Ólafur Haukur Árnason fæddist 23. október 1929. Hann lést 15. janúar 2023.

Ólafur Haukur var jarðsunginn 26. janúar 2023.

Þakklæti er mér efst í huga vegna þeirrar gæfu að hafa þekkt Ólaf Hauk síðustu tvo áratugina og fengið að vera í hans innsta hring.

Ólafur kunni ekki við að sér væri hælt mikið en hvernig er annað hægt um slíkt eðalmenni.

Viskan sem Ólafur bjó yfir var af stærðargráðu sem fáir búa yfir og vafalaust þyrfti ofurtölvu af bestu gerð til að geyma upplýsingarnar sem hann bjó yfir um Íslendinga og íslensku. Sá Íslendingur er líklega ekki til sem Ólafur gat ekki ættfært langt aftur í ættir og var ég fljót að átta mig á því að Ólafur vissi meira um mínar ættir en ég sjálf.

Ólafur var án vafa einn færasti ræðumaður okkar Íslendinga. Svo vel voru ræður hans settar saman, hnitmiðaðar, hnyttnar og fagurmæltar að ekki var annað hægt en að hrífast með. Það var einnig eftirtektarvert að hann flutti ræðurnar sínar án blaða og talaði þannig beint inn í hjörtu þeirra sem á hlýddu. Mér er það sérstaklega minnisstætt þegar hann flutti ræðu í brúðkaupi okkar Gunna sem var svo flott að nokkrir gestanna höfðu orð á því hvort hægt væri að leigja afa Gunna í eigið brúðkaup.

Mikil forréttindi eru það að hafa þekkt Ólaf Hauk og geta sagt að hann sé langafi barna minna og þau sponsutrítlarnir hans. En Ólafur bar einstaka hlýju til þeirra sem stóðu honum næst og var samband hans við börnin okkar Gunna einstakt.

Þín er sárt saknað.

Anna Hulda

Ólafsdóttir.

Látinn er í Reykjavík góður vinur minn til 80 ára, Ólafur Haukur Árnason.

Við Ólafur Haukur hittumst fyrst á Siglufirði 1942 þegar ég flutti til Siglufjarðar. Þar hófum við saman skólagöngu á kirkjuloftinu og þar var oft glatt á hjalla. Þar hófst vinskapur sem hélst ætíð síðan og aldrei bar skugga á. Ólafur Haukur var ákaflega traustur og góður maður, hæglátur og hógvær og heiðarlegri mann er vart hægt að hugsa sér. Hann var vinur allra.

Mörg samtöl áttum við í gegnum tíðina þegar langt var á milli okkar og hin síðari ár í Reykjavík. Ólafur var mikill Siglfirðingur og rifjaði oft upp gamla góða daga á Siglufirði og fylgdist mjög vel með öllu sem þar gerðist og með mannlífi almennt. Hann var ótrúlega minnugur og vel lesinn, átti stórt og mikið bókasafn og gat ættfært flesta Íslendinga.

Síðasta símtal okkar var tveimur dögum áður en hann lést en þá dvaldi hann á sjúkrahúsi. Þá grunaði mig hvert stefndi.

Ég vil þakka þér kæri vinur fyrir 80 ára vináttu sem aldrei bar skugga á. Þar til við hittumst síðar – farðu í friði, friður Guðs þig blessi. Hafðu þökk fyrir allt og allt.

Afkomendum Ólafs Hauks votta ég mína dýpstu samúð.

Skúli Jónasson.

Kær vinur er horfinn úr heimi. Hann er kvaddur með sárum söknuði. Skiptir ekki máli þótt aldur hans væri orðinn hár, veikindin þungbær og hann væri hvíldinni feginn. Nú er sæti þessa góða drengs, bekkjarbróður og vinar autt. Eftir eru einungis minningar frá rúmlega sjötíu ára vináttu. Þær hlaðast nú upp hver af annarri. Við kynntumst fyrst 1946-47 þegar Ólafur dvaldist nokkur ár á Sauðárkróki ásamt föður sínum, stjúpmóður og systkinum. Með okkur tókst brátt góð vinátta. Við gengum fram og aftur um göturnar og ræddum pólitík og skáldskap. Þá voru ekki spöruð stóru orðin, a.m.k. í pólitíkinni, enda var blóðið ungt og heitt. Síðan tóku við tvö menntaskólaár og stúdentspróf 1949. Þau ár var Ólafur ritstjóri skólablaðsins. Hann skrifaði mikið og orti. Við vinir hans komumst ekki undan því að reyna að hnoða saman einhverjum leirburði. Til vonar og vara notuðum við sumir dulnefni til þess að verða okkur ekki til skammar. Ég spurði hann einhvern tíma seinna hvort hann hefði ekki haldið áfram að yrkja en hann þverneitaði því. En ég er ekki viss um að hann hafi sagt alveg satt. Ætli hann hafi ekki átt eitthvað í skúffunni.

