Jóhannes Erlendsson fæddist 23. mars 1946 á Selfossi. Hann lést á Kirkjuhvoli, Hvolsvelli 17. janúar 2023.

Foreldrar hans voru Erlendur Sigurjónsson, f. 12.9. 1911, d. 17.4. 1988, og Helga Gísladóttir, f. 16.9. 1919, d. 25.2. 1987.

Bræður Jóhannesar eru Gísli, f. 30.12. 1940, og Rögnvaldur, f. 17.8. 1952, d. 16.8. 1957. Hálfsystir Jóhannesar samfeðra var Erla, f. 11.6. 1934, d. 23.9. 2015.

Jóhannes giftist fyrri eiginkonu sinni Auðbjörgu Einarsdóttur, f. 4.5. 1948, d. 9.7. 2008, árið 1967 en þau skildu 1988. Börn þeirra eru: 1) Linda Sig, f. 12.4. 1968. Eiginmaður hennar er Björgvin R. Emilsson. Þau eiga soninn Daníel, f. 1987, en fyrir átti Björgvin soninn Guðmund Ragnar, f. 1983. 2) Rögnvaldur, f. 16.12. 1970. Eiginkona hans er S. Eydís Garðarsdóttir. Þeirra dætur eru Aníta, f. 1992, og Rakel Helga, f. 2001. Aníta er í sambúð með Inga Rafni Ingibergssyni og eiga þau synina Birki Rafn, f. 2014, og Elvar Inga, f. 2017. 3) Eva, f. 10.2. 1978. Eiginmaður hennar er Sveinn Gíslason. Dætur þeirra eru Bergdís, f. 2006, og Andrea, f. 2009.

Jóhannes giftist seinni eiginkonu sinni Ragnheiði J. Eggertsdóttur, f. 15.8. 1956, d. 4.1. 2016, árið 1993. Ragnheiður átti fyrir synina: 1) Eggert Má Stefánsson, f. 9.2. 1980. Eiginkona hans er Linda Dögg Hólm. Dóttir þeirra er Ragnhildur Freyja, f. 2004. Fyrir átti Linda Dögg Óskar, f. 1996, og Anítu, f. 1998. 2) Eyjólf Unnarsson, f. 15.7. 1987, sambýliskona hans er Heiðrún Ingudóttir.

Útför fer fram í Selfosskirkju í dag, 27. janúar 2023, klukkan 13.

Í dag kveðjum við elsku pabba okkar. Hann pabbi okkar var einstakur að mörgu leyti, einstaklega glaðlyndur húmoristi sem elskaði að segja sögur og gera grín. Við munum ekki eftir því að hafa séð hann í vondu skapi. Pabbi var mikill bílaáhugamaður og átti þá marga í gegnum árin. Hann skipti svo oft um bíla að við systkinin vissum í raun aldrei hvaða bíll var fjölskyldubíllinn hverju sinni. Pabbi elskaði að vera á rúntinum og fannst ekkert tiltökumál að keyra landshorna á milli til að kíkja í kaffisopa. Hann átti það til að mæta í kaffisopa til okkar á Selfoss eða í Reykjavík frá Hvammstanga á sunnudagsmorgnum og bruna svo bara norður aftur.

Eftir að pabbi flutti norður með Röggu sinni opnaði hann bílasölu á Hvammstanga. Þar naut hann sín vel enda var pabbi mjög félagslyndur og elskaði að vera innan um fólk. Bílasalan hans var eins og félagsmiðstöð þar sem menn hittust yfir kaffibolla og spjölluðu um daginn og veginn. Hann tók virkan þátt í alls konar félagsstarfi fyrir norðan, gerðist frímúrari og var í stúkunni Mælifelli þar sem hann eignaðist trygga vini sem hafa reynst honum og fjölskyldu hans vel.

