Björn Bjarnason Kristjánsson fæddist í Reykjavík 25. mars 1933. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Móbergi á Selfossi 6. janúar 2023.

Foreldrar hans voru Kristján Guðmundsson frá Villingadal, kaupmaður, f. 28. maí 1892, d. 30. ágúst 1977, og Sigrún Vilhelmína Sveinsdóttir frá Skagaströnd, húsmóðir, f. 24. ágúst 1905, d. 15. júní 1971.

Bræður Björns voru Guðmundur H., fv. kaupmaður, f. 14. október 1926, d. 14. ágúst 1974, Sigurður Jón, fv. bátsmaður, f. 18. ágúst 1928, og Ríkharður Sveinn, fv. kaupmaður, f. 15. febrúar 1931, d. 16. janúar 2002.

Fyrrverandi eiginkona Björns var Sigrún Oddgeirsdóttir, f. 18. maí 1937, d. 8. ágúst 2012. Björn og Sigrún eignuðust fimm börn: 1) Oddgeir, f. 27. janúar 1957, d. 21. júní 2019. Eiginkona hans var Rósa Ingibjörg Jónsdóttir, f. 31. mars 1963. Börn Oddgeirs og Rósu eru Sigrún, f. 1985, og Oddgeir Hlífar, f. 1994. Sonur Oddgeirs og Laufeyjar Sigurðardóttur, f. 4. júní 1955, er Sigurður Björn, f. 1981. 2) Matthías, f. 26. febrúar 1960. Eiginkona hans er Anna Elínborg Gunnarsdóttir, f. 14. apríl 1964. Dætur þeirra eru Brynja, f. 1994, og Diljá, f. 1994. 3) Birna Rún, f. 29. maí 1966. Sonur Birnu og Helga Einarssonar, f. 19. apríl 1960, er Ísleifur Kári, f. 1990. 4) Hildur Rún, f. 27. október 1969. Börn Hildar og Halls Guðbjartar Hilmarssonar, f. 12. ágúst 1969, eru Ágúst Freyr, f. 1994, Kristján Þór, f. 2002, og Sigrún Ósk, f. 2010. 5) Kristján, f. 5. maí 1972, d. 10. september 2000.

Björn ólst upp á Vesturgötunni, ungur að aldri hóf hann að stunda knattspyrnu með knattspyrnufélaginu Víkingi og síðar handbolta með sama félagi. Hann lauk námi frá Verzlunarskóla Íslands. Eftir námið starfaði hann við verslanir föður síns, Krónuna á Vesturgötu, og í Mávahlíð og einnig í Kjötmiðstöðinni við Laugalæk. Björn var kaupmaður mestan sinn starfsferil og rak verslun sína, Mýrarbúðina við Mánagötu 18, til loka ársins 1990.

Björn giftist Sigrúnu Oddgeirsdóttur 14. mars 1959, tók hún þátt í verslunarrekstri þeirra hjóna. Þau skildu árið 1985.

Björn var dómari í handbolta og dæmdi mikið bæði hér heima og erlendis. Hann fékk milliríkjaréttindi árð 1970 og var eftirlitsdómari á alþjóðlegum mótum. Seinni árin lagði Björn stund á golf og var í Golfklúbbi Ness.

Síðustu árin bjó Björn á Aflagranda 40 í Reykjavík.

Björn verður jarðsunginn frá Bústaðakirkju í dag, 27. janúar 2023, og hefst athöfnin kl. 13.

Elsku pabbi er látinn, hann hefur fengið hvíldina löngu. Tómarúmið sem myndast við að missa föður verður fyllt með kærum minningum af tilvist okkar saman.

Þú varst mikil félagsvera og hrókur alls fagnaðar. Hlátrasköllin glumdu oft hátt í kringum þig. Þú varst vinamargur og áttir nána vini sem stóðu þér við hlið alla ævi. Þú eignaðist fallega fjölskyldu sem þú varst afar stoltur af. Leiðir okkar lágu ekki saman alla lífsgönguna sem fjölskylda og ýmislegt sem þurfti að ganga í gegnum. En römm er sú taug sem okkur tengir og aldrei slitnar. Þú vannst þig inn í líf okkar barnanna þinna á ný þegar árin færðust yfir. Ég veit að þú gerðir þitt besta til að komast í gegnum þau verkefni sem lífið bauð og áföllin. Þú fékkst þinn skerf, elsku pabbi, og þurftir að sjá á eftir tveimur sonum og mömmu, sem ávallt bjó í hjarta þér, áður en þinn tími kom. Þú hafðir hæfileika til þess að sjá djúpt í kjarna fólks, að vera séður er mikilvægt og dýrmætt. Það segir mér líka að sannleikurinn bjó í hjarta þér. Þegar þú horfðir á okkur og lífið í gegnum hjartað þá fengum við að sjá hversu mikilfengleg sál þín er, full af kærleik og gjafmildi. Þú varst sterkur einstaklingur á allan máta og hæfileikaríkur. Þegar ég lít yfir farinn veg þá upplifi ég þig á þennan veg. Þú hefur verið mér mikill kennari í þessu lífshlaupi og fyrir það er ég þakklát.

