Sigurður Jónsson fæddist á Gilsbakka í Miðdölum 26. september 1933. Hann lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 14. janúar 2023.

Sigurður ólst upp hjá foreldrum sínum á Melum í Hrútafirði, Jóni Jósefssyni bónda og Elísabetu Jónasdóttur húsmóður. Hann lauk barnaskólanámi í farskóla í Bæjarhreppi en við andlát föður síns 1952 hóf hann búskap á Melum III, þá aðeins átján ára að aldri, og byggði þar íbúðarhús með bróður sínum Jónasi, f. 5.8. 1926, d. 22.2. 2008. Jón, eldri bróðir þeirra, f. 15.6. 1925, d. 23.1. 2013, hafði þá þegar hafið búskap á Melum. Mesta sína búskapartíð bjuggu þeir bræður og fjölskyldur þeirra þríbýli á Melum en síðustu 13 árin bjuggu Sigurður og Lilja þar tvíbýli með Hrafni, syni Jónasar.

Eftirlifandi eiginkona Sigurðar er Lilja Sigurðardóttir frá Bakkaseli, f. 26.7. 1937. Foreldrar hennar voru Sigurður Lýðsson, bóndi og smiður, og Guðný Margrét Jóhannesdóttir, húsmóðir og klæðskeri.

Börn Sigurðar og Lilju eru: 1) Jón, f. 26.9. 1958, húsasmíðameistari. Fyrrverandi maki hans er Ragnheiður Halldórsdóttir. Sonur þeirra er Sigurður Fannar iðnnemi. Sonur Ragnheiðar af fyrra hjónabandi er Frímann Sigurðsson verkefnastjóri. 2) Signý, f. 7.7. 1963, viðskiptafræðingur. Maki hennar er Aðalsteinn Svanur Sigfússon bókahönnuður. Fyrrverandi maki hennar er Þorfinnur Ísleifsson. Dóttir Signýjar og Þorfinns er Kolbrún hagfræðingur. Maki Kolbrúnar er Elías Kristinn Karlsson læknir. Dætur þeirra eru Nína Ösp og Hera Salvör. Fyrir átti Aðalsteinn Kötlu, Sigurð Orm og Atla Sigfús. 3) Drengur, andvana fæddur 8.6. 1968. 4) Eiríkur, f. 7.11. 1970, líffræðingur. Maki hans er Hrund Lárusdóttir dýralæknir. Börn þeirra eru Stefán og Elísabet. 5) Finnur, f. 21.11. 1972, tölvunarfræðingur. Barnsmóðir hans er Anna Heiður Baldursdóttir. Dætur þeirra eru Dýrleif og Hildur. 6) Heiðrún, f. 11.4. 1978, viðskiptafræðingur. Maki hennar er Friðbergur Jón Þorsteinsson ráðgjafi. Dætur þeirra eru Lilja Rós og Eva María.

Ungur vann Sigurður þá vinnu utan búsins sem bauðst, svo sem við uppskipun og sláturhússvinnu á Borðeyri og við byggingu rafstöðvarhúss og lagningu aðrennslislagnar Ormsárvirkjunar fyrir símstöðina í Brú. Sigurður sinnti frá árinu 1971 skólaakstri við Grunnskólann á Borðeyri og póstútburði í Bæjarhreppi. Þá var hann um tíma varðstjóri hjá Sauðfjárveikivörnum.

Fyrstu sex búskaparár sín á Melum III bjó Sigurður þar ásamt móður sinni. Hann kynntist Lilju eiginkonu sinni árið 1955 og hún flutti að Melum 1958. Þau giftust 12.9. 1959 og bjuggu á Melum III til ársins 2002 þegar þau brugðu búi og fluttu búferlum á Laugateig í Reykjavík.

Eftir að hann flutti til Reykjavíkur starfaði hann um tíma í byggingarvinnu hjá JS-húsum.

Árið 2006 fluttu þau í Kópavoginn, fyrst í Kjarrhólma en í Vogatungu 2010. Í júlí 2022 lagðist Sigurður inn á Hrafnistu í Hafnarfirði þar sem hann lést eftir stutt veikindi 14. janúar síðastliðinn.

Sigurður verður jarðsunginn frá Kópavogskirkju í dag, 27. janúar 2023, klukkan 15.

