Pálmi Guðmundsson fæddist í Reykjavík 20. febrúar 1958. Hann lést á sjúkrahúsi í Elverum í Noregi 23. desember 2022.

Foreldrar Pálma voru Sigrún Ásdís Pálmadóttir, f. 29.4. 1939, d. 6.9. 1980 og Guðmundur Örn Ragnars, f. 27.12. 1938, d. 16.11. 2021. Sigrún giftist Kolbeini Inga Kolbeinssyni flugstjóra, f. 31.10. 1937. Systkini Pálma sammæðra eru Inga Kolbeinsdóttir, f. 28.10. 1962, leikkona í Þýskalandi, og Sigurður Snorri Kolbeinsson, f. 1.5. 1966, arkitekt í Reykjavík. Pálmi kvæntist Valdísi Gunnarsdóttur, f. 11.11. 1962, 31. ágúst 1985, þau skildu. Dóttir þeirra er Sigrún, f. 22.12. 1987, grafískur hönnuður. Maki Arnar Freyr Hermannsson, f. 14.6. 1990, bifvélavirki, dóttir þeirra er Eva, f. 2.5. 2017.

Pálmi ólst upp hjá móðurforeldrum sínum, Pálma Jósefssyni skólastjóra og Elínu Sigurðardóttur húsmóður á Tómasarhaga í Reykjavík. Á heimilinu fyrstu árin var einnig dóttir þeirra Kristín, f. 18.5. 1941, myndlistarkona, og voru þau Pálmi alla tíð afar náin. Dætur Kristínar og Svavars Markússonar, f. 30.5. 1935, d. 28.10. 1976, eiginmanns hennar, þær Anna Elín, f. 6.8. 1961, d. 24.3. 2019, ljósmyndari og Berglind, f. 21.10. 1971, myndlistarkona á Ítalíu, voru Pálma sem systur.

Að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík hélt Pálmi til náms í arkitektúr í Þýskalandi. Hann lauk fyrrihlutanámi í München en útskrifaðist sem arkitekt diplom ingenieur frá Tækniháskólanum í Berlín í árslok 1986. Pálmi starfaði meðal annars á Arkitektastofu Guðmundar Gunnarssonar og Sveins Ívarssonar í Reykjavík og Architekturbüro F.A. Mayer í Rottach-Egern í Þýskalandi. Pálmi stofnaði eigin stofu í Reykjavík en flutti til Noregs árið 2010 og bjó þar síðan.

Útförin fer fram frá Neskirkju í dag, 27. janúar 2023, klukkan 15.

Elsku pabbi, ég var búin að búast við þessu símtali svo lengi en það gerði það ekkert skárra. Við áttum svo margar góðar stundir saman. Sundferðirnar þegar ég var písl og svo ís á Dairy Queen á Hjarðarhaga. Þú settir mig upp á afgreiðsluborðið og leyfðir mér að ráða. Svo á leiðinni heim í Cadillacnum sat ég á armpúðanum aftur í og tróð ísnum í mig. Það var toppurinn á tilverunni.

Þegar við leigðum eina nýja og eina gamla, pöntuðum pítsu með tvöföldum gráðosti og hámuðum í okkur gúmmíbangsa. Ég mun aldrei geta horft á mynd með Bruce Willis án þessa að hugsa um þig ... eða Jack Nicholson! Þegar ég var níu kom ég heim úr bíó og sagði að kallinn í myndinni hefði sko verið alveg eins og pabbi (As Good as It Gets)! Þú varst með svo einstakan húmor, of grófan fyrir suma en við gátum velst um af hlátri saman. Svo gastu verið óttalegur stríðnispúki, alltaf að kitla mig og stela nebbanum mínum! Þegar Eva kom í heiminn þá var komið að henni. Afi sem kallaði hana nammigrís og gaf henni súkkulaðirúsínur í laumi.

Best var þó bara nærvera þín, þegar við sátum saman á bekk í Brussel og lásum. Þú varst svo flottur og æðrulaus; ég man svo vel breytinguna á þér þar sem þú varst búinn að vera edrú í nokkur ár og varst allt í einu orðinn þolinmóðari en ég. Eins og nýr maður í litlu íbúðinni þinni í Garðastræti og með stofuna á Lækjartorgi. Það sem ég var stolt af þér og skil þetta allt mikið betur í dag þegar ég fer sjálf með fundi inn á Vog eins og þú gerðir áður. Þú varst frjáls og við ferðuðumst og nutum lífsins. Í byrjun minnar edrúmennsku gat ég leitað til þín og enginn skildi mig betur. Það var svo yndislegt að geta tengst þér á þennan hátt. Ég verð ævinlega þakklát AA-samtökunum og SÁÁ. Án þeirra hefðum við líklega misst þig miklu fyrr. En svo þegar allt hrundi hér á landi þá tók sjúkdómurinn völdin og þú komst aldrei að fullu til baka. Alkóhólisminn eyðilagði ástarsöguna ykkar og tókst næstum því að eyðileggja okkar samband.

