Jónas Janus Elíasson fæddist 26. maí 1938. Hann lést 8. janúar 2023.

Útför hans var gerð 26. janúar 2023.

Við kynntumst Jónasi þegar við hófum nám í byggingarverkfræði við Háskóla Íslands haustið 1956. Hann kom að norðan frá Menntaskólanum á Akureyri, Vestfirðingur í báðar ættir og bar þess merki, stór vexti, áræðinn og djarfur til allra verka. Námshópurinn náði að kynnast vel, enda langdvölum við landmælingar og vinnu á teiknistofu undir stjórn Finnboga Rúts Þorvaldssonar, prófessors. Að loknu fyrrihlutaprófi fór hópurinn til seinni hluta náms í Kaupmannahöfn, en Sveinbjörn valdi Þýskaland til að læra jarðeðlisfræði. Þeir félagar voru flestir sex fet á hæð og fóru svo mikinn á börum og öðrum skemmtistöðum í Kaupmannahöfn að þeir fengu viðurnefnið Groddarnir. Vináttuböndin entust alla ævi og Sveinbjörn fékk að fljóta með, þótt hann hefði villst undan um skeið. Þegar náminu lauk 1962 voru verkfræðingar á Íslandi í verkfalli og námsmenn hvattir til að koma ekki heim meðan á því stæði. Jónas hafði sérhæft sig í vatnafræði og hafnagerð í Danmörku og vann hér heima hjá Vita- og hafnarmálastjóra og Raforkumálastjóra, fór svo aftur til Kaupmannahafnar og lauk þar doktorsprófi 1973. Þá var kennsla til lokaprófs í verkfræði hafin við Háskóla Íslands og Jónas varð prófessor þar, en stýrði jafnframt straumfræðistöð Orkustofnunar á Keldnaholti. Hann var virkur í félagsmálum, gegndi mikilvægum stjórnunarstörfum á vegum Reykjavíkurborgar og Orkustofnunar og var aðstoðarmaður iðnaðarráðherra 1985-1988. Jónas vann einnig að ýmsum nýmælum og var þar glöggur að velja sér góða samstarfsmenn. Hann breytti vélbúnaði togara til að nýta svartolíu, var einn stofnenda Verkfræðistofunnar Vatnaskil sem ruddi braut í líkanreikningum af streymi grunnvatns og sjávarstraumum, gerði flugmælingar á gosmekki frá Eyjafjallajökli og reikninga um þynningu hans. Jónas var einnig fenginn til sams konar rannsókna á sívirku eldfjalli í Japan. Jónas var góður skákmaður og enn betri briddsspilari. Þegar Groddarnir komu heim frá Danmörku var endurvakinn briddshópur sem Ólafur Gíslason hafði stofnað á gagnfræðaskólaárunum. Þar komst enginn í hálfkvisti við Jónas. Starfsmenn Háskólans eiga sér Menningarfélag sem stundar blak og gufubað með tilheyrandi veigum og góðum veislum. Þar var Jónas ævikjörinn forseti enda manna fróðastur um dýrar veigar. Við sjötugsaldurinn óttuðust samstúdentar, skíðamenn og Groddar að lítið yrði að gera í ellinni og því þótti ráð að reyna sig í gönguferðum. Þá myndaðist gönguhópurinn Alviðra sem hefur nú í 15 ár gengið þrisvar í viku um Elliðaárdalinn og rætt tilveruna á kaffihúsi eftir göngu. Jónas tengdist þessum hópi 2010 og var þar virkur til síðustu daga. Hann var jafnan fyrstur til hjálpar, þegar eitthvað á bjátaði og oftast ráðandi í umræðum, hvort sem rætt var um stjórnmál, trú og vald, borgarlínu eða skuldir borgarinnar, enda með fjölbreytta reynslu og skarpt minni. Fundirnir verða daufari að honum gengnum.

Við vottum Kristínu og allri fjölskyldu Jónasar fyllstu samúð .

Sveinbjörn Björnsson,

Hilmar Sigurðsson,

Ólafur Gíslason,

Sigfús Thorarensen.

