Vilhjálmur Bjarnason
Vilhjálmur Bjarnason
Vilhjálmur Bjarnason: "Stjórnsemi þeirra sem til þess eru óhæfir kemur oftar en ekki fram í því að þeir vilja skattleggja til að stjórna neyslu þeirra, sem eru skattlagðir."

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að þeir eru fleiri sem telja sig þess umkomna að geta stjórnað öðrum en þeir sem hafa hæfi til þess.

Stjórnsemi þeirra sem til þess eru óhæfir kemur oftar en ekki fram í því að þeir vilja skattleggja til að stjórna neyslu þeirra, sem eru skattlagðir. Jafnframt vilja þeir hinir sömu endurdreifa afrakstri skattlagningar til þess að stjórna neyslu þeirra, sem eru þiggjendur stjórnseminnar. „Látum breiðu bökin borga“ sögðu fjármálaráðherrar. Breiðu bökin eru sjómenn, læknar og nokkrir forstjórar.

Þeir sem eru á lægsta plani ofstopans í stjórnsemi vilja nota verðbólgu til að millifæra verðmæti. Þeir gera sér ekki grein fyrir því að þeir, sem hafa mestan ávinning af slíkri endurdreifingu, eru þeir sem eru feitastir og frekastir.

Í ljósi þess að atvinnufyrirtæki eru lántakendur en heimili eru sparendur, þá er verðmætatilfærsla á kostnað heimili til ábata fyrir fyrirtæki. Heimili spara sér til hagsbóta, en ekki til hagsbóta fyrir fyrirtæki.

Það verður stundum hlægilegt að sjá Hagsmunasamtök heimilanna í þessari réttindagæslu fyrir feita og freka.

Ein stjórnsemi

Löggjafinn hefur áskilið sér rétt til að skylda launþega til að kaupa sér lífeyristryggingu hjá lífeyrissjóði, sem til þess er stofnaður samkvæmt lögum. Lífeyrissjóðir hafa aðeins eina skyldu, að tryggja lífeyri.

Þessi stjórnsemi er um margt skiljanleg, því með þessu er verið að gera tilraun til að láta launþega bera ábyrgð á eigin lífi eftir að starfsævi lýkur.

Með því er jafnframt verið að létta þeirri skyldu af launþegum á vinnumarkaði að greiða þeim sem lokið hafa störfum eftirlaun með skattgreiðslum.

Það gæti orðið óbærilegt fyrir þá sem eru á vinnumarkaði að greiða þeim sem lokið hafa störfum eftirlaun. Í Japan háttar svo til að 28% þjóðarinnar eru komin á eftirlaunaaldur. Þá er gott að eiga fyrningar. Til þess eru lífeyrissjóðir og ekki síður frjáls sparnaður. Lífeyrissjóðir og frjáls sparnaður njóta virðingar í Japan.

Sem stendur eru eignir og skuldbindingar íslenskra lífeyrissjóða 6.600 milljarðar en það er 175% af landsframleiðslu.

Breytingar á fæðingartíðni, lífslíkum og atvinnuþátttöku

Það er undarleg staðreynd að afleiðingar af breyttri fæðingartíðni og fjölskyldumynstri ná aldrei inn í vitræna umræðu. Slíkar breytingar eiga sér stað á löngu tímabili þannig að breytingar sjást varla í nútíma en þegar horft er til baka sjást breytingar og afleiðingar.

Foreldrar mínir áttu fjögur börn. Faðir minn átti tíu alsystkin og fjögur hálfsystkin, sem upp komust. Móðir mín átti tvær systur. Önnur dó úr beklum, tvítug að aldri. Sjálfur á ég tvær dætur. Fæðingartíðnin 2 á konu nær ekki að halda jafnvægi í mannfjölda. Framfarir í heilbrigðisvísindum hafa fært jafnvægið nær 2.

Nægir þar að nefna blóðtöku af berklum og að ungbarnadauði færist nær núlli. Við þetta bætist langlífi, af sömu ástæðum og ungbarnadauði og sjúkdómar. Þessir þættir, þótt til heilla séu, þyngja skuldbindingar í sameign lífeyrissjóða.

