Magnús Björgvin Sigurðsson fæddist í Reykjavík 18. desember 1948. Hann lést á gjörgæsludeild Landspítalans 17. janúar 2023.

Foreldrar hans voru Sigurður Ingvarsson eldsmiður, f. í Framnesi í Ásahreppi 12. október 1909, d. 7. apríl 2001, og Svafa Magnúsdóttir húsmóðir, f. í Reykjavík 10. mars 1911, d. 25. maí 1964. Systkini Magnúsar eru: Guðni, f. 11. maí 1938, d. 13. febrúar 1965, Arndís Ingunn, f. 18. desember 1939, Sigríður Kolbrún, f. 12. október 1945, d. 20. apríl 2012, Ólafur, f. 3 febrúar 1954, Svafa, f. 22. janúar 1966. Móðir Svöfu var Guðrún Bjarnadóttir, f. 16. ágúst 1931, d. 15. nóvember 1989.

Magnús Björgvin kvæntist hinn 18. desember 1971 Charlottu Maríu Traustadóttur, f. 28. apríl 1948. Foreldrar hennar voru Trausti Árnason, f. 13. október 1913, d. 19. maí 1981 og Sigríður Ágeirsdóttir, f. 23. september 1917, d. 27. september 1978.

Börn Magnúsar og Charlottu eru: 1) Svava, f. 22. júlí 1974, maki Björn Sveinbjörnsson, synir þeirra eru: Róbert Aron, f, 2000, og Daníel Freyr, f. 2004. 2) Sigríður Olga, f. 11. apríl 1980, maki Kristinn Þorsteinsson, dætur þeirra eru: Klara, f. 2006, Charlotta María, f. 2009 og Margrét Katrín, f. 2012. 3) Trausti, f. 6. maí 1981, maki Hugrún Harpa Reynisdóttir, börn þeirra eru Sigursteinn Ingvar, f. 2007, Sólrún Freyja, f. 2013, og Svavar Breki, f. 2013. Sonur Charlottu er Arnar, f. 23. september 1969, maki Eydís Heiða Njarðardóttir, synir þeirra eru: Erlingur Freyr, f. 2002, og Njörður Jóhann, f. 2002. Faðir Arnars var Erlingur B. Thoroddsen, f. 15. júlí 1948, d. 3. desember 2015.

Magnús ólst upp í Granaskjólinu í Reykjavík. Hann lauk námi í vélvirkjun 1969. Eftir nám vann hann hjá ISAL og í Búrfellsvirkjun. Hann lauk námi í Vélskólanum 1974. Að námi loknu réð hann sig til starfa hjá Skagstrendingi á Skagaströnd, fyrst sem yfirvélstjóri á Arnari, svo á Örvari til ársins 1984. Hann var síðan útgerðarstjóri Skagstrendings til 1990 en þá eftirlitsmaður við nýsmíði skipa til 1992. Eftir að Magnús fluttist frá Skagaströnd vann hann hjá Vélum og skipum ehf. í þrjú ár. Hann var yfirvélstjóri á Pétri Jónssyni en hætti þá á sjó og stofnaði hann sitt eigið fyrirtæki, MSig skipaeftirlit, og starfrækti það í tíu ár, til ársins 2005. Eftir það vann hann hjá Marás og svo Framtaki-Blossa þangað til hann lét af störfum 2014.

Magnús gekk í Oddfellowstúku nr. 12, Skúla fógeta árið 1996.

Útför Magnúsar Björgvins fer fram frá Vídalínskirkju í dag, 27. janúar 2023, klukkan 13.

Elsku pabbi minn.

Ég trúi því ekki að þú sért farinn frá okkur. Þetta gerðist allt svo hratt, alltof hratt. Minningarnar streyma í stríðum straumi, og tárin með. Ef ég loka augunum get ég ennþá kallað fram olíu- og píputóbakslyktina af skyrtunum þínum þegar þú varst að koma í land í gamla daga. Það var svona pabbalykt og henni fylgdi alltaf mikil og góð öryggiskennd, enda varstu kletturinn okkar.

