Sigríður Skarphéðinsdóttir fæddist á Fróðastöðum í Hvítársíðu 3. júlí 1923. Hún lést á Hrafnistu, Hafnarfirði, 7. janúar 2023.

Foreldrar Sigríðar voru Skarphéðinn Magnússon og Kristín Kristjánsdóttir. Bræður Sigríðar voru Kristján, Magnús, Guðbrandur og Baldur, þeir eru allir látnir. Eftirlifandi systir Sigríðar er Þuríður. Þegar Sigríður var liðlega tveggja ára fluttist fjölskyldan að Dagverðarnesi í Skorradal.

Eiginmaður Sigríðar var Pétur Pétursson, f. 16.5. 1917, d. 12.11. 2004. Börn Péturs og Sigríðar eru: Hulda, f. 18.8. 1949, eiginmaður hennar er Guðmundur Egilsson, eiga þau þrjú börn. Skarphéðinn, f. 1.4. 1951, eiginkona hans er Anna Baldvina Jóhannesdóttir, eiga þau fjögur börn. Guðrún, f. 7.3. 1954, eiginmaður hennar er Bjarni Guðmundsson, eiga þau þrjú börn. Pétur Hans, f. 16.1. 1960, eiginkona hans er Laufey Sigríður Jónsdóttir, eiga þau tvö börn, og Kristín, f. 26.2. 1963, eiginmaður hennar er Þorsteinn Sveinsson, eiga þau fjögur börn. Af fyrra hjónabandi átti Pétur Steingrím Guðna, f. 12.11. 1942, sambýliskona hans er Sigríður Jónsdóttir Lepore. Steingrímur Guðni á fjögur börn.

Grunnskólaganga Sigríðar var í farskólum í Skorradal. Hún fór einn vetur í Húsmæðraskólann á Blönduósi og síðar gekk hún í Kennaraskóla Íslands og lauk þaðan handavinnukennaraprófi og kenndi einn vetur í Húsmæðraskólanum á Laugarvatni. Sigríður vann ýmis störf á sinni löngu ævi en lengst af vann hún sem verkstjóri á prjónastofunni Lesprjón sem starfrækt var í Reykjavík. Á þeim tíma var hún öflugur félagsmaður í verkalýðsfélaginu Iðju.

Sigríður var mjög fjölhæf handverkskona, hún saumaði, prjónaði, málaði myndir og skar út í tré. Síðustu ár dvaldi hún á hjúkrunarheimili Hrafnistu í Hafnarfirði. Útför Sigríðar verður gerð frá Ábæjarkirkju í dag, 27. janúar 2023, klukkan 13. Streymt verður frá útförinni:

https://streymi.syrland.is

Elsku mamma. Í dag kveðjum við þig. Mér finnst það svo óraunverulegt því ég var svo sannfærð um að þú ættir eftir nokkur ár með okkur í viðbót.

Ég á svo margar dásamlegar minningar um þig sem ég mun aldrei gleyma og mun varðveita meðan ég lifi. Þú varst svo dásamleg mamma, þolinmóð með eindæmum við okkur systkinin og vildir allt fyrir okkur gera. Við erum stór fjölskylda og við áttum margar góðar stundir saman, allur hópurinn. Minningarnar frá Grensásveginum eru margar og allar bera þær með sér gleði og glaum. Við vorum og erum samheldin fjölskylda og það er sko ekki gefið, en mamma, það er að mínu mati allt þér að þakka. Þú lagðir ríka áherslu á fjölskylduna og að við ræktuðum fjölskyldutengsl og hefðum gaman. Það var líka þannig að þú varst alltaf síðust til að fara heim úr veislum. Eitt af mörgu sem stendur upp úr hjá mér er ferðin okkar tveggja saman til Tenerife þegar þú varst 87 ára gömul. Það sem við áttum góða daga saman.

Ég mun varðveita allar minningar um alla þína umhyggju og hjálpsemi með börnin okkar Steina. Börnin okkar eru rík að hafa átt þig sem ömmu og þau áttu öll sitt sérstaka samband við þig. Þú fylgdist vel með öllum þínum afkomendum og notaðir nútímatæknina til að hjálpa þér við það. Ég hugsa að það séu ekki margir á hundraðasta aldursári sem eru á facebook og snapchat eins og þú varst. Þannig gastu fylgst með okkur öllum.

Ég mun varðveita allar minningarnar um ferðalögin okkar, hinar ótal ferðir í Skorradalinn, bæði í Dagverðarnes og síðar í sumarbústaðinn sem við áttum öll saman, matarveislurnar og litlu stundirnar okkar saman yfir te- og kaffibolla.

