Jón Þórðarson fæddist á Þórshöfn á Langanesi 2. desember 1946. Hann lést á heimili sínu í Åkarp í Svíþjóð 29. desember 2022.

Foreldrar: Sigrún A. Kærnested, hattasaumameistari en lengst af húsmóðir, f. 2.11. 1910, d. 1.9. 1991, og Þórður Oddsson læknir, f. 23.9. 1910, d. 24.12. 1996.

Sigrún var dóttir Gróu Jónsdóttur Kærnested húsmóður frá Gneistastöðum í Flóa, f. 10.1. 1878, d. 27.12. 1963, og Óla Ólasonar Kærnested, vélgæslumanns, eimreiðarstjóra o.fl., frá Bakkafit á Snæfellsnesi, f. 11.3. 1881, d. 28.2. 1944.

Þórður var sonur Guðríðar Þórðardóttur, húsmóður frá Ráðagerði á Seltjarnarnesi, f. 23.5. 1876, d. 30.1. 1916, og Odds Jónssonar, skipstjóra og síðar hafnarfógeta í Reykjavík, f. 12.10. 1879, d. 26.2. 1934.

Bræður Jóns (sammæðra) voru: Ámundi Ámundason, f. 9.6. 1937, d. 27.2. 1996, og albræður Óli H. Þórðarson, f. 5.2. 1943, og Oddur Þórðarson, f. 27.10. 1944. Eldri börn Þórðar: Erla, f. 19.2. 1938, og Þórður Bergmann, f. 23.2. 1941.

Jón kvæntist 13. maí 1967 Guðríði Önnu Theódórsdóttur, f. 26.7. 1947, frá Mörk í Garði. Foreldrar: Sigríður Þorbjörnsdóttir, f. 12.9. 1914, d. 28.8. 2012, og Guðlaugur Sigurðsson (fósturfaðir), f. 4.3. 1917, d. 25.7. 1988. Faðir Guðríðar var Thedór Dahl, skipstjóri í Færeyjum, f. 20.10. 1920, d. 26.7. 1999.

Börn Jóns og Guðríðar eru: 1) Særún, f. 27.10. 1966, gift Krister Persson, f. 9.4. 1960. Börn Særúnar með fyrrverandi eiginmanni, Stefan Hultberg, eru Sebastian, Sofia og Samuel. Börn Sebastians og konu hans, Julie Hultberg, eru Noah og Clara. 2) Þórey f. 5.10. 1967, gift Sigurhans Karlssyni, f. 20.5. 1960. Dætur þeirra: María, Helena og Thelma. 3) Óðinn f. 25.5. 1975, kvæntur Anette Jonsson, f. 1.1. 1974. Börn þeirra: Louise og Oliver. 4) Brúnó f. 11.4. 1980, kvæntur Mariu Heintz, f. 5.10. 1978. Börn þeirra: Lok, Nor og Frej.

Jón, eða Jonni eins og hann var ávallt kallaður, lauk húsasmíðanámi 19 ára frá Iðnskólanum í Reykjavík 1966 og lærði húsasmíði hjá Páli Jónssyni byggingameistara frá Bjarnastöðum. Bættist hann þar með í flokk manna sem unnu hjá Páli, m.a. á Hvanneyri þar sem hann kynntist Guðríði. Páll, Edda og fjölskylda fluttust svo til Reykjavíkur, og með þeim smiðirnir. Þegar verkefnum í byggingariðnaði fækkaði í lok sjötta áratugar 20. aldar bauðst Jonna starf í Kockums-skipasmíðastöðinni í Malmö í apríl 1969 og fór þangað með fjölmennum hópi trésmiða. Síðar á því ári fluttist fjölskyldan til Malmö. Eftir að Jonni hætti hjá Kockums hóf hann störf hjá byggingafyrirtækinu J.E. Liljagren. Hann vann hjá Berndtssons Byggnads á árunum 1977-78 sem verkstjóri.

Jonni hóf sjálfstæðan rekstur árið 1975 og nefndi fyrirtæki sitt „Jonni snickare“, og lauk meistaranámi í iðn sinni árið 1979.

