Glettni Kirkjan sé hluti af daglegu lífi, segir María Rut hér í viðtalinu.
Glettni Kirkjan sé hluti af daglegu lífi, segir María Rut hér í viðtalinu. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
„Starfið hér í kirkjunni er öflugt og fjölbreytt og á þann hátt komum við til móts við fólkið í söfnuðinum og íbúa hér í hverfinu. Sjálf hef ég alltaf haft mikla ánægju af öllum mannlegum samskiptum. Að því leyti finn ég mig vel í prestsstarfinu og því að geta liðsinnt fólki í ólíkum aðstæðum,“ segir sr. María Rut Baldursdóttir. Hún er nýr prestur við Guðríðarkirkju í Grafarholti í Reykjavík og verður sett í embætti við guðsþjónustu þar næstkomandi sunnudag.

„Starfið hér í kirkjunni er öflugt og fjölbreytt og á þann hátt komum við til móts við fólkið í söfnuðinum og íbúa hér í hverfinu. Sjálf hef ég alltaf haft mikla ánægju af öllum mannlegum samskiptum. Að því leyti finn ég mig vel í prestsstarfinu og því að geta liðsinnt fólki í ólíkum aðstæðum,“ segir sr. María Rut Baldursdóttir. Hún er nýr prestur við Guðríðarkirkju í Grafarholti í Reykjavík og verður sett í embætti við guðsþjónustu þar næstkomandi sunnudag.

Innsetningu hefur með höndum sr. Bryndís Malla Elídóttir, prófastur í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra, sem við sömu athöfn setur sr. Leif Ragnar Jónsson í embætti. Hann hefur starfað við kirkjuna nokkur undanfarin ár en verður nú sóknarprestur og mun sem slíkur hafa með höndum forystu í safnaðarstarfinu.

Viðhorf breytast

Grafarholtssókn spannar þrjú svæði, þ.e. Grafarholt, Úlfarsárdal og Reynisvatnsás. Fyrstnefnda byggðin nálgast að vera fullmótuð, samfélag sem hefur verið í vexti og þróun á síðustu 20 árum. Hin svæðin tvö eru enn í mótun. Alls búa um 8.269 manns í þessum hverfum og þar af eru 5.229 skráð í þjóðkirkjuna eða um 63,2%. Sú hlutfallstala er aðeins ofan við landsmeðaltal, hvað sem því ræður. Halda verður þó til haga að fólki af erlendum uppruna sem í hverfinu býr og á rætur sínar í öðrum trúarbrögðum en þeim sem íslenska þjóðkirkjan stendur fyrir fer fjölgandi.

„Á margan hátt hefur kirkjan verið í mótbyr á undanförnum árum. Nú kann þetta að vera að breytast. Hin veraldlegu gildi samfélagsins hafa lengi verið áberandi en svo kemur alltaf sá tími að ríkjandi viðhorf breytast og fara í hina áttina. Að minnsta kosti erum við hér í Guðríðarkirkju ánægð með þátttökuna í starfinu hér, þá til dæmis að fermingarbörnum er að fjölga,“ segir María Rut sem er menntuð í tónlist. Grípur því stundum í hljóðfæri við athafnir og syngur, sem mælist vel fyrir.

Í Guðríðarkirkju eru messur hvern sunnudag og ýmsar aðrar athafnir. Æskulýðsstarf er fjölsótt og barnakórinn og annað tónlistarlíf blómstrar. Þá er í kirkjunni félagsstarf eldri borgara á miðvikudögum. Þá er jafnan byrjað með helgistund en síðan koma fyrirlestrar um fróðleg efni eftir máltíð sem Lovísa Guðmundsdóttir kirkjuvörður reiðir fram. Þetta er þýðingarmikið, segir María Rut, t.d. í því skyni að fá fólk til þátttöku og vinna gegn félagslegri einangrun.

Yngsta hverfi Reykjavíkur

„Margir eru í einhverju verkefni þar sem kirkjan hefur mikilvægu hlutverki að gegna. Sjálf kom ég hingað til starfa um áramótin og núna langar mig til þess að koma foreldramorgnum inn í dagskrána hér; þar sem foreldrar í orlofi með nýfædd börn sín geta hist og átt saman skemmtilega stund. Ýmislegt fleira svona er mikilvægt að bjóða, þannig að kirkjan og starf hennar sé og verði hluti af daglegu lífi fólksins í hverfinu,“ segir María Rut sem að loknu embættisprófi í guðfræði vígðist til prests í byrjun árs 2017. Fór þá til starfa á Hornafirði, en tveir prestar þar sinna þjónustu á Höfn og í nærsveitum við Vatnajökul. Á síðasta ári héldu þau María Rut og Eyþór Grétar Grétarsson, eiginmaður hennar, með þremur sonum í bæinn og hjá presti taka nú við störf og samfélag í yngsta hverfi Reykjavíkur. sbs@mbl.is