Ólöf Elínbjört, oftast kölluð Elín af samferðafólki en Ollý af fjölskyldunni, fæddist í Hafnarfirði 24. september 1936. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ 8. janúar 2023.

Foreldrar hennar voru Jóna Guðlaug Högnadóttir húsfreyja, f. 22.2. 1911, d. 5.8. 1988, og Gísli Guðmundsson, forstjóri vélsmiðjunnar Kletts í Hafnarfirði, f. 17.3. 1910, d. 23.6. 1999. Elín var elst sex systkina: Gylfi, f. 26.12. 1940, d. 16.10. 1946, Hildur, f. 17.11. 1943, gift Úlfari Stíg Hreiðarssyni, f. 27.5. 1943, d. 17.4. 2009, Ágústa, f. 4.3. 1947, gift Magnúsi Sigurði Jónssyni, f. 13.8. 1947, Auður, f. 19.5. 1948, gift Halldóri Viðari Halldórssyni, f. 1.4. 1947, og Sigrún, f. 16.6. 1950, gift Ármanni Eiríkssyni, f. 9.10. 1946, d. 3.3. 2013.

Barnsfaðir Elínar er Hilmir Guðmundsson, f. 30.6.1934. Sonur þeirra er Gylfi Már Hilmisson, gervilimasmiður og tónlistarmaður, f. 7.9. 1958. Sambýliskona hans er Philippa Stokes, 18.4. 1966. Sonur Gylfa er Snorri Már, f. 22.5. 1992, kvæntur Elínu Margréti Magnúsdóttur, þau eiga tvö börn.

Elín giftist 22.9. 1962 Friðriki Þórhallssyni bifvélavirkjameistara, f. 16.4. 1932, d. 13.10. 1992. Þau slitu samvistum. Foreldrar hans voru Margrét Friðriksdóttir húsfreyja, f. 11.6. 1910, d. 9.10. 1989, og Þórhallur Björnsson, fv. kaupfélagsstjóri og aðalféhirðir SÍS, f. 9.1. 1910, d. 16.6. 2000. Dóttir er Margrét Friðriksdóttir prentsmíðameistari, f. 29.11. 1961, fjarbýlismaður er Guðmundur Óli Ragnarsson, f. 10.9. 1961. Sonur Margrétar er Sölvi Mar, f. 9.8. 1996, hans kona er Aníta Ýr Strange og eiga þau tvo syni. Sonur er Gísli Friðriksson málarameistari, f. 9.10. 1963, kvæntur Bryndísi Evu Vilhjálmsdóttur, f. 3.6. 1965. Synir Gísla eru Friðrik Fannar, f. 2.2. 1985, Haraldur Hrafn, f. 12.6. 1988, hann á eina dóttur, og Þórður Darri, f. 15.3. 1990. Bryndís á fjögur börn og fimm barnabörn.

Síðari eiginmaður Elínar var Ólafur Marinó Sigurðsson, viðhaldsstjóri prjónastofunnar Dyngju og hagleiksmaður, f. 14.4. 1927, d. 21.1. 2009. Foreldrar hans voru María Rebekka Ólafsdóttir húsfreyja, f. 1.9. 1880, d. 9.4. 1970, og Sigurður Ólafsson útvegsbóndi, f. 12.5. 1882, d. 25.3. 1959. Börn Ólafs af fyrra hjónabandi eru: Eyþór, f. 19.7. 1947, d. 23.8. 2020, Sigurður, f. 24.5. 1950, Baldur Snær, f. 3.9. 1952, María Rebekka, f. 9.7. 1958, Aðalheiður, f. 18.3. 1964, og Einar, f. 16.8. 1965.

Skólaganga Elínar hófst í Hafnarfirði, hún lauk landsprófi frá Laugarvatni og svo lá leiðin í Verzlunarskóla Íslands, útskrifuð 1955. Hún var flugfreyja hjá Loftleiðum og starfaði á þeim vettvangi til 1963. Var gjaldkeri um árabil hjá Rolf Johansen heildsala. Árið 1985 flutti hún búferlum til Egilsstaða og hóf sambúð með Ólafi Marinó og störf hjá Skattstofu Austurlands. Þau keyptu jörðina Framnes í Reyðarfirði 1994. Elín hóf þá störf hjá Sýslumannsembættinu á Eskifirði. Þau fluttu aftur í Egilsstaði 2005, Ólafur lést 2009. Elín var mikill náttúruunnandi, hæfileikarík og listhneigð, eftir hana liggja fjölmörg málverk, ljóð og lög. Hún var einnig virk í félagsstarfi og sinnti ýmsum trúnaðarstörfum.

Útför Ólafar Elínbjartar Gísladóttur verður gerð frá Lindakirkju í Kópavogi í dag, 27. janúar 2023, klukkan 15.

