að gera þær tilraunir og mistök sem ég hef fengið að gera hérna,“ sagði hún.

Hannaði æfingasvæðið

Elísabet hefur ákveðin völd hjá félaginu og fékk hún að hanna nýtt og glæsilegt æfingasvæði.

„Ég hef klárlega góða stjórn á mörgu hérna. Þú getur ímyndað þér hvernig þetta er eftir fimmtán ár. Alex Ferguson stjórnaði miklu hjá United eftir fimmtán ár. Þetta er allt frá því að eiga góð samskipti við þá sem sjá um völlinn og eiga gott samband við þá sem deila æfingatímanum á vellinum. Þetta snýst mikið um að eiga góð sambönd og gott tengslanet.

Það hefur skipt mig ótrúlega miklu máli, bæði þegar ég var hjá Val og síðan hérna, að byggja gott tengslanet og búa til fjölskyldustemningu,“ byrjaði Elísabet.

„Ég lít ekki á sjálfa mig sem einhvern stjórnanda yfir þessu öllu. Við erum að gera hlutina í sameiningu. Það þurfa samt allir að hafa einhvern sem leiðir og ég lendi í því sjálfkrafa, því ég er búin að vera hérna svo lengi og þekki allt. Því hef ég fengið að hafa áhrif á það hvernig við höfum byggt upp þessa aðstöðu. Við vildum hafa hana eins góða og hægt er og við erum eina liðið sem er á hæsta stigi í fótbolta í bænum. Ég fékk því meira að segja að taka fyrstu skóflustunguna á þessum velli,“ sagði hún.

Morgunblaðið ræddi snögglega við Ulf Berglund, sem réð Elísabetu til starfa á sínum tíma, og spurði út í samstarfið við þjálfarann. Hann hrósaði íslenska þjálfaranum í hástert, en viðurkenndi að stundum yrðu árekstrar, þar sem hún er gríðarlega metnaðarfull og ákveðin. Elísabet viðurkenndi að árekstrarnir yrðu til.

Verða alltaf árekstrar

„Það verða alltaf árekstrar. Þeir árekstrar hafa yfirleitt eitthvað með metnað og trú að gera. Þegar fólk gefst upp og fer að tala niður markmið og trú, þá er erfitt að vinna með því fólki,“ sagði Elísabet, sem hefur búið til mikla fjölskyldustemningu hjá félaginu.

„Síðustu tíu árin erum við nánast búin að vera sama fólk hérna. Ef maður lítur á heildarmynd félagsins. Þetta er orðinn stór hópur fólks sem er búið að vera hérna lengi og það er það sem ég stend fyrir, það er samheldni. Ég var að vinna með sama fólki lengi hjá Val og það er það sama hérna. Í rauninni var ég jafnlengi hjá Val, því ég var búin að vera með margar stelpur sem ég var með í meistaraflokki þar í 10-12 ár í yngri flokkum. Þetta drífur mig áfram, að vinna að langtímamarkmiðum með sama fólki, hafa fyrir því að ná árangri og fagna svo saman.“

Hin 46 ára gamla Elísabet er ánægð með þann stað sem Kristianstad er á í dag, sérstaklega þegar liðið er að berjast við félög úr mun stærri borgum, sem eru oftar en ekki með meira fjármagn.

„Við erum komin mjög langt hvað varðar fótboltann. Okkur hefur tekist að ná inn leikmönnum síðustu þrjú árin, sem hafa gefið okkur möguleika á að spila gæðameiri fótbolta og geta byggt meira á nútímafótbolta. Fótboltinn hefur breyst rosalega mikið á undanförnum árum. Ef við berum saman fótboltann núna og fótboltann fyrir fimmtán árum, þá er þetta eins og tvær mismunandi íþróttagreinar,“ sagði hún. Elísabet á sínar fyrirmyndir í þjálfuninni og þær eru ekki af verri endanum.

Endalaus vinna

„Það eru ákveðnir þjálfarar sem veita innblástur, eins og Guardiola, Klopp og Nagelsmann. Svo Cruyff þar á undan. Þessir gæjar hafa ótrúlega mikil áhrif á hvernig fótboltinn er spilaður í dag. Það sem hefur líka breyst er að núna þarf maður endalaust að vera að vinna. Maður er endalaust að greina, skoða og prófa nýja hluti. Mótherjinn er svo kominn með svo mikið af verkfærum til að leikgreina þig og ef þú ætlar að halda áfram með sama hlut í gegnum heilan leik eða tímabil, ertu lesinn. Þú verður að vera með vopn til baka. Mér finnst ótrúlega mikið búið að breytast,“ sagði hún.

Kristianstad var í mikilli toppbaráttu á síðustu leiktíð, en vann aðeins einn leik af síðustu fimm og missti þar með ekki aðeins af titlinum, heldur einnig af sæti í Meistaradeildinni.