Árið 1978 fluttist fjölskyldan til Åkarp (lítill bær á milli Malmö og Lundar) og ári síðar keyptu þau næsta hús, sem Jonni breytti í verkstæði og skrifstofu. Verkefnum fjölgaði og árið 1990 reisti hann nýja verkstæðisbyggingu, og um það leyti varð til hlutafélagið „Jonnis snickeri och byggnads ab“. Meðal helstu viðskiptavina: sænska sjónvarpið, Axlins, SF bio og Exchange-banki.

Báðir synirnir, Óðinn og Brúnó, fetuðu í fótspor pabba síns og lærðu húsasmíði og störfuðu hjá honum, auk margra annarra (14 þegar mest var), þ. ám. margir Íslendingar. Þegar heilsu Jonna tók að hraka fól hann Brúnó í auknum mæli umsjón með rekstrinum, og í árslok 2021 tók hann alfarið við stjórnartaumunum. Hann rekur nú fyrirtækið.

Útför Jonna fer fram frá Burlövs gamla kirka í dag, 27. janúar 2023. Athöfnin hefst kl. 13 (kl. 14 að sænskum tíma).

Hlekkir á streymi:

shorturl.at/dxSW6

https://www.mbl.is/andlat

Við minnumst föður okkar með hlýju og ást. Alltaf með bros á vör í smíðabuxunum. Pabbi var aðeins um sjö ára þegar hann ákvað að verða smiður og þegar hann hann hafði aldur til lærði hann húsasmíði og varð síðar húsasmíðameistari. Hann vann meirihluta sinnar starfsævi í Svíþjóð og kynnti sig alls staðar sem „Jonni Snickare“. Pabbi fæddist á Íslandi árið 1946. Þegar hann var 17 ára gamall kynntist hann ástinni í lífi sínu, Guðríði Önnu, sem var honum við hlið til hinsta dags. Árið 1966 fæddist Særún og tæpu ári síðar kom yngri systirin, Þórey. Fjölskyldan flutti alfarið til Svíþjóðar árið 1969 þar sem pabbi fór að vinna hjá skipasmíðastöðinni Kockums. Árið 1975 stofnaði hann sitt eigið fyrirtæki, Jonnis Snickeri. Sama ár fæddist Óðinn og fimm árum seinna kom yngsti bróðirinn Brúnó. Við hönnun á merki fyrirtækisins vildi pabbi ekki sög eða hamar, heldur vildi hann trésmíðablýant. Ástæðan fyrir því var að fyrir pabba byrjuðu öll verk með blýanti. Hann elskaði að teikna og hanna og það var ekki einn hluti af húsinu okkar sem var ekki hannaður af honum. Virkni hlutanna fékk oft að víkja fyrir hönnuninni, en hann vissi vel hvenær það átti að vera öfugt. Auga pabba fyrir litum, formi og sniðugum lausnum kom sér alltaf vel. Sögurnar um hin ýmsu verkefni hans eru óteljandi. Hæfni hans til að hlusta og láta drauma viðskiptavina sinna rætast var drifkraftur hans. Við sem hlustuðum á sögurnar við matarborðið drógumst auðveldlega inn í ýmis verkefni. Við ólumst upp með mörgum stórum fyrirtækjum í Svíþjóð sem hann vann fyrir. Stundum leið okkur eins og við værum hluti af öllum verkefnum pabba og ef til vill kom það í staðinn fyrir stórfjölskylduna á Íslandi. Fyrstu störfin okkar voru oft hjá þessum fyrirtækjum og bæði við og börnin okkar tókum þátt í vinnu á skrifstofunni og hjálpuðum til við verklega vinnu. Því allir eiga að vinna! Til dæmis þurfti að bretta upp ermarnar þegar Þórey ætlaði að gifta sig og það þurfti veislusal. Auðvitað er hægt að leigja sal, en pabba fannst gáfulegra að reisa viðbyggingu við verkstæðið sem hann var búinn að skipuleggja í nokkurn tíma. Búið var að steypa gólfið og viku fyrir brúðkaupið byrjaði vinnan við að reisa húsið. Öll fjölskyldan hjálpaðist að ásamt starfsmönnum, þar á meðal verðandi brúðguminn, Sigurhans. Unnið var langt fram á kvöld. Klukkutíma fyrir brúðkaupið voru þau enn að uppi á þaki að klára þegar mamma skipaði: „Nú skuluð þið gjöra svo vel að hætta að vinna!“ Það varð stórkostleg veisla í nýreistum veislusal. Skemmtun og veisluhöld er það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar við hugsum um pabba. Hann naut þess að fá fólk í heimsókn, að sitja heilu næturnar og segja sögur. Við minnumst hans á árlegri páskaskemmtun okkar á verkstæðinu. Við leituðum í spenningi að eggjum á meðan hann sat á hefilbekknum með bjór í hendi. Á hefilbekknum stendur nú tóm bjórflaska og við sitjum eftir með ævilanga visku, minningar og ekki síst hlátur.