Mamma er farin og skilur eftir sig tóm, eiginlega gat á heiminum. Hún var orðin leið á elli og krankleikum sem heftu bæði anda og getu. Húmorinn og kaldhæðnin yfirgáfu hana þó aldrei, hún skemmti sjálfri sér og okkur til hinstu stundar. Tólf tímum áður en hún tók sér far með gullvagninum spurði hún mig hvort við ættum ekki að skella okkur til London, ég sagði auðvitað já, við tökum kvöldvélina, svo hlógum við.

Mamma var stórbrotin, heimskona og sveitastelpa, opinská og dul, félagslyndur einfari, eldklár í debet og kredit og ljóðrænn listunnandi. Hún brann fyrir málefnum líðandi stundar, fólkinu sínu og áhugamálum sem hún ræktaði af alúð og deildi visku sinni af rausn og mildi.

Mamma kenndi okkur að njóta og meta náttúruna. Við ferðuðumst talsvert og hún miðlaði ást sinni á landslagi, plöntum, steinum og dýrum og kenndi okkur örnefni. Hún var menningarviti og kenndi okkur að njóta bókmennta og lista. Hún fæddist rauðsokka þótt hún sæti af sér byltinguna, hún var í hárgreiðslu á kvennafrídaginn og höfum við oft hlegið að því. Frá henni fengum við magnað veganesti og hún uppskar virðingu og ást.

Lífið var ekki bara súkkulaði og bíltúr. Hún varð 10 ára fyrir því að missa Gylfa yngri bróður sinn á voveiflegan hátt. Á þeim tíma voru bjargráð fá og engin áfallahjálp. Þessi reynsla mótaði hana til lífstíðar. Gylfa Má, elsta son sinn, færði hún afa og ömmu og fól þeim að ala hann upp. Það var ekkert rætt að þess tíma hefð og hann fékk gott uppeldi. Þau pabbi kynntust í Ameríku og áttu gott upphaf. Þeim auðnaðist ekki að vera saman og skildu eftir 13 ára samvist. Þau voru alltaf vinir meðan bæði lifðu og milli þeirra ríkti gagnkvæm virðing og væntumþykja. Að hennar ósk mun hún hvíla hjá pabba að leiðarlokum, það finnst mér fallegt og veit að henni verður vel fagnað.

Mamma hefur verið mín fyrirmynd í lífinu. Hún hlustaði á hjarta sitt, svaraði köllun og var höfundur í eigin lífi. Hún fylgdi hugsjónum sínum og ástríðum og stóð keik með ákvörðunum. Hún var hugmyndarík og skapandi, vitur, ráðagóð og alltaf hvetjandi en umfram allt var hún ljónskemmtileg og dásamlega sjálfstæð.

Þegar mamma varð ástfangin, komin vel á fimmtugsaldur, þá hreifst maður með því hún hikaði aldrei. Flutti búferlum til Egilsstaða og tók saman við Óla sinn sem varð hennar sálufélagi. Þau áttu vel saman, bæði sterkar og skapandi persónur. Mamma blómstraði og sagði mér eitt sinn að hún hefði notið sín best eftir miðbik lífsgöngunnar. Hún elskaði Héraðið, firðina og staðviðrið sem hentaði vel til ræktunar. Þau héldu hunda og ketti og létu drauma rætast. Þau voru kjörkuð og ég dáði þau bæði fyrir dirfsku og þor. Mamma þreifst vel fyrir austan, hún átti þar hálfa fullorðinsævina frá 1985-2021, þegar tók að fjara undan. Hún missti Óla sinn 2009, en fjölskylda hans reyndist henni afar góð og trygg, þetta var veröld mömmu. Við vorum alltaf aufúsugestir og eigum margar ljúfar minningar frá heimsóknum austur. Hlutdeild okkar í lífi hennar er ómetanleg.

Takk fyrir allt elsku mamma, þín

Margrét.

