Dagmál Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra er gestur Dagmála sem sýnd eru á mbl.is í dag.
Dagmál Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra er gestur Dagmála sem sýnd eru á mbl.is í dag. — Morgunblaðið/Kristófer
Að öllum líkindum þarf að hækka eftirlaunaaldur á Íslandi. Það yrði liður í því að auka hagsæld hér á landi og um leið fæli það í sér kerfisbreytingu sem væri til þess fallin að ryðja hindrunum úr vegi á vinnumarkaði

Gísli Freyr Valdórsson

gislifreyr@mbl.is

Að öllum líkindum þarf að hækka eftirlaunaaldur á Íslandi. Það yrði liður í því að auka hagsæld hér á landi og um leið fæli það í sér kerfisbreytingu sem væri til þess fallin að ryðja hindrunum úr vegi á vinnumarkaði.

Þetta segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra í viðtali við Dagmál sem birt er á mbl.is í dag. Hún segir mikla þátttöku einstaklinga á vinnumarkaði, þá sérstaklega kvenna, hafa lagt grunn að þeirri hagsæld sem við búum við í dag en til að sporna við fækkun á vinnumarkaði á komandi árum þurfi að gefa einstaklingum kost á því að starfa lengur.

„Við þurfum að vera opið hagkerfi og þegar það er skortur á vinnuafli þá tel ég að við eigum að vera opin fyrir því að fólk geti komið hér og starfað, annaðhvort tímabundið eða ef fólk vill setjast hér að,“ segir Lilja Dögg aðspurð um frekari breytingar sem ráðast þarf í. Meðal þess sem rætt er í þættinum er staða mála í Japan en þar ríkir nú krísuástand í efnahagsmálum sökum skorts á vinnuafli.

Í þættinum er rætt um stöðu efnahagsmála nú og framtíðarhorfur í ljósi breyttrar heimsskipanar í kjölfar heimsfaraldurs og átakanna í Úkraínu, framtíð á fjármálamörkuðum, samkeppnishæfni Íslands og margt fleira.

Þá er einnig rætt um framtíð í orkuskiptum í ljósi þess hversu hægt hefur gengið að auka við orkuframleiðslu hér á á land. „Við höfum tapað tíma,“ segir Lilja Dögg. Þá veltir hún því einnig upp hvort lífeyrissjóðir ættu að koma í auknum mæli að fjárfestingum í innviðaverkefnum hér á landi.

Höf.: Gísli Freyr Valdórsson