Arnar Guðmundsson fæddist á Ísafirði 9. janúar 1947 og fluttist fimm ára gamall til Reykjavíkur. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Sóltúni 16. janúar 2023. Foreldrar hans voru Herborg Júníusdóttir, f. 13. desember 1926, d. 7. febrúar 2011 og Guðmundur Hermannsson, f. 28. júlí 1925, d. 15. júní 2003. Bræður hans eru: Grétar Júníus, Hermann og Rúnar.

Eiginkona Arnars er Kolbrún Sigurjónsdóttir, f. 11. október 1947. Þau giftu sig 10. október 1970. Foreldrar hennar voru Hulda Hafdís Ólafsdóttir, f. 26. september 1927, d. 29. apríl 1992 og Sigurjón Steindórsson, f. 21. apríl 1924, d. 18. desember 1950. Börn Arnars og Kolbrúnar eru:

Sigurjón, f. 10. nóvember 1968, eiginkona Elín Þórunn Eiríksdóttir, f. 15. desember 1967. Dóttir þeirra er Selma Sól, f. 2005.

Herborg, f. 26. maí 1975, eiginmaður Margeir Vilhjálmsson, f. 2. febrúar 1972. Sonur þeirra er Dagur, f. 2003. Fyrir á Margeir soninn Viktor, f. 1995.

Arnar lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1967. Hann lauk prófi í lögfræði frá Háskóla Íslands 1973 og fékk héraðsdómsréttindi 1977. Arnar starfaði í Búnaðarbankanum meðfram námi. Að námi loknu hóf hann störf hjá Fíkniefnadómstólnum en hann starfaði síðan hjá RLR. Hann kenndi við Lögregluskóla ríkisins, tók síðan við skólastjórastöðu þar og starfaði þar til hann hætti störfum sökum aldurs.

Arnar hafði alla tíð mikinn áhuga á íþróttum. Hann stundaði á sínum yngri árum frjálsar íþróttir af kappi. Golfíþróttinni kynntist hann hjá RLR og átti hún hug hans allan á meðan heilsan leyfði. Hann sat í stjórn Golfklúbbs Reykjavíkur og var félagsmaður GR í 40 ár.

Arnar og Kolbrún byggðu sér hús í Fýlshólum 7 og bjuggu þar alla tíð. Arnar bjó síðustu sjö mánuði á hjúkrunarheimilinu Sóltúni.

Útför Arnars fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 27. janúar 2023, kl. 11.

Frá eiginkonu

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti,

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Kolbrún.

Pabbi, ég vil ekki fara á leikskólann í dag. Hvað ætlarðu þá að gera Hebba mín, ég og mamma þín erum að vinna og amma Hulda líka. Ég verð bara hjá ömmu Hebbu, bökum snúða og eitthvað. Móðir mín átti ekki til orð þegar hún og pabbi sóttu mig svo seinnipartinn, að hann hefði látið þetta eftir mér 5 ára, ég alsæl og við pabbi glottum. Pabbi gerði alltaf allt fyrir mig en hann var líka góður leiðbeinandi. Á milli okkar ríkti alla tíð mikið traust og virðing. Hann er mín fyrirmynd og þegar ég hugsa til baka er svo margt sem ég lærði af honum. Er reyndar enn að reyna að taka mig á í að vera í pússuðum skóm, en það kemur. Þegar ég var lítil fannst mér vinnan hans pabba mjög spennandi. Hann sá um að bófarnir næðust og það var meira að segja fangelsi í sama húsi og hann vann í. Draumur minn rættist svo þegar ég fékk að fara í fangelsið og hann lokaði meira að segja dyrunum. Þegar ég komst á unglingsárin var þessi vinna hans ekki alveg jafn spennandi fyrir mér, fannst hann alltof passasamur hvað mig varðaði og allt í einu mátti ég ekki allt. Þegar ég komst á fullorðinsár skildi ég þetta að sjálfsögðu. Hann var bara að passa stelpuna sína. Pabbi kynnti mér golfíþróttina og við höfum átt margar dýrmætar stundir saman á golfvellinum. Grafarholtið var alltaf okkar uppáhalds, þar spiluðum við fyrsta 18 holu hringinn okkar saman og einnig þann síðasta. Við fórum til Flórída á hverju ári í mörg ár og héldum meðal annars upp á fimmtugs-, sextugs- og sjötugsafmælið hans þar. Toppnum var náð þegar við Margeir, Sigurjón og pabbi spiluðum saman Bay Hill, vorum með kylfubera og hittum Arnold Palmer á 19. Pabbi kynntist ungur mömmu og þeirra samband var alla tíð fallegt og gott, byggt á trausti, vinskap og gagnkvæmri virðingu. Amma Hulda bjó alltaf hjá þeim enda tók pabbi ekki annað í mál. Þegar pabbi byggði húsið þeirra mömmu í Fýlshólum var að sjálfsögðu gerð íbúð fyrir ömmu niðri. Sambúðin gekk alltaf vel enda var samband pabba við tengdamóður sína þess eðlis að eftir var tekið. Þegar amma Hulda féll frá langt fyrir aldur fram var aðdáunarvert að sjá hve vel pabbi passaði upp á mömmu, þau voru alla tíð sem eitt. Fýlshólarnir voru uppáhaldsstaður pabba. Þar leið honum alltaf vel, með útsýnið sitt, með stóra garðinn sinn sem hann og mamma sinntu svo vel, bílskúrinn sem hann gat dundað sér í tímunum saman og þar er sko hver nagli og skrúfa rækilega merkt og allt til. Elsku besti pabbi minn, takk fyrir að hafa alltaf verið svo góður við Margeir minn og son hans hann Viktor sem var bara lítill 5 ára strákur sem kallaði þig strax afa, takk fyrir samband þitt við Dag minn sem er alveg einstakt, þið tveir áttuð eitthvað sem enginn annar átti og er missir hans mikill, takk fyrir að vera kletturinn hennar mömmu og ég lofa þér að við pössum vel upp á hana. Það er sárt að þurfa að kveðja þig elsku pabbi minn en þangað til minn tími kemur mun ég stolt halda minningu þinni á lofti. Takk fyrir að vera pabbi minn, bless í bili.