Elsku besta Elín mín. Það er alltaf sárt að kveðja en þú varst búin að eiga langa og góða ævi sem ég var svo heppin að eiga hlutdeild í. Við komum inn í fjölskylduna hans Óla á svipuðum tíma þegar ég kynntist honum Einari mínum og þú sem komst eins og sólargeisli inn í líf hans Óla þíns eftir að hann missti konuna sína sem hann syrgði mjög. Það var alltaf tilhlökkunarefni að hitta þig elsku Elín mín og oft varst það þú sem tókst mig með þér á ýmsa viðburði svo sem tónleika, leiksýningar og fleiri listviðburði hér á Austurlandi. Það var indælt að sjá hversu mikið þið Óli nutuð samvista hvort við annað í þau 34 ár sem þið áttuð saman hér á Egilsstöðum og Reyðarfirði. Við Einar urðum þess heiðurs aðnjótandi að vera svaramenn þegar þið Óli giftuð ykkur. Þú varst svo lífsglöð manneskja og ótrúlega vel heima í mörgu. Þú varst líka samkvæm sjálfri þér og vissir hvað þú vildir. Það var gott að vita að við þurftum ekki að hlífast við að bjóða þér í mat eða kaffi því ef þú varst ekki upplögð sagðir þú einfaldlega: „Æi ég nenni því ekki en ekki hætta samt að bjóða mér,“ alltaf gott að vita hvar maður hefur fólk. Þú varst gjafmild kona en ekki eins mikið fyrir að þiggja gjafir. Þú varst snillingur í að koma jólagjöfunum sem við gáfum þér aftur til okkar. Ég hélt að ég hefði séð við þér þegar ég keypti striga og liti og hugsaði með mér: hah, þessari gjöf getur hún ekki skilað. En viti menn, strigann fékk ég til baka og á hann varstu búin að mála þessa fínu mynd af sólblómi. Þú vannst í það skiptið eins og svo oft áður. Eitt var þó sem þú vildir alltaf þiggja af mér en þú hafðir aldrei á móti því að ég lakkaði á þér neglurnar eða snyrti á þér fæturna. Þú varst líka alltaf svo vel tilhöfð og smekklega klædd. Eftir að þú fluttir aftur til Reykjavíkur var gott að koma til þín. Í eitt skipti þegar við komum varstu að fletta myndaalbúmun og orna þér við góðar minningar, það var yndislegt að sjá. Síðast þegar við heimsóttum þig sastu frammi og varst að lesa blaðið. Þú reyndir að plata Einar og segjast ekki þurfa að nota göngugrindina en í það skipti sá ég við þér góða mín. Til marks um hversu víðsýn þú varst í hugsun spurðir þú eitt barnabarnanna sem var með okkur hvort hann ætti ekki kærustu, hann sem væri svona ungur og myndarlegur, en spurðir svo hvort hann vildi frekar stráka. Þú varst einstök elsku Elín mín, við fjölskyldan söknum þín og þökkum samfylgdina af heilum hug. Ég lærði margt af þér og tel mig ríkari að hafa fengið að kynnast þér.

Guð blessi minningu þína. Hafðu bestu þakkir fyrir allt.

Þín stjúptengdadóttir,

Þórunn

Guðgeirsdóttir.

Ég kallaði hana Elínu og vissi ekki betur en hún héti það þegar ég hitti hana fyrst. Hún sagði mér seinna að hún héti tveimur nöfnum og ansaði tveimur gælunöfnum. Auðvitað þarf svona kona, flókin, flippuð og snjöll, að nota nokkur nöfn, hugsaði ég. Elín var í öllum sínum margbreytileika bæði eyland og heimsálfa því í henni mættust og sættust margir kraftar. Hún gat verið einfari sem fór algjörlega sínar eigin leiðir með viljastyrkinn að vopni. Einfarinn gaf hefðunum langt nef og bjó til sínar eigin hefðir og fetaði þá stíga sem buðu upp á ævintýri og nýjungar frekar en stöðnun og fábreytileika. Í heimsálfunni Elínu rúmaðist margt, því hún var víðsýn og áhugasöm um „allan fjandann“, svo notað sé hennar eigið orðalag. Hún var einstaklega fjölhæf, hún málaði málverk, samdi ljóð, lög og vísur og bara allt. Já, ég held hún hafi getað allt ef hún bara vildi og hafði áhuga. Hún dýrkaði fjölbreytileikann og var margslungin og margbreytileg eins og alvöruheimsálfa.

Ég kom nokkrum sinnum til hennar á Egilsstöðum, með vinkonu minni, Margréti dóttur hennar. Á heimili hennar höfðu öll rými skýran tilgang og heimsókn til hennar var eins og ferð í hringleikahús með tilheyrandi gleði, gamni og furðum. Hringurinn með sinni dagskrá hófst í eldhúsinu og þar reiddi hún fram alls konar, síðan lá leiðin í forstofuherbergið og þar var lífsgátan rædd, lesin ljóð, sagðar sögur, kastað fram gamanmálum og jafnvel búnar til vísur. Því næst var gengið til stofu í gegnum forstofuna og þar átti hámenningin heima. Í stofunni sýndi hún „menningarbíó“ af spólusafni og oftast fengum við að velja efni. Þar sem ládeyða var ekki til í orðasafni Elínar þá leiddist mér aldrei eitt andartak heldur beið eftir einhverju nýju sem hún sýndi eða sagði frá. Hún var frábær sögumanneskja en hún var líka góður hlustandi sem hvatti sögur annarra áfram með hressandi hlátri eða skemmtilegum spurningum og athugasemdum.