Ólafur var alinn upp á Siglufirði. Þar gekk hann í barna- og gagnfræðaskóla og þar eignaðist hann sína æskuvini. Sumir fylgdu honum í gegnum menntaskólann og voru vinir hans meðan aldur entist. Hann var alla tíð mikill Siglfirðingur og þekkti þar hvert mannsbarn og gat rakið ættir þeirra langt aftur. En Skagafjörðurinn hafði nokkur áhrif því aldrei sleppti hann að geta þess ef Siglfirðingur átti ættir að rekja vestur yfir sýslumörkin til að mynda í Fljótin eða á Höfðaströndina.

Eftir menntaskólaárin skildi leiðir okkar um fjölda ára. Ýmist vorum við hvor á sínu landshorni eða hvor í sínu landi. Það var ekki fyrr en við vorum komnir á gamals aldur sem við gátum tekið upp þráðinn á ný og þá var eins og við hefðum aldrei skilið. Við hittumst kannski ekki mjög oft en símtölin urðu mörg og oft löng. Mikið var rætt um ættir manna og bækur. Ólafur Haukur var sannkallaður fræðasjór og við náðum svo sannarlega vel saman enda vorum við báðir að mörgu leyti 19. aldar menn!

Mikinn hluta starfsævi sinnar var Ólafur Haukur skólastjóri í gagnfræðaskóla í Stykkishólmi og á Akranesi. Lítið þekkti ég til starfa hans á þeim vettvangi en ég er þó viss um hann var góður stjórnandi og kennari. Hann bar hag nemenda sinna fyrir brjósti og áreiðanlega þekkti hann þá vel, svo mikill sem áhugi hans var á mannfólki bæði smáu og stóru.

En það sem mest var um vert og veldur mestum söknuði eru hinir miklu mannkostir Ólafs Hauks. Hann var vammi firrtur eins og þar segir. Viðmótið var hlýtt, uppörvandi og hann lét sér annt um aðra. Hann var mikill mannvinur, vinmargur og vinsæll.

Farðu í friði, kæri vinur. Við Margrét sendum aðstandendum innilegar samúðarkveðjur.

Sigurjón

Björnsson.

Við fráfall Ólafs Hauks, okkar kæra vinar og velunnara, flæða fram ljúfar minningar um einstakan mann sem var okkur náinn alla tíð. Einstök vinátta var á milli foreldra okkar og Ólafs Hauks og Bjargar konu hans. Árni Helgason faðir okkar og Ólafur voru samrýndir eins og nánir bræður. Sú vinátta færðist snemma yfir á okkur systkinin og börn okkar. Þau samglöddust okkur á hátíðardögum, brúðkaupi, fermingum og útskriftum og voru þar ómissandi gestir. Vinátta þeirra og umhyggja fyrir okkur var sönn og einlæg. Í þeim fjölmörgu samtölum sem við áttum við Ólaf þá var hans fyrsta spurning hvernig gengi hjá okkur, börnunum okkar og barnabörnum. Hvort allt væri í lagi.

Kynnin hófust þegar Björg og Ólafur komu í Hólminn sem kennarar árið 1951 og bjuggu m.a. í kjallaranum hjá okkur. Á þeim tíma taldi hann sig hafa sett Íslandsmet í spretthlaupi þegar hann hljóp eftir hjálp þegar einn okkar bræðra í óvitaskap bragðaði á vítissóda sem líktist sætum sykri. Oft ræddi hann um árin þeirra í Hólminum. Samneytið við fólkið sem þar bjó sagði hann hafa jafnast á við háskólanám hvað varðar þekkingu og innsæi. Þar var hver fræðimaðurinn öðrum fremri þó að skólaganga flestra hafi verið takmörkunum háð. Eftir að þau fluttu á Akranes og síðar til höfuðborgarinnar héldust tryggðarböndin. Samhentari hjón en Björg og Ólafur er óvíða að finna.

Ólafur Haukur var afburða ættfræðingur og gat rakið ættir þeirra sem hann kynntist eða hitti á lífsleiðinni. Ólafur var orðsins maður og hafði einstakt vald á og næmni fyrir íslenskri tungu. Það var unun að hlusta á frásagnir hans af fólki og atburðum, kryddaðar með græskulausu gríni og hnyttnum vísum. Hann var minnugur á ljóð og var hagmæltur þegar hann vildi með það hafa.

Auk skólastjórastarfa var Ólafur hvað þekktastur fyrir störf sín sem áfengisvarnaráðunautur á síðasta fjórðungi síðustu aldar. Hans þekking á skaðsemi áfengis var óbrigðul og rökstuðningur hans í því efni beittur. Eftir var tekið að í rökræðum um áfengismál var hann flestum fremri.