Pabbi var einstaklega skemmtilegur í tilsvörum en eitt sinn var hann að mála húsið sitt fyrir norðan og var hátt uppi í stiga þegar hann féll niður og braut á sér öxlina. Þegar sjúkraliðar komu til að hjálpa honum þá sagðist hann hafa gert þau slæmu mistök að gleyma að halda sér í pensilinn. Þannig var pabbi, alltaf tilbúinn að snúa öllu upp í grín og sjá það jákvæða.

Jákvæðnin og hans einstaka geðslag komu honum í gegnum lífsins þrautir. Áföll á borð við fráfall Röggu og veikindi sín tókst hann á við af æðruleysi. Brosið hans og hláturinn komu honum langt.

Við kveðjum þig nú elsku pabbi og minning þín mun lifa með okkur.

Linda, Rögnvaldur og Eva.

Elsku afi okkar.

Afi var fyrst og fremst algjör gleðisprengja. Hann sýndi okkur afastelpunum alltaf áhuga og hringdi í okkur reglulega til að spyrja hvernig gengi í skólanum og í íþróttum. Þótt afi hafi misst málið vegna veikinda þá hringdi hann áfram og reyndi að fylgjast með eins og hann gat. Alltaf þegar við fórum til afa í heimsókn var hann með eitthvað handa okkur, aðallega sleikjó. Það var alltaf létt yfir afa og hann elskaði að segja okkur skemmtilegar sögur og var alltaf að segja okkur brandara. Afi var alveg frábær og það er engin spurning um að hann var einn besti afi sem hægt er að hugsa sér að eiga. Við elskum hann endalaust og munum alltaf sakna hans.

Bergdís og Andrea.

Elsku bróðir. Tilfinningin að upplifa bæði sorg og söknuð en á sama tíma létti fyrir þína hönd, létti því að núna ertu vonandi kominn á betri stað og laus við langvarandi veikindi sem gerðu þér lífið þungt.

Jói bróðir var einstaklega glaðvær og brosmildur og kannski ekki skrýtið að hann hafi verið farsæll bílasali í áratugi og margir sem eiga góðar minningar um ánægjuleg samskipti og viðskipti í gegnum tíðina. Jói var með Bíla- og búvélasöluna á Hvammstanga til fjölda ára og kynntist hann þar mörgu góðu fólki sem svo sannarlega stóð við bakið á honum eftir að hann missti Röggu sína og veiktist sjálfur og fyrir það er ég þakklátur.

Eftir að Jói veiktist og var hættur að geta tjáð sig var samt alltaf stutt í brosið hjá honum sem náði til augnanna og er ég sannfærður um að jákvæðni hans og lífsgleði hafi gert honum erfið veikindi bærilegri.

Við Jóna kveðjum bróður og mág með mikilli virðingu og þakklæti fyrir samfylgdina sem hefur verið okkur dýrmæt og góð.

Gísli og Jóna.

Það er stutt stórra högga á milli á vinalistanum hjá okkur hjónum. Aðeins fjórar vikur síðan Guðbjörg æskuvinkona mín lést og nú 17. janúar sl. lést æskufélagi Árna og vinur okkar alla tíð, Jóhannes Erlendsson eða Jói Linda eins og hann var alltaf kallaður.

Hann var einstakur vinur og eigum við margar ógleymanlegar samverustundir með honum og hans fólki, sem geymdar eru í minningasjóði.

Jói var mjög spaugsamur og skemmtilegur, hafði sérstakt lag á að draga að sér fólk, var því vinmargur og vinsæll og endalaust duglegur að rækta þann vinskap. Jói hafði glímt við erfið veikindi um langt árabil. Fengið endurtekin áföll sem tóku frá honum mátt og mál, en alltaf reis okkar maður upp og lét ekki bugast. Það var aðdáunarvert að fylgjast með þeim ótrúlega lífsvilja.