Það er erfitt að kveðja gamlan vin og starfsbróður eftir 70 ára kunningsskap og vináttu. Jónas fluttist ungur með fjölskyldu sinni frá Skagaströnd til Akureyrar. Við fylgdumst að í Menntaskólanum á Akureyri, Jónas einum bekk á eftir mér, enda einu ári yngri. Síðan lá leið okkar í fyrrihlutanám í byggingarverkfræði við Háskóla Íslands. Við áttum heima á Nýja-Garði, og tókum þátt í gleði og leik með samstúdentum okkar þá tvo vetur, sem við vorum þar saman. Jónas var þá gjarnan hrókur alls fagnaðar eins og honum var einum lagið. Áfram var haldið til Kaupmannahafnar í seinnihlutanám þar. Það kom í minn hlut sem stjórnarmanns í Félagi íslenzkra stúdenta í Kaupmannahöfn að taka á móti nýjum stúdentum í félagið við hátíðlega athöfn í byrjun haustmisseris 1959. Þar var Jónas í hópi ungra verkfræðistúdenta frá Íslandi, er stóðu þétt saman og kölluðu sig Grodda, enda stórir og fyrirferðarmiklir, Jónas þar fremstur í flokki.

Að loknu verkfræðiprófi ákvað ég að halda áfram námi og fór í doktorsnám við danska tækniháskólann, DTU. Ég fylgdist því með Groddunum síðasta vetur þeirra við DTU, en svo skildi leiðir. Jónas fór heim til Íslands, en ég hélt áfram námi í Kaupmannahöfn og Tókýó. Eftir nokkur ár heima var ég aftur kominn til starfa við DTU í Kaupmannahöfn. Ég hitti Jónas í stuttu sumarfríi 1970. Lýsti hann þá áhuga sínum á að fara í doktorsnám í Kaupmannahöfn, eins og ég hafði gert. Ég hvatti hann eindregið til þess. Jónas hafði þá samband við Frank Engelund á Vatna- og straumfræðistofnum skólans, er hafði leiðbeint honum í lokaverkefni hans til verkfræðiprófs. Honum var tekið fagnandi, og áttum við Jónas nokkur skemmtileg ár saman í Kaupmannahöfn ásamt fjölskyldum okkar. Urðum við að lokum báðir aðstoðarprófessorar (lektorar) við DTU.

Sumarveizlur Jónasar og Assíar konu hans í húsi þeirra í Lille Værløse verða lengi í minnum hafðar. Þar hittust Íslendingar og danskir vinir þeirra hjóna oftlega í miklum gleðskap. Við brölluðum einnig margt saman á þessum árum. Unnum og skrifuðum meðal annars skýrslu fyrir Landsvirkjun um tölfræðilega meðhöndlun á rennslismælingum í Þjórsá við Urriðafoss og Hald, sem vakti á þeim tíma mikla athygli fyrir framúrstefnulega aðferðafræði.

Við urðum svo báðir prófessorar við hina nýju verkfræði- og raunvísindadeild HÍ 1973. Þar áttum við eftir að starfa náið saman í nærri fjóra áratugi. Jónas var afar litríkur persónuleiki og tók upp mikið rými, bæði líkami hans og hugur. Honum var ekkert óviðkomandi, og hafði hann ákveðna skoðun á öllum hlutum. Því urðu oft afar fjörugar umræður á kaffistofunni í verkfræðideildarhúsinu við Hjarðarhaga. Nú er þessi góði drengur allur, og munu því beittir og hnitmiðaðir pistlar hans í Morgunblaðinu um ýmis þjóðfélagsmál, sem hann sá ástæðu til að vekja athygli á og gagnrýna, ekki birtast þar lengur. Er eftirsjá að þeim.

Ég votta Kristínu sambýliskonu hans, börnum Jónasar og Assíar, Helgu og Erlingi Elíasi, svo og Guðmundi, syni hans og Kristínar, innilega samúð mína.

Edvarð Júlíus

Sólnes.

