Í Múlabæ Auður Ellertsdóttir til vinstri og Þorbjörg Halldórsdóttir kunna lagið á prjónunum.
Í Múlabæ Auður Ellertsdóttir til vinstri og Þorbjörg Halldórsdóttir kunna lagið á prjónunum. — Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Fyrir um sjö árum komst Auður Ellertsdóttir í dagvist í Múlabæ í Síðumúla í Reykjavík og þar hefur hún fallið eins og flís við rass. „Eftir að ég missti manninn minn 2016 vildi ég ekki bara horfa í gaupnir mér, sótti í félagsskap og fékk hann í Múlabæ,“ segir hún. „Frá fyrsta degi hefur Múlabær átt hug minn og hjarta.“

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Fyrir um sjö árum komst Auður Ellertsdóttir í dagvist í Múlabæ í Síðumúla í Reykjavík og þar hefur hún fallið eins og flís við rass. „Eftir að ég missti manninn minn 2016 vildi ég ekki bara horfa í gaupnir mér, sótti í félagsskap og fékk hann í Múlabæ,“ segir hún. „Frá fyrsta degi hefur Múlabær átt hug minn og hjarta.“

Auður og Guðjón Guðjónsson kynntust hjá Sláturfélagi Suðurlands og þar unnu þau alla starfsævina. „Sláturfélag Suðurlands átti mig eiginlega alla ævi,“ segir hún. Þar hafi hún byrjað að vinna í verslun sem sumarstelpa 16 ára gömul. „Það þótti svakalega gott að fá vinnu með skólanum í þá daga og svo giftist ég Guðjóni verslunarstjóra, sem tilheyrði Sláturfélaginu, og við unnum af og til saman í áratugi.“

Hjónin eignuðust tvö börn. Þau bjuggu í Reykjavík og áttu sumarbústað á Þingvöllum. „Við vorum oft þar og svo oft að börnin spurðu: „Er ekkert til á landinu nema þessir Þingvellir? Þurfum við að fara austur núna?“ En svona var lífið í þá daga.“

Múlabær heldur upp á 40 ára starfsafmæli í dag. 15 starfsmenn sinna þar um 60 manns hvern virkan dag og samtals um 130 manns á viku, en sumir koma á hverjum degi og aðrir sjaldnar. Akstursþjónusta stendur þeim til boða sem það vilja og nýtir Auður sér hana, er sótt heim til sín að morgni og ekið til baka í dagslok. „Það getur ekki verið betra.“

Hjartahlýja

Auður á vart til orð yfir móttökunum, sem hún fékk í Múlabæ, þegar hún kom þangað fyrst og hefur notið alla tíð síðan. „Viðmót allra er með ólíkindum. Hver manneskja er, eins og sagt er, yndislegur maður í hverju rúmi. Manni er alltaf hjálpað, hvort sem maður réttir út hægri hönd eða vinstri. Þannig var það og þannig er það enn.“ Hún þakkar meðal annars fyrir stólaleikfimina, heita bakstra og ýmsa snyrtingu. „Ég skrái mig í hárgreiðslu þegar ég þarf og allt gengur að óskum. Hugsaðu þér lúxusinn! Að ég tali ekki um viðmótið og hjartahlýjuna sem fylgir. Það er lykilatriði að finna þessa umhyggju og hlýju.“

Starfsemin tekur mið af áhugamálum fólksins með það í huga að þörfum allra sé sinnt. „Handavinnan er mér kærust ásamt félagsskapnum við borðið mitt og borðið okkar,“ segir Auður. „Þetta er mikill og góður vinahópur og þægilegheit á alla kanta.“ Hún hælir líka matnum. „Það hefur ekki verið kvartað yfir eldamennsku minni í 70 ár en ég held að ég geri ekki betur en gert er hér.“ Daginn fyrir bóndadag hafi hún verið spurð hvort hún ætlaði að halda upp á þorrann. „Ég hélt það nú og svaraði að bragði að ég væri búin að kaupa svið. En hákarlinn má vera áfram í krukku.“