Þín pabbastelpa,

Herborg

Arnarsdóttir.

Varla held ég að hægt sé að finna traustari og vandaðri mann en Arnar tengdaföður minn. Alltaf með allt upp á tíu. Það þótti við hæfi að kalla skólastjóra Lögregluskólans Lögreglustjórann í golfvinahópnum. Heima var hann Addi Gumm og svo síðustu árin bara afi. Í því hlutverki var hann frábær og fengu afabörnin að njóta þess. Skólastjórinn rak Lögregluskólann eins og um væri að ræða hans einkafyrirtæki, þannig að okkur Sigurjóni þótti stundum nóg um.

Flestar okkar gæðastundir voru tengdar golfíþróttinni sem Arnar kynntist upp úr 1980. Í Grafarholtinu, í drive-keppni niður á Elliðaárstíflu frá blettinum í Fýlshólunum, í fjölmörgum ferðalögum til Flórída eða Skotlands eða bara heima í stofu með Golfstöðina í sjónvarpinu. Þar voru jafnframt heimsmálin leyst yfir kaffi og koníaki. Arnar var ekkert mikið með málalengingar, eða með óþarfa blaður. Bara beint að efninu.

Og þannig er gott að minnast hans. Frábær maður með góða nærveru. Passaði vel upp á sitt fólk.

Þín er sárt saknað, Addi. Góða ferð í sumarlandið. Við vitum þar af þér í góðum félagsskap.

Þinn

Margeir.

Elsku Arnar, það er komið að kveðjustund eftir 30 ára vinskap. Það var árið 1992 sem ég fór að venja komur mínar á fallega heimilið ykkar Kollu í Fýlshólunum. Í húsið sem þú byggðir með fullri vinnu, þekktir hverja spýtu og gast sagt til um hvenær hvað var gert enda með fullkomið bókhald um viðhald hússins. Ég var feimin að koma með Sigurjóni en fljót að jafna mig þar sem þið tókuð á móti mér með miklum hlýhug, ég fann að ég var velkomin inn í fjölskylduna ykkar. Það var alltaf notalegt að koma til ykkar, svo mikil ró og friður á heimilinu.

Við áttum auðvelt með að spjalla saman og ræða um marga hluti, þó að málefni lögreglunnar og Lögregluskólans hafi verið þér ofarlega í huga á meðan þú varst að vinna. Þú hafðir einnig gaman að fylgjast með öllum íþróttum, enda mikill íþróttamaður sjálfur. Þú elskaðir golf, bæði að spila golf en einnig að fylgjast með öðrum spila. En mesta yndi hafðir þú af að fylgja börnunum þínum í golfinu og hvað þú varst stoltur þegar þau urðu Reykjavíkurmeistarar í golfi á sama tíma. Síðan komu barnabörnin sem þú gast fylgt eftir í íþróttum en þau fengu einnig íþróttagenin þín.

