Ólafur Hrafn Ásgeirsson fæddist í Reykjavík 3. september 1962. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 2. janúar 2023.

Foreldrar hans voru Rakel Ólafsdóttir, f. 29. maí 1936, d. 23. október 2020, og Ásgeir Magnússon, f. 22. september 1933, d. 11. maí 2007. Systkini Ólafs eru: Bertha Kolbrún, f. 9. mars 1955, Magnús Ómar, f. 11. ágúst 1957, og Ásgeir Brynjar, f. 15. mars 1969.

Ólafur Hrafn var í sambúð með Ástu Rós Magnúsdóttur, f. 22. apríl 1974, og áttu þau einn son, Viktor Hrafn, f. 8. mars 2012. Fyrir átti Ásta Rós dótturina Bryndísi Rós Morrison, f. 7. mars 1997.

Önnur börn Ólafs eru: Ásgeir Hrafn, f. 21. apríl 1987, Nanna Rakel, f. 16. febrúar 1989, Ómar Hrafn, f. 3. janúar 1994, Jónína Líf, f. 25. júlí 1995, og Elísabet Líf, f. 4. september 1999. Barnabörnin eru sex.

Ólafur átti heima í Kópavogi til átta ára aldurs en fluttist þá til Svíþjóðar. Þar var hann búsettur með fjölskyldu sinni til 20 ára aldurs en flutti þá aftur til Íslands. Í Svíþjóð fór hann í sjúkraliðanám en síðar bætti hann við sig kerfisfræði og fleiri gráðum því tengdum.

Hann hefur starfað við ýmislegt í gegnum tíðina, m.a. sem sjúkraliði og í sænska sendiráðinu, en síðastliðin 10 ár vann hann eingöngu sem kerfisstjóri hjá nokkrum fyrirtækjum: Novomatic, Origo og lauk starfsferli sínum hjá Arion banka.

Ólafur var virkur í starfi hnefaleika á Íslandi og var einn af frumkvöðlum þess hér á landi. Hann þjálfaði hjá Karatefélagi Íslands síðastliðin ár.

Útförin fór fram 17. janúar í kyrrþey.

Ég bar gæfu til að eignast Óla sem eins konar „bónus“-föður þegar ég var fimm ára og varð hann minn uppeldisfaðir. Hann var fyndinn, keyrði þá um á Benz með engum beltum og var alltaf í svörtum leðurjakka með tónlistina á fullu. Hann spilaði alla tónlist mjög hátt og lifði sig mikið inn í hana. Hann var ekki maður margra orða en þau orð sem hann sagði gat maður treyst á að reyndust sönn og rétt. Orð hans stóðust og ef hann ætlaði að sækja mann var hann kominn eftir „sjö mínútur og 14 sekúndur“ og þá var eins gott að vera tilbúinn því agi er dyggð.

Eitt sinn var ég lögð í mikið einelti og Óli tók ekki annað í mál en að mæta upp í skóla og ræða aðeins við þá stráka sem þá höfðu stolið skónum mínum, eftir það var ég látin í friði.

Ég er svo þakklát fyrir að hafa fengið svona fullkomlega ófullkominn mann inn í mitt líf, sem hefur leiðbeint mér, tekið samtalið um eiturlyf, peninga, karlmenn og þá aðallega „Bryndís passaðu þig, þeir eru allir eins!“, þunglyndi, ofbeldi, trúarbrögð og í raun allt sem mér datt í hug að ræða. Síðustu dagana þegar við systur vorum að heimsækja þig inn á spítala, þá varstu alltaf „fínn“ og betri en í gær og vildir frekar vita hvernig okkur liði. Þú hafðir mikinn metnað fyrir því að við værum allar á góðum stað í lífinu og hafðir miklar áhyggjur af því að skilja okkur eftir í einhverju óöryggi, það segir svo margt um þitt hjartalag. Við áttum alls ekki að hafa tilfinningar okkar á „off“ því það myndi bíta okkur í rassinn seinna og varstu stoltur af því að enginn okkar var með „slökkt“ á þeim. Við værum að gera eitthvað rétt sem þú hefðir fattað allt of seint. Þú vildir gefa okkur heiminn áður en þú fórst og meðal annars í einu spjallinu áttum við allar að velja okkur bók sem við myndum svo öll skiptast á um að lesa, en það bíður víst betri tíma.

Það verður enginn eins og þú, þú risastóri og skrautlegi persónuleiki.

Takk fyrir samfylgdina og uppeldið, við tölum saman og mér þykir svo vænt um þig.

Þín dóttir og stríðsmaður, við berjumst alltaf.

www.mbl.is/andlat

Bryndís Rós.

Elsku besti pabbi, ég mun alltaf elska þig. Þú varst einn af þeim mikilvægustu í mínu lífi, þú vildir gera allt til að veita okkar hamingju, þú varst besti pabbi sem ég gat átt. Þú nenntir að gera allt, nema þegar þú varst í vinnunni og þegar þú fékkst krabbamein, en þú reyndir alltaf þitt besta til að gera það sem ég spurði þig um. Reyndir alltaf að kenna mér box og fara út með mér í fótbolta og körfubolta, reyndir og reyndir. Mundu að þú munt alltaf vera í fyrsta sæti í hjartanu mínu elsku besti pabbi minn, vonandi líður þér vel.

Elska þig sæti pabbi.

Þinn

Viktor.

Elsku bróðir okkar kvaddi okkur 2. janúar í faðmi fjölskyldu sinnar á líknardeild í Kópavogi eftir baráttu við krabbamein.

