Ólafur Sæmundsson fæddist 9. janúar 1938 í Auðsholti í Ölfusi. Hann lést 20. janúar á Hornbrekku í Ólafsfirði.

Foreldrar Óla voru Sæmundur Þorláksson, f. 15.9. 1903, d. 14.12. 1985, og Magnea Svava Jónsdóttir, f. 22.11. 1910, d. 20.7. 1965. Bræður: Tómas, f. 15.4. 1936, d. 12.9. 2018, og Guðmundur, f. 13.9. 1943.

Óli var kvæntur Kristínu (Diddu), f. 10.12. 1941, dóttur Ásgríms Hartmannssonar, f. 13.7. 1911, d. 13.8. 2001, og Helgu J. Sigurðardóttur, f. 22.3. 1917, d. 14.9. 2005.

Börn þeirra eru: 1) Helga, f. 1960; gift Skarphéðni Aðalbjörnssyni, f. 1958. Börn: a) Óli Grétar, f. 1978; börn: Ómar Már, Aron Helgi, Tristan Breki og Alex Leví; maki: Sigurlaug H. Helgadóttir, f. 1987; b) Ásdís, f. 1980; börn: Diljá Tara, Helga Mey og Ólöf Marý; maki: J. Orri Jóhannsson, f. 1982; c) Ómar Björn, f. 1982; börn: Friðrik Helgi, Kristján Daði, Bergsveinn Almar og Brynjar Ísak; maki: Lísbet P. Gísladóttir, f. 1982; d) Bryndís, f. 1988; börn: Skarphéðinn Þór, Óli Frímann og Kristinn Bóas; maki: Torfi Guðmundsson, f. 1982; e) Kristinn Geir, f. 1993. 2) Svava, f. 1962, gift Helga H. Helgasyni, f. 1961. Börn: a) Hrafnhildur María, f. 1984, maki: Carsten Nielsen, f. 1978; b) Kristín Ólöf, f. 1986; c) Sigurrós Inga, f. 1995. 3) Greta Kristín, f. 1963, gift Antoni Konráðssyni, f. 1960. Börn: a) Júlí Ósk, f. 1983; börn: Erla Antonía, Daníel Gauti og Emilía Karen; maki: Hjörleifur G. Hjörleifsson, f. 1980; b) Katrín Sif, f. 1986; börn: Stefán Gretar, Alexander Ágúst og Konný Marsibil; maki: Sigurður G. Hjartarson, f. 1982; c) Áslaug Eva, f. 1991; börn: Óliver Heiðar og Telma Karen; maki: Helgi Már Hreiðarsson, f. 1987; d) Brynhildur Konný, f. 1996; barn: Ylfa Júnía; maki: Grétar Már Björnsson, f. 1994. 4) Hörður, f. 1966, giftur Sigrúnu Aðalsteinsdóttur, f. 1969. Börn: a) Hulda María, f. 1990; börn: Sonja Maria og Sandra Elise; maki: Raymond Sundt, f. 1987; b) Harpa Hrönn, f. 1993; maki: Hjalti Þór Ólafsson, f. 1993. 5) Eva Sigríður, f. 1970, gift Sigurði Sigurbjörnssyni, f. 1976. Börn: a) Ólöf Edda, f. 1988; barn: Tanya Ósk; maki: Benedikt Þrastarson, f. 1993; b) Ágúst Örn, f. 1992; börn: Kara Lív, Rakel Mist, Sigurður Steinn og Camilla Alba; maki: Alexandra Þorsteinsdóttir, f. 1993; c) Lilja Ósk, f. 2005; d) Selma Ósk, f. 2007.

Óli ólst upp á Eyrarbakka. Hann fór 16 ára á sjó. Fyrstu vertíðirnar var hann á Jóhanni Þorkelssyni ÁR, 1956 á Faxa ÁR, 1957 á Sigrúnu VE og Bergi VE og frá 1958-1960 á Helgu RE, sem var aflahæsti báturinn 1957-1959, 1960 á Geir RE og 1961 á Gunnólfi ÓF. Óli útskrifaðist 1961 úr Stýrimannaskólanum og var eftir það skipstjóri á Sæþóri ÓF, Ólafi Bekk ÓF, Múla ÓF, Gissuri hvíta ÓF og Snæbjörgu ÓF. Hann stundaði sjóinn í þrjá áratugi. Þegar hann kom í land vann hann í fyrstu á Hraðfrystihúsi Magnúsar Gamalíelssonar en varð síðan hafnarvörður í Ólafsfirði og sinnti því starfi til sjötugs.

Óli verður jarðsunginn frá Ólafsfjarðarkirkju í dag, 27. janúar 2023, klukkan 13.