Því miður er það svo að fátæktarvandamál í mörgum sveitarfélögum eru hjá sjálfstæðum atvinnurekendum, sem hafa komist hjá því að kaupa sér réttindi í lífeyrissjóði.

Eiga launþegar þeirra, oftast mun tekjulægri á starfsævinni, að greiða fyrir þennan hóp með sköttum sínum?

Í velferðarsamfélagi er það því miður svo að það eru alls ekki allir sem eiga kost á að afla sér réttinda í lífeyrissjóði. Ástæður þess eru m.a. örorka og sjúkdómar. Þessu mætir löggjafinn með almannatryggingum. Það á ekki að vera ofrausn.

Þessu til viðbótar kemur breytt atvinnuþátttaka kvenna. Í minni æsku var það undantekning að mæður vina minna væru á vinnumarkaði. Nú er það hið almenna að konur eru fullir þátttakendur á vinnumarkaði. Með því eru breyttar forsendur fyrir makalífeyri lífeyrissjóða.

Hvað fæst fyrir hyggindi?

Það er eðlilegt að löggjafinn endurgjaldi fyrir hyggindi. Vissulega hefur löggjafinn sýnt þau hyggindi að fresta skattgreiðslum af iðgjöldum til lífeyrissjóða þannig að skattur af lífeyristekjum kemur á móti kostnaði af þjónustu við lífeyrisþega, en öldrun getur leitt til kostnaðarsamrar þjónustu.

Þannig er kostnaður við vist á dvalar- og hjúkrunarheimilum verulegur. Þeir sem dvelja á dvalar- og hjúkrunarheimilum greiða nokkurn hlut af dvöl sinni.

Ekki treysti ég mér til að greina þá 6.600 milljarða í eignum lífeyrissjóða í framlög sjóðfélaga og eignatekjur sjóðanna. Það er nefnilega hið eðlilega að eignir lífeyrissjóða gefa af sér tekjur, sem eru meiri en nemur rýrnun eigna af verðbólgu.

Það verður áleitin spurning hvað fæst fyrir þau hyggindi að taka ábyrgð á eigin lífi.

Ávöxtun og dvalarkostnaður

Er það óeðlilegt að þeir sem hafa náð að afla sér réttinda fái eitthvað fyrir það? Löggjafinn leggur skyldur á þegnana, en þessi sami löggjafi á að ívilna þegnunum með skattaívilnun af lífeyristekjum. Því miður eru tekjur af viðbótarlífeyrissparnaði oftast í efsta skattþrepi.

Í frjálsum sparnaði er enginn hvati. Þar er verðleiðrétting skattlögð. Löggjafi, sem vill ráða mannlegri hegðun, ætti að umbuna fyrir það sem kemur ríkissjóði löggjafans vel og ekki síst ef það er gert af eigin hvötum fólks.

Hinn svokallaði „Grái her“ berst fyrir því að hækka skatta eða tryggingagjöld á þá sem eru á vinnumarkaði. Hið eðlilega baráttumál ætti fremur að vera hvati til frjáls sparnaðar. Lífeyrisgreiðslur eru að stórum hluta úthlutun á ávöxtun lífeyrissjóða og að hinu leytinu útdeiling á uppsöfnuðu lífeyrisframlagi. Hið eðlilega baráttumál ætti að vera skattaívilnun af lífeyristekjum. Slík ívilnun er endurgjald vegna sparnaðar fyrir ríkissjóð löggjafans, verðbóta á eignir lífeyrissjóða og fyrir greiðsluþátttöku á dvalar- og hjúkrunarheimilum.

Því miður er það svo að löggjafinn neitar staðreyndum þegar þær koma illa við kaun þeirra sem fara með löggjafarvaldið, því það eru fjallkóngar sem fara með löggjafarvaldið.

Stjórnleysi og ofstopi

Það er stjórnleysi og ofstopi að ætlast til þess að mannleg hegðun komi aðeins ríkissjóði til góða. Hið eðlilega er að maðurinn njóti ávaxta af hegðun sinni. Má ég biðja löggjafann að íhuga að láta lífeyrisþega njóta ívilnunar fyrir skynsamlega hegðun.

Höfundur var alþingismaður.

Höf.: Vilhjálmur Bjarnason