Við erum afar þakklát fyrir að hafa farið þann 4. janúar sl. á Kirkjuhvol og heimsótt hann glaðan og kátan, gátum fært honum fréttir af fjölskyldu okkar og þeir vinirnir slegið á létta strengi og hlegið að bernskubrekum gamalla daga. Það líkaði okkar manni vel. Hann fylgdi okkur til dyra á sínum (spítt)hjólastól, við kvöddum og eftir sat hann með brosið og glettnina í augunum. Þannig er gott að minnast okkar kæra vinar Jóa Linda.

Dökkur skuggi á daginn fellur,

dimmir yfir landsbyggðina.

Köldum hljómi klukkan gellur,

Dökkur skuggi á daginn fellur,

dimmir yfir landsbyggðina.

Köldum hljómi klukkan gellur,

kveðjustund er milli vina.

Fallinn dómur æðri anda,

aðstandendur setur hljóða.

Kunningjarnir klökkir standa,

komið skarð í hópinn góða.

Gangan með þér æviárin

okkur líður seint úr minni.

Við sem fellum tregatárin

trúum varla brottför þinni.

Þína leið til ljóssins bjarta

lýsi drottins verndarkraftur.

Með kærleiksorð í klökku hjarta

kveðjumst núna, sjáumst aftur.

(Hákon Aðalsteinsson)

Okkar innilegustu samúðarkveðjur til ykkar elsku Linda, Röggi, Eva og fjölskyldur og aðrir ástvinir.

Árni og Sigurbjörg.

Látinn er góður skólabróðir og vinur, Sigurður Jóhannes Erlendsson eða Jói Linda eins og hann var gjarnan kallaður. Jói var einn af nokkuð stórum hópi barna er fæddust 1946 og bjuggu á Selfossi. Við vorum 37 í bekknum í Barnaskóla Selfoss og kennari okkar var Hjörtur Þórarinsson. Það var gott að alast upp á Selfossi á þessum árum, íbúar voru þá innan við 1.000 talsins. Engin malbikuð gata, mjólkurbílar í öllum götum bæjarins og verkstæðisflautan glumdi út um allan bæ í hádeginu. Hlutverk flautunnar var að segja verkstæðismönnum KÁ hvenær þeir áttu að fara í mat og hvenær hádegismaturinn var búinn. Hafði flautan heilmikil áhrif á líf okkar krakkanna, við létum áhrif hennar stjórna okkur töluvert í leik og starfi. Eins og gengur var áhugasvið okkar krakkanna margvíslegt. Sumir stunduðu íþróttir, aðrir smíðuðu bíla og sumir áttu góð reiðhjól o.s.frv. Jói var strax mikill áhugamaður um bíla og hafði mikla þekkingu á því sviði. Ég gleymi því ekki þegar hann og Árni vinur hans, líklega 15-16 ára, buðu okkur í einum frímínútum að koma og skoða bíl sem þeir höfðu verið að gera upp í bílskúr pabba Jóa. Þarna stóð stór amerískur bíll af gerðinni Hudson, árgerð ca 1950, sem þeir félagarnir höfðu verið að gera upp, slípa og mála. Ekki veit ég hvað bíllinn var mörg hestöfl, en það er minnisstætt að aftan á bílnum voru tveir gluggar og tvær þurrkur, það höfðum við aldrei séð áður. Bílaáhugi Jóa var einstakur, þegar bílprófið var komið þá byrjaði ballið fyrir alvöru, hann keypti bíla og seldi. Einhvern tíma sagði hann mér hvað hann hefði átt marga bíla, en ég þori ekki að hafa það eftir, það hljóp á fleiri tugum. Það var gaman hjá þeim félögum, þeir áttu það t.d. til að skreppa á ball norður í Húnaver, þegar við hin fórum á ball á Flúðum eða í Hvolinn. Þeir keyrðu mikið og nutu þess virkilega. Jói var góður og ljúfur maður, hann naut þess að mæta og taka þátt í bekkjamótum okkar árgangs.

Nú hin síðari ár glímdi Jói við veikindi sem náðu að yfirbuga hann að lokum.