Kveðja frá Umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands

Umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands kveður dr. Jónas Elíasson verkfræðing og prófessor. Jónas lauk fyrrihlutaprófi frá verkfræðideild Háskóla Íslands árið 1959, cand. polyt. (MS-próf) frá DTH (nú DTU) í Kaupmannahöfn árið 1962 og lic. techn. (doktorspróf) frá DTH árið 1973. Jónas hóf störf sem prófessor við verkfræði- og raunvísindadeild Háskóla Íslands árið 1973 og starfaði við skólann uns hann fór á eftirlaun árið 2008 og varð þá prófessor emeritus. Eftir það hélt hann áfram rannsóknarstörfum í samstarfi við innlendar og erlendar stofnanir og vann ötullega að rannsóknum sínum til síðasta dags.

Jónas var alla tíð virkur í rannsóknum og lagði áherslu á vatna- og straumfræði. Meðal viðfangsefna má nefna rannsóknir á náttúruhamförum svo sem flóðum og eldgosum og áhrifum þeirra á mannvirki og samgöngukerfi. Jónas ritaði og var meðhöfundur að fjölda vísindagreina sem birtust í alþjóðlegum vísindaritum og á ráðstefnum, auk margvíslegra greiningar- og rannsóknarskýrslna fyrir íslenskar stofnanir. Jafnframt var hann duglegur að kynna rannsóknir sínar á opinberum vettvangi, ritaði blaðagreinar og hélt fyrirlestra. Jónas hafði mikil áhrif með verkum sínum og þróaði meðal annars aðferðir sem notaðar eru við ákvörðun hönnunarúrkomu á Íslandi. Þá var hann verkefnisstjóri við fyrsta eiginlega mat á umhverfisáhrifum framkvæmda á Íslandi þar sem sérfæðingar í verkfræði og raunvísindum við Háskóla Íslands greindu og mátu áhrifin sem yrðu af Fossvogsbraut. Jónas leiðbeindi fjölda stúdenta í framhaldsnámi til doktors- og meistaragráðu. Uppbyggingarstarf við Háskóla Íslands var honum hugleikið og hann vann að þróun námsleiða og kennslu í umhverfis- og byggingarverkfræði. Jónas var farsæll prófessor og verkfræðingur sem var þekktur fyrir frumkvæði og fagmennsku. Framlag hans við að efla verkfræði á Íslandi og alþjóðlega með störfum sínum og rannsóknum er lofsvert.

Samstarfsfólk og stúdentar sem nutu leiðsagnar Jónasar minnast hans ekki síður sem hróks alls fagnaðar á mannamótum. Þeir jólafagnaðir sem hann átti þátt í að skipuleggja við Verkfræðistofnun verða lengi í minnum hafðir.

Það er með söknuði og virðingu sem ég kveð dr. Jónas Elíasson prófessor fyrir hönd starfsfólks og stúdenta umhverfis- og byggingarverkfræðideildar Háskóla Íslands. Ég sendi fjölskyldu hans, vinum og samstarfsfólki innilegar samúðarkveðjur.

Guðmundur Freyr Úlfarsson.

Þegar Eyjafjallajökull tók upp á því að gjósa í apríl 2010 myndaðist mikil krísa í öllu flugi í Vestur-Evrópu og á Norður-Atlantshafi. Lítil geta var til að mæla þessa hættulegu mengun í lofti og hér á landi var enginn búnaður til slíkra loftfimleika. Þá var það að Jónas Elíasson, kollegi minn og vinur, tók frumkvæðið og taldi vel hugsanlegt að hrinda slíkum mælingum af stað án tafar. Með dyggri aðstoð Flugstoða/Isavia, sem fjármagnaði tilraunina, fann Jónas og fékk lánaðan til verksins rykagnamæli, sem notaður hafði verið við gerð jarðganganna í Kárahnúkavirkjun. Flugstoðir útveguðu eins hreyfils flugvél, TF-TAL, til að fljúga á vettvang með búnaðinn og Jónas. Tekið var til óspilltra málanna að koma mælinum fyrir í flugvélinni, sem kallaði á mikla útsjónarsemi og þekkingu á straumfræði loftsins. Hér var Jónas í essinu sínu og unnu hann og flugmaðurinn, Sverrir Þóroddsson, vel saman að þessu verkefni. Síðan var flogið á vit Eyjafjallajökuls og safnað mæligögnum eins og enginn væri morgundagurinn. Mælingar voru gerðar á jaðri gosstróksins og vel inn í hann svo varla sá handa skil. Í ljós kom að tölvuspár um þéttni gosöskunnar utan stróksins voru mjög ýktar en strókurinn sjálfur þykkur og dimmur.

