Baldur Ágústsson
Baldur Ágústsson
Baldur Ágústsson: "Við getum deilt um hvort stjórnleysið sé vanhæfni eða hvort stjórnmálamenn séu að kaupa sér vinsældir og atkvæði – m.a. fyrir peningana okkar."

Nú þegar fulltrúar okkar á Alþingi ræða og rífast um frumvarp dómsmálaráðherra í málefnum flóttamanna og annarra hælisleitanda segir ráðherrann sjálfur að í þessum málum ríki algjört stjórnleysi og nauðsynlegt sé að setja traustan ramma og reglur um þessi mál.

Horft er til þess að erfitt er að koma sumum þeim sem synjað er landvistar úr landinu vegna skorts á lögum og að einhverjir sem á að fytja úr landi finnast ekki, enda búnir að eignast „íslenska vini“. Stjórnleysið blasir við.

Þá eru líka þeir sem á að flytja út – en hætt er við af því að fólk með mótmælaspjöld hefur tekið sér stöðu fyrir framan dómsmálaráðuneytið. Sumir þeirra sem tekst að flytja úr landi eru sóttir aftur til útlanda, t.d. ef einhver þeirra er í hjólastól – svo eitthvað sé nefnt.

Endalaust rugl

Þegar mannúð okkar, gestrisni og kristilegur kærleikur eru komin á þetta flækjustig er ég ekki hissa á að ráðherrann og þeir aðrir sem þora að tjá sig frjálst, leyfi sér að kalla þetta stjórnleysi. Þarna undir falla líka endalausar tafir á ákvörðunum og endalaus uppihalds- og lögfræðingakostnaður.

Málsmeðferð sem t.d. í Ástralíu getur farið fram á nokkrum klukkutímum getur á Íslandi tekið einn eða fleiri meðgöngutíma. Já, meðgöngutíma. Þar má líka finna enn eitt þrætuefnið.

Hvað sem er, gengur stjórnleysið og útgjöldin ekki lengur. Jafn fallegt og það er að prjóna og senda heilum her ullarsokka af því að þeim er kalt á fótunum – og senda börnum sem búa í loftvarnarbyrgjum föt og jólagjafir fyrir gjafafé, þá mega stjórnmálamenn ekki nota skattfé til óhóflegrar eyðslu á sama tíma og heilsukerfið okkar hrynur, þúsundir ungs fólks ráfa um göturnar í þunglyndi – sumir í sjálfsvígshugleiðingum – og fjöldi fólks er á löngum biðlistum eftir áfengismeðferð, fíkniefnameðferð, þroskameðferð, læknisaðgerðum og sálgæslu. Fátækt fólk – en það er önnur skömmin – má svo finna í löngum röðum, bíðandi eftir jólamatnum o.fl.

„Allt þetta fólk“ kaus stjórnvöld til að stjórna þjóðfélagi fyrir Íslendinga og lengi hefur verið lofað réttlæti, gegnsæjum stjórnmálum, jafnrétti og mörgu öðru sem enn er algjör skortur á. Ekki til að fjölmenna á erlendar ráðstefnur til þess að slá um sig og dreifa fé Íslendinga – og lofa meiru !

Skylda?

Oft heyrist á Alþingi að Íslendingum „beri skylda“ til að taka á móti enn fleiri flóttamönnum. Stundum má heyra á málflytjendum að þessi fullyrðing byggist á tilfinningum viðkomandi eða vísi til „siðferðilegrar skyldu“ – jafnvel vilja til að vera þar fremstir meðal þjóða. Til að skýra hvernig við stöndum sem þjóð leyfi ég mér að nefna að „siðferðisleg skylda“ er ekki bindandi, heldur „skoðun“ sem fólk getur haft – eða ekki haft.

Stundum heyrist reyndar einnig talað um að við þurfum að standa við alþjóðlegar skuldbindingar okkar í þessum efnum. „Alþjóðlegar skuldbindingar“, „milliríkjasamningar“ og „lög“ eru bindandi – þó með þeim fyrirvara sem hugsanlega er getið í texta þeirra.

Skýrt mál

Ég hvet eindregið til að í allri umfjöllun um málefni flóttamanna, verndarumsækjenda og annarra landvistarumsækjenda verði alltaf – og mjög skýrt tekið fram á hverju t.d. krafa þingmanna er byggð; t.d.: Þingmaður: „Ég og flokksfélagar mínir erum eindregið þeirrar skoðunar að við Íslendingar getum tekið á móti enn fleiri flóttamönnum en við höfum gert“.

Fréttamaður gæti t.d. sagt sem svo: „Ríkisstjórnin hefur heimilað móttöku 200 innflytjenda frá Afganistan í febrúarmánuði. Þetta er annar hópurinn af þessari stærð sem kemur til landsins. Þetta er gert skv. svokölluðum Lundúnasamningi frá september 2021 sem utanríkisráðherra samþykkti þá og gildir til ársins 2028. Samningurinn tekur alls til 800 flóttamanna frá Afganistan á gildistímanum, sem þýðir að þegar fyrrnefndir 200 flóttamenn koma í febrúar hafa Íslendingar, hvað fjölda afganskra flóttamanna varðar, uppfyllt Lundúnasamninginn að hálfu.“

Er ekki svona opin upplýsingagjöf betri en innihaldslitlar fréttir eins og tíðkast hafa og gera lítið annað en sá fræjum gremju og vanþekkingar í þjóðarakurinn?

Stóra myndin

Við skrif þessa pistils hafði ég samband við nokkrar stofnanir til að forvitnast um heildarskuldbindingar okkar um móttöku hælisleitenda. Það bar rýran árangur og þarf því að athuga síðar, því margs er að spyrja.

Enginn skyldi taka orð mín svo að ég finni ekki til samúðar með þeim sem þurfa að yfirgefa ættland sitt vegna ofsókna, hungursneyðar eða styrjalda. Það er hræðilegt.

Einföld staðreynd er það hins vegar að lítil þjóð í harðbýlu landi er í þröngri stöðu. Hversu mikið sem við viljum gera eru okkur takmörk sett. Við getum ekki til lengdar haft opinn aðgang með miklum tilkostnaði og litlu innviðakerfi. Álag, t.d. á sjúkrakerfi, menntakerfi og atvinnuvegi – ásamt oft á tíðum hrútlega lélegri stjórnsýslu – stenst það ekki til lengdar. Að vilja opna landið meira ber vott um algert óraunsæi og á eftir að sliga þjóðfélag okkar – ef ekki er gripið í taumana.

Höfundur er flugumferðarstjóri, fv. forstjóri og forsetaframbjóðandi 2004. bagustsson@mac.com www.landsmenn.is