Elskulegur faðir minn er látinn. Pabbi með stórfjölskylduna sína, fimm börn og fullt af afkomendum. Það myndast tómarúm þegar einhver svona nákominn er ekki til staðar lengur. Pabbi var eins og pabbar eiga að vera, sterkur, duglegur, kátur og mjög ánægður með hjörðina sína.

Minningar poppa upp eins og þegar pabbi var nýkominn úr siglingu þar sem einhver hafði bent honum á kjúklinga sem góðan mat, vildi hann prufa og keypti í nokkrar máltíðir eða 20 stk. þarna í Englandinu. Til að vera viss um að magnið væri nóg fyrir fjölskylduna eldaði pabbi fjóra kjúlla! Við vitum jú öll að á fuglum er ekki mikið kjöt, það er að segja svartbak, rjúpu o.fl. en þaðan hafði pabbi reynslu sína. Við vorum þetta ca. 10 og niður í 2ja ára börnin og mamma borðar á við fugl. Ég skal votta að það voru nógir afgangar.

Talandi um siglingar þá var gjarnan siglt rétt fyrir jólin og pabbi lageraði upp fyrir árið með innkaupum fyrir heimilið í þessum ferðum. Hann keypti líka jólaföt á skarann og alltaf passaði allt. Hann sagði að þegar í búðirnar var komið veldi hann afgreiðslukonu til að hjálpa sér með númer og sentímetra svo allt myndi passa.

Sem barn svaraði ég í símann einu sinni og var það pabbi að láta vita að honum myndi seinka þar sem hann var hjá lækninum en pabbi hafði misst framan af putta. Pollrólegur!

Hann hélt alltaf ró sinni í krísum. Sem barn hafði hann klemmt sig illa í veislu sem foreldrar hans héldu og lét hann fyrst vita eftir veisluna þar sem hann vildi ekki eyðileggja veisluna fyrir mömmu sinni.

Pabbi minn var mikill harðjaxl en hafði fengið sig fullsaddan af veikindum undir það síðasta og ekki hjálpaði að vinir og samferðafólk féllu frá hvert af öðru.

Elsku pabbi, nú getur þú farið aftur á fullt í sumarlandinu með þínu fólki þar og við mætum svo í partíið þegar okkar tími er kominn!

Svava.

Nú kveð ég þig, elsku fallegi og góði pabbi minn. Engan veit ég eins tryggan og þig. Ég verð ávallt stolt af því að vera dóttir þín. Ég vissi alltaf hvar ég hafði þig, aldrei tilgerð eða fals. Ég kveð full þakklætis. Takk fyrir að vera til staðar og finnast það sjálfsagt. Takk fyrir að elska börnin mín eins og mig.

Þig sem í fjarlægð fjöllin bak við dvelur

og fagrar vonir tengdir líf mitt við,

minn hugur þráir, hjartað ákaft

saknar,

er horfnum stundum ljúfum dvel

ég hjá.

Heyrirðu ei, þig hjartað kallar á?

Heyrirðu ei storm er kveðju mína ber?

Þú fagra minning eftir skildir eina,

sem aldrei gleymist meðan lífs ég er.

(Valdimar Hólm Hallstað)

Þín

Eva.

Elsku pabbi. Nú ertu farinn í sumarlandið og vonandi laus við verkina sem hrjáðu þig og farinn á fullt. Þú varst alltaf að og mikill dugnaðarforkur.

Ég man þegar þú komst heim úr siglingunum; þá var mikill spenningur því að alltaf keyptir þú eitthvað spennandi handa börnunum þínum fimm og heimilið fylltist af alls konar varningi.

Þú varst skipstjóri í mörg ár en eftir að þú hættir á sjó og fórst að vinna í landi var alltaf nóg að gera hjá þér. Þú varst svakalega góður kokkur; alveg sama hvaða mat þú eldaðir, allt svo gott. Þú bakaðir randalínu, gerðir flatbrauð, útbjóst rabarbarasultu og ekki má nú gleyma pönnukökunum sem voru bestu og fallegustu pönnsur í heimi. Svo voru settar niður kartöflur og vonast eftir góðri uppskeru svo að þú gætir nú strítt Gunna nágranna á því að uppskeran þín væri meiri en hans, en Gunni var nú ekki sammála því.

Þú varst mikill barnakarl; alltaf að faðma barnabörnin. Og þegar við systkinin vorum að skoða gömul albúm varstu iðulega með barn eða börn í fanginu á myndunum.

Elsku pabbi, ég veit þú hefur áhyggjur af mömmu en við systkinin munum hugsa vel um elsku mömmu.

Minning þín lifir, elsku pabbi.

Þín dóttir,

Helga.