Margir urðu til að efast um að þessar mælingar væru réttar, mælitækin væru ekki vísindatæki, hefðu ekki verið í notkun lengi og leiðslur og tengingar óprófaðar þótt fagmaður hefði farið um þær höndum. Prófanir, sem gerðar voru af prófessor Weber á mælibúnaði Jónsar í Tækniháskólanum í Düsseldorf síðar um sumarið 2010, leiddu hinsvegar í ljós, að hann stóðst allar prófanir. Varð þetta upphafið á farsælu samstarfi um mælingar á gosösku þeirra félaga Jónasar og Konradin Weber. Áður en langt var um liðið voru þeir farnir að vinna með prófessor Yoshitani við Háskólann í Kyoto í Japan. Þar gegndi Jónas stöðu „visiting professor“ og kenndi mönnum flugmælingar yfir eldfjallinu Sakurajima, sem gýs án afláts.

Einu ári eftir að Eyjafjallajökull gaus, í maí 2011, varð stórgos í Grímsvötnum. Og flugheimurinn skalf af ótta við að nú væri hafið annað hörmungartímabil í flugsamgöngum Vesturheims. Hér á landi var flugvöllunum í Reykjavík lokað því enn bárust válegar tölvuspár frá London um mikla gosösku í loftrýminu yfir Íslandi og á leið til Vestur-Evrópu. Þá var Jónas kallaður til og hóf flugmælingar yfir suðvesturhorni landsins, sem leiddu í ljós að lítil sem engin mengun væri í loftinu yfir og í grennd við þessa flugvelli. Umferð um flugvellina hófst því aftur einum og hálfum sólarhring eftir að gosið hófst og var þeim haldið opnum þá fáu daga sem hrinan stóð yfir með endurteknum flugmælingarferðum.

Samvinna Jónasar við erlendu kollegana á fræðilegum grunni var líka farsæl þótt hún væri unnin án sérstakra fjárstyrkja. Þeir félagar Jónas og Konradin Weber hafa á undanförnum áratug birt sem aðalhöfundar nær tuttugu vísindagreinar og ráðstefnuerindi um mælingar og spár um útbreiðslu gosösku á Íslandi og í Japan ásamt prófessor Yoshitani.

Jafnframt lögðu þeir fram gögn til rannsókna prófessors Arnold Heemink við Tækniháskólann í Delft, sem hann hóf í tilefni af flugmælingunum á öskunni úr Eyjafjallajökli. Um er að ræða nýjar aðferðir til að leiðrétta tölvuspár um útbreiðslu gosösku í andrúmsloftinu. Tveir kandidatar hafa ritað doktorsritgerðir um þessar rannsóknir og birt fjölda fræðigreina með tilvísanir í Jónas.

Framangreind atburðarás lýsir vel eiginleikum manns sem lét ekkert aftra sér frá því að takast á við þau vandamál samfélagsins, sem urðu á vegi hans, eins og alþjóð þekkir. Jónas var sívakandi yfir öllu sem snerti hans áhugasvið sem voru mörg þótt tækni og vísindi væru alltaf í fyrirrúmi. Hans verður því saknað af síðum Morgunblaðsins. Eins munum við félagar hans í viðhaldi og endurnæringu kroppsins sakna hans í íþróttasal Háskólans, þar sem hann var óumdeildur leiðtogi meðal jafningja.

