Þórður Stefánsson fæddist á Akureyri 17. september 1961. Hann lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri 18. janúar 2023.

Foreldrar hans eru Hafdís Björk Hermannsdóttir, f. 5. júlí 1940, d. 18. júlí 2012, og Stefán Böðvar Þórðarson, f. 11. janúar 1938. Bræður Þórðar eru Hermann Stefánsson, f. 20. október 1962 og Böðvar Stefánsson, f. 16. janúar 1964.

Þórður giftist þann 21. apríl 1990 Margréti Hildi Kristinsdóttur, f. 21. júní 1963. Foreldrar hennar eru Guðný Elísabet Halldórsdóttir, f. 17. október 1935, d. 8. júlí 1994, og Kristinn Sigurpáll Kristjánsson, f. 21. október 1935. Börn Þórðar og Margrétar eru: 1) Jóhann Símon Björnsson, f. 4. ágúst 1984, maki Arna Ósk Rúnarsdóttir, f. 13. nóvember 1987. Dætur þeirra eru Emma Laufey, f. 7. ágúst 2012, Katla Alice, f. 15. mars 2015 og Júlía Milla, f. 27. júní 2018; 2) Stefán Páll Þórðarson, f. 20. febrúar 1994, unnusta Þórkatla Eggerz Tinnudóttir, f. 30. nóvember 1997; 3) Hildur Dóróthea Þórðardóttir, f. 27. maí 1997, unnusti Hlynur Jónsson, f. 2. júlí 1987. Sonur þeirra er Aron Böðvar, f. 28. febrúar 2019; 4) Hafdís Björk Þórðardóttir, f. 27. maí 1997, sambýlismaður Bjarki Páll Pálsson, f. 19. júní 1992.

Þórður ólst upp í Hvammi í Höfðahverfi fram á unglingsár, gekk í Grenivíkurskóla, Stórutjarnaskóla og Hrafnagilsskóla. Eftir grunnskóla fór hann í Gagnfræðaskólann á Akureyri og lauk þar verslunarprófi hinu meira árið 1980. Strax meðfram námi byrjaði hann að vinna við bókhald. Fyrstu starfsárin eftir nám var hann með kartöflu- og refarækt í Hvammi, auk þess að halda nokkrar kindur. Þórður og Margrét hófu sinn búskap á Akureyri árið 1986. Þórður starfaði fyrir Búnaðarsamband Eyjafjarðar á árunum 1987-1990. Árið 1990 fluttu þau til Grenivíkur. Þar stofnaði Þórður sitt eigið fyrirtæki, bókhaldsþjónustu sem hann starfaði við alla tíð síðan. Hann sat í sveitarstjórn Grýtubakkahrepps á árunum 1994-2006 og var oddviti sveitarstjórnar á árunum 2002-2006. Árið 2010 fluttu þau aftur til Akureyrar og ráku þar fyrirtækið áfram. Þórður sinnti ýmsum félagsstörfum. Hann var félagi í Oddfellowreglunni frá 2013.

Útför Þórðar fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 27. janúar 2023, kl. 13.

Elsku afi Doddi.

Við söknum þín rosa mikið. Það var alltaf svo gaman að fá þig í heimsókn og heimsækja þig. Við máttum alltaf hnoðast á þér í sófanum og þú vildir alltaf lesa fyrir okkur og spila. Ólsen-ólsen, lönguvitleysu, veiðimann, lúdó og meira. Þegar þú komst til okkar í Danmörku fórum við nánast alltaf saman í Tívolí.

Við elskum þig.

Emma Laufey, Katla Alice og Júlía Milla.

Mér brá illa. Þetta getur ekki verið, voru viðbrögð mín þegar sameiginlegur vinur okkar Dodda, Þórðar Stefánssonar, hringdi í mig og tilkynnti mér lát hans. Því miður var þetta blákaldur veruleikinn.

Samstarf okkar Dodda hafði staðið lengi, allt frá 1998 til síðasta dags. Ég tók þá við starfi hjá Eyþingi – sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum en Doddi annaðist bókhaldsþjónustu fyrir sambandið. Síðar bættust við félög sem ég var í forsvari fyrir, fyrst Greið leið ehf. og síðar Vaðlaheiðargöng hf. Öllu sinnti hann af fagmennsku og öryggi. Samskipti fóru vaxandi með auknum umsvifum og þá sérstaklega þegar kom að gerð ársreikninga. Samstarfsfólk mitt sem einnig átti í samskiptum við Dodda talaði um hann af virðingu og hlýhug.