Með þessum fátæklegu orðum þakka ég Jóa samfylgdina og góðar samverustundir. Ég votta afkomendum hans og fjölskyldum þeirra innilega samúð og veit að góðar minningar um góðan dreng munu lifa. Blessuð sé minning Sigurðar Jóhannesar Erlendssonar.

Björn Ingi Gíslason.

Fátt er verðmætara á lífsins leið en kynni af góðu fólki. Þess naut ég mjög í áralöngu stjórnmálavafstri mínu. Þegar ég horfi til baka þá standa einmitt upp úr samskiptin við fjölda fólks, vítt og breitt um landið, en þó einkum í kjördæmunum mínum, Vestfjörðum og Norðvesturkjördæmi.

Jóhannes Erlendsson, Jói bílasali á Hvammstanga, var einn þeirra sem ég hafði mikil og náin samskipti við um árabil. Kynni okkar hófust fyrir alvöru þegar ný kjördæmaskipan leit dagsins ljós árið 2003. Það fól í sér mikla breytingu. Nýtt kjördæmi var víðfeðmt og við þingmennirnir tókumst á við breyttar aðstæður. Þá skipti höfuðmáli að eiga að vinum fólk sem víðast, sem gat aðstoðað mann við að skilja breyttar aðstæður og skynja sem best æðaslátt samfélagsins á hverjum stað. Slíkt er ómetanlegt öllum þeim sem vilja sinna þingmannsstarfinu af alúð, skilningi og þekkingu.

Jói var ekki einn þeirra sem létu mikið til sín taka á fundum, en ráðin hans voru notadrjúg og það skynjaði ég strax frá upphafi. Hann þekkti vel til aðstæðna á Norðurlandi vestra og þá auðvitað sérstaklega í Vestur-Húnavatnssýslu. Þar kom maður aldrei að tómum kofunum. Og þess vegna varð það fljótlega þannig að aldrei renndi ég norður á Hvammstanga án þess að koma við hjá bílasalanum til þess að taka stöðuna, ræða málin og fara yfir það sem hæst bar hverju sinni. Jafnt það sem var að gerast almennt á hinum pólitíska vettvangi og í samfélaginu hans fyrir norðan. Oft voru þar fleiri fyrir og umræðurnar urðu fyrir vikið stundum langar og alltaf fjörlegar. Jói stóð álengdar, fylgdist með og tók þátt í umræðunum; stundum með dálítinn skelmissvip þegar þannig bar til. Áður en ég hélt áfram för minni, lagði hann mér lífsreglurnar og gaf mér góð ráð. Hvern ég ætti að hitta, hvaða mál væru efst á baugi, hvar þyrfti að taka til hendinni í þágu samfélagsins og hvað þyrfti að gera og segja til þess að ná árangri.

Svo var kannski stjórnmálafundur um kvöldið. Og á Hvammstanga voru þeir undatekningarlaust vel sóttir, málefnalegar og gagnlegar umræður. Þaðan fór maður fyrir vikið vel nestaður og upplýstur um það sem gera þyrfti; jafnt á landsvísu sem og í þágu byggðarlagsins. Daginn eftir hringdi Jói stundum líkt og til að tryggja að ekkert hefði nú farið framhjá okkur þingmönnunum sínum. – Við hefðum meðtekið verkefnin. Allt þetta gerði minn góði vinur af mikilli vinsemd og þeirri hógværð sem honum var svo eðlislæg.

Síðustu árin voru Jóa mínum mótdræg. Hann veiktist illa, átti erfitt um mál og varð fyrir vikið að hætta starfsemi sinni. En eftir sem áður skein af honum góðvildin og fallega brosið hans var áfram til staðar. Hann verður mér ætíð minnisstæður og kemur upp í hugann þegar ég heyri góðs manns getið.

Ættingjum og vinum Jóhannesar Erlendssonar sendi ég innilegar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning hans.

Einar K.

Guðfinnsson.