Fyrir hönd okkar Önnu votta ég Kristínu og fjölskyldu Jónasar innilega samúð okkar vegna fráfalls hans, sem við félagar hans og vinir hefðum svo gjarnan vilja hafa með okkur miklu lengur.

Þorgeir Pálsson.

Ég sá Jónas fyrst fyrir um 30 árum. Ég man eftir honum þar sem hann gekk um ganga VRII, stór vexti klæddur í beige-litaðar buxur og jakka. Við Jónas áttum síðar samleið er leiðir okkar Ella lágu saman.

Jónas var stór maður vexti og bjó yfir stórum persónuleika. Honum lá hátt rómur, var skrafhreifinn, hláturmildur og hafði skoðanir á hlutunum. Fátt var honum óviðkomandi, enda var hann fróður um margt og kunni frá mörgu að segja, og vel minnugur var hann. Þekking hans og kunnátta í mannkynssögu, stjórnmálasögu, trúarbragðasögu og raunvísindum var nær óþrjótandi. Miðlaði hann oft fróðleik sínum í samtölum við aðra eða með skrifum sínum. Mörg málefnin voru honum hugfólgin og tjáði hann sig á opinberum vettvangi allt fram á síðasta dag.

Jónas var vina- og fjölskyldurækinn maður. Hugsaði vel um sína, fylgdist með barnabörnunum sínum í lífi, leik og starfi og var þeim hjálpsamur. Jónas var okkur hjónum greiðvikinn, gat nær alltaf skotist með strákana eða sótt þá í tómstundirnar ef þörf var á, þrátt fyrir þéttskipaða dagskrá hjá honum sjálfum. Gott dæmi er þegar hann tók að sér að sækja strákana, sagðist vera laus, tók þá svo með sér í minningarathöfn. Strákarnir alsælir þegar þeir sögðu okkur foreldrunum að þeir hefðu fengið svo góðar veitingar í erfidrykkju með afa. Þó að Jónas hafi yfirleitt haft tíma til að hlaupa undir bagga og redda málum fyrir fjölskylduna, þá var ákveðinn tími vikunnar alltaf frátekinn, sama hvað, en það var síðdegis á föstudögum. Þá fór Jónas með vinnufélögum sínum í háskólanum í leikfimi og í gufubað á eftir. Sá tími var í gamni kallaður „Holy Smoke“.

Það er margs að minnast. Stóru og smáu fjölskylduboðanna þeirra Jónasar og Stínu, þar sem Jónas sat við enda borðs og naut samverunnar með sínu fólki. Margt var rætt og skrafað. Þá er að minnast ferðalaganna um páska og sumur og helgarheimsóknanna þegar hann leit inn hjá okkur í hádeginu í te og heimabakað súrdeigsbrauð, og áramótaboðanna með söng, gleði og þakklæti fyrir það gamla. Þar átti Jónas sinn sess sem forsöngvari þegar sungin voru áramótalögin, og hóf raust sína manna hæst í lokaerindinu um Ólaf Liljurós. Erindin söng hann í löngum laglínum, hástöfum með sinn hvíta „Al Capone“-hatt á höfði. Margar eru minningarnar um gleði og góða tíma.

Það er mikil eftirsjá að Jónasi. Hann mun eiga stóran stað í hjörtum okkar. Minning um merkan og góðan mann mun lifa.

Hafðu þökk fyrir allt og allt kæri Jónas.

Theodóra.

Kveðja frá Menningarfélagi Háskóla Íslands

Það munu vera um tveir aldarþriðjungar síðan Valdimar Örnólfsson kom til starfa sem íþróttastjóri Háskólans. Hann stofnaði meðal annars til leikfimitíma fyrir háskólakennara og aðra starfsmenn. Smám saman myndaðist allþéttur hópur iðkenda sem sóttu þessa tíma þrisvar í viku. Auk hefðbundinna líkamsæfinga var með tíð og tíma blakleikur fastur þáttur í þessum íþróttatímum og hefur haldist svo til þessa dags. Að leik loknum var gjarnan haldið í gufubað þar sem málefni dagsins voru rædd og krufin. Kvisaðist út um háskólasamfélagið að þarna væri mikilvægum ráðum ráðið og stundum sagt í hálfkæringi að ekkert mál mætti til lykta leiða í háskólaráði nema það hefði áður verið fullrætt í gufunni.