Ef ég ætti að lýsa þér í afar stuttu máli þá varst þú einstaklega hlýr og heimakær fjölskyldumaður. Þú þurftir ekki að sækja mikið utan nánustu fjölskyldu, elskaðir að vera heima með Kollu þinni. En sem betur fer fengum við að upplifa margt saman, bæði hér heima en einnig á ferðalögum um heiminn.

Blessuð sé minning þín, takk fyrir dásamlega samveru. Hvíl þú í friði elsku tengdapabbi.

Elín Þórunn.

Elsku besti afi minn.

Nú þegar þú ert farinn get ég ekki annað en minnst þeirra óteljandi stunda sem við áttum saman. Ég minnist hlátursins sem lék um húsið ykkar ömmu, kærleiksins í brosi þínu og hlýja faðmlagsins sem tók ávallt á móti mér í hvert skipti sem ég kom í heimsókn. Þó að síðustu ár hafi litast af óviðráðanlegum veikindum taka þessar góðu minningar mun stærra pláss.

Alveg síðan ég fæddist hefur þú verið til staðar fyrir mig hvort sem það var á kappleikjum, kórtónleikum, skólaviðburðum eða einfaldlega bara með notalegri heimsókn. Alltaf þegar eitthvað bjátaði á varst þú tilbúinn með hughreystandi orð og oftar en ekki misgóða brandara, stundum við litla hrifningu ömmu. Ég hef alltaf dáðst að hjónabandi ykkar ömmu, hvernig þið komust í gegnum súrt og sætt og þeirri staðreynd að draumahúsið ykkar varð að heimili fyrir okkur öll.

Það er erfitt að kveðja þig eftir ótalmörg hamingjurík ár en í stað þess að einbeita sér að sorgarstund, ætla ég frekar að einblína á góðu samverustundirnar sem við áttum saman og áhrifin sem þú hafðir á okkur öll aðeins með því að vera þú sjálfur. Þegar ég hugsa til baka er ég svo ólýsanlega þakklát fyrir þig og ljósið sem þú varst í lífi mínu. Eitt er víst að minning þín mun lifa áfram um ókomna tíð á veggjum fjölskyldunnar og í hjörtum okkar allra.

Ég elska þig afi og mun ávallt sakna þín.

Selma Sól.

Jæja elsku afi minn. Nú þegar þessi dagur hefur runnið upp þá hrannast upp minningarnar sem við sköpuðum á okkar tæpu 20 árum saman og það hellist yfir mig gleði og þakklæti. Það fer ekkert á milli mála og það vissu allir þeir sem okkur þekktu að það sem við áttum var gjörsamlega einstakt. Langbestu vinir. Tveggja manna teymi sem gerði allt milli himins og jarðar saman. Allir golfhringirnir. Þú að spila, ég á pokanum. Básaferðirnar. Við vorum duglegir að kíkja á aðra hæðina og taka 100 bolta á mann. 200 ef við vorum í stuði. Aðeins að halda okkur við. Þó að ég hafi verið farinn að slá lengra en þú þá pakkaðirðu mér alltaf saman á litla vellinum. Ég lofa þér því að einn daginn mun ég geta eitthvað í golfi, enda erum við búnir að leggja góðan grunn sem ég þarf bara aðeins að fínpússa.

Þú varst ofurmenni í mínum augum, enginn æðri. Ef ég hefði beðið þig að skutla mér til tunglsins þá hefðirðu gert það. Öll skiptin þar sem ég kom í heimsókn til þín niður í Lögregluskóla, þar sem þú réðst ríkjum. Bíóferðirnar. Rúntarnir á R-2588, númerið þitt sem lifir góðu lífi enn þann dag í dag og mun gera áfram. Allar útlandaferðirnar. Ég fór út með 50 dollara í veskinu haldandi að það væri allur heimsins peningur, kom einhverra hluta vegna heim mörgum dögum seinna með 200 dollara í veskinu en samt fulla tösku af dóti sem „ég“ hafði keypt mér. Þið amma sáuð til þess.

Þú gjörsamlega lifðir fyrir okkur barnabörnin. Mig, Viktor og Selmu. Ástin, umhyggjan og athyglin sem þið amma sýnduð okkur, og amma gerir enn, er það mikilvægasta sem nokkur krakki getur fengið og það mun halda áfram að móta mig sem manneskju út mína lífstíð.