Ég er þakklát fyrir að þú þurfir ekki að þjást lengur og við þurfum ekki að bæta fleiri slæmum minningum í safnið, þar sem gömlu góðu minningarnar voru byrjaðar að dofna. Síðustu fjögur ár voru erfiðust: eftir slysið og svo stuttu seinna þegar við misstum elsku Önnellu. Hún sem var þér sem systir og ég leit alltaf á sem miklu meira en frænku. Það var mögulega það erfiðasta sem ég hef nokkurn tímann þurft að gera að segja þér að hún væri farin. Eftir það var þetta eiginlega bara búið.

Ég vildi að ég fengi að knúsa þig aftur almennilega og að við gætum farið með Evu að fá ís og hent grjóti í röbburnar eins og þú talaðir um. Takk fyrir að bíða eftir mér og leyfa mér að kveðja þig áður en þú fórst. Þú finnur góðan bekk í sólskininu og einn daginn mæti ég og við lesum aftur saman í friði og ró.

Farðu til hennar, þú ert frjáls.

Þín

Sigrún.

Það var mikil gleði og eftirvænting þegar Sigrún eldri systir mín kom heim með nýfæddan son sinn. Við systurnar vorum 17 og 19 ára. Sigrún var ennþá í menntaskóla þannig að foreldrar okkar tóku að miklu leyti við uppeldi Pálma. Það kom fljótt í ljós hvað Pálmi var vel gefinn og skýr. Man ég hvað pabbi var stoltur þegar Pálmi þuldi orðrétt það sem hann hafði verið að lesa fyrir hann. Enda átti eftir að koma í ljós að hann var mikill námsmaður og stóð sig alla tíð vel í námi. Á unglingsárunum komu listrænir hæfileikar Pálma í ljós þegar hann fór að dunda sér við að teikna og gat hann setið tímunum saman við þá iðju. Einnig vaknaði um sama leyti áhugi hans á myndlist og gerði hann frábærar tússteikningar eftir fyrirmyndum meistara á við Albrecht Dürer. Eftir grunnskólanám í Mela- og Hagaskóla lá leið Pálma í Menntaskólann í Reykjavík. Þar stóð hann sig með miklum ágætum og hlaut meðal annars gullpennann fyrir ritsmíð sína um Ólaf Jóhann Sigurðsson. Pálmi tók virkan þátt í félagslífinu og var til dæmis forseti Listafélagsins á lokaári sínu við skólann. Að loknu stúdentsprófi lagði Pálmi fyrir sig nám í arkitektúr og hafði hann mikla ástríðu fyrir faginu.

Við Pálmi tengdumst sterkum böndum. Ég naut þess að gæta hans fyrstu árin. Síðar á ævinni var það hann sem ég leitaði til þegar mig vantaði álit eða aðstoð tengda myndlist, en eins og áður er komið fram var Pálmi mjög listrænn. Þeir hæfileikar hans nutu sín vel í störfum hans sem arkitekt. Eftir hann eru m.a. Kauphöll Íslands við Laugaveg og nýtt Orkuver á Reykjanesi.

Pálmi stofnaði eigin arkitektastofu þar sem hann naut sín vel og þau ár sem hann rak hana voru mjög farsæl. Hann hafði háð snarpa baráttu við Bakkus en sagði skilið við áfengið í sjö ár með hjálp SÁÁ. Þá skall hrunið á sem eyðilagði svo margt. Pálmi flutti til Noregs og starfaði þar sem arkitekt. Því miður var hann aldrei sáttur við dvölina þar og tapaði smám saman baráttunni við Bakkus, enda ekki jafn öflugt starf þar og rekið er hérlendis á vegum SÁÁ.

Minningarnar eru margar, góðar og einnig sárar. Það var mikið áfall þegar Sigrún systir sem hafði búið erlendis í mörg ár lést 1980 eftir baráttu við krabbamein aðeins 41 árs, en Pálmi hafði bundið vonir við meiri samveru þeirra mæðginanna enda var hann nýbyrjaður í námi á meginlandinu.

Elsku Pálmi minn, nú skilur leiðir í bili. Þú ert kominn til þeirra sem á undan eru farnir.

Þín

Kristín.