Elsku pabbi. Nú er komið að því að kveðja. Þér lá á þegar að því kom – við rétt klár að setja okkur í stellingar að komið væri að kveðjustund þegar þú varst bara farinn – yfirgafst þessa jarðvist hljóðlega og án átaka. Það var skrítin tilfinning að fá fréttirnar – svolítið eins og að hafa misst af því að segja bless svo ég segi það með þessum orðum í staðinn.

Ég kann best að lýsa þér með ást þinni á kveðskap. Ég hef engum öðrum kynnst á minni ævi með aðra eins ást á hvers kyns kveðskap. Þú kunnir utan að ógrynni af vísum og ljóðum og undir það síðasta þegar getan var farin á mörgum sviðum var þetta svið eftir og þú naust þess óspart. Það síðasta sem þú hafðir að segja við mig daginn áður en þú fórst var vísa.

Ég minnist þín skellihlæjandi inni í herbergi að lesa Ævisögu Árna prófasts Þórarinssonar. Það var unun að hlusta á þig skellihlæja upphátt við lesturinn. Í minningunni lastu þessar bækur reglulega.

Ég horfi á þig kjá framan í börn og leika við þau. Bræður mína og systur, barnabörn bræðra þinna, dóttur mína, önnur barnabörn þín og langafabörn. Þú elskaðir börn og þau elskuðu þig.

Ég horfi á þig ganga að mömmu þar sem hún er að elda kvöldmatinn og snerta hana með þeim hætti að við vorum alltaf handviss um að þú elskaðir hana meira en allt.

Ég minnist ykkar koma heim af böllum eins og ástfangnir unglingar. Ég var svo montin af því. Mér fannst svo gott að eiga foreldra sem elskuðu hvort annað heitt.

Ég minnist þín fá börn bræðra þinna í heimsókn. Sýna þeim áhuga og eiga við þau langar samræður um allt milli himins og jarðar.

Ég minnist hlátraskalla þinna, viðkvæmni þinnar, barnsins sem alltaf var grunnt á þegar þú varst annars vegar. Ég hefði viljað kynnast þessu barni nánar en þú vildir það ekki.

Mig langar að þakka þér fyrir allt. Þakka þér fyrir atlætið í æsku. Þakka þér fyrir ástina sem þú barst til mömmu og okkar allra barnanna þinna, barnabarnanna, langafabarnanna og til barna allra bræðra þinna. Þakka þér fyrir áhugann sem þú sýndir þeim síðasttöldu alltaf þegar þau komu yfir til okkar og skipti mig alltaf svo miklu máli. Það er nefnilega ástin sem öllu skiptir – held ég. Ég held það sé ástin – kærleikurinn sem maður skilur eftir sig sem skiptir máli. Þar stóðst þú þig vel pabbi – þú snertir hjörtu margra. Ég elska þig.

Það var eitt kvöld að mér heyrðist hálfvegis barið,

ég hlustaði um stund og tók af kertinu skarið,

ég kallaði fram, og kvöldgolan veitti mér svarið:

Hér kvaddi Lífið sér dyra, og nú er það farið.

(Jón Helgason)

Takk fyrir allt pabbi minn.

Þín dóttir,

Signý.

Að koma utan frá og tengjast inn í Melafjölskylduna á fimmtugsaldri var lífreynsla og margt sem ég þurfti að læra þótt ég kæmi úr hliðstæðu umhverfi – úr ámóta systkinahópi sem ólst líka upp á sauðfjárbúi í norðlenskri sveit. Var hins vegar ekki viðbúinn að þurfa að ná utan um þennan skara af Melafólki; fjölskyldur þeirra bræðra þriggja með kynslóðum af afkomendum. En það var óhemju gaman og stuttu eftir að við Signý tókum saman var fólkið frá Melum orðið mitt fólk. Mér var tekið af gestrisni og hlýju.

Ég tel mig koma úr samhentri fjölskyldu en fékk alveg nýja sýn á slíkt við þessi kynni. Þessi nánu tengsl og miklu samskipti Sigga og Lilju við börn sín og barnabörn, með órofa samheldni þeirra allra, eru ekki lík neinu sem ég hef kynnst. Og ræturnar í Hrútafirði það sem allt stendur á og vex upp af.