Hún var fylgin sér og ákveðin og kann ég af því eina sögu: Fyrir níu árum kom hún með Margréti að heimsækja mig í hús mitt á Siglufirði. Í lok skemmtilegrar dvalar sagðist hún vilja gefa mér eitthvað og spurði hvað ég vildi. Ég sagðist ekki þurfa neitt og svo tuðuðum við eitthvað um það. Þá sagði hún með þjósti í þriðja sinn: já, ég veit þú þarft andskotann ekkert, en ég ætla samt gefa þér eitthvað og segðu mér nú hvað þú vilt. Ég gafst upp sagðist vilja lampa og nefndi búðina. Lampann fékk ég 20 mínútum seinna og á honum hefur logað síðan þar til nokkrum dögum eftir andlát hennar. Þá gaf sig peran og kæmi það mér ekki á óvart að Elín hafi notað lampann til að minna á sig og um leið reka á eftir þessari minningargrein.

Nú leggur eylandið Elín og heimsálfan Ollý í sína síðustu ferð og fer örugglega að stýra dagskrá á öðrum stað. Það verður líklegast farið í hring.

Ég þakka fyrir hringferðirnar og samveruna kæra Ólöf Elínbjört, Ollý, Elín.

Eiríksína Eyja.

Elskuleg vinkona mín og mágkona til margra ára hefur nú kvatt jarðvistina og flogið á vit ævintýranna. Elín var alltaf til í að gera eitthvað spennandi og skemmtilegt. Við áttum ótal ánægjustundir með henni og enginn hló eins innilega og hún, – það var útilokað að vera ekki í góðu skapi í hennar návist.

Henni var margt til lista lagt, hún var hæfileikarík og listfeng, málverk eftir hana prýða mörg heimili auk annarra listaverka af ýmsu tagi.

Elín hafði einstaklega fallega rithönd. Bréfin frá henni voru listaverk bæði að útliti og innihaldi. Hún var snilldarpenni, gamansemin var óþrjótandi og það var virkilega tilhlökkunarefni að fá frá henni línu þar sem við vorum lengi hvor á sínu landshorni eða haf skildi á milli. Á þessum tíma var ekki hægt að hringja og því voru bréfin svo kærkomin þar sem þau voru eiginlega eini mátinn til samskipta. Síðustu daga hef ég blaðað í gegnum bréfin frá vinkonu minni, þau eru næstum óteljandi og hafa verið mér mikið gleði- og skemmtiefni. Lífsgleði hennar kom meðal annars fram í því að ítrekað nefndi hún að gaman væri nú að fara á hestbak eða í sólbað, hún þráði hvort tveggja. Margt einlægt fór okkar á milli í þessum skrifum og æðruleysi fannst mér alltaf einkenna lífsviðhorf Elínar.

En að upphafinu; við Elín kynntumst þegar hún og bróðir minn Friðrik tóku saman kringum 1960, strax þá tengdumst við sterkum böndum, enda ekkert annað í boði þar sem bróðir hefði ekki tekið annað í mál og það varð okkur ekki erfitt, smullum strax saman.

Eftir að þau skildu breyttust okkar samskipti lítið sem ekkert, við áttum áfram einlægt og gott samband, héldum áfram símtölum og bréfaskriftum reglulega.

Elín tók saman við Ólaf Sigurðsson og bjó með honum á Egilsstöðum á Héraði og einnig í Framnesi við Reyðarfjörð. Ég kom til þeirra þegar þau bjuggu í Framnesi. Það var ævintýri að koma þangað, líkt og í bíómynd, allt svo gamalt, frumlegt og fallegt innan sem utan. Við gengum ofan í fjöru, fórum í berjamó, blóm og villtur gróður allt um kring, veðrið dásamlegt. Maður var kominn í draumaveröld langt frá ys og þys daglegs lífs. Það var eitthvað alveg sérstaklega töfrandi við að koma þarna og ég hafði á tilfinningunni að þarna liði þeim vel.

Árið 2009 fékk Elín mig til að koma með sér á nokkurra daga ritlistarnámskeið hjá Þorvaldi Þorsteinssyni. Það voru ógleymanlegir dagar þar sem við skemmtum okkur vel.

Þorvaldur var töframaður og laðaði fram það allra besta hjá fólkinu og kom okkur á flug í ritlistinni. Trúðum því um stund að við gætum orðið rithöfundar framtíðarinnar. En það er önnur saga...

Innilegar samúðarkveðjur til allra sem eiga um sárt að binda við fráfall Elínar.

Blessuð sé minning elsku vinkonu minnar.

„Ævinlega marg.“

Gunnþórunn R. Þórhallsdóttir.