Ég á góðar minningar frá barnæskunni þegar þú fórst með okkur systkinin á skíði og ég tala nú ekki um þegar við fengum að fara með þér í Laugardalshöllina að horfa á handbolta þegar þú varst að dæma eða horfa á landsleiki. Þá var farið inn bakdyramegin inn í Höllina og við fengum okkur gosblöndu fyrir leik, Bjössa special. Þú kenndir mér að munda golfkylfuna og oft var púttkeppni í stofunni í Skriðustekknum. Hluti uppeldisins fór fram í Mýrarbúðinni þér við hlið að afgreiða, vigta rúsínur og fylla á vörur í hillurnar. Já, Mýrarmagasínið var eins og félagsmiðstöð Norðurmýrarinnar.

Við áttum góðar stundir seinni árin þegar við fórum í bíltúra m.a. að Efra-Skarði og að Steinsholti þar sem þú varst í sveit sem ungur drengur. Uppáhaldstónlistin þín var spiluð í bíltúrunum og þú söngst með alla leiðina. Þú hafðir á orði að það væri alltaf sól þegar við færum í bíltúr. Undir lokin rifjaðir þú upp æskuna og sagðir sögur af veru þinni fyrir vestan þar sem þú þeystir á hesti frá Villingadal í Önundarfirði inn á Flateyri til að sækja vörur. Allir þekktu piltinn sem þar fór og ekki þurfti að kynna, þar fór sonur Stjána bláa í Krónunni. Sögur af Vesturgötunni þar sem þú ólst upp með bræðrum þínum sem stundum voru kallaðir, „tuttugu og fimm eyringarnir“. Sögur af því þegar þú varst stoppaður á förnum vegi sem drengur og varst beðinn að spila knattspyrnu fyrir Víking sem varð þaðan í frá þitt lið út ævina. Það voru dýrmætar stundir.

Seinustu árin þín voru ferðir á sjúkrahús tíðar. Nú er þjáningu þinni lokið. Megi ljósið leiða þig á veginn heim. Þú varst elskaður og það er það eina sem skiptir máli. Hvíl í friði elsku pabbi minn.

Birna Rún

Björnsdóttir.

Björn Kristjánsson var vaskur í orði og verki. Við skólasystkini hans úr Verslunarskóla Íslands söknum nú þegar þess ferska og upplífgandi blæs sem hann færði ávallt með sér í okkar hóp. Enn er mér í minni skíðaferð snemma á skólaferlinum þar sem farið var í brekkur í grennd við Skíðaskálann í Hveradölum. Gist var í svonefndum Hafnarfjarðarskála handan vegar. Lúin að kvöldi lögðumst við til hvíldar á skálaloftinu – nema hvað Björn var hinn hressasti og reytti af sér hverja skemmtisöguna af annarri við rífandi undirtektir. Ég minnist að hafa blundað um hríð sakir þreytunnar en rumskað svo aftur. Var þá Björn ennþá að með sínýjar sögur í fullu fjöri.

Þannig var hann meðal félaga sinna og vina – gleðigjafi með drjúgan forða af sögum og skoðunum, sem honum var ekki tamt að skafa utan af. Ódeigur og kjarnyrtur í betra lagi, hnyttinn í tilsvörum.

Það lá beint við eftir námið að Björn sneri sér að verslunarrekstri. Hann var einn af fjórum sonum hins kunna kaupmanns við Vesturgötu Kristjáns í „Krónunni“ – einn „tuttuguogfimmeyringanna“, eins og einhverjum hafði hugkvæmst að kalla þá bræður – og Björn kættist við að halda á loft. Í verslun sinni í Norðurmýrinni var Björn ekki einasta lipur við afgreiðslustörfin heldur jafnan hress og uppörvandi í samskiptum við viðskiptavini sína.