Hlédrægur, rólegur, þolinmóður en á sama tíma skemmtilegasti og lífsglaðasti maður sem ég hef á ævinni kynnst, meira að segja undir það síðasta. Þú klikkaðir aldrei á að henda í eina góða Ladda-eftirhermu enda búinn að mastera þær. Ég sé alla af mínum helstu eiginleikum í þér, átrúnargoðinu mínu, og er það mitt mesta stolt.

Það sem huggar núna er að þú ert ekki lengur kvalinn. Þú ert laus úr veika líkamanum þínum og kominn í toppstandi á betri stað þar sem þér er tekið fagnandi af fríðu föruneyti. Amma Hebba og afi Guðmundur þar fremst í flokki. Svo verður hann elsku Tumi okkar glaður að sjá þig enda voruð þið miklir vinir. Þessi barátta sem þú stóðst í síðustu ár er alls ekki öfundsverð og kem ég hér aftur að því að fyrir mér varstu ofurmenni. Þú stóðst þig eins og hetja í gegnum þetta allt og enginn hefði getað tæklað þetta betur en þú elsku afi minn. Á meðan þetta varði styrktust einnig stoðir fjölskyldunnar og þessi litla heild, sem ég fyrir hefði haldið að væru þau sterkustu og nánustu fjölskyldubönd sem fyrirfyndust, styrktust enn frekar. Fyrir það er ég þakklátur.

Ég verð duglegur að leita til þín og ég veit fyrir víst að þú munt alltaf svara mér. Ljós þitt mun loga um ókomna tíð. Hvíldu í friði fallegi engill. Þetta er ekki bless, þetta er þangað til næst. Ég elska þig afi minn.

Þinn

Dagur.

Arnar Guðmundsson var frumburður foreldra sinna. Fyrstu árin átti hann heima með þeim í Alþýðuhúsinu á Ísafirði en þegar hann var fimm ára fluttu þau suður og hann bjó síðan í Reykjavík.

Arnar stundaði frjálsar íþróttir á yngri árum í KR og fetaði í fótspor föður síns þegar hann lagði áherslu á kúluvarp með ágætum árangri. Seinna fékk hann áhuga á golfi og naut sín við golfleik í góðum félagsskap og var liðtækur í golfmótum. Hann gegndi trúnaðarstörfum fyrir Golfklúbb Reykjavíkur, var m.a. um tíma í stjórn. Arnar hugsaði vel um heilsuna og lagði lengstum stund á sund og gönguferðir.

Arnar var lögfræðingur og bar gæfu til að sinna störfum sem hann hafði áhuga á og áttu vel við hann. Starfsvettvangur hans var einkum á sviði löggæslu og meðferðar sakamála. Hann starfaði m.a. náið með Ásgeiri heitnum Friðjónssyni dómara og ríkislögreglustjórunum Hallvarði heitnum Einvarðssyni og Boga Nilssyni. Hann mat þá menn mikils. Síðast var Arnar um árabil skólastjóri Lögregluskóla ríkisins.

Ég veit að Arnar sinnti störfum sínum af kostgæfni, ábyrgð og trúmennsku og var ráðagóður og hjálpsamur samstarfsfélögum sínum.

Arnar var gæfumaður í einkalífi. Eiginkona hans var Kolbrún Sigurjónsdóttir bankastarfsmaður og börn þeirra Sigurjón og Herborg, sem bæði smituðust af golfbakteríunni og voru afreksmenn í íþróttinni. Hafði hann mikla ánægju af að fylgjast með þeim og styðja.

Arnar var mikill fjölskyldumaður og góð fyrirmynd fyrir börn sín og barnabörn. Hann lét sér annt um fólkið sitt og naut samveru með því.

Veikindi gerðu lífsgöngu Arnars erfiða síðustu misserin og reyndi þá mikið á Kollu og aðra nánustu ástvini hans sem hlúðu að honum af alúð.

Um leið og ég kveð Arnar með söknuði og virðingu votta ég Kollu, börnum þeirra, tengdabörnum og barnabörnum samúð mína.

Farðu vel kæri bróðir.

Hermann

Guðmundsson.

Fallinn er frá æskuvinur minn Arnar Guðmundsson. Kynni okkar Arnars hófust þegar við vorum tíu ára gamlir. Báðir áttum við heima í Ásgarði eða í löggublokkinni eins og hún var kölluð. Strax í upphafi tókst mikill vinskapur með okkur Arnari sem varði út ævina.