Þar var töggur í Óla, mikill baráttuvilji og það átti líka við hann í lífinu almennt og hvað sem bjátaði á þá gafst hann aldrei upp þótt á móti blési. Hann vann þrátt fyrir erfið veikindi næstum upp á það síðasta sem vefstjóri. Óla var margt til lista lagt, hafði m.a. gaman af að yrkja ljóð og var vel lesinn og fróður um margt. Hann stundaði íþróttir, m.a. box, og hafði gaman af fótbolta. Hann var yfirleitt vel klæddur og fylgdist vel með tískunni hverju sinni.

Óli var sá eini af okkur systkinum sem bjó á Íslandi, hann ólst upp ungur að aldri að mestu leiti í Malmö, Svíþjóð, og búum við systkinin hans þar og fjölskyldur okkar. Það voru höfðinglegar móttökur sem við fengum hjá Óla og Ástu þegar við heimsóttum þau til Íslands og þótti okkur gott að fá hjá þeim ekta íslenskan mat. Óli reyndi að hitta okkur eins oft og hann gat til Malmö, stundum ásamt Ástu Rós konu sinni og börnum. Það var oft kátt á hjalla þegar við systkinin hittumst. Var mikið fjör, dansað, grillað og margt til skemmtunar gert á fallegu sumardögum og kvöldum. Við systkinin höfðum mikið samband og töluðum saman vikulega og undir það síðasta þá voru símtölin orðin þéttari.

Elsku bróðir það verður tómlegt án þín. Við gleymum aldrei baráttuvilja þínum og dugnaði enda vorum við fjölskyldan afar stolt af þér. Þú verður alltaf í huga okkar og hjarta, elsku bróðir og vinur. Við sjáumst síðar í sumarlandinu.

Elsku Ásta Rós og fjölskylda. Megi guð gefa ykkur styrk í sorginni.

Bertha, Håkan,

Magnús, Ann,

Ásgeir, Linda og

fjölskyldur.

Nú hefur vinur minn og mágur verið kvaddur til annarra erinda handan við hinn sýnilega heim okkar mannanna. Kallið kom allt of snemma en eins og í öðru tókst Óli á við lokasprettinn á sinn einstaka hátt; hann „hafði það bara fínt“ ef hann var spurður um líðan.

Seint verður sagt að Óli hafi farið troðnar slóðir í lífinu. Hann var ekki sporgöngumaður og hafði sterkar skoðanir á mönnum og málefnum. Hann var sjálfstæður í öllu og kom til dyranna eins og hann var klæddur. Meðvirkni eða hjarðmenning var ekki til í hans orðabók. Það á vel við Óla setningin sem skáldið orti forðum: „lastið ei laxinn þó syndi mót straumi“.

Óli var vel lesinn; hafði gaman af hvers kyns fræðibókum og gaf samsæriskenningum og andlegum málefnum gaum. Hann hafði oft aðra sýn og skýringar á atburðarás líðandi stundar en fjölmiðlar og fólk almennt. Þetta olli því að það þurfti að kynnast Óla vel til að skilja hvað hann var að fara í almennu spjalli og rökræðum. Samræður okkar mannanna eru á stundum svo yfirborðskenndar að við sjáum ekki skóginn fyrir trjánum. Óli var í skóginum og ef hann villtist af leið þá fann hann aðra leið út.

Það var alkunna þeim sem til þekktu að Óli hafði mikinn áhuga á boxi og þá sérstaklega allri tækni því tengdu. Hann þótti snemma mjög efnilegur boxari og hafði náttúrulega hreyfigreind sem nýttist vel. Það má segja að boxið hafi verið honum í blóð borið enda oftar en ekki kallaður Óli box. Síðustu árin var hann liðtækur þjálfari í greininni og haft að orði að þar kæmu menn ekki að tómum kofanum.

Óli sleit barnsskónum í Rosengården í Svíþjóð. Margar sögur sagði hann mér af uppvaxtarárum sínum og þeim tíðaranda sem ríkti. Ekki var alltaf hægt að útkljá mál sem upp komu á milli stríðandi fylkinga með rökræðum. Þar gilti oftar en ekki frumskógarlögmálið. Þá kom sér vel að vera vel líkamlega vopnum búinn og snöggur.

En æskan mótar manninn og Óli fór ekki varhluta af því. Sá sem hér „mundar pennann“ fann það á eigin skinni að það þurfti að ávinna sér traust hans áður en menn voru samþykktir. Hann var alltaf á varðbergi. Óli hræddist ekki neitt og hann var tilbúinn til að ganga langt og gera allt til að verja þá sem hann umgekkst hverju sinni og stóðu honum næst. Hann var sannarlega haukur í horni. Við áttum margar góðar stundir saman. Þar stendur ofarlega ferð til Flórens á Ítalíu sem við hjónin fórum með Óla og Ástu Rós systur, í tilefni af 60 ára afmæli Óla, í september 2022. Frábær ferð í alla staði og Óli í góðum gír. Óli var fagurkeri og flottur í tauinu og því átti vel við að vera stödd í Fagurborginni eins og Flórens er einnig nefnd. Það var alltaf stutt í húmorinn hjá Óla sem gat verið beinskeyttur og uppátækjasamur en tók upp hanskann fyrir þá sem minna máttu sín.

Um leið og ég votta öllum ástvinum innilega samúð mína ætla ég að leyfa Óla box að eiga síðasta „orðið“; setningu sem hann lagði oft áherslu á í okkar samskiptum bæði í blíðu og stríðu:

„Olaf! við erum bræður“

Hvíl í friði bróðir.

Olaf Forberg.