Íþróttir áttu hug Björns þegar vinnu sleppti. Margir minnast ekki síst kapps hans og snilli á handboltavelli sem keppandi og síðar dómari. Það var ekki í skapgerð Björns að draga af sér, sama að hverju hann gekk. Það galt hann fyrir síðari æviárin þegar ferligetu hans hrakaði og læknisaðgerðir dugðu of skammt. Ólíkt var þá að sjá hann frá því sem á blómaskeiðinu hafði verið – og dapurt. En þrautseigja hans var mikil og ekki þreytti hann vini sína með tali um þetta líkamlega mótlæti. Gleðigjafinn Björn var alltof upptekinn við að létta öðrum lundina. Og hvað sem öðrum beinum leið lét málbein Björns aldrei á sjá. Þegar við ræddum saman nú eftir áramótin reyndist það í besta lagi og djarfur hugur hans óbugaður.

Það var fallegt að heyra hve hlýlega Björn talaði um Sigrúnu og börn þeirra – og mat mikils.

Ég veit að við skólasystkini Björns og vinir hugsum nú til samverustundanna afar þakklátum huga og vottum nánustu fjölskyldu hans einlæga samúð. Það var lán að eiga samleið með honum.

Ólafur Egilsson.

Við sóttum saman nám við Verslunarskólann við Þingholtsstræti. Þar var ekkert leikfimihús en Háskólinn leyfði okkur afnot af sínum knattspyrnuvelli og íþróttahúsi. Og þarna urðu okkar fyrstu kynni. Björn varð fljótt vinsæll meðal skólafélaga. „Lífsnautnin frjóa“ einkenndi alla hans tíð.

Björn rak verslunina „Krónuna“ ásamt föður sínum, á kvöldin lék hann golf ásamt handbolta og fótbolta. Fjölskyldulífið leið fyrir það og visnaði smám saman.

En hann tengdist sínum íþróttafélögum sem heiðursfélagi í Knattspyrnufélaginu Víkingi og var handknattleiksdómari um árabil.

Hann hélt alltaf sambandi við sína skólafélaga sem nú kveðja minnisstæðan félaga með virðingu og þökk fyrir samveruna.

Ámundi Ólafsson.

Björn Kristjánsson er látinn eftir erfið veikindi. Bjössi var fjölskylduvinur og besti vinur föður míns frá unglingsárum. Hann var mikill Víkingur og keppti bæði í handbolta og fótbolta með Víkingi. Hann var handknattleiksdómari í áraraðir, bæði hérlendis og erlendis, og auðvitað sá allra besti. Bjössi var mjög sérstakur maður og skoðanir hans á mönnum og málefnum fóru ekki á milli mála. Hann var kaupmaður, byrjaði hjá föður sínum í Krónunni og rak svo Mýrarmagasín í áraraðir þar sem hann fór á kostum. Ég man eitt sinn er ég kom í búðina og var á skellinöðru. Þegar ég var rétt búinn að leggja hjólinu kom Bjössi æðandi út með tóma kókflösku á lofti og æpti á mig: „Enga helvítis skellinöðrugæja hér!“ Áður en ég fékk flöskuna í hausinn náði ég rétt að taka af mér hjálminn og þá uppgötvaði hann hver þetta var. Hann fór alveg í hnút, bauð mig hjartanlega velkominn og bauð svo upp á kók og prins í boði búðarinnar.

Bjössi spilaði golf í áraraðir og spilaði með okkur Víkingum og fór á kostum eins og í öllu sem hann tók sér fyrir hendur. Bjössi var einstaklega tryggur vinur. Faðir minn sagði mér að þeir hefðu alltaf farið í Þjóðleikhúskjallarann meðan hann var og hét og þar var alltaf löng biðröð að komast inn. Bjössi tók þá til sinna ráða með uppistandi í röðinni. Oft beið fólk sem var framar eftir að það kæmi að Bjössa að fara inn, svo gaman þótti fólki að hlusta á hann. Hann var orðinn afar lúinn síðustu ár og leið ekki vel. Ég heyrði oft í honum. Hann hringdi bæði í mig og móður mína rétt fyrir andlátið, það var eins og hann skynjaði að komið væri að kveðjustund.

Við Víkingar sendum fjölskyldu Bjössa okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning Bjössa Kristjáns.

Með Víkingskveðju,

Viggó Sigurðsson.