Við Siggi náðum strax vel saman og gátum kjaftað um fjölmargt. Höfðum eðlilega ólík viðhorf til ýmissa málefna og áttum það til að kýta um pólitík eða sauðfjárbeit og ég lærði fljótt að hann hafði meira gaman en ég af pólitískum þrætum – stundum hvessti ögn. Aldrei man ég samt til þess að hann hafi gert minnstu tilraun til að fá mig á band Framsóknarflokksins sem hann studdi af trúmennsku til æviloka. Oft kom hann mér að óvörum með skarpri sýn á það sem raunverulega skipti máli í hverri umræðu og hann tileinkaði sér með opnum huga það úr breyttum viðhorfum nýrra tíma sem augljóslega var til bóta fyrir fólk og samfélag. Slíkt köllum við víðsýni.

Okkar tenging varð hvað sterkust gegnum skáldskap. Hann kunni allra manna best að meta íslenska ljóða- og vísnahefð og hafði kvæði og vísur á hraðbergi við hvert tækifæri. Kunni hafsjó af slíku og gat þulið heilu ljóðabálkana. Virðing hans fyrir skáldum og góðum hagyrðingum var djúp og sönn.

Starf Melabóndans var Sigga í blóð borið kynslóð fram af kynslóð og ég skynjaði fljótt að hann hafði verið góður bóndi og stoltur. Ég kom of seint inn í hópinn til að hitta fjölskylduna fyrir heima á ættaróðalinu en allar sögurnar, myndirnar hennar Lilju og væntumþykjan til heimahaganna gera það að verkum að mér líður stundum eins og ég hafi verið þar líka.

Sigurður Jónsson frá Melum var af þeirri kynslóð Íslendinga sem lifað hefur hvað mesta breytingatíma. Þeim fer nú fækkandi sem ólust upp til sveita við aðstæður og lifnaðarhætti sem um margt voru jafnvel líkari því sem var við landnám en á okkar tímum nú. En þrátt fyrir að samfélagið og heimurinn allur hafi umturnast á flestum sviðum meðan Siggi lifði er þó eitt sem hann vissi að óhaggað stæði meðan heimur er uppi: Ekkert jafnast á við íslenska lambakjötið.

Takk fyrir samfylgdina tengdapabbi kær, takk fyrir viðbótarfjölskylduna og takk fyrir ljóðin. Hvíldu í friði.

Lilju votta ég mína dýpstu samúð, systkinunum fimm, afkomendum og venslafólki öllu.

Aðalsteinn Svanur Sigfússon.

Elsku afi minn. Það er ekki að ástæðulausu hve mörg börn í fjölskyldunni og hún Nína mín meðtalin, þó hún hafi varla upplifað sveit, hafa ætlað sér að verða bændur á einhverjum tímapunkti. Ég var alveg viss um það í mörg ár að ég ætlaði að verða bóndi á Melum eins og þú þegar ég yrði stór. Eins viss og ég var um að afi minn væri besti bóndi í öllum heiminum. Ég er ennþá nokkuð viss um að það seinna sé rétt. Mér verður oft hugsað til þess, til virðingarinnar sem þú barst fyrir dýrunum og hvað þú hafðir gaman af þeim. Ég mundi það í hvert sinn sem þú klappaðir Ösku, þá kom þetta sama bros og þegar þú straukst kindunum þínum um vangann í fjárhúsunum, þegar þú laumaðir til hennar vöfflu eða kexi sama hvað ég sagði. Ég man þegar þú skammaðir mig þegar við Jóhanna frænka höfðum verið að brynna í fjárhúsunum og vatnið reyndist drullugt stuttu seinna og þú spurðir hvort við myndum vilja drekka svona vatn eins og við skildum eftir. Maður átti að koma fram við dýrin eins og fólk, það dugði ekkert minna. Ég hef sagt þær ófáar hetjusögurnar af afa mínum á Melum í gegnum tíðina, afa mínum sem hætti eigin lífi til að bjarga kindunum sínum úr háska. Í fjárhúsunum með þér lærði maður að vinna þó það væri stundum erfitt að afi, sem fram að því hafði verið svo ótrúlega fyndinn og skemmtilegur þegar hann hljóp á eftir manni með fölsku tennurnar hálfar út úr munninum að þykjast vera ljón, fór stundum að skamma mann fyrir að gera hlutina ekki rétt. En hollt veganesti var það nú samt. Hrós var kannski ekki á hverju strái en það var ansi mikils virði þegar það kom. Að finna að maður skipti máli, bara 10 ára gamall. Sá tími styrkti okkar samband líka seinna meir, þegar ég var orðin unglingur og við höfðum minna um að tala, alltaf skiptu minningarnar frá Melum miklu máli og ég fann að það skipti þig máli hvað ég talaði alltaf vel um þennan tíma. Jólin, lamandi spenningurinn yfir fullkomnustu jólum sem til voru með fjölskyldunni saman. Hátíðleikinn, hefðirnar, biðin endalausa á aðfangadag, þegar þú bannaðir manni að spila þrátt fyrir að trúa ekki á guð eða Jesú, þegar þú sagðir að ekkert jafnaðist á við íslenska lambakjötið.

