Þórarinn Helgason, Doddi, fæddist í Reykjavík 20. mars 1950. Hann lést á HVE Akranesi 24. desember 2022.

Foreldrar hans voru hjónin Helgi Þórarinsson, f. 15. apríl 1920 og Guðrún Lárusdóttir, f. 11. sept. 1918, d. 27. apríl 2001.

Systkini hans eru Jónas, f. 18. nóvember 1947, d. 20. janúar 2011, Guðmundur Lárus, f. 26. mars 1953, Einar, f. 25. febrúar 1957, Guðjón, f. 28. ágúst 1959. Kristín Guðrún, f. 1. apríl 1962.

Þórarinn kvæntist 3. maí 1975 Margréti Báru Jósefsdóttur, f. 22. nóvember 1951. Foreldrar hennar eru Jósef Björgvin Einvarðsson, f. 31. maí 1921, d. 11. júlí 2005, og Elvíra Christel Einvarðsson (fædd Milkoweit) 6. mars 1928.

Sonur þeirra er Helgi Þórarinsson, f. 12. desember 1976, maki Anna Karolina Belko, f. 14. febrúar 1983, dætur þeirra eru Villimey Aurora, f. 26. nóvember 2015, Eldey Anja, f. 22. maí 2017, og Hrafney Helga, f. 1. júní 2022. Börn Helga með Joomjan Kongkam, f. 22. maí 1973, eru Þórarinn, f. 2. nóvember 2004 og Sóley Saranya, f. 7. júlí 2006.

Þórarinn ólst upp í Reykjavík til 1961 er fjölskyldan flutti vestur í Æðey. Eftir hefðbundna skólagöngu fór hann til Edinborgar og lærði þar hamskurð. Hann var í millilandasiglingum um tíma þar til hann fluttist á Akranes.

Vann hjá Sementsverksmiðju ríkisins, var háseti Akraborgar í 15 ár og síðan vaktmaður í gjaldskýli Spalar frá opnun Hvalfjarðarganga til síðustu vaktar er göngin urðu gjaldfrjáls.

Verkalýðsmál voru áhugamálið hans og starfaði hann með Verkalýðsfélagi Akraness sem var hans félag.

Útför hans hefur farið fram.

Þegar nálgast sólin náttstað sinn

eins og vant er hug minn hljóðan

setur.

Mér nú ertu horfinn vinur minn,

man þig varla nokkur betur

en mitt auma hjartatetur.

(Ólöf Arnalds)

Minn allra besti stuðningsmaður, elsku Doddi minn og gamli minn sem ég hef kallað svo. Það vantaði aðeins 12 daga upp á að við hefðum fagnað 50 ára samveruafmæli en við héldum upp á daginn sem við vorum kynnt hvort fyrir öðru 5. janúar 1973.

Höfum gengið saman gegnum súrt og sætt, stutt hvort annað og hann oftar mig þegar ég hef fengið margar dellurnar um ævina.

Hann hafði áhuga á tónlist og var mikill Lennon-maður, safnaði öllu sem gefið hefur verið út um The Beatles og hafði unun af að fara með Mumma bróður sínum á hina ýmsu tónleika því ég var í öðru.

Sem betur fer vitum við ekki hvenær okkar tími er kominn að yfirgefa þessa jarðvist, en það sem hjarta mitt er fullt af þakklæti fyrir okkar líf og ég veit að Doddi minn er laus við vanlíðan og það hefur verið tekið vel á móti mínum.

Okkar bestu stundir síðustu árin voru með barnabörnunum okkar sem hann dáði og hann elskaði að vera afi.

Ég geymi í hjarta mínu svo ótal margar góðar minningar og ylja mér við þær og mun segja barnabörnunum sögur af „afadarling“ sem fór allt of snemma.

Þín að eilífu,

Margrét Bára

Jósefsdóttir.

