Ólafur Valdimar Oddsson fæddist 8. september 1935 í Sælingsdal, Dalasýslu. Hann andaðist á Landspítalanum í Fossvogi 12. janúar 2023.

Foreldrar hans voru Valfríður Ólafsdóttir, f. 30. júlí 1893, d. 9. september 1984 og Oddur Bergsveinn Jensson, f. 9. apríl 1880, d. 29. júlí 1962.

Ólafur var yngsta barn þeirra hjóna. Systkini hans eru: Helga, Alfons, Guðrún Valfríður, Rósa, Hallgrímur Pétur, Þórdís og Katrín Ólafía, eftirlifandi systir Ólafs er Rósa.

Hinn 25. desember 1957 gekk Ólafur í hjónaband með Sigurhönnu Ágústu Einarsdóttur, f. 10. febrúar 1937, frá Vestmannaeyjum. Foreldrar hennar voru Einar Sveinn Jóhannesson, f. 13. apríl 1914, d. 26. september 1994 og Sigríður Ágústdóttir, f. 5. júní 1912, d. 14. október 1996.

Ólafur og Ágústa eignuðust fjögur börn:

1) Einar Sveinn, f. 10. október 1957. Maki Hafdís Gísladóttir og börn þeirra eru: a) Sigurhanna Ágústa, synir hennar eru Hallberg Helgi og Einar Sveinn, b) Guðmundur Grétar.

2) Sigríður, f. 7. mars 1959. Maki Karl Júlíus Sigurgíslason og synir þeirra eru: a) Ólafur Valdimar, sonur hans Aron Óli, b) Sigurgísli, c) Bjarki Freyr, maki Meghan Guarino, synir þeirra: a) Runi Stefán, b) Siggi Júlíus.

3) Bergsveinn, f. 5. ágúst 1960. Maki Inger María Schweiz Ágústsdóttir og dætur þeirra: a) Ellen María, maki Davíð Þórisson, dætur þeirra Lilja María og Sunna Dóra. b) Ágústa Björk, maki Sigurður Gísli Eiríksson, dætur þeirra, Aníta, Björk og Helga. c) Kristín Helga, maki Matthías Björnsson, börn þeirra Karitas Arna, Katrín Rán og Marinó Bessi.

4) Óskar Ólafsson, f. 8. september 1963. Maki Astrid Sigurðardóttir, sonur þeirra Adam Örn, maki Ingibjörg Sigursteinsdóttir, synir þeirra: a) Patrick Árni, Theódór Óskar. Fyrir á Adam dótturina Maríu Rós.

Útförin fer fram frá Digraneskirkju í dag, 27. janúar 2023, klukkan 15.

Elsku Óli minn.

Ég veit að þú hjá englum ert

og ekkert getur að því gert.

Í anda ert mér alltaf hjá

og ekki ferð mér frá.

Ég veit þú lýsir mína leið

svo leiðin verði björt og greið.

Á sorgarstund í sérhvert sinn

ég strauminn frá þér finn.

Ég Guð nú bið að gæta þín

og græða djúpu sárin mín.

Í bæn ég bið þig sofa rótt

og býð þér góða nótt.

(S.P.Þ.)

Þín eiginkona,

Ágústa.

„Pabbi hvernig er hægt að leysa þetta?“ Já hann pabbi var útsjónarsamur, laginn og hjálpsamur.

Hann pabbi hjálpaði og miðlaði þekkingu til okkar sem hann hafði lært í skóla lífsins. Já skóla lífsins, honum stóð ekki til boða að ganga menntaveginn það var nefnilega ekki á færi allra á þeim tímum sem hann ólst upp.

Hins vegar vann hann við mörg verkefni sem voru lykill að því góða lífi sem við búum við í dag. Öll vinna á þessum tíma var líkamleg erfiðisvinna, vinna fyrir hrausta. Vinnutími langur, já það hentaði ungum mönum sem voru að koma upp heimili, metta börnin og komast í sitt eigið húsnæði.

Pabbi vann alltaf langan vinnudag, aukavinnu við að naglhreinsa og skafa timbur til að afla tekna til að skapa framtíð. Framtíðin með henni mömmu, þau voru samheldin, iðin, vinnusöm og höfðu framtíðarsýn fyrir börnin.

Þau keyptu fyrstu íbúðina við Álfhólsveginn fokhelda. Það var ódýrara að kaupa fokhelda íbúð því pabbi gat einangrað pússað og málað hana sjálfur með aðstoð ættingja, vina og átt vinnuskipti. Þetta var allt gert eftir venjulegan vinnudag og um helgar.

Gildi pabba í lífinu voru heiðarleiki, standa við það sem hann sagði. Handsal var ígildi undirskriftar.

Hann tók mig einu sinni á eintal er ég var að skrönglast heim eftir skrall í gráum jakkafötum „Einar, mig langar að biðja þig um eitt! „Stattu alltaf við það sem þú tekur að þér eða lofar. Ef þú segist ætla að mæta í vinnu á laugardagsmorgni þá mætirðu. Ef þú gerir það þá mun þér farnast vel.“

Ég átti þess kost sem krakki að fara í vinnuna með pabba, taka þátt í atvinnulífinu. Það var þroskandi og margt sem er alveg ógleymanlegt hvort sem það var að fá að dæla bensíni á bíl á Shell-bensínstöðinni við Suðurlandsbraut eða berja hamp í múffur í holræsalagnir í Bústaðarveginum. Skóli lífsins 101.