Þú varst góður pabbi, bestur. Sennilega Granaskjólsmeistari í því eins og svo mörgu öðru. Nenntir endalaust að syngja, lesa og segja sögur. Það voru ófáar stundirnar með þér í bílskúrnum, að negla nagla í málningarbúkka og syngja hástöfum „Ó, María“ og „Hafið, bláa hafið“. Jólasöngbókin var alltaf tekin fram í október og margföldunartaflan þulin í hverri einustu bílferð. Þú varst víðlesinn og vissir svo margt. Það var alltaf hægt að stóla á þína hjálp í sögu og við lestur á Laxness sem og Íslendingasögunum.

Allar sundæfingarnar sem þú keyrðir mig á, löngu fyrir almennan fótferðatíma, og sóttir mig aftur. Stundum vorum við stoppuð af löggunni, stundum ekki. Og svo sami túrinn á kvöldin. Öll kvöld. Þið mamma mættuð á öll sundmót og hvöttuð alla í mínu liði. Og þegar mótin voru úti á landi komuð þið líka með, á húsbílnum. Mér fannst alltaf svo vænt um það, að þið komuð alltaf með.

Heimakæra unglingnum mér leiddist ekkert að njólast ein með ykkur mömmu, hvort sem það var í gönguferðum út um hvippinn og hvappinn, í ferðalögum um Ísland, eða helgarferðum til Köben. Þegar ég svo flutti til Danmerkur voruð þið mamma dugleg að koma og heimsækja okkur, og við áttum alltaf vísan samastað hjá ykkur þegar við komum heim til Íslands. Það voru ófá spilakvöldin með ykkur mömmu, bæði hér heima og í Danmörku. Laugardagshringingarnar urðu fljótt fastir liðir, rúm 20 ár og hægt að telja á fingrum annarrar handar þá laugardaga sem pabbi hringdi ekki og það voru skotheldar ástæður fyrir því.

Þú varst dásamlegur afi. Sögur, sannar og bullaðar, gastu endalaust sagt. Það var alltaf hægt að blikka afa í skutl og grínmyndagláp, ísbíltúra, spil og sund. Og kvöldlestur og kúr. Og þú sofnaðir alltaf á undan barninu.

Takk fyrir öll ferðalögin og allar veiðiferðirnar, bæði í Veiðivötn sem og í öðrum vötnum, með og án hunds sem gleypti spún, stundum í aftakaveðri eins og von er á fjöllum, stundum í bongóblíðu. Takk fyrir bústaðaferðirnar og húsbílaútilegur á Íslandi og í Danmörku, endalausa hjálp við barnapössun, garðvinnu, íbúðaskoðanir, húsaskoðanir, viðhald á gömlu húsi, reddingu á bílum og íbúðum, lán á bílum og reddingu þegar vindsængin gleymdist í fyrstu útilegunni og allt hitt.

Takk fyrir að ljá mér eyra þegar mér lá eitthvað á hjarta, og fyrir að gefa góð ráð og hjálp þegar ég þurfti á því að halda. Takk fyrir allt elsku pápi minn. Ég sakna þín svo óendanlega mikið og vantar svo að geta hringt í þig og rætt málin, og bullað með þér.

Hvíl í friði.

Þín

Sigríður Olga

Magnúsdóttir (Sigga).