Ég mun varðveita minningarnar um það hvað þú áorkaðir miklu á þinni ævi. Þú varst mikil listakona og liggja mörg listaverk eftir þig hjá allri fjölskyldunni. Það var alveg sama hvað þú gerðir, saumaskapur, útskurður, málverk, allt var svo einstaklega vel gert.

Í sumar er 100 ára afmælisdagurinn þinn og vorum við búin að skipuleggja ættarmót afkomenda þinna og pabba. Þú talaðir um að ef þú yrðir á lífi þá myndirðu fá þér þyrlu og fljúga til okkar. En því miður verður ekki af því. Þess í stað munum við heiðra minningu þína og pabba helgina fyrir afmælisdaginn þinn og við lofum að hafa gaman og hlæja mikið. Á afmælisdegi þínum munum við svo leggja þig til hinstu hvílu hjá pabba.

Ég sat hjá þér nóttina sem þú kvaddir. Ég var búin að vera að tala til þín reglulega og láta þig vita að ég væri hjá þér, sat hjá þér og strauk höndina þína. Þú varst svo róleg og friðsæl í svefni þínum. Ég settist í stólinn þinn og hlustaði eftir þér. Í einhverja stund sofnaði ég en svo var eins og það væri sparkað í mig og ég rauk upp úr stólnum og fór að rúmi þínu. Þá hafðir þú verið að taka síðasta andardráttinn. Elsku mamma, það sem það á eftir að fylgja mér að hafa ekki haldið í höndina þína þegar þú kvaddir þennan heim. En ég verð að trúa því að þú hafir notað tækifærið að fara á meðan ég svaf.

Elsku mamma, ég kveð þig í bili.

Þín

Kristín.

Nú er komið að leiðarlokum hjá móður minni Sigríði Skarphéðinsdóttur. Mamma náði 99 árum hér á jörðu og er það löng ævi. Þó veraldleg auðæfi hafi ekki verið mikil þá var líf mömmu langt og viðburðaríkt og það var hennar vilji að lifa lífinu lifandi og hafa gaman. Mamma var mikil dugnaðarkona, uppalin í sveit sem hún elskaði og tengdi sterkt við dalinn sinn Skorradalinn. Fjölskyldan varð þess aðnjótandi að njóta með henni og pabba margra góðra stunda í Dagverðarnesi hjá afa og ömmu og síðar í sumarbústaðnum Bleikstapa.

Mamma var sögukona og vissi mikið um menn og málefni. Fylgdist með fréttum og hafði skoðanir á flestum þeirra. Ég minnist þess að pabbi hafi þurft að biðja hana að tala minna yfir fréttunum þar sem hún þurfti að koma sínum skoðunum á framfæri ekki seinna en núna.

Mamma lagði mikið upp úr því að fylgjast vel með öllum sínum afkomendum sem eru mjög margir. Spurði sífellt okkur börnin hvernig öllum gengi og hafði samband við marga þeirra í gegnum samfélagsmiðla. Hún var á snapchat, facebókinni og messenger 99 ára gömul.

Mamma var lengi heimavinnandi þegar við börnin vorum lítil. Hún tók að sér að sauma föt fyrir fólk sem kom heim í litla eldhúsið á Grensásveginum. Hún var snillingur í saumaskap og það voru forréttindi að eiga mömmu sem gat teiknað, hannað og saumað föt eftir nýjustu tísku hvers tíma.

Ég minnist þess hve leið ég var þegar mamma fór fyrst út að vinna. Það varð allt svo tómlegt, ekki lengur tekið á móti manni með bakkelsi og mjólk. Ekki varð aftur snúið og mamma vann ýmis störf við verslun og saumaskap. Lengst af vann hún á prjónastofu sem hét Lesprjón, þar varð hún fljótlega verkstjóri og ávann sér virðingu þeirra sem hún vann hjá og þeim starfsmönnum sem hún stjórnaði. Hún var í Verkalýðsfélaginu Iðju og var í stjórn þess á tímabili. Mikið hafði hún gaman af að vinna með því fólki sem þar barðist fyrir bættum kjörum verkafólks.

Mamma var mikil handverkskona, þegar hún fór á eftirlaun þá hóf hún að nema ýmislegt sem hún hafði ekki haft tíma til að sinna áður. Hún lærði tréskurð, málun, bútasaum og margt fleira. Allt lék þetta í höndunum á henni. Fjölskyldumeðlimir eiga flestir verk eftir hana og má teljast ótrúlegt hve miklu hún kom frá sér. Fram á síðasta dag að segja málaði hún myndir, saumaði út, heklaði og prjónaði.