Það er með sorg í hjarta sem ég sest niður og skrifa nokkur orð um hann Dodda bróður minn, sem lést á aðfangadag. Við bræðurnir ólumst upp fyrstu árin á Barónsstíg en á vordögum 1961 fluttist fjölskyldan vestur í Æðey, en foreldrar okkar höfðu fest kaup á eyjunni og var það mikið gæfuspor. Skólagangan hélt áfram í Reykjanesi hjá honum og Jonna heitnum og voru því samverustundirnar ekki margar yfir vetrarmánuðina, þar sem komið var heim um jól og páska. Á sumrin var aftur á móti mikið líf, fjör og vinna þar sem einnig bættust í hópinn sumarkrakkar og kaupafólk. Við þrír elstu bræðurnir deildum með okkur svokölluðu suðurherbergi uppi á lofti og var þar oft spjallað saman þegar menn voru skriðnir undir dúnsængurnar. Stundum svolítið langt fram eftir nóttu, svo afa þótti mál að linnti og bankaði í vegginn til að þagga niður í liðinu. Doddi kláraði barnaskólann í Reykjanesi og fór síðan að Skógum, Núpi og í Ármúlaskóla. Doddi vann ýmis störf á skólaárunum. Var á síld og í vegavinnu. Hann hélt svo til Edinborgar og nam þar hamskurð, við kölluðum hann uppstoppara. Þá var ekki hægt að hringjast á og voru þau ófá bréfin sem fóru á milli okkar, hann úti en ég á Akureyri. Á afmælinu mínu fékk ég forláta bók frá honum með teiknimyndum og textum af lögum Bítlana og mörgum árum seinna gaf ég honum hana, því hún átti miklu meira heima hjá honum en mér. Hann var nokkur ár í siglingum hjá Eimskip og SHARP SLIMLINE-vídeótækin sem duttu annað veifið inn í landið báru af. Eitt áttum við Doddi sameiginlegt og það var músíkin. Hann var Bítlari út í eitt og átti allar plöturnar þeirra, bækur og endalaust af bolum, ég var Stónsari, en við hlustuðum á allt það rokk sem við gátum. Radionett-útvarpið var tekið með í fjós, út á tún og upp á herbergi, hlustað á lög unga fólksins og þáttinn með Andrési Indriða sem kynnti nýjustu lögin á laugardögum. Doddi fékk forláta tjald frá Belgjagerðinni í fermingargjöf og var því oft tjaldað á sumrin og að sjálfsögðu var útvarpið með. Þá gátum við náð í sjóræningjastöð þegar kyrrð var komin á sendingar í geimnum og heyrt allt það nýjasta í rokkinu, og er mér minnisstætt þegar Satisfaction með Stóns heyrðist þar fyrst og við því búnir að heyra það á þessari stöð í á annan mánuð, þegar Andrés kynnti það sem nýútkomið lag, en svona komu hlutirnir seint til landsins. Þeir eru fjölmargir tónleikarnir sem við Doddi fórum saman á. Bootleg Beatles, Elton John, Eagles, Neil Young, Joe Cocker, Dr. Hook, Jethro Tull hér heima að ógleymdum tónleikum með Stones á Parken og í London, en þeir bera af eins og gull af eiri og eru ógleymanlegir. Við heyrðumst reglulega og ætlaði ég að hitta hann í febrúar, en símtalið við hann rétt fyrir hádegi á aðfangadag verður okkar síðasta spjall hér. Og nú er ég einn eftir af herbergisfélögunum á Innra suðurherbergi en við hittumst bræðurnir um síðir.

Við Brynhildur sendum Báru mágkonu, Helga, Önnu og barnabörnum okkar dýpstu samúðarkveðjur.

Þín er sárt saknað, bróðir. Hvíl þú í friði.

Þinn bróðir,

Mummi.

Guðmundur Lárus Helgason.

Kallið er komið,

komin er nú stundin,

vinaskilnaðar viðkvæm stund.

Vinirnir kveðja

vininn sinn látna,

er sefur hér hinn síðsta blund.