Ólafur var einlægur kirkjunnar maður og trúaður á Jesús Krist og minnist oft þess atviks sem sannfærði hann um tilvist frelsarans.

Djúpa vinalega röddin hans Ólafs Hauks er þögnuð en mun óma í huga okkar um ókomna tíð. Að leiðarlokum þökkum við einstaka vináttu, vottum afkomendum hans og fjölskyldum þeirra innilega samúð og biðjum þeim og minningu Ólafs Hauks blessunar Guðs.

Gunnlaugur Auðunn, Halldór, Helgi og Vilborg Anna.

Látinn er vinur minn, Ólafur Haukur Árnason, fyrrverandi áfengisvarnaráðunautur og skólastjóri, í hárri elli en með óskert minni. Ólafur var afar fróður á marga lund, ekki síst í ættfræði og skáldskap. Hann var sjálfur skáld og hagyrðingur en flíkaði löngum lítt. Þó var svo á árum hans í Stykkishólmi að alþjóð fylgdist með áramótaþáttum hans og glettni með Árna í Hólminum – í Ríkisútvarpinu.

Hann var manna bestur í ræðumennsku og naut þar minnis síns og flutnings á hvers konar efni. Ég kom til starfa hjá honum á vegum Áfengisvarnaráðs og tók hann mér þá sem faðir. Hann var einstakur vinur vina sinna og þeim tryggur. Ávallt síðan var vinátta þeirra Bjargar við fjölskyldu mína eitt þess sem við mátum mest. Við leiðarlok hans kveð ég hann með virðingu og þökk.

Karl Helgason.

Í dag minnumst við Ólafs Hauks Árnasonar sem lést 15. janúar 2023. Ólafur gerðist Musterisriddari árið 1956 og hefur því verið félagi í Reglunni í 67 ár og var hann elstur núlifandi reglubræðra. Hann gegndi mörgum trúnaðarstörfum fyrir Regluna og sat í Meistararáði um tíma.

Ólafur Haukur var traustur félagi, skyldurækinn, fórnfús, árvakur og staðfastur starfsmaður Musterisins. Hann hafði sterka útgeislun og gaf af sér kærleika, umhyggju og vandvirkni í öllu sínu starfi og gagnvart öllum þeim sem voru honum samferða á lífsleiðinni. Hann var sannkölluð fyrirmynd okkar bræðranna. Ólafur var sérstaklega minnugur og gat rifjað upp atburði og fært þá í myndrænt form hvort heldur þeir voru frá liðinni tíð eða nýlegir. Ólafur var mjög góður ræðumaður gat fjallað um ýmis málefni á fræðilegan og upplýsandi hátt, fléttað inn náttúru Íslands og ljóðum meistaranna. Ólafs verður sárt saknað og minnst með þakklæti fyrir ævarandi vináttu og störf sín í þágu Reglunnar. Við sendum innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldu hans og vina.

Blessuð sé minning Ólafs Hauks Árnasonar.

Fyrir hönd Reglu Musterisriddara RM Heklu,

Stefán Þór

Kjartansson.

Þegar ég hitti þennan fyrrverandi kennara minn úr Víghólaskólanum áratugum seinna kannaðist hann ekki við nemenda sinn en mundi vel eftir bekknum. „Þið voruð svo einstaklega fljót að læra setningafræði,“ sagði hann. Ég ætlaði að spyrja: „Hvað er setningarfræði?“ en gat gleypt orðin á síðustu stundu.

Það var með ólíkindum hvað þessi háttprúði og hægláti maður gat haldið fullkomnum aga í kennslustund. Annars órólegir unglingar snarþögnuðu. Hann þurfti aldrei að brýna raustina og tók erindi sínu af svo djúpri alvöru að engum datt annað í hug en að hlusta eftir því sem frá honum kom. Skrúðganga óákveðinna fornafna var jafnvel æfð í leikfimisturtunni: Einn, neinn, annar, nokkur, enginn, hver...

Ólafur minntist sérstaklega kennsludaga sinna í Stykkishólmi snemma á ferlinum. Ég þekkti til gamalla nemenda hans þaðan og hann bað fyrir sérstakar kveðjur í hvert sinn sem við hittumst. Lýsti vel ræktarsemi hans og hve lengi býr að fyrstu gerð. Þrátt fyrir formlegt fas hafði hann til að bera ríkulega kímnigáfu og það var gaman að tala við hann um bækur. Þá var hægt að eiga við hann innvirðulegar samræður af litlu tilefni, en slík samskipti eru skilgreind sem djúpar samræður – án áfengis. Ég sagðist telja hann eina vammlausa manninn sem ég þekkti.

Ef hugtakið skólamaður er til held ég að það hafi átt vel við Ólaf Hauk. Kannski nægir þó bara að gamall nemandi staldri við og minnist kennara síns.

Eiríkur Jónsson.