Mamma var mikil veislukona, elskaði að halda veislur og fara í veislur. Ógleymanlegar eru lundaveislurnar sem mamma og pabba héldu. Ekki dugðu minna en 100 lundar ofan í mannskapinn. Margar voru veislurnar í gamla húsinu í Dagverðarnesi og síðar í Bleikstapa, á Grensásveginum og Hraunbænum. Húsakynnin voru ekki stór en þá var bara setið þéttar og jafnvel skálað í gini og tónik.

Nú þegar mamma er farin þá fer með henni öll sú viska sem hún bjó yfir og ekki lengur mögulegt að spyrja þess sem við munum ekki en mamma mundi örugglega.

Það er hlutverk okkar afkomenda að halda á loft minningu mömmu og pabba, muna eftir öllum góðu stundunum sem við áttum saman.

Takk fyrir allt, elsku mamma og pabbi.

Guðrún

Pétursdóttir.

Nú er elsku Sigga amma farin á 100. aldursári, mikið sem við erum heppin að fá að hafa hana svona lengi hjá okkur og svona erna og með allt á hreinu fram á síðasta dag. Hún fylgdist vel með öllu sem um var að vera í þjóðfélaginu og maður gat rætt um allt við hana og hún hafði ávallt miklar skoðanir á öllu, sérstaklega í pólitík og stéttarfélagsmálum. Ein af mínu fyrstu minningum er á Grensásveginum í áramótapartíi. Við öll hjá ömmu og afa, öll sex börnin þeirra og barnabörn. Mikill hlátur, gleði og ávallt mikilvæg umræða og gat hitnað í kolunum þegar rætt var um pólitík. Afi sjálfstæðismaður, blár í gegn og amma jafnaðarmaður. Það sem amma og afi voru alltaf dugleg að taka á móti öllum á áramótum og tala nú ekki um lundaveislurnar, fyrst á Grensásveginum og síðar í Hraunbænum. Alltaf svo mikið stuð og að sjálfsögðu gin og tónik í fordrykk. Maður á svo margar góðar minningar um ömmu og afa og svo seinna ömmu eftir að afi féll frá 2004. Öll skiptin sem ég og Sigga systir gistum hjá þeim og oft stundum bara ég því mér fannst svo gaman að gista og suðaði oft um það. Göngutúrarnir í Elliðaárdalnum og margar minningar úr Skorradalnum. Þegar allir gistu í gamla bænum og fjörið sem alltaf var í eldhúsinu þar og síðar í sumarbústaðnum Bleikstapa. Göngutúrar að stóra steini sem amma fór með okkur í. Leitin að ætilegum sveppum til að steikja. Þegar amma og mamma unnu saman í Lesprjón var stutt fyrir mig að labba þangað, fannst ekki leiðinlegt að horfa á ömmu sníða. En alltaf stendur upp úr þessum minningum gleði, hlátur og skraf. Amma var svo mikil handavinnukona, hún var algjör listakona, prjónaði, skar út í við og málaði listaverk. Held það sé ekkert heimili í fjölskyldunni sem á ekki lopapeysu eða málverk eftir hana. Amma var flest jól og áramót með okkur, ef hún var ekki fannst manni alltaf vanta hana. Mörg áramót áttum við heima hjá Siggu systur og Bjarna, amma alltaf til í stuðið og nánast síðust heim. Þær Siggurnar áttu margt sameiginlegt, báðar miklar félagsverur og þeim fannst ekki leiðinlegt að halda ræður og vera í góðum félagsskap. Ömmu fannst erfitt þegar Sigga systir féll frá í janúar 2021. Amma sagði það oft að ef hún hefði fengið að velja þá hefði hún viljað fara í hennar stað en því fékk hún ekki að ráða. Amma sagði rétt áður en hún dó að þær Siggurnar hefðu báðar valið janúar til þess að kveðja þetta líf. En nú sé ég þær saman Siggurnar að skála í cava, hlæja og hafa gaman og Pétur afi situr hjá og hlær með þeim en passar að þetta fari nú ekki allt í vitleysu. Skál elsku Sigga amma og Sigga systir, ég hitti ykkur síðar. Takk fyrir allt, elska ykkur. Knús, Helga.

Við kveðjum þig elsku amma mín,

í upphæðum blessuð sólin skín,

þar englar þér vaka yfir.

Með kærleika ert þú kvödd í dag,

því komið er undir sólarlag,

en minninga ljós þitt lifir.

Leiddu svo ömmu góði guð

í gleðinnar sælu lífsfögnuð,

við minningu munum geyma.

Sofðu svo amma sætt og rótt,

við segjum af hjarta góða nótt.

Það harma þig allir heima.

(Halldór Jónsson frá Gili)

Helga

Guðmundsdóttir.