(Valdimar Briem)

Kær vinur, Þórarinn Helgason, veiktist skyndilega og dó á aðfangadag jóla.

Harmafregnin barst á milli vina á aðfangadagskvöld.

Hann var gjarnan kallaður Doddi.

Minningarnar streyma fram: Samverustundir vina, heima hjá þeim hjónum, Báru og Dodda.

Á veturna: Inni í hlýju, notalegu stofunni í stóra húsinu þeirra.

Á sumrin: Úti í garði: Bakaðar vöfflur í sumarsól með góðu kaffi. Spjallað, prjónað og stundum grillað. Ef rigndi var markísan dregin yfir og kveikt í eldstónni. Setið lengur og sól í sinni.

Gjarnan var gestkvæmt á pallinum. Gestrisni og örlæti þeirra hjóna svo augljóst. Þau nutu þess að fá fjölskyldu og vini í fallega garðinn sinn.

Ég kalla hann ævintýragarð. Hann virkar þannig.

Doddi var góður fjölskyldufaðir og afi.

Glaður í bragði fylgdist hann með afastelpunum skottast um garðinn, leika sér og biðja afa um ís.

Doddi var vel menntaður og margfróður. Hafði ferðast um ókunn lönd og skoðað heiminn.

Ungur fór hann utan til náms og hafði frá mörgu áhugaverðu að segja frá námsárunum.

Það var auðvelt að sökkva sér niður í þannig spjall og gleyma stað og stund. Ferðast um heiminn í huganum. Og tíminn varð afstæður.

Við, fjölskyldan, kveðjum Dodda með þakklæti og biðjum þess að honum líði vel í Sumarlandinu.

Við biðjum Guð og bestu englana að umvefja Báru og börnin og vera hjá þeim alltaf.

Helga Ólöf

Oliversdóttir.

Elsku frændi minn er fallinn frá. Stór, hraustur, vitur og góður.

Með hlýja faðminn sinn og sitt hvassa, skemmtilega skopskyn, hann átti sér fáa líka.

Það var mikið ævintýri fyrir lítinn ferðalang frá Reykjavík að ferðast ein með Akraborginni upp á Akranes í heimsókn til Dodda og Báru. Þar starfaði Doddi um borð og sá meðal annars um að vísa fólki til stæðis. Hafði hann stundum orð á því að það væri betra ef sumir kæmu bara fótgangandi um borð.

Það fylgdi því mikil spenna að fara í heimsókn til þeirra, þar sem við brölluðum ýmislegt og það voru fjölbreytt verkefni sem við tókum okkur fyrir hendur. Allt frá því að fylgjast með uppstoppun á fuglum yfir í að setjast í sófann og horfa á hinar ýmsu bíómyndir.

Aðventuferðirnar mínar voru í sérstöku uppáhaldi. Þá skreyttum við húsið hátt og lágt og mér fannst Suðurgatan alltaf vera jólaland. Oft fékk ég að koma í heimsókn rétt fyrir jólin og þá náðum við í jólatré saman og skreyttum.

Það var nóg af öllu á Skaganum og aldrei skorti neitt. Að mínu mati voru Bára og Doddi sérlegir heimsborgarar sem yndislegt var heim að sækja.

Síðasta samverustundin okkar Dodda í þessu lífi var einmitt núna, nokkrum dögum fyrir jól, þar sem við fjölskyldan duttum inn í kaffi og spjall. Þau voru að skreyta jólatréð og auðvitað tókum við fjölskyldan þátt í því eins og forðum. Allir með, allir velkomnir og í hjartanu leið mér eins og ég væri aftur orðin barn á Suðurgötunni að skreyta fyrir jólin.

Ég er þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til þess að skapa margar góðar og innihaldsríkar minningar á heimili Dodda og Báru. Þar eignaðist ég líka aðra fjölskyldu sem fylgdi með henni Báru og þar fékk ég alltaf að vera eins og ég var, hoppandi, skoppandi og út um allt.