Elsku Pálmi, nú er runnin upp kveðjustund en jafnframt tími þakklætis. Ég er þakklát fyrir allar góðu minningarnar. Þá koma fyrst upp í hugann öll ferðalögin. Við með Sigrúnu litlu að hossast í Greyhound bus frá San Francisco til Reno með skrautlegum ferðafélögum, af því að þú taldir það nauðsynlega reynslu fyrir okkur mæðgur að kynnast þessum ferðamáta. Óteljandi Ítalíuferðir okkar ýmist til Toscana eða Grado eru líka eftirminnilegar. Þar sem ég naut húsmæðraorlofs undir sólhlíf með bók á meðan þið feðginin brölluðuð allt mögulegt. Ferðir innanlands voru undantekningarlaust farnar á Snæfellsnesið. Ekið fyrir nes, rölt niður á Djúpalónssand (áður en túristarnir námu land) og við vorum bara alein á barðinu að maula heimasmurt nestið. Smám saman fækkaði góðu stundunum og Bakkus þröngvaði sér með sífellt meiri fyrirferð inn í líf okkar uns það þrengdi um of að okkur mæðgum og ekki varð lengur við unað. Ég vona að þú sért nú kominn á betri stað þar sem þú færð notið þín laus úr viðjum fíknarinnar. Takk fyrir allt og allt.

Valdís.

Ég kynntist Pálma Guðmundssyni í Menntaskólanum í Reykjavík; ég var í fjórða bekk og hann í fimmta. Þá tókst með okkur vinátta sem entist alla tíð síðan. Pálmi ólst upp á Tómasarhaga hjá afa sínum og ömmu, mætum sæmdarhjónum. Strax á unglingsárum var hann farinn að leggja drög að sínum fágaða lífsstíl. Herbergið hans var smekklega innréttað aðsetur ungs fagurkera sem unni myndlist, arkitektúr og hágæða bókmenntum.

Námið lá vel fyrir Pálma. Hann var sleipur í málum og þýddi m.a. smásögur eftir Kafka úr þýsku af talsverðri íþrótt. Hann var drátthagur með afbrigðum enda kosinn forseti Listafélagsins veturinn 1977-78; árið eftir varð ég arftaki hans í því embætti. Í fimmta bekk skrifaði Pálmi ritgerð sem fór ákaflega fyrir brjóstið á íslenskukennara hans, sem gaf henni falleinkunn. Þá gripu aðrir kennarar í MR, réttsýnir heiðursmenn, í taumana og hvöttu Pálma til að leggja ritgerðina fram til gullpennaverðlauna í sjötta bekk – og vitaskuld hlaut hann þau. Raunar fetaði ég enn í fótspor vinar míns árið eftir og fékk gullpennann fyrir afar sérviskulega ritsmíð um Nietzsche.

Eftir stúdentspróf vorum við Pálmi samtíða í námi í þeirri heimsfrægu bjór- og menningarborg München, ásamt öðru góðu fólki úr MR. Pálmi lærði byggingarlist og tók fyrrihlutapróf í München en hélt svo til Vestur-Berlínar þaðan sem hann útskrifaðist sem arkitekt.

Það var einstaklega vel menntaður og hæfileikaríkur ungur arkitekt sem kom hingað í fásinnið að loknu námi, settist að á æskuheimilinu á Tómasarhaga og stofnaði fjölskyldu. Ég held að sá tími hafi verið einn sá hamingjusamasti í lífi hans. En hér dundu þá sem oftar yfir efnahagsþrengingar. Pálmi fékk starf í Þýskalandi en eftir ýmis áföll þar ytra flutti fjölskyldan aftur heim. Honum tókst að koma undir sig fótunum sem arkitekt og teiknaði allmargar byggingar sem bera listfengi hans og kunnáttu í faginu fagurt vitni; þekktust er kannski Kauphöllin við Laugaveg.

Þessum kafla í ævi Pálma lauk í hruninu 2008. Fyrir verkefnalausan einyrkja var lífsafkoman í uppnámi. Þá var til ráða að flytja til Noregs þar sem ekkert lát var á byggingarframkvæmdum. Þar undi hann hag sínum þokkalega framan af, fékk áhugaverð verkefni á stórri arkitektastofu í Bergen og var vel látinn af samstarfsfólki sínu, eins og ég sannreyndi þegar ég hitti hann þar. Innan tíðar fór þó að síga á ógæfuhliðina og Pálmi var lagður inn á sjúkrahús vegna alvarlegra veikinda. Eftir að hafa náð sér að nokkru eftir þetta reiðarslag fékk Pálmi starf á arkitektastofu norður af Ósló. Dvölin þar reyndist honum mjög þungbær vegna einmanaleika og hörmulegs áfalls sem hann varð fyrir.

Ég kýs að minnast Pálma eins og þegar hann var upp á sitt besta: Óvenjulega glæsilegur og mikilhæfur maður, hávaxinn, sviphreinn og með sveip í ljósum hármakka. Við Rósa vottum Sigrúnu, Valdísi, systkinum Pálma, móðursystur og öðrum aðstandendum okkar innilegustu samúð.

Þórhallur

Eyþórsson.