Arnar hafði marga góða kosti sem vinur og samferðamaður. Ákveðni, áræði og heiðarleiki koma þar fyrst upp í hugann. Þessir kostir hans komu honum vel, hvort sem var í einkalífi eða starfi sem starfsmaður Rannsóknalögreglu ríkisins og síðar sem skólastjóri Lögregluskólans.

Gaman var að fylgjast með Arnari eftir að hann hóf nám í lögfræði þar sem hann lærði að vega og meta mismunandi rök aðila sem hann var kannski ekki sammála.

Á okkar ungdómsárum var Glaumbær „staðurinn“ og á sumrin var það Þórsmörk.

Lögreglan fylgdi því mjög samviskusamlega eftir að fólk færi ekki með vín inn í Þórsmörk á þessum árum.

Þar sem vín var ekkert stórmál hjá okkur Arnari vorum við orðnir nokkuð útsjónarsamir að finna leiðir til að ferja það yfir Krossá án þess að tekið yrði eftir.

Fyrir nokkrum vikum hitti ég Sigurjón son þeirra Arnars og Kolbrúnar. Hann sagði mér að pabbi hans hefði sagt sér frá nokkrum uppátækjum okkar félaganna. Hafði ég mjög gaman af því.

Arnar byrjaði sem ungur maður að spila golf. Á þeim tíma var það ekki mjög algengt að ungir menn stunduðu þá íþrótt. Golfið náði vel til hans og átti það hug hans og fjölskyldunnar allrar.

Það er sárt að þurfa að kveðja æskuvin í hinsta sinn.

Kæra Kolbrún og fjölskylda. Ég sendi mínar innilegustu samúðarkveðjur. Eftir sitja minningar um góðan vin og dreng.

Guðmundur

Sigurðsson.

Kær vinur okkar til margra ára hefur kvatt þessa jarðvist. Arnar og Kolbrún kona hans hafa verið okkar bestu vinir til margra ára. Arnar var traustur og heilsteyptur maður, enda ráðinn til ábyrgðarstarfa eins og til Rannsóknarlögreglu ríkisins og síðar sem skólastjóri Lögregluskólans. Á sínum yngri árum tók hann þátt í frjálsíþróttamótum þar sem hann keppti í kúluvarpi og fetaði þar með í fótspor föður síns Guðmundar Hermannssonar sem var Íslandsmeistari og yfirburðamaður hér á árum áður í þeirri grein. Arnar var mikill golfari og spilaði á mótum og studdi jafnframt börnin sín Herborgu og Sigurjón sem voru afreksfólk á því sviði. Margar góðar minningar eigum við hjónin með þeim Arnari og Kollu, m.a. frá ferðum erlendis, sem eru okkur dýrmætar. Það var farið að draga af Arnari síðustu mánuðina en við náðum að heimsækja hann í Sóltún þar sem hann dvaldi og þegar við kvöddum hann var handtakið samt ennþá fast og traust eins og venjulega. Við kveðjum nú góðan vin sem við syrgjum. Elsku Kolla og fjölskylda, við sendum ykkur innilegar samúðarkveðjur og biðjum góðan Guð að styrkja ykkur í sorginni.

Valgerður Níelsdóttir og Lárus Loftsson.

Arnar var með okkur í bekk í Menntaskólanum í Reykjavík. Addi var mjög samviskusamur og í tímum glósaði hann fagurri rithönd það sem kennararnir sögðu. Fyrir próf eða í vafamálum þótti okkur glópunum, sem höfðum hugann við annað, gott að fá að kíkja í glósurnar hans Adda.

Sigurkarl Stefánsson kenndi okkur stjörnufræði. Þegar Sigurkarl var ungur var hann mikill íþróttamaður og sú saga gekk að hann hefði lesið uppi í rúmi og haldið náms-doðröntunum fyrir ofan sig til að styrkja handleggina. Í góðu veðri var auðsótt að fá göngufrí, því Sigurkarli var það unun að sjá Adda kasta kúlu. Þá fórum við í portið bak við skólann og reyndum með okkur í kúluvarpi. Addi kastaði tvisvar sinnum lengra en nokkur okkar hinna. Þá gerðum við okkur grein fyrir því hversu mikill afreksmaður Addi var, og ekki leyndi brosið sér á Sigurkarli.