Þegar ég hugsa um þig afi, þá sé ég þig fyrir mér hlæjandi yfir einhverjum litlu barnabörnunum eða langafabörnunum þínum, yfir einhverju sniðugu kvæðinu sem þú rifjaðir upp allt fram á síðustu stundu, yfir einhverju rugli einhvers stjórnmálamanns sem hafði rausað í útvarpinu þann daginn. Þú varst stór persónuleiki, skapstór, glaðlyndur, einlægur, hlýr, viðkvæmur, hávær og með sterkar skoðanir en alltaf einfaldlega þú. Takk fyrir að leyfa okkur að kynnast þér á þinn einstaka hátt. Ég elska þig afi minn.

Þín

Kolbrún.

Sigurður föðurbróðir minn var yngstur þeirra Melabræðra, sem allir settust að búi ungir menn á föðurleifð sinni. Bernskustöðvar okkar barnanna sem ólumst upp á Melum einkenndust af traustu nábýli, enda stóðu íbúðarhúsin tvö á sömu torfunni. Og mörg bústörfin sameinuðu líka hópinn. Sem elsta barnið á bænum naut ég þess að geta að nokkru leyti litið á Sigga frænda minn sem leikfélaga, hann brá oftar á leik en títt var um fullorðna í kringum okkur og slóst gjarna í hópinn þegar blásið var til boltaleikja.

Siggi hóf búskap bráðungur maður og var framkvæmdasamur alla tíð, reisti snemma íbúðarhús í félagi við Jónas bróður sinn, og síðan myndarleg fjárhús sem hann hélt vel við og stækkaði eftir því sem bústofninn jókst. Sem bóndi var hann farsæll, enda verklaginn og vandvirkur. Farsældin fólst þó umfram allt í því að eignast Lilju að lífsförunaut og deila með henni gleði og áhyggjum á langri ævi. Heimili þeirra á Melum bar húsráðendum fagurt vitni, þar sem snyrtimennska og gestrisni var í hávegum höfð.

Okkur systkinunum mættu ævinlega góðar móttökur þegar við komum yfir til Sigga og Lilju, þar stóð veisluborð með kökum og kræsingum og fjörugar samræður áttu sér stað. Oft snerist talið að þjóðmálum og pólitík en Siggi var eldheitur framsóknarmaður og gat verið hvassyrtur um andstæðinga þeirra. Þá gat verið erfitt að þykjast vilja líta til annarra átta. En alltaf voru samræðurnar þroskandi og eftir sat sterk tilfinning um einlæga væntumþykju og umhyggju. Börnin okkar nutu síðar sama viðmóts, og þeim var dýrmæt og eftirminnileg reynsla að sinna vor- og sumarstörfum á Melum í kringum aldamótin. Þar fékk Jóhanna enn á ný að upplifa sauðburð, en Ágúst ók traktor og fór á vélhjóli upp um heiðar í girðingarvinnu sem Siggi hafði umsjón með.

Sveitastörf hafa löngum verið annasöm og lengi þótti ekki við hæfi né gefast færi á að njóta hvíldar og tilbreytingar með því að taka sér sumarfrí. Siggi og Lilja voru ekki bundin þessu viðhorfi og þegar færi gafst tóku þau sig upp og ferðuðust um landið og oftast voru börnin með í för. Í þessum ferðum fóru þau víða um og varðveittu minningar um þær í fjölda ljósmynda sem Lilja tók og bættust í það mikla myndasafn sem hún hefur komið upp og glatt okkur með í gegnum árin.

Þegar aldur og minnkandi líkamsþrek fór að segja til sín ákvað Siggi að bregða búi og laust eftir aldamótin fluttust þau hjónin suður þar sem börnin þeirra höfðu þegar komið sér fyrir. Í Kópavogi bjuggu þau sér fallegt heimili og héldu þar uppi sömu rausn og fyrr, umvafin sínum stóra hópi afkomenda.