Særún, Þórey,

Óðinn og Brúnó.

„Minnstinn“ sagði hún oft hún mamma okkar blessuð þegar hún talaði um Jonna yngsta bróður okkar. Ekki svo að hún væri að gera lítið úr honum, nei aldeilis ekki þetta var sérstakt gælunafn sem ég hef ekki hugmynd um hvaðan er komið.

En minnstinn óx úr grasi og varð fljótt fyrirferðarmikill, enda duglegur og uppátækjasamur, svo mjög stundum að pabba okkar varð orðvant. Þó ýmsu vanur. Læknirinn, pabbi okkar, var togarasjómaður á námsárunum, og ef við hefðum búið við sjó er ég nokkuð viss um að þegar Jonni stækkaði og ljóst var hvers kyns harðjaxl hann var hefði pabbi viljað láta dugnaðarforkinn yngsta son sinn reyna sjómennsku, sem hann taldi öllum ungum mönnum hollt veganesti út í lífið. En ekki fór svo, og Jonni bættist því ekki í hóp Odds afa síns og Ráðgerðinga sem fast sóttu sjóinn á árum áður. Odd bróður hefði hann án efa einnig viljað senda á sjóinn, en líklega ekki dottið það í hug með mig, sem var kominn með skrifborð með öllu tilheyrandi um fermingu. Addi bróðir fór hins vegar á síld hjá Jóni Björnssyni frá Ánanaustum og kom alsæll og reynslunni ríkari að Kleppjárnsreykjum aftur, og mömmu var létt. En eini sjóarinn í systkinahópnum var Þórður bróðir, sem stundaði fragtsiglingar um árabil.

Jonni var skemmtilegur strákur, vinmargur og alla tíð léttur í lund. Handlaginn eins og hinir bræður mínir og fann sína fjöl bókstaflega í húsasmíðinni. Heyrði ég það eftir að hann haslaði sér völl í Svíþjóð, að mjög var sóst eftir fagmennsku hans. Fyrirtækjaeigendur fundu að hægt var að treysta honum fyrir erfiðum og flóknum viðfangsefnum. Sögðu gjarnan: þú gerir þetta eins og þú telur réttast, og spöruðu sér áreiðanlega oft stórar fjárhæðir við hönnun með því að fá Jonna og strákana hans í verkefnin.

En sökin er mín að hafa „sent“ hann til Svíþjóðar. Árið 1969 var erfitt mörgum iðnaðarmönnum, sem margir leituðu atvinnu í öðrum löndum. Ég vann á skrifstofu Áburðarverksmiðjunnar á þessum árum, og Grétar Ingvason vinur minn skrifstofustjóri á næstu skrifstofu – opið á milli okkar. Heyri þá að hann er að tala við Sigurð bróður sinn og umræðuefnið það hvort Grétar geti stuðlað að því að stór hópur trésmiða komi í vinnu til Kockums-skipasmíðastöðvarinnar í Malmö. Ég spyr strax hvort ég megi ræða þetta við Jonna bróður minn, sem þá skorti verkefni. Það var auðsótt mál, og svo fór að hann slóst í hóp þessara góðu manna.

Ekki datt mér í hug að með þessu væri ég að flytja bróður minn endanlega úr landi og þar með að missa af reglulegum samskiptum við hann og fjölskyldu hans. En svo fór, og ekki þýðir um að fást. En eitt veit ég, að góður reyndist hann Svíum, þessi „innflutningur“.