Stundum fannst manni kallinn vera gamaldags að skilja ekki og átta sig ekki á hvað skipti máli í nútímanum. Það urðu árekstrar, báðir með sterkar sýn á hvað skipti máli fyrir framtíðina og unga fólkið. Ungi maðurinn taldi mikilvægt að kaupa sér brúnar smekkgallabuxur til að var í tískunni fyrir hálfan handlegg meðan pabbi taldi þetta vera sóun. Þetta heitir víst kynslóðabil sem erfitt getur verið að brúa.

Pabbi hafði tekið þátt í fjölbreyttum verkefnum í störfum sínum í gegnum tíðina. Aukavinnan eins og helluleggja, smíðað palla, standsetja lóðir urðu á endanum hans aðalstarf og stofnaði hann verktakafyrirtækið sem sinnti gatrnagerð og uppbygging innviða, t.d. í nýjum hverfum Kópavogs.

Pabbi átti sér paradís Sælingsdal vestur í Dölum, í hans augum var það einstakur staður á jarðkringlunni. Þar fæddist hann og ólst upp þekkti alla stokka og steina. Hann byggði sumarhús á Laugum, upp á hól skyldi bústaðurinn byggður, þar sem hann hefði útsýni yfir sína sveit.

Nú er hann farinn í grænu brekkurnar í sumarlandinu þar sem hann hittir fyrir sitt fólk. Hvíl í friði pabbi, takk fyrir allt og allt.

Einar Sveinn

Ólafsson.

Elsku tengdapabbi minn lést 12. janúar eftir erfið veikindi og er farinn í sumarlandið. Ég kveð þig með þessu ljóði, Einstakur:

„Einstakur“ er orð

sem notað er þegar lýsa á

því sem engu öðru er líkt

faðmlagi eða sólarlagi

eða manni sem veitir ástúð

með brosi eða vinsemd.

„Einstakur“ lýsir fólki

sem stjórnast af rödd síns hjarta

og hefur í huga hjörtu annarra.

„Einstakur“ á við þá

sem eru dáðir og dýrmætir

og hverra skarð verður aldrei fyllt.

„Einstakur“ er orðið sem best lýsir þér.

(Teri Fernandez)

Þinn tengdasonur

Karl Júlíus.

Elsku afi minn.

Við fjölskyldan sitjum heima í Virginíu að rifja upp minningar um hann afa. Fyrstu minningarnar um afa eru af hestum og vinnuvélum sem voru svo spennandi í bernsku. Ég man vel eftir þeim degi þegar ég fékk Komatsu-dótagröfuna í gjöf sem var alveg eins og grafan sem afi átti. Maður fylgdist með vinnuvélunum í hillingum og beið eftir því að verða nógu gamall til að fá að vinna fyrir afa eins og bræðurnir. Síðast en ekki síst þá var enginn vafi á því að að hann afi var Dalamaður. Það var alltaf svo notalegt að heimsækja ættarmót í Dalina og ekki versnaði ástandið þegar bústaðurinn var byggður. Ég er svo þakklátur að eiga minningar af okkur að sitja með kaffibolla uppi í bústað og hlusta á afa segja okkur sögur af sínum árum í Sælingsdal sem barn.

Hvíl í friði, elsku afi.

Bjarki Freyr, Meghan, Runi Stefán og

Siggi Júlíus.

Elsku afi minn og nafni, nú er kominn tími til að kveðja, ég var svo heppinn að fá að njóta nærveru þinnar í 44 ár sem er ekki sjálfgefið. Þú gafst mér margt sem hægt er að nota í lífinu og hugsaðir einstaklega vel um mig, fyrir það er ég gríðarlega þakklátur. Ef ég hringdi þá varstu mættur, alltaf klár í bíltúr, hestbak, kíkja í dalina eða hádegismat. Þú varst fyrstur til að ráða mig í vinnu, þegar ég var 12 ára, það var heldur betur góður skóli fyrir mig. Ef veðrið var vont þá fékk maður að fara á rúntinn með þér, ég og Sigurgísli bróðir vorum að rifja upp þegar maður stökk um borð í Volvoinn, þá var miðstöðin yfirleitt í botni og ekki séns að halda sér vakandi í þessum hita. Þegar kom að vinnu var margt sem þú gerðir einhvers konar listaverk sem þú skilur eftir þig, hvort sem það var að hlaða steinveggi í görðum eða helluleggja fyrir einhvern, þú varst sanngjarn, kannski einum of sanngjarn stundum.

Elsku afi, takk fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig, þetta eru orðin mín. Þau eru stríð. Þau eru fá. Þau sjálfsagt aldrei flugi ná. Þau munu engu að síður alltaf bíða þín, eins og segir í laginu.

Ólafur Valdimar Júlíusson.