Síðustu árin reyndust frænda mínum erfið því að líkamsþrótturinn fór þverrandi, en andleg heilsa hans var óbuguð allt til hins síðasta. Hann tók vel á móti okkur Siggu þegar við heimsóttum hann á Hrafnistu á haustdögum. Sem fyrr var spjallað um fjölskylduhagi og þjóðmálin reifuð. En nú er ævigöngunni lokið og ég kveð frænda minn með þakklæti um leið og ég sendi Lilju og fjölskyldunni allri samúðarkveðjur.

Jón Hilmar

Jónsson.

Siggi föðurbróðir okkar var yngstur bræðranna þriggja sem bjuggu á Melum í Hrútafirði. Ég, Elsa, á nokkuð erfitt með að setja minningar mínar í orð en myndir af Sigga raðast í hugann: Ég sé unga manninn sem hleypur um í leikjum með okkur og skömmu síðar sé ég hann birtast með Lilju sína, þau nýtrúlofuð og við mænum í hrifningu á þetta unga og ástfangna par. Ég sé hann síðan daginn sem hann varð 25 ára koma himinlifandi inn til okkar og tilkynna okkur fæðingu nýs frænda.

Við börnin vorum vön að taka þátt í verkum úti sem inni eftir bestu getu; slíkt þótti sjálfsagt á þessum árum og ekki ástæða til að hrósa sérstaklega fyrir. Því man ég svo vel eitt sinn þegar farið var ríðandi að smala og ég fann afvelta á sem vargurinn var kominn í en hún lifandi. „Fjandi varstu seig,“ sagði Siggi þegar ég tilkynnti þeim pabba þetta, og hrósið sat í minninu. Siggi og Lilja voru framúrskarandi fær í sauðburðarhjálp og margar ferðirnar komu þau í húsin til okkar þegar við höfðum gefist upp á að hjálpa lambi í heiminn, hvort sem var að nóttu eða degi.

Seinna komum við systur oft að Melum með fjölskyldum okkar og dvöldum um lengri eða skemmri tíma og alltaf sýndu þau Lilja og Siggi okkur umhyggju og væntumþykju. Börnin okkar gengu út og inn á heimili þeirra enda á svipuðum aldri og yngri krakkarnir þeirra og alltaf voru þau velkomin. Siggi gerði að vísu athugasemdir um barnafjöldann hjá okkur, það væri allt of lítið að eiga bara eitt eða tvö börn!

Siggi og Lilja voru mjög dugleg að ferðast og nutu í ríkum mæli náttúru Íslands, en fátítt var í sveitinni á þeim árum að bændur „legðust í ferðalög“. Þessar ferðir voru þeim sannkölluð endurnæring og uppspretta góðra minninga, sem Lilja gerði margar varanlegar á sínum frábæru myndum

Ef Siggi hefði haft þau tækifæri sem bjóðast nú á tímum hefði lífið líklega leitt hann á aðrar slóðir þar sem hann hefði menntað sig til annarra starfa, svo fjölhæfur sem hann var. Það hamlaði honum mjög að hann stamaði mikið og hefur örugglega ráðið mestu um stutta skólagöngu, en það bætti hann sér upp með miklum lestri og öðru sjálfsnámi. Margir muna magnaðan flutning hans á ljóðum sem hann kunni utan að, og þá háði stamið honum ekki!

Lífið færði Sigga það hlutverk að vera bóndi í sveit þar sem hann bjó vel að sínu og eignaðist frábæra konu og börn. Þau Lilja áttu marga góða vini og mikill gestagangur var á heimilinu. Ekki má gleyma öllum unglingunum sem voru í sveit hjá þeim, margir hverjir sumar eftir sumar og urðu vinir þeirra til lífstíðar.

Við systurnar söknum Sigga. Hann hefur fylgst með okkur og afkomendum alla ævi okkar og á ferðalögum sínum heimsóttu þau Lilja oft þær okkar sem bjuggu í öðrum landshlutum, sem var mjög dýrmætt. Eftir að þau fluttu frá Melum hittum við þau því miður miklu sjaldnar en ræktarsemi þeirra í okkar garð var óbreytt.

Elsku Lilja, Nonni, Signý, Eiríkur, Finnur, Heiðrún og fjölskyldur, við systur sendum ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Sigga frænda.

Elsa, Ína, Þóra og Birna.