Elsku pabbi minn, sársaukinn og söknuðurinn að þú sért farinn frá okkur á vit nýrra ævintýra er óbærilegur. Ég var ekki tilbúin að kveðja þig svona fljótt, við áttum eftir að fara endurhæfingarbrekkuna saman og fagna hverjum litlum sigri eins og enginn væri morgundagurinn. Ég ætlaði að hvetja þig áfram og styðja þig í endurhæfingunni eins og þið mamma gerðuð fyrir mig eftir slysið, það var mér svo dýrmætt og ómetanlegt að fá ykkur í heimsókn á hverjum degi. Fangið þitt stóð pabbastelpunni alltaf opið fyrir knús og hvatningu. Þú hringdir í mig á hverjum degi til að athuga hvernig ég hefði það og hvað væri að frétta af afastrákum, ég sakna þessara símtala svo mikið. Þú varst mín stærsta fyrirmynd í lífinu. Það segir kannski meira en mörg orð að þegar ég var lítil ætlaði ég að verða vélstjóri og giftast pabba mínum, svo mikið fannst mér til þín koma. Við áttum líka nokkur góð símtöl í fisherprice-símann minn þegar ég var ca. tveggja ára og sat á koppnum með símann og spurði þig hvenær þú kæmir heim af sjónum og svaraði því að sjálfsögðu sjálf „á morgun ok bæ“. Þá ranghvolfdi Arnar bróðir augunum yfir litlu systur sinni og horfði á togarann sigla úr höfn. Svo kom gelgjan yfir mig og allt í einu fannst mér þú vera alveg mega lummó gæi og gerðir ekkert rétt í mínum augum. Þú t.d. hafðir buxurnar utan yfir snjóbomsurnar þegar það var klárlega meira töff að troða þeim ofan í bomsurnar. Svo settirðu bláar perur í jólaseríuna utan á húsið ... halló, hversu glatað. Það sér hvert mannsbarn að það er fjandans myrkur á bláum perum og þær eru klárt tískuslys. Daginn eftir, þegar ég kom heim úr skólanum, varstu búinn að skipta út þessum bláu perum og ég gat tekið gleði mína á ný. Og guð minn góður hvað ég dó næstum úr skömm þegar þú hafðir keypt hundgamla og hálfónýta rútu og ekkert hvaða rútu sem var, ónei, þetta var frystihúsrútan sem var með svo litlum dekkjum að mér fannst þau vera á við hjólbörudekk. Hvað hugðist þú nú gera við rútugarminn? Jújú, breyta henni í húsbíl um veturinn og leggjast í ferðalag um Evrópu næsta sumar. Til Evrópu fórum við sumarið 1988, það var skemmtileg ferð. Þessi heimagerði húsbíll var fyrsti af mörgum húsbílum ykkar mömmu. Ég á svo margar og góðar minningar um þig sem munu ylja mér um ókomna framtíð. Takk elsku pabbi fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig í gegnum tíðina og fyrir að hafa verið strákunum mínum yndislegur afi. Ég passa upp á mömmu, missir hennar er mikill. Elska þig alltaf.

Hvíldu í friði.

Svava

Magnúsdóttir.

Ég naut þeirrar gæfu að eiga tvo tengdapabba, því þegar ég kynntist Arnari sagði hann mér fljótlega að hann ætti tvo pabba. Maggi pabbi var reyndar alltaf kallaður pabbi, einnig þegar Arnar talaði um hann við hinn pabbann og ég lærði smám saman að greina í sundur um hvorn var talað. Maggi kallaði syni okkar Arnars Orm og Gorm. Oft spurði hann þá hvor væri Ormur og hver Gormur en ég held að það hafi aldrei komið niðurstaða í því máli. Strákunum þótti gaman þegar afi bullaði í þeim. Maggi var bóngóður og hjálpfús, alltaf til í að sækja og skutla eða aðstoða okkur þegar á þurfti að halda. Það var ávallt gaman að vera í návist Magga og þau Charlotta afar samrýmd hjón. Það var glaðværð og gleði í heimsóknum, veislum og ferðalögum. Minning um góðan mann lifir.

Eydís

Njarðardóttir.

Mínir vinir fara fjöld,

feigðin þessa heimtar köld.

Ég kem á eftir, kanske í kvöld,

með klofinn hjálm og rofinn skjöld,

brynju slitna, sundrað sverð og syndagjöld.

(Bólu-Hjálmar)

Svo kvað Bólu-Hjámar um látinn vin sinn. Mig langar að taka mér þessi orð í munn við lát Magnúsar B. Sigurðssonar mágs míns, en hann lést þann 17. janúar sl. eftir snörp veikindi.

Það er erfitt að sætta sig við að Maggi sé horfinn á braut. Ég var að vona og biðja þess að allt færi vel og hann myndi komast yfir veikindin en guð einn ræður. Við höfðum tekið upp þá venju, systkini mín og makar, að hittast einu sinni í mánuði, síðast í nóvember sl. og var reiknað með að hittast næst í desember. Það varð ekki.

Maggi setti ávallt svip sinn á samveru okkar með glaðværð sinni og léttri lund. Það er mikill sjónarsviptir að honum.

