Eiríkur Eiríksson fæddist 12. febrúar 1946 í Reykjavík. Hann lést á Ási, dvalar- og hjúkrunarheimili í Hveragerði, 11. janúar 2023.

Foreldrar Eiríks voru Bryndís Tómasdóttir húsmóðir, f. 1. apríl 1925 í Hafnarfirði, d. 15. janúar 2011, og Eiríkur H. Guðnason tollvörður, f. 24. september 1918 í Reykjavík, d. 10. september 1999.

Systkini Eiríks eru Sólveig Eiríksdóttir, f. 21. september 1944, d. 30. apríl 2005, og Auðunn Eiríksson, f. 17. október 1953.

Eíríkur kvæntist Marie Møller Petersen hinn 10. september 1977. Börn þeirra eru Katrín Möller Eiríksdóttir, f. 10. júlí 1979, og Jakob Veje Eiríksson, f. 3. janúar 1984. Jakob er giftur Signe Veje Odgaard. Synir þeirra eru Asger Veje Jakobsson og Anker Veje Jakobsson. Eiríkur og Marie skildu.

Eiríkur gekk m.a. í Laugarnesskóla og Réttarholtsskóla. Hann stundaði nám í vélvirkjun í Héðni og fór þaðan í Vélskóla Íslands. Hann vann lengst af sem yfirvélstjóri hjá danskri útgerð.

Útförin fer fram frá Áskirkju í dag, 27. janúar 2023, kl. 13.

Eiríkur frændi minn er látinn, við erum systkinasynir. Við vorum oft saman á yngri árum, t.d. var ég í fóstri um nokkra daga skeið í Sogamýrinni hjá Bryndísi og Eiríki, foreldrum Eiríks frænda, vegna veikinda heima fyrir. Það var skemmtilegt að vera í Sogamýrinni á þeim árum sem Smáíbúðahverfið var í uppbyggingu og ekki má gleyma hversu gaman það var að renna sér á stýrissleðanum hans Eiríks og Sólveigar systur hans niður Borgargerðið frá Sogaveginum rétt við heimili þeirra á Sogavegi 156 sem var nánast uppi í sveit í þá daga.

Eiríkur lærði vélvirkjun í Vélsmiðjunni Héðni h/f á sama tíma og ég. Á vegum Héðins vorum við báðir sendir á Djúpavog 1965 til að setja upp Síldarbræðsluna Búlandstind, þar sem við tókum þátt í að smíða tækin í verksmiðjuna veturinn á undan. Síldarverksmiðjan var í vík inn af byggðinni á Djúpavogi sem var líklega nefnd Gleðivík eftir veru okkar þar, því það nafn heyrðum við aldrei.

Við bjuggum þar í húsi sem hét Framtíðin sem átti vel við því framtíðin var okkar, ungu drengjanna.

Eftir vélvirkjanámið fórum við báðir í Vélskólann í Reykjavík, næstu þrjá vetur vorum við saman í bekk og þar var oft glatt á hjalla, sérstaklega í frímínútum og ef kennslustund féll niður, þá var gripið í spil og þar var Eiríkur hrókur alls fagnaðar og skemmti sér vel við þá iðju.

Við frændur nutum okkar vel saman á þessum árum og varð vinátta okkar eilíf.

Eiríkur fór svo í siglingar á skipum sem skipafélag hans Nesskip h/f átti og var þar um árabil, þar til hann fór að stunda siglingar hjá dönsku skipafélagi sem sigldi um öll heimsins höf, túrar sem tóku jafnvel marga mánuði í senn. Seinna fór hann í vöruflutninga á trukkum um alla Evrópu og víðar.

Ég vil þakka Eiríki frænda mínum fyrir langa samveru og samfylgd í lífinu.

Fjölskyldu hans vil ég færa innilegar samúðarkveðjur frá fjölskyldu okkar. Blessuð sé minning góðs drengs.

Benedikt og

Áslaug.