Ég hef alltaf verið mikill aðdáandi Villa Vill og einhvern veginn hugsa ég alltaf um gamla hliðið á Suðurgötu 45 þegar þessi partur úr laginu Söknuður heyrist og hann á vel við þó hliðið sé farið.

Ég gái út um gluggann minn

hvort gangir þú um hliðið inn.

Mér alltaf sýnist ég sjái þig.

Ég rýni út um rifurnar.

Ég reyndar sé þig alls staðar.

Þá napurt er, það næðir hér

og nístir mig.

(Vilhjálmur Vilhjálmsson)

Góða ferð elsku Doddi.

Elsku besta Bára mín, Helgi stóri, Anna og börn, megi englarnir og allar góðar vættir umvefja ykkur.

Ykkar

Alexía.

Elskulegi maðurinn hennar Báru vinkonu, Þórarinn Helgason frá Æðey, kallaður Doddi, hefur kvatt þetta líf, alltof snemma finnst mér!

Við vorum um tvítugt vinkonurnar, hressar og kátar að skemmta okkur í Klúbbnum, þegar Bára kemur með hávaxinn og glæsilegan ungan mann og kynnir fyrir mér undirritaðri, þau bæði með hnausþykkt rautt hár og freknótt og brosandi. Enda voru þau oft spurð hvort þau væru systkini, hjónasvipurinn magnaður allavega!

Þarna var grunnurinn lagður að farsælli sambúð og hjónabandi sem var þeim báðum til mikillar gæfu. Þegar þetta var var Bára í ljósmæðraskólanum en Doddi í millilandasiglingum. Doddi starfaði lengi á Akraborginni sem sigldi á milli Akraness og Reykjavíkur, seinna vann hann í mörg ár í gjaldskýlinu við Hvalfjarðargöngin. Doddi var annars menntaður hamskeri, lærði í Edinborg í Skotlandi og sótti sér svo viðbótarmenntun í faginu til Ameríku. Hann var mjög flinkur og bera verkin hans honum fagurt vitni!

Áhugamálin fyrir utan fjölskylduna voru mörg, hann var mikill bókakarl og safnaði bókum en tónlistin og þá sérstaklega Bítlarnir voru honum mjög hugleiknir og átti hann gott safn platna og geisladiska. Maður sá Dodda varla hin seinni ár öðruvísi en hann væri í bol merktum bítlunum og átti hann mikið safn af þeim. Verkalýðsmál og almenn velferðarmál, svo sem málefni öryrkja og flóttafólks, voru honum ofarlega í huga. Hann var mjög góður maður og mátti ekkert aumt sjá. Hann var afburðagóður vinur og greiðvikinn og naut ég oft hjálpar hans við ýmis viðvik!

Doddi naut þess að vera á pallinum með Báru sinni, og gestir ávallt velkomnir í kaffi og bakkelsi og oft grillaði hann fyrir okkur vinina og var kátur og skemmtilegur því hann var húmoristi af betri gerðinni!

Þau Bára og Doddi eignuðust einn son, Helga, sem var augasteinn þeirra, mikið náttúrubarn og góður drengur. Hann hefur aldeilis stækkað fjölskylduna, hefur eignast fimm börn, son og fjórar dætur. Doddi naut þess að vera afi enda mikill barnakarl og var gaman að fylgjast með honum þegar barnabörnin voru í heimsókn. Það er mikill harmur að þeim kveðinn. Ég vil að endingu þakka elsku Dodda fyrir vináttuna sem aldrei hefur fallið skuggi á!

Elsku hjartans Bára mín, innilegar samúðarkveðjur til þín og fjölskyldunnar frá mér og mínum!

Engum gagnast undanbrögð og orðagjálfur.

Vera skal frekar heill en hálfur,

helst af öllu maður sjálfur.

Heiðursmönnum hógværð er í huga brennd.

Gefin þeim, af Guði send,

er góðvild, æra og sómakennd.

(Gunnar J. Straumland)

Þín

Hrönn

Eggertsdóttir.