Misstu af lestinni

„Liðið mitt núna er búið að ná að halda þorra leikmanna lengi og fá inn frábæra nýja leikmenn síðustu árin. Við vorum í fyrsta skipti í alvöru í séns að vinna deildina í fyrra, en við tókum of mikla sénsa. Við gerðum mistök, sem ég ber ábyrgð á. Þegar við eigum nokkrar umferðir eftir lendum við í erfiðum meiðslum og náum ekki að stýra álaginu eins og við vildum.

Við missum í rauninni af lestinni á toppnum. Við tókum áhættu á leiðinni, duttum alla leið niður í fjórða sæti og misstum af sætinu í Meistaradeildinni. Við lærðum mikið af þessu og við erum enn sterkari fyrir næsta tímabil. Við munum halda áfram að taka áhættu í okkar leik og að spila fótbolta á háum staðli á Evrópumælikvarða,“ sagði Elísabet.

Þrír íslenskir leikmenn leika með Kristianstad á komandi tímabili. Emelía Óskarsdóttir er ein efnilegasta knattspyrnukona landsins, en hún verður 17 ára í mars. Emelía lék sína fyrstu leiki með sænska liðinu á síðustu leiktíð, 16 ára gömul.

35 mörk í 40 leikjum

„Emelía er einstakur talent. Hún hefur hæfileika sem eru ótrúlega sjaldséðir. Hún er óhrædd með boltann og getur tekið menn á. Hún er að mörgu leyti lík Sveindísi, því hún æðir áfram á miklum hraða með boltann. Hún getur tekið menn á á ótrúlegan hátt miðað við aldur og getur skapað marktækifæri, nánast upp úr engu, endurtekið í leikjum.

Þegar hún spilar með jafnöldrum sínum er nánast öruggt að hún skori og búi til mörk. Hún er með ótrúlega tölfræði þegar kemur að mörkum og stoðsendingum. Hún spilaði í kringum 40 leiki með sínum jafnöldrum í fyrra og hún skoraði í 35 af þessum 40 leikjum. Sem framherji er það einstakt.

Það er líka einstakt að vera svona ungur leikmaður í meistaraflokki og vera í A-liði sem er að spila um að vinna eitthvað. Hún þurfti að vinna mikið með taktíska hlutann og ég sé mjög miklar framfarir. Hún er enn ung og þarf tíma. Ég veit að hún mun nýta þann tíma mjög vel. Það er bara tímaspursmál hvenær hún verður lykilmaður í okkar liði,“ lýsti Elísabet.

Með einstaka hæfileika

A-landsliðskonan Amanda Andradóttir kom til félagsins á síðasta ári, en Amanda hefur vakið athygli fyrir framgöngu sína með landsliðinu, þrátt fyrir að vera aðeins 19 ára.

„Amanda er líka einstök. Hún er ótrúlega góð á boltanum og sérstaklega útsjónarsöm. Hún er með einstaka hæfileika. Hún hefur líka þurft að vinna með taktíska hlutann og að geta séð hvað er að gerast fyrir framan og aftan sig. Við höfum verið að spila henni á miðsvæðinu og þegar þú ert að spila þar, þarftu að sjá allt sem er að gerast í kringum þig. Við höfum þurft að vinna í því. Hún fékk mikinn spiltíma á síðustu leiktíð, sérstaklega þegar við lentum í meiðslum, og það var mikilvægt fyrir hana. Hún náði sér í reynslu og bætti sig mikið. Hún er án nokkurs vafa að fara að vera lykilmaður hjá landsliðinu og hér sömuleiðis,“ sagði Elísabet um Amöndu.

Ein sú besta í deildinni

Hlín Eiríksdóttir gekk svo í raðir Kristianstad frá Piteå, sem leikur í sömu deild, eftir síðustu leiktíð. Landsliðskonan lék mjög vel með Piteå og Elísabet er spennt að vinna með sóknarkonunni.

„Hún er búin að taka góð skref á sínum ferli. Hún var lykilmaður hjá Val og fór síðan til Piteå þar sem hún átti erfitt uppdráttar, en verður síðan lykilmaður þar og í raun einn af bestu framherjum deildarinnar. Þetta var ekki eitthvað óvart í nokkrum leikjum hjá henni, heldur var hún mjög stöðug í heilt tímabil. Mér finnst hún hafa bætt sig mikið á þessum tveimur árum hjá Piteå.

Við misstum tvo framherja eftir síðustu leiktíð og ég ákvað að fá bara einn í staðinn, sú ákvörðun var m.a. vegna þess að Emilía hefur komið inn í þetta hjá okkur. Hlín er búin að sanna sig og hún er með eiginleika sem passa ótrúlega vel á móti þeim framherjum sem við erum með í dag. Ég er ekki í vafa um að hún standi sig. Hlín getur líka spilað fleiri stöður og m.a. verið vængbakvörður,“ sagði Elísabet.

Svekkjandi og sorglegt

Elísabet fylgist vel með íslenska landsliðinu og hún viðurkennir að það hafi verið erfitt að fylgjast með framgangi liðsins á síðasta ári. Ísland gerði 1:1-jafntefli í öllum leikjum sínum á lokamóti EM og tapaði svo tveimur úrslitaleikjum við Portúgal og Holland með afar svekkjandi hætti, þegar sæti á lokamóti HM var undir.