Í þessum hópi var Jónas Elíasson sjálfsagður foringi og fremstur meðal jafningja. Hans kraftmikli persónuleiki þoldi enga deyfð eða drunga. Hann vildi hafa fjör í kringum sig. Það var því eðlilegt að hann hefði forgöngu um að stofna félagsskap meðal íþróttahópsins sem hlaut nafnið Menningarfélag HÍ. Nafngiftin var dæmigerð fyrir það glens og grín sem einkennir ávallt félagið en í þessu tilviki var það að bjórmenning fluttist til Íslands sem átti þátt í stofnun félagsins og þeirrar hefðar að skála í öli við hvert tækifæri sem gafst. Þá var gjarnan kastað fram frumortum vísum og öðrum „menningarauka“. Öllu þessu stýrði Jónas af krafti og með húmor. Hann var sjálfskipaður og óumdeildur forseti félagsins með tvo „handhafa forsetavalds“ sér til aðstoðar.

Jónas hafði frumkvæði að því að félagið héldi árlega hátíð fyrsta laugardag í hörpu og nefnist Hörpuhátíð. Er hún ýmist haldin í Reykjavík eða utanbæjar. Þessum samkomum stýrði Jónas af röggsemi en þær byrjuðu ávallt á því að hann kynnti fyrir gestum þau borðvín sem hann hafði valið. Þar var ekki komið að tómum kofunum því hann var sjófróður um víntegundir, hinar ýmsu þrúgur og vaxtarskilyrði þeirra. Á Hörpuhátíðum er gjarnan lagt mikið í skemmtiatriði, í bundnu máli sem óbundnu, og jafnvel soðnar saman „óperur“ til flutnings þar. Ævinlega með flutningi hljómsveitar félagsins, Rimlabandinu, sem er líklega eina hljómsveit landsins sem eingöngu er skipuð prófessorum.

Eins og sjá má af ofangreindu var aldrei lognmolla í kringum Jónas. Er þá ótalið sitthvað sem tilheyrir „launhelgum“ félagsins og ekki verður rætt hér. Hvort sem var á formlegum samkomum eða óformlegum í búningsklefanum var einlægt líf og fjör í kringum forseta vorn. Við Menningarfélagar þökkum honum áratuga forystu og allar þær gleðistundir sem hann hafði forgöngu um. Við munum sakna hans um ókomin ár.

Persónulega var gott að eiga vináttu Jónasar. Þar bar aldrei skugga á þó að skoðanir okkar á hinum ýmsu málum, andlegum sem veraldlegum, færu oft ekki saman. Því Jónas var fyrst og fremst góðgjarn og tryggur vinur vina sinna.

Kristínu konu hans, börnum og öðrum aðstandendum votta ég innilega samúð.

Hörður

Filippusson.

Jónas Elíasson var stór. Hann var ekki bara stórvaxinn, hann var stór í öllum merkingum þess orðs. Hvar sem hann kom átti hann sviðið. Honum lá hátt rómur og hafði skoðanir og vit á flestu sem bar á góma. Aðrir minnast akademískra afreka hans, en hann var afskaplega vel lesinn og áhugasamur um allt frá djasstónlist til trúarbragða, að ekki sé minnst á skipulagsmál og stjórnmál.

Það var gaman að ferðast með Jónasi um landið. Ef farið var í sumarbústað komu þau Stína á Hvalnum og þegar áð var á leiðinni voru umsvifalaust dregin fram borð og stólar og boðið upp á kaffi og aðrar veitingar.

Hann hafði víða unnið sem verkfræðingur á árum áður og var leiðsögumaður í gönguferðum um fjarlægari svæði landsins. Minnisstæð er hellaskoðunarferð þar sem opið inn í hvelfinguna var svo þröngt að þessi stóri maður komst ekki í gegn. Þá lét hann setja sig á þotu og troða sér í gegn, þá kominn á áttræðisaldur.