Gauju, Særúnu, Þóreyju, Óðni, Brúnó og fjölskyldum sendum við Þurý innilegar hluttekningarkveðjur og minnumst bróður míns með þakklæti, m.a. fyrir ótal gleðistundir í áranna rás. Huggun harmi gegn að sárþjáður líkami hans var kominn á endastöð. Afar sárt hins vegar til þess að vita að fá ekki fleiri hringingar með ávarpsorðunum „hæ Óli, þetta er Jonni“. Far sæll, kæri bróðir.

Óli H. Þórðarson.

„Jonni og Gauja“. Frá barnsárum var þessi ágæta tvenna, föðurbróðir minn og kona hans, sveipuð ævintýraljóma, enda bjuggu þau í útlöndum. Oft um þau talað og Jonna ávallt lýst sem smiðnum góða í Svíþjóð, og pabbi sagði stundum „hvað ef?“ og skírskotaði þá til aðdraganda þess að þau fluttust af landi brott og settust að til frambúðar í Svíþjóð.

Sem háskólakennari veltir maður stundum fyrir sér hvaða áhrif sveiflur í efnahagslífi geta haft á líf og störf fólks. Í lok sjötta áratugar síðustu aldar varð talsverður samdráttur í byggingarverkefnum hér á landi sem varð til þess að margir smiðir leituðu út fyrir landsteinana til þess að sjá sér og fjölskyldum sínum farborða. Einn þeirra var Jonni frændi sem flutti með fjölskyldu sína til Svíþjóðar árið 1969, nokkrum árum áður en ég fæddist. Þannig að í raun elst ég ekki upp við mikinn samgang við Jonna og Gauju. Þrátt fyrir það, hefur mér alltaf þótt afar vænt um þau og fjölskylduna alla, og alltaf verið mjög kært á milli okkar þegar við hittumst. Fyrst má þar nefna Kvistalandið, þar sem þau gistu oftast þegar þau komu til landsins, á Háaleitisbraut hjá ömmu og afa áður en þau féllu frá og þegar ég var í doktorsnámi mínu í Kaupmannahöfn, þá notaði ég oftar tækifærið til að skreppa yfir Sundið og hitta fjölskylduna.

Eftir að ég flutti heim þá fannst Jonna frænda ekki leiðinlegt að koma við hjá okkur þegar hann var á landinu og fá að skoða vískí-safnið mitt!

Þegar einhver sem manni þykir afar vænt um fellur frá, þá leitar hugurinn ósjálfrátt til baka og hugsanir á borð við „hvað ef“ skjóta upp kollinum. Í huganum iðrast maður þess að hafa ekki farið oftar og gert meira. En við breytum því ekki sem liðið er, getum einungis þakkað fyrir góðar stundir og margar ljúfar minningar.

Ég er þakklát fyrir síðustu stundina sem við áttum saman í Svíþjóð í desember 2021. Jonni var því miður orðinn mjög veikur, en við Jakob, Þurý og Rannva, ásamt mömmu og pabba fórum í heimsókn til þeirra. Það var þrátt fyrir allt glatt á hjalla og mikið spjallað. Jonni bað mig að spila uppáhalds íslenska lagið sitt. Hann mundi ekki nafnið á því en „það er um barn við sjóinn sem verður gamalt“. Heimsóknin er ljúf minning sem ég mun varðveita ásamt mörgum öðrum, þarf ekki annað en að setja Ragnar Bjarnason á til þess að sjá Jonna fyrir mér. Hann situr við borðið sitt í Åkarp og horfir á mig raula með laginu, Barn.

Elsku Gauja, Særún, Þórey, Óðinn, Brúnó og fjölskyldur. Innilegar samúðarkveðjur frá okkur Jakobi og fjölskyldu okkar. Yfir minningu okkar um Jonna er glaðværð í öndvegi og birta í sinni.

Ég var lítið barn

og ég lék mér við ströndina.

Tveir dökkklæddir menn

gengu fram hjá

og heilsuðu:

Góðan dag, litla barn,

góðan dag!

Ég var lítið barn

og ég lék mér við ströndina.

Tvær ljóshærðar stúlkur

gengu fram hjá

og hvísluðu:

Komdu með, ungi maður,

komdu með!

Ég var lítið barn

og ég lék mér við ströndina.

Tvö hlæjandi börn gengu fram hjá

og kölluðu:

Gott kvöld, gamli maður,

gott kvöld!

(Steinn Steinarr)

Ásta Dís Óladóttir.