„Það var ofboðslega svekkjandi og sorglegt að horfa upp á þetta. Ég held að ég tali fyrir alla Íslendinga þegar ég segi það. Það sem er mest svekkjandi er að íslenska liðið er mjög sterkt. Leikmennirnir eru nánast allir í toppliðum í Evrópu og við erum með möguleika til að byggja upp frábært landslið. Þess vegna hefði það verið mikilvægt skref að fara á HM. Það var leiðinlegt að missa af því. Ég hef engar áhyggjur af öðru en að Ísland verði á HM eftir fjögur ár. Leikmennirnir eru það góðir, en sóknaruppbyggingin þarf að vera betri,“ útskýrði Elísabet og hélt áfram:

Á eftir í sókninni

„Í vörninni er þetta mjög flott og vel skipulagt. Allir þekkja sín hlutverk, berjast og vinna saman eins og við Íslendingar gerum. Þetta lið mun ekki fá á sig mikið af mörkum. Föst leikatriði eru líka frábær hjá íslenska liðinu, bæði í vörn og sókn, og við fáum alltaf mörk þaðan. Annars staðar í sókninni erum við svolítið á eftir. Það þarf að geta brotið upp leikinn og vera með fleiri vopn í búrinu. Það þarf að nota miðsvæðið betur en liðið gerði í öllum leikjum síðasta árs. Það verður að skapa meira og geta búið til fleiri hvíldaraugnablik, en ekki bara sparka boltanum fram,“ sagði hún.

Lítið gekk í sóknarleik íslenska liðsins þegar mest var undir gegn Hollandi og Portúgal. Elísabet er ekki viss hvort leikskipulagið hafi ekki gengið upp, eða hvort það hafi hreinlega ekki verið nógu skýrt.

Vantar skýrara plan?

„Þið fjölmiðlamenn verðið að skoða þetta. Annaðhvort þora leikmenn ekki að framkvæma það sem er lagt upp með eða það vantar skýrara plan fyrir leikmenn, hvernig þeir eiga að þora að spila sig í gegnum andstæðinginn. Þetta snýst allt um að brjóta niður varnarlínu andstæðinganna og hvernig þú ætlar að fara að því. Á EM var Ísland það lið sem spilaði flestum löngum boltum. Mögulega er það uppleggið í staðinn fyrir að fara aðrar leiðir,“ sagði Elísabet.

Landsliðsfyrirliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir var nýbúin að gefa það út að hún væri hætt að leika fyrir íslenska landsliðið þegar rætt var við Elísabetu. Hún hrósaði miðjukonunni, sem hefur náð lengst allra íslenskra knattspyrnukvenna frá upphafi, í hástert.

Gríðarlegur missir

„Þetta er gríðarlegur missir fyrir landsliðið, sem er auðvitað erfitt. Ég hefði viljað sjá hana taka tvö ár í viðbót, en það er erfitt að púsla saman lífinu þegar það er komið barn. Maður sér að hún hefur verið að berjast við meiðsli hjá Juventus.

Annars er hún sá leikmaður sem hefur gefið íslenskum fótbolta hve mest. Hún hefur verið svakaleg fyrirmynd fyrir yngri stelpur. Nánast allar ungu stelpurnar sem hafa komið til mín voru með Söru Björk uppi á vegg hjá sér. Hún er brautryðjandinn og sú sem hefur verið fyrst að komast í þessu stærstu lið í heiminum.

Hún hefur spilað með sænsku, þýsku, frönsku og ítölsku meisturunum. Það segir allt sem segja þarf um Söru Björk og hennar feril. Við þurfum örugglega að bíða lengi þar til við sjáum leikmann fara þetta flotta leið. Við eigum samt leikmenn á leiðinni sem geta fetað í fótspor hennar. Það er frábært fyrir ungar stelpur og konur að eiga Söru Björk áfram sem fyrirmynd, sem leikmanninn sem náði þessum árangri.“

Styttist í endalokin

Eftir 15 ár í uppbyggingu og baráttu við stærri félög viðurkennir Elísabet að hún eigi ekki mörg ár eftir hjá Kristianstad. Hún er opin fyrir öðrum tækifærum, hvort sem það er með lands- eða félagsliði.

„Ég get sagt að það styttist í endalokin að þessu sinni. Ég er búin að vera hérna það lengi og búin að ná nánast öllum þeim markmiðum sem við settum okkur. Einhvern tímann er tími fyrir næsta þjálfara að taka við hér. Fótboltinn er að þróast mikið og hratt í heiminum og ég vil ekki missa af því tækifæri að prófa eitthvað nýtt.

Hvort það verður félagslið eða landslið verður að koma í ljós. Ég held því opnu. Þetta snýst um að velja rétta tækifærið þegar það kemur. Næst vil ég ekki eitthvert uppbyggingarverkefni. Ég er búin að vera í því í langan tíma. Ég vil komast í verkefni sem er stórt og metnaðarfullt í stærri deild og stærra landi,“ sagði Elísabet Gunnarsdóttir.