Erla Sigríður Gunnlaugsdóttir fæddist 7. mars 1937. Hún lést 19. desember 2022.

Útför Erlu fór fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu.

Erlu er ég búin að þekkja frá því ég man eftir mér. Hún var góð vinkona mömmu og var mikill samgangur á milli heimila. Þegar foreldrar mínir fluttu til Bandaríkjanna er ég var tæplega 16 ára, þá bjó ég hjá Erlu og Jakobi í þrjá mánuði. Ég var þá að klára minn 3. bekk í gagnfræðaskóla. Erla og Jakob áttu þá tvo syni, þá Vilhjálm og Gunnar Má, þá níu og fjögurra ára. Gisti ég unglingurinn með þeim í herbergi og gekk vel. Fékk ég oft að passa þá á þessum tíma og voru það forréttindi. Erla fór í það að kenna mér að elda, og skiptumst við á að elda sitt hvora vikuna. Erla og Jakob voru yndisleg við mig í alla staði. Ég flutti svo til útlanda um sumarið. Var þar í eitt og hálft ár. Þá langaði mig aftur heim til þess að klára skólann, 4. bekk. Aftur voru það Erla og Jakob sem tóku mér opnum örmum og var ég hjá þeim í níu mánuði. Alltaf voru þau yndisleg við mig, man aldrei eftir að við rifumst, það getur ekki verið auðvelt að taka ungling inn á heimilið. Ég minnist bara Erlu og Jakobs með hlýhug. Eftir að ég eignaðist kærasta tóku þau honum opnum örmum og pössuðum við oft strákana. Ég er ekki að segja að Erla hafi verið skaplaus, hún var ákveðin, en góð kona. Er ég átti von á mínu fyrsta barni var ég stödd hjá Erlu ásamt móður minni. Þær sátu inni í eldhúsi að tala saman, og ég var farin að ganga um gólf. Þá segja þær allt í einu: ertu komin af stað, ertu með verki? Ég sagði: nei bara svo illt í bakinu. Þá fóru þær að taka tímann, og auðvitað var ég komin af stað. Þannig var að ég þurfti að eignast barnið í Reykjavík þannig að það varð úr að Erla keyrði. Ég lagðist aftur í bílinn og Erla lét mig sko heyra það að ef það heyrðist múkk í mér myndi hún setja mig út á Reykjanesbrautinni, og svo var hlegið. Allt gekk vel. Alltaf héldum við sambandi, kannski minna þessi síðari ár, en þannig vill það nú oft vera. Ég sagði oft að Erla væri hálfgerð fóstra mín og er Erla var inni á spítala eftir hjartaaðgerð fór ég til hennar og sagði við þær á spítalanum að hún væri fóstra mín. Þetta gerði ég svo ég mætti örugglega kíkja á hana. Halldóri kynntist ég auðvitað eftir að þau Erla fóru að búa saman. Góður maður þar á ferð. Sem betur fer fór ég til Erlu viku áður en hún dó, ég sá að hún þekkti mig, gat samt ekki mikið tjáð sig þar sem hún var orðin mjög veik, en sá bara í augunum á henni að hún þekkti mig. Hún sat frammi í hjólastól er ég kom og Halldór var hjá henni. Svo er hún var komin upp í rúm, þá strauk ég henni um andlit. Þá sagði hún: mér verður svo heitt, og ég sagði: fyrirgefðu, var þetta vont? Þá kom svona friður yfir andlitið og smá bros, hún sagði (fyrsta sem ég heyrði hana tala þarna): nei, þetta er svo gott. Þá strauk ég henni aftur og bauð henni góða nótt og kvaddi. Ég kveð Erlu með hlýhug. Hvíl í friði, elsku Erla.

En komin eru leiðarlok

og lífsins kerti brunnið

og þín er liðin æviönn

á enda skeiðið runnið.

Í hugann kemur minning mörg,

og myndir horfinna daga,

frá liðnum stundum læðist fram

mörg ljúf og falleg saga.

(Höf. ók.)

Valdís S. Sigurbjörnsdóttir.