Sesselja Stella Benediktsdóttir fæddist 30. maí 1944. Hún lést 20. desember 2022. Útför hennar fór fram 9. janúar 2023.

Elskuleg móðir okkar, við minnumst hennar með söknuði og sorg í hjarta. Í okkar huga fór hún of snemma, en samt í hennar anda að nýta aðventuna í ferðalagið stóra, en hún var víðförul og mikið jólabarn. Því miður náði hún ekki að halda jólin með okkur, en við minnumst hennar og hefðanna sem hún innprentaði í okkur að við héldum jólin í hennar anda.

Hún vildi alltaf hafa stór jólatré, margar jólaseríur og fullt af skrauti. Í minningunni voru trén 3-4 metrar, heilög og litrík. Fullt af pökkum undir trénu og mikil mystík í kringum sveinana þrettán sem komu hver á fætur öðrum og gáfu fallegar gjafir þrátt fyrir ýmsan prakkaraskap sem við krakkarnir tókum upp á. Síðastur kom Kertasníkir með bækur handa okkur og voru teiknimyndabækurnar í uppáhaldi.

Æskustöðvarnar voru fullar af krökkum í hverfinu sem var okkar leiksvæði. Það var farið í fótbolta, eina krónu og á veturna var hægt að fara á skauta í götunni. Við vorum allan liðlangan daginn úti við, en áttum alltaf athvarf hjá mömmu.

Þrátt fyrir brunasár, brákuð eða brotin bein þá þerraði hún tár og kyssti á bágtið. Hún veitti okkur frelsi til að reyna á okkur og frelsi til að ráða okkur. Hún elskaði fólkið sitt og hjúfraði okkur í sinn faðm.

Hjartans þakkir elsku mamma fyrir allar minningarnar og umhyggjusemi þína.

Börnin þín,

Guðrún, Rúnar, María og Grétar.