Í skólanum var mikill áhugi fyrir handbolta og á hverju ári var haldin útsláttarkeppni allra bekkja. Í þeirri keppni höfðum við í R-bekknum mikinn metnað og notuðum hverja lausa stund til að æfa okkur í íþróttasalnum. Og nú reyndist skotkraftur Adda okkur vel. Salurinn var lítill og Addi þurfti ekki að taka mörg skref áður en hann skaut og mátti vörn andstæðinganna og markvörður þakka fyrir að fá boltann ekki í sig. Seinna greip minni kúla hug hans og hann stundaði golf af ástríðu. Á þeirri íþrótt náði hann einnig góðum tökum og börn hans urðu í hópi bestu kylfinga landsins.

Frá menntaskólaárunum fyrir 55 árum höfum við bekkjarfélagarnir hist reglulega. Síðast var Addi með okkur á Nauthóli þegar við borðuðum saman í desember fyrir rúmu ári. Handtakið var jafn þétt og áður. Hann sat með okkur við hringborðið glaður og reifur með bros á vör og naut stundarinnar. Þannig er gott að muna Adda.

Við flytjum Kollu, börnum og barnabörnum þeirra Adda og öðrum aðstandendum samúðarkveðjur. Við minnumst góðs og heiðarlegs félaga.

Fyrir hönd Bergelmis, bekkjarfélags 6-R í MR 1967,

Jón Hálfdanarson.

Arnar Guðmundsson var samstarfsfélagi og vinur til áratuga. Eiginleikar og mannkostir Arnars nutu sín vel í þeim störfum sem hann tókst á hendur hjá sakadómi í fíkniefnamálum, rannsóknarlögreglu ríkisins og sem skólastóri Lögregluskóla ríkisins. Arnar var góður lögfræðingur, gætinn, vandvirkur, fastur fyrir og óragur að taka ákvarðanir. Það var mikið lán fyrir lögregluna í landinu þegar Arnar valdist til þess að taka að sér skólastjórn í Lögregluskóla ríkisins á upphafsárum í starfsemi sjálfstæðs lögregluskóla. Arnar hafði þá mikla og haldgóða reynslu af málefnum lögreglunnar vegna þátttöku sinnar í störfum við réttarvörslukerfið, bæði dómstóla og lögreglu. Með starfi sínu sem skólastjóri Lögregluskóla ríkisins lagði hann grunn að námi fyrir lögreglumenn. Hann vann að því hörðum höndum með samstarfsmönnum sínum að byggja upp nám sem tryggði að nemendur frá skólanum byggju að góðri þekkingu og þjálfun til þess að takast á við lögreglustarfið. Sérstaklega var honum umhugað um að mennta og þjálfa lögreglumenn til þess að gegna skyldum sínum í samskiptum við borgarana af nærgætni og réttsýni. Sjálfur valdi hann að kenna sakamálaréttarfar og lagði mikla áherslu á að lögreglumenn þekktu vel lög og reglur sem gilda um vandasöm störf lögreglunnar, færu varlega með valdheimildir og gættu meðalhófs í störfum sínum. Tvímælalaust lyfti Arnar grettistaki í menntunarmálum lögreglu.

Sem vinur og samstarfsfélagi var Arnar traustur og ljúfmannlegur í öllum samskiptum. Hann lagði sig fram í félagsmálum þar sem hann starfaði og tók þátt í hvers konar íþróttaiðkun. Hjá rannsóknarlögreglu ríkisins var hann fljótt í fararbroddi að stofna golfklúbb. Lagði hann sig fram um að kveikja neista hjá samstarfsfólki. Sjálfur náði hann afburðagóðum tökum á íþróttinni og vermdi oftar en ekki verðlaunasæti þegar keppt var í golfklúbbi starfsmanna og þegar starfsmenn öttu kappi við aðra klúbba. Arnar náði einnig afburðaárangri í ýmsum golfmótum innanlands.

Á kveðjustund minnumst við góðs vinar sem var traustur en líka glaður og skemmtilegur félagi sem lífgaði oftar en ekki upp á samskiptin með skemmtilegum athugasemdum. Hann verðlaunaði líka fyrir góða sögu með sínum innilega og smitandi hlátri.

Við vottum Kolbrúnu, Sigurjóni og Herborgu og fjölskyldum þeirra innilega samúð okkar

Bogi Nilsson, Jón H.B. Snorrason, Hörður

Jóhannesson, Egill

Bjarnason, Þórir Oddsson.