Karl Gottlieb Senstius fæddist 1. júlí 1933. Hann lést 8. desember 2022.

Útför Karls fór fram 16. janúar 2023.

Kveðja frá Knattspyrnufélaginu Fram

Við fráfall Karls G. Benediktssonar sjá Framarar á bak afar öflugum og litríkum félagsmanni sem setti sterkan svip á handknattleik hjá Fram og á Íslandi. Kalli Ben var faðir nútímahandknattleiksins á Íslandi; kerfisbundins og vel skipulagðs handknattleiks.

Karl byrjaði ungur að leika knattspyrnu með Fram, en varð að hætta vegna hnjámeiðsla. Eftir að hann var skorinn upp vegna meiðslanna hóf hann að leika handknattleik með meistaraflokki Fram aðeins 17 ára, haustið 1950, en Framliðið hafði orðið Íslandsmeistari í fyrsta skipti þá um vorið. Karl var farinn að þjálfa Framliðið að mestu frá 1953.

Miklar breytingar urðu á handknattleik hér á landi þegar Karl kom heim frá Danmörku 1960, þar sem hann stundaði nám í íþróttafræðum í Vejle á Jótlandi um tíma. Hann kom heim með nýjar hugmyndir, sem áttu eftir að gjörbreyta handknattleiknum á Íslandi og má segja að nútímahandknattleikur hafi þá hafist. Karl lét lið sín leika kerfisbundinn handknattleik. Hann lét menn leika í föstum stöðum og tímasetningar voru í leiknum. Þegar hann kom með sínar hugmyndir og fylgdi þeim fast eftir varð bylting í íslenskum handknattleik – fyrst með Framliðið og síðan með landsliðið.

Karl er maðurinn sem lagði grunninn að „gulltímabili“ karlaliðs Fram í handknattleik 1962-1972, sem varð Íslandsmeistari sjö sinnum á ellefu árum. Það varð mikil breyting á handknattleiknum þegar Karl G. kom heim frá Danmörku. Hann byrjaði strax á því að leggja línurnar og byggja upp vel útfærðan og skipulagðan leik bæði í vörn og sókn. Boðið var upp á fjölmargar leikfléttur.

Þegar Karl tók við þjálfun ungmennaliðsins og A-landsliðsins í handknattleik í lok árs 1962 sagði hann að einstaklingshyggjan þyrfti að hverfa úr íslenskum handknattleik. „Lið verður að vinna sem ein liðsheild en ekki sem einstaklingar – öðruvísi verður árangri ekki náð!“ Það var þetta sem Karl lagði alltaf áherslu á. Lið hans, Fram og síðan Víkingur 1975, voru ekki alltaf best mönnuðu liðin. Þau voru fyrst og fremst lið liðsheildarinnar; einn fyrir alla, allir fyrir einn! Þegar við Framarar urðum meistarar þrjú ár í röð 1962-1964 voru FH-ingar með betri mannskap en voru lagðir að velli með leikskipulagi.

Birgir Björnsson, fyrirliði FH og síðan þjálfari FH-liðsins og landsliðsins, sagði að Karl hefði brotið blað í íslenskum handknattleik. „Kalli kom með margar snjallar hugmyndir. Hér varð algjör bylting. Hann lyfti handboltanum upp á hærra plan!“

Karl lék 13 landsleiki fyrir Ísland á árunum 1958 til 1963; var tvisvar fyrirliði. Hann var leikmaður á HM í Austur-Þýskalandi 1958 og Vestur-Þýskalandi 1961 og þjálfari á HM 1964 í Tékkóslóvakíu og 1974 í Austur-Þýskalandi.

Karl stjórnaði landsliðinu í 71 leik á fjórum tímabilum 1964-1968, 1973-1974, 1966-1967 og 1976-1978.

Fram þakkar Karli fyrir vináttu og mikil störf unnin fyrir félagið. Börnum hans og fjölskyldum eru sendar innilegar samúðarkveðjur.

Sigmundur Ó. Steinarsson.

Útför gamla og góða þjálfarans okkar, Karls Benediktssonar, var gerð frá Hallgrímskirkju í síðustu viku. Síðasta ferðin, frá kirkjunni upp í garð, var að sjálfsögðu í Hummer, uppáhaldsbílnum hans.

Ég kom við hjá kappanum fyrir liðlega tveimur árum, eða um það leyti sem alzheimerveikindin voru að byrja að gera vart við sig. Kalli sagðist aðeins vera farinn að gleyma, en mér sýndist þó að hann hefði aðallega gleymt að eldast!

Þarna byrjaði gamli handboltasnillingurinn strax að þreifa á bakvöðvunum á mér og kanna styrkinn, alveg eins og hann gerði þegar ég kom á fyrstu æfinguna hjá honum 18 eða 19 ára gamall. Þá sagði hann þegar hann hafði þreifað aðeins á vöðvunum: ætli það sé ekki bara best að þú haldir þig við píanóið!

Þetta herti strákinn og fljótlega var Kalli búinn að gera okkur Víkinga að Íslands- og bikarmeisturum og lagði hann grunninn að stórgóðum afrekum næstu áratugina hjá Víkingi.

Karl Benediktsson er að mínu mati einn merkasti þjálfari handboltasögunnar á Íslandi. Þegar hann kom til okkar Víkinga, að tilstuðlan góðra og framsýnna stjórnarmanna, var hann búinn að gera Framliðið sjö sinnum að Íslandsmeisturum, auk þess sem hann hafði þjálfað og leikið með landsliðinu um árabil.

Hjá okkur breytti hann öllum æfingaaðferðum og gerði sér lítið fyrir og smíðaði fyrsta Íslandsmeistaralið Víkings árið 1975. Þetta var upphafið að einni mestu sigurgöngu íslensks handknattleiksliðs frá upphafi og er skemmst frá því að segja að handknattleikslið Víkings árið 1980 var síðar valið besta handknattleikslið Íslandssögunnar! Karl var upphafsmaður að þeirri vegferð, enda féllu æfingaaðferðir Kalla Ben. algerlega að æfingaprógrammi og taktík Bogdans, annars þjálfarasnillings, sem tók við Víkingsliðinu af honum.

Við Víkingar viljum að leiðarlokum þakka Kalla Ben. fyrir góða vináttu og samstarf í leik og starfi, jafnt innan vallar sem utan. Ástvinum hans sendum við innilegar samúðarkveðjur.

Ólafur Jónsson.