Stofnfundur Þessi ljósmynd var tekin á stofnfundi Lyftingasambands Íslands kaldan janúardag fyrir 50 árum sléttum, 27. janúar 1973. Fremst og fyrir miðju stendur Gísli Halldórsson, þáverandi formaður ÍSÍ. Aðrir, nokkurn veginn frá vinstri til hægri, eru: Finnur Karlsson, Kristbjörn Albertsson, Gunnar Sigurðsson, Gústaf Agnarsson, Óskar Sigurpálsson, Guðmundur Sigurðsson, Björn Lárusson, Ólafur Sigurgeirsson, Bogi Sigurðsson, Kristmundur Baldursson, Sigtryggur Sigurðsson, Hafsteinn Pálsson, Ómar Sigurðsson, Sveinn Björnsson, nafn vantar, Ágúst Óskarsson, Agnar Gústafsson, Pétur Auðunsson, Guðmundur Þórarinsson, Sigurður Magnússon, Júlíus Bess og Hermann Guðmundsson.
Stofnfundur Þessi ljósmynd var tekin á stofnfundi Lyftingasambands Íslands kaldan janúardag fyrir 50 árum sléttum, 27. janúar 1973. Fremst og fyrir miðju stendur Gísli Halldórsson, þáverandi formaður ÍSÍ. Aðrir, nokkurn veginn frá vinstri til hægri, eru: Finnur Karlsson, Kristbjörn Albertsson, Gunnar Sigurðsson, Gústaf Agnarsson, Óskar Sigurpálsson, Guðmundur Sigurðsson, Björn Lárusson, Ólafur Sigurgeirsson, Bogi Sigurðsson, Kristmundur Baldursson, Sigtryggur Sigurðsson, Hafsteinn Pálsson, Ómar Sigurðsson, Sveinn Björnsson, nafn vantar, Ágúst Óskarsson, Agnar Gústafsson, Pétur Auðunsson, Guðmundur Þórarinsson, Sigurður Magnússon, Júlíus Bess og Hermann Guðmundsson. — Ljósmynd/Lyftingasambands Íslands
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ásgeir Bjarnason: "Frá 2010 hefur orðið algjör sprenging í lyftingum kvenna bæði hérlendis og erlendis og hafa hundruð kvenna keppt á mótum innanlands síðustu tíu ár."

Stofnþing Lyftingasambands Íslands var haldið 27. janúar 1973 í kringum tvær íþróttagreinar, sú fyrri var ein af upphafsgreinum Ólympíuleikanna, ólympískar lyftingar, og hin kraftlyftingar. Kraftlyftingar kljúfa sig út úr Lyftingasambandinu og stofna sérsamband utan Íþrótta- og ólympíusambands Íslands árið 1985 en ganga aftur í sambandið 2011 og verða þeim ekki gerð frekari skil í þessu yfirliti.

Á stofnþinginu voru 23 karlmenn mættir sem margir áttu eftir að láta vel að sér kveða í tengslum við ólympískar lyftingar, kraftlyftingar og aðrar íþróttir líkt og glímu og vaxtarrækt. Áratug áður nánast upp á dag hafði þó fyrsta lyftingamótið farið fram á vegum ÍR og má því segja að lyftingar sem keppnisgrein eigi 60 ára sögu á Íslandi þótt vissulega hafi kraftagreinar fylgt sögu landsins frá örófi, en blaðamaður sem gerði grein fyrir fyrsta lyftingamótinu vitnar í steinana Fullsterkan, Hálfsterkan og Amlóða.

Hæðir og lægðir

Á þessum 60 árum höfum við Íslendingar fjórum sinnum átt keppendur í lyftingum á Ólympíuleikum; fyrstur var Óskar Sigurpálsson sem keppti 1968 í Mexíkó og aftur 1972 í München. Í München og fjórum árum seinna í Montreal keppti einnig Guðmundur Sigurðsson sem hefur verið kyndilberi íþróttarinnar og gengið í gegnum hæðir og lægðir með greininni allt frá fyrsta lyftingamótinu 1963. Hann var meðal dómara á síðasta móti sem haldið var í desember 2022 og keppti sjálfur síðast 2021, 75 ára að aldri. Síðustu Ólympíuleikar sem Ísland átti keppendur í ólympískum lyftingum á voru leikarnir í Moskvu 1980 en þar kepptu þrír; Birgir Borgþórsson, Guðmundur Helgason og Þorsteinn Leifsson.

Þrátt fyrir nokkuð góðan alþjóðlegan árangur á áttunda og níunda áratugnum hallaði undan fæti hjá íslenskum lyftingamönnum á seinni hluta tíunda áratugarins og haldin voru Íslandsmót með innan við tíu keppendum á árunum 1998-2008. Helst voru það Gísli Kristjánsson og áðurnefndur Guðmundur sem héldu einhverju lífi í greininni með þátttöku á alþjóðlegum mótum. Aðstöðumál voru í miklum ólestri og einungis Ármann hélt úti lyftingadeild en deildir innan meðal annars ÍR og KR, á Selfossi og Akureyri höfðu lagst af.

Valkyrjurnar mæta til leiks

Þrátt fyrir yfir 100 ára sögu var fyrsta heimsmeistaramót kvenna í lyftingum ekki haldið fyrr en 1987 þar sem Íris Grönfeldt var á meðal keppenda og konur kepptu ekki í lyftingum á Ólympíuleikum fyrr en í Sydney árið 2000. Frá 2010 hefur orðið algjör sprenging í lyftingum kvenna bæði hérlendis og erlendis og hafa hundruð kvenna keppt á lyftingamótum innanlands síðustu tíu árin.

Á alþjóðavettvangi höfum við átt keppendur á flestum stórmótum síðustu ár og hefur Þuríður Erla Helgadóttir farið þar fremst í flokki og var nokkuð nálægt því að komast inn á Ólympíuleikana bæði í Ríó 2016 og í Tókýó 2020. Á síðasta ári eignaðist Ísland síðan fyrsta Evrópumeistarann í lyftingum þegar Eygló Fanndal Sturludóttir fékk gull á Evrópumeistaramóti 23 ára og yngri með árangri sem hefði komið henni á pall á flestum álfumótum það árið.

Ólympískar lyftingar eru gríðarlega útbreidd íþróttagrein en 192 lönd eiga aðild að Alþjóðlega lyftingasambandinu. Greinin er gríðarvinsæl í mörgum löndum Asíu, Austur-Evrópu og Suður-Ameríku og því hörð samkeppni um sæti á stórmótum. Fyrir utan að greinin er eina lyftingagrein Ólympíuleikanna skýrast vinsældir greinarinnar að hluta til af því að nokkuð auðvelt og ódýrt er að koma upp aðstöðu hvort sem það er á eyju í Kyrrahafinu eða hátt uppi í fjöllum Kólumbíu.

Á Íslandi hafa crossfit-stöðvarnar nánast alfarið séð um aðstöðumál greinarinnar síðan 2010 og ný lyftingafélög sprottið upp innan þeirra, það stærsta af þeim Lyftingafélag Reykjavíkur. Þessi félög hafa hjálpað til við nýliðun í greininni en crossfit fléttar ólympískum lyftingum inn í keppnir sínar.

Er það von undirritaðs að á þessu afmælisári sambandsins muni ný Þjóðarhöll gera ráð fyrir æfinga- og keppnisaðstöðu fyrir hvort tveggja ólympískar lyftingar sem kraftlyftingar.

Höfundur er fyrrverandi formaður Lyftingasambands Íslands.

Höf.: Ásgeir Bjarnason