Maggi var mikill barnakarl og afi, stoltur af börnunum sínum og barnabörnum og mjög umhyggjusamur um þau. Barnabörnin hændust að honum og vildu vera eins og hann og hann naut þess að vera með þeim og taldi það ekki eftir sér þótt hann þyrfti að ferðast landa í milli til að geta það.

Ég á margar skemmtilegar minningar þar sem Maggi er hrókurinn. Minnist veiðiferða og ferða til Washington, Moskvu og Kaupmannahafnar sem við Stína fórum með þeim Charlottu og Magga. Einnig ættarmóta innanlands.

Þau voru sérlega dugleg að ferðast og fóru víða á húsbíl eða með hjólhýsi í eftirdragi, reyndar bæði innanlands og utan. Og ef þau vissu af vinum eða frændfólki nærri þessum ferðaleiðum þá þótti sjálfsgat að koma við hjá þeim og rækta vináttuna. Veit ég að það var mikils metið.

Maggi tók alltaf málstað lítilmagnans, það fann ég er við ræddum pólitík en það gerðum við mágarnir og hækkuðum þá stundum róminn við litla hrifningu eiginkvenna okkar.

Honum var treyst fyrir ábyrgðarmiklum störfum sem hann leysti af hendi með miklum sóma, en stór hluti af hans starfsævi var stúss í kringum vélar.

Að leiðarlokum vil ég þakka Magga fyrir allt hans líf og hvað hann var umhyggjusamur við Charlottu systur mína og alltaf til staðar.

Hann er nú kominn í eilífðarljósið og ég trúi því að ég eigi eftir að hitta hann á efsta degi.

Einar Benediktsson orti fallegan sálm um upprisuna og eilíft líf og vil ég enda þessi fátæklegu orð mín á síðasta erindi hans og gera þau orð að mínum:

Af eilífðarljósi bjarma ber,

sem brautina þungu greiðir.

Vort líf, sem svo stutt og stopult er,

það stefnir á æðri leiðir.

Og upphiminn fegri en auga sér

mót öllum oss faðminn breiðir.

(Einar Benediktsson)

Elsku Charlotta, Arnar, Svava, Sigga og Trausti og fjölskyldur, við Sína og systur mínar og fósturbróðir og fjölskyldur þeirra vottum ykkur innilega samúð við fráfall Magga, hann skilur eftir yndislegar minningar sem við varðveitum í hjarta okkar.

Hafi hann þökk fyrir þær.

Árni Traustason.

Við systur minnumst elsku Magga með hlýtt í hjarta, tár í augum og bros á vör. Að hugsa til baka til æsku okkar á Skagaströnd þá voru Maggi, Charlotta, Arnar, Svava, Sigga og Trausti stór og mikill partur af okkar fjölskyldu og lífi sem við erum endalaust þakklátar fyrir. Sú vinátta sem myndaðist var sönn og heil alla tíð.

Elsku Charlotta, Arnar, Svava, Sigga, Trausti og fjölskyldur. Ást, faðmlag, væntumþykja og hlýja frá okkur systrum á þessum erfiða tíma.

Aðalheiður,

Halla og Elva.

Hér sitjum við hjónin saman með sorg í hjarta og reynum að átta okkur á að okkar góði vinur, hann Maggi Sig, hefur verið tekinn frá fjölskyldu sinni og vinum og er ekki lengur hér með okkur.

Það er svo stutt síðan við áttum skemmtilega stund núna fyrir jólin með þeim hjónum. Ekki grunaði okkur að þetta yrði síðasta skiptið sem við hittum hann Magga. Eftir situr þakklæti fyrir að hafa átt þessa samverustund með þeim og allar þær stundir sem við höfum átt í gegnum tíðina.

Minningarnar streyma fram þegar við hugsum til baka. Okkar fyrstu kynni af þeim hjónum eru frá árunum 1974-1975, þegar Maggi og Charlotta flytja til Skagastrandar og Maggi ræður sig til Skagstrendings hf. sem vélstjóri á Arnar HU-1, en þar var ég stýrimaður.

Það myndaðist strax mikil vinátta, kærleikur og gleði á milli okkar sem aldrei hefur borið skugga á.