Það var skemmtilegt að koma til fundar við Dodda. Fyrst tökum við nokkrar mínútur í stóru málin sagði hann en hann hafði mikinn áhuga á þjóðmálum og pólitík.

Hann var málefnalegur og sanngjarn. Hann talaði ekki illa um fólk. Doddi kappkostaði að fylgjast vel með breytingum í sínu fagi og sótti reglulega námskeið. Það er mikilvægt að uppfæra sig sagði hann. Þannig vildi til að við vorum samtíða í hópi sem stundaði nám fyrir stjórnendur fyrir um 20 árum við HA. Hluti hópsins hefur hist reglulega í hádeginu yfir vetrarmánuðina. Næst verður sæti Dodda autt og daufara yfir umræðunni. Hans verður sárt saknað.

Doddi var afkastamikill, heiðarlegur og glöggur, jafnvel eldklár. Það var því ekki að undra að þeir væru margir sem leituðu eftir þjónustu hans. Vinnudagarnir voru langir og unnið um helgar til að takast á við álagstoppana. Það er launakeyrsla sagði hann, svo vaskur, skil fyrir lögaðila, já topparnir voru margir. Við ræddum það stundum að þetta vinnuálag væri ekki hollt.

Það var dýrmætt að eiga Dodda að. Alltaf var hann tilbúinn að aðstoða mig og gefa mér góð ráð. Eftir að ég hafði látið af störfum naut ég aðstoðar hans þegar ég stofnaði félag um eitt af áhugamálum mínum og auðvitað tók hann að sér að færa bókhaldið og stilla upp ársreikningi. Já, gögnin sem hann sagði mér að fara að koma með eru nú tilbúin. Við ætluðum að renna yfir þau saman og líklega ræða stóru málin fyrst.

Ég kveð hér traustan vin. Ég vissi að það traust var gagnkvæmt og það þykir mér vænt um. Ég votta eiginkonu, fjölskyldu og starfsfólki Þórðar Stefánssonar samúð.

Pétur Þór

Jónasson.

Það er óraunverulegt að skrifa um þig minningargrein, þannig átti það sannarlega ekki að vera. Vinahópurinn ætlaði að eldast saman. Undanfarna daga höfum við hins vegar yljað okkur við góðar minningar liðinna tíma, tíma sem koma ekki aftur. Allar ferðirnar okkar saman, öll matarboðin, þorrablótin, drullurúntarnir og veislurnar, allt þetta eru ómetanlegar minningar núna.

Það er um það bil aldarfjórðungur síðan leiðir okkar lágu saman í gegnum sameiginlega vini. Frá fyrsta degi hefur það vinasamband verið heilt og fallegt. Skemmtileg tilsvör þín gleymast ekki og hrekkirnir, sem aðallega voru fólgnir í því að segja eitthvað sem við trúðum og reyndist svo vera stríðni. Alltaf var hægt að leita til þín með hvaðeina og alltaf réðir þú okkur heilt, fyrir það erum við þakklát. Þú sagðir ýmislegt sem núna er gott að rifja upp. Til dæmis sagðir þú „að tala væri silfur, en að þegja væri gull“. Þú varst einn heilsteyptasti maður sem við höfum kynnst, heiðarlegur og sannur. Þú hefðir líklega ekki viljað að svona yrði skrifað um þig en það er bara ekki annað hægt, svona varstu. Stundum varstu svolítið syfjaður, en það var bara heimilislegt að þú dottaðir svolítið við matarborðið eða í sófanum. Komst svo inn í næstu setningu eins og þú hefðir verið með allan tímann.

Það var alltaf gaman þar sem þú og þið hjónin voruð, alltaf stutt í grínið. Þvílíkir gestgjafar, við höfum ekki tölu á matarboðunum og öllu því sem þið hafið boðið upp á í gegnum árin. Það breytti engu þótt við værum stundum ansi mörg og þó að bættist við eitt og eitt tengdabarn og ég tala nú ekki um barnabörn, það var alltaf nóg pláss fyrir alla.

Samverustundir fjölskyldnanna eru ótal margar og okkar börn hafa leitað til þín með ýmislegt í gegnum tíðina og alltaf greiddir þú götu þeirra og varst líka vinur þeirra.

Um leið og við kveðjum þig elsku heillakarlinn með hjartans þökkum fyrir allt þá munum við gera það sem við getum til að passa upp á Tummu þína. Við lofum líka að „hafa ekkert eftir þér“ og í vor munum við gróðursetja eina Davíðsklukku á góðum stað.

Hvíldu í friði kæri vinur.

Theodóra Kristjánsdóttir og Teitur Björgvinsson.