Eftirminnilegt er líka ferðalag um Texas fyrir nokkrum árum, þá naut sín vel afburðaþekking hans á sögu Bandaríkjanna og hinum ýmsu stríðum.

Hann var stemningsmaður og alltaf líflegt í kringum hann. Þorrablót saumaklúbbsins verða ekki svipur hjá sjón hér eftir.

Jónas var greiðvikinn og góðhjartaður og vildi hvers manns vanda leysa, tókst það oft.

Hann gat verið í miðri stórkarlalegri frásögu eða rökræðum, en ef lítil manneskja vildi ná athygli hans, var umsvifalaust hætt í miðri setningu og sú litla fékk óskipta athygli um sinn. Enda ber hann oft á góma hjá Kamilludætrum, 2ja og 4ra ára.

Þökkum áratuga samfylgd og söknum hjartahlýs fagurkera.

Elín Guðmundsdóttir

og Kamilla Sigríður

Jósefsdóttir.

Mér brá í brún þegar ég frétti lát vinar míns dr. Jónasar Elíassonar verkfræðings, svo kraftmikill var hann þegar við hittumst síðast.

Þessi skemmtilegi, duglegi og bráðklári maður hefur verið félagi minn í forystusveit Stúdentafélags Reykjavíkur í áratugi og hafa samskiptin við hann verið ánægjan ein alla tíð. Þá áttum við samleið í Áhugahópi um auðlindir í almannaþágu, sem ítrekað benti á nauðsyn breytinga á lögum og reglum um stjórn fiskveiða.

Jónas hafði mikinn áhuga á margvíslegum þjóðþrifamálum og lét víða til sín taka og talaði einatt fyrir almannahagsmunum gegn sérhagsmunum. Hann kom þannig alls staðar góðu til leiðar, setti sig vel inn í mál og kynnti sjónarmið sín tæpitungulaust.

Emeritus verkfræðiprófessorinn vígreifi lét og ekki deigan síga þótt árin færðust yfir.

Guð geymi minningu þessa góða drengs. Fjölskyldu hans votta ég samúð.

Tryggvi

Agnarsson.

Jónas Elíasson var þeim eðliskostum búinn, að það var jafnan gaman að starfa með honum. Við í framvarðasveit Félags sjálfstæðismanna um fullveldismál nutum þess einstaklega vel og kynntumst því að hann taldi ekki eftir sér að taka að sér verkefni og klára þau auk þess sem hann var góður og gefandi vinur og félagi, sem verður sárt saknað.

Jónas var áhugamaður um marga hluti, en ég kynntist honum helst á árum áður í starfi fyrir Sjálfstæðisflokkinn þar sem komið var að fjölbreyttum atriðum. Síðar í baráttunni fyrir réttmætri skiptingu þjóðarauðlindarinnar þar sem við börðumst fyrir breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu til þess að alls yrði gætt, verndarsjónarmiða, hagkvæmni, atvinnufrelsis og eðlilegrar nýliðunar í greininni, auk þess sem gætt væri að því að auðlindin yrði í eigu og nýtt í almannaþágu.

Þegar Félag sjálfstæðismanna um fullveldismál var stofnað gerðist Jónas stofnfélagi og var kosinn í framkvæmdastjórn á fyrsta fundi. Hann var síðar einn ötulasti baráttumaðurinn í félaginu og lagði mikið af mörkum varðandi stefnumótun félagsins og starfsemi. Við nutum þess félagar hans að hlusta á hann útskýra þau helstu mál sem hann bar fyrir brjósti, en það gerði hann jafnan af mikilli rökhyggju og honum var annt um framgang þeirra mála sem hann tók upp.

Við færum aðstandendum Jónasar hluttekningu okkar og samúð um leið og við kveðjum góðan vin og félaga.

F.h. Félags sjálfstæðismanna um fullveldismál,

Jón Magnússon.