Við hjónin vorum á sama tíma að koma okkur upp heimili og börnum. Við eignuðumst börnin okkar á svipuðum tíma og varð einnig mikill vinskapur á milli þeirra. Við brölluðum mikið saman sem vinahjón, fjölskyldur og vinir á sjó. Margs er að minnast. Allar góðu stundirnar sem við fjölskyldurnar höfum átt í gegnum tíðina, sérstaklega þegar þið bjugguð líka á Skagaströnd. Öll gamlárskvöldin sem við áttum með ykkur, flatbrauðs- og laufabrauðsbaksturinn. Ferðir í veiði út á Skaga, berjamó, hótelferðir á Akureyri og Reykjavík og svona mætti lengi telja. Allt eru þetta dýrmætar stundir sem gleymast aldrei. Það var alltaf gaman í kringum Magga og Charlottu.

Einu sinni sem oftar fóru við hjónin í ferðalag suður að vetrartíma. Við fórum á sitt hvorum bílnum; Maggi og Lotta eins og Maggi kallaði hana alltaf voru á Toyota og við á Cortinu-lús. Á heimleiðinni var vont veður á Holtavörðuheiðinni, hríðarbylur og skafrenningur. Maggi hafði ekki mikið álit á Cortinunni okkar og ákvað að draga okkur yfir heiðina sem hann gerði með stæl. Maggi setti allt í botn og við hangandi í spotta aftan í honum. Við skiljum ekki ennþá hvernig við komumst yfir heiðina. En svona var þessi vinur. Engin vandamál, bara lausnir.

Þegar Maggi og Charlotta fluttu suður urðu samskipti okkar hjóna minni, en alltaf þegar við hittumst eða töluðum saman var eins og við hefðum hist eða talað saman í gær.

Það er sannarlega dýrmætt að eiga góða vini. Við verðum ævinlega þakklát fyrir okkar vinskap.

Gulli og perlum að safna sér

sumir endalaust reyna.

Vita ekki að vináttan er

verðmætust eðalsteina.

Gull á ég ekki að gefa þér

og gimsteina ekki neina.

En viltu muna að vináttan er

verðmætust eðalsteina.

(Hjálmar Freysteinsson)

Elsku Charlotta, Arnar, Svava, Sigga, Trausti og fjölskyldur. Við sendum okkar innilegustu samúðarkveðjur til ykkar. Hugur okkar er hjá ykkur. Guð veri með ykkur.

Ykkar vinir,

Árni og Hlíf.

Ég minnist þess ekki að hafa orðið jafn sleginn nema einu sinni er ég missti ungt ættmenni í blóma lífsins af slysförum í fjarlægu landi, eins og þegar Charlotta hringdi í mig hinn 17. janúar og tjáði mér að hann Maggi vinur minn væri látinn eftir stutt veikindi.

Magga kynntist ég á haustdögum 1971 er við hófum nám í Vélskóla Íslands. Okkur Magga varð strax vel til vina og brölluðum ýmislegt saman á þeim árum, tókum meðal annars að okkur rekstur á tveimur skíðalyftum hjá skíðadeild ÍR í upphafi rekstrar í Bláfjöllum 1972.

Er skóla lauk vorið 1974 tvístraðist hópurinn en á þessum árum var verið að skuttogaravæða landið og fór Maggi til starfa á nýjum togara sem gerður var út frá Skagaströnd.

Við Maggi vorum alltaf í talsverðu sambandi og eitt sinn er við vorum að tala saman stakk Maggi upp á því að gaman væri að ná saman þessum útskriftarhópi frá 1974, og hófumst við handa við að hafa uppi á netföngum skólabræðranna. Nú hefur í mörg ár hluti af þessum hópi hist fyrsta laugardag í hverjum mánuði, og saman hefur hópurinn reynt að fara í utanlandsferð annað hvert ár og hafa þessar ferðir okkar tekist vel og verið fræðandi og skemmtilegar.

Að leiðarlokum kveð ég Magga minn með söknuði og bið honum guðs blessunar.

Við Auður Björg sendum Charlottu og fjölskyldu okkar innilegustu samúðarkveðjur, og minningin um góðan dreng mun geymast um ókomin ár.

Kristinn Gíslason.