Fjölskyldan Guðbjörg, Haukur og börn á körfuboltaleik í Miami um páskana.
Fjölskyldan Guðbjörg, Haukur og börn á körfuboltaleik í Miami um páskana.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðbjörg Þorsteinsdóttir fæddist 28. janúar 1983 í Reykjavík og ólst upp í Seljahverfinu. Hún bjó um skeið í Garðabæ og miðbæ Reykjavíkur, en hefur síðastliðin 13 ár verið búsett í Kópavogi. Frá upphafi grunnskólagöngu í Ölduselsskóla var Guðbjörg ári á undan í skóla (með árgangi 1982)

Guðbjörg Þorsteinsdóttir fæddist 28. janúar 1983 í Reykjavík og ólst upp í Seljahverfinu. Hún bjó um skeið í Garðabæ og miðbæ Reykjavíkur, en hefur síðastliðin 13 ár verið búsett í Kópavogi.

Frá upphafi grunnskólagöngu í Ölduselsskóla var Guðbjörg ári á undan í skóla (með árgangi 1982). Hún útskrifaðist frá Menntaskólann við Sund árið 2002, útskrifaðist með BA-gráðu í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík um áramótin 2005, og útskrifaðist með ML-gráðu í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík 2008. Hún öðlaðist lögmannsréttindi 2012 og réttindi sem löggiltur fasteignasali árið 2015.

Á árunum 1996-1997 bjó Guðbjörg ásamt foreldrum sínum í Flórída þar sem faðir hennar var í mastersnámi. „Það var góð og skemmtileg reynsla að hafa upplifað bandaríska menningu með þeim hætti en líka mikið menningaráfall að fara úr því að vera unglingur með það frelsi að geta ferðast sjálfstætt og án eftirlits um allt höfuðborgarsvæðið í það að þurfa að vera ekin og sótt í skólann og ekki geta farið ein með strætó í verslunarmiðstöð. Að auki eru reglur í bandarískum skólum mjög stífar og ólíkar því sem má venjast á Íslandi.

Skömmu eftir komuna frá Bandaríkjunum lést móðir mín úr húðkrabbameini. Það var mjög stórt áfall að upplifa sem 14 ára unglingur og þetta er reynsla sem maður kemst aldrei yfir en lærir að lifa með.“

Sem barn og unglingur æfði Guðbjörg sund, auk þess sem hún fór að æfa körfubolta í Bandaríkjunum og um stutt skeið með ÍR á unglingsárunum.

Guðbjörg hefur stafað hjá ráðgjafarfyrirtækinu Deloitte frá árinu 2007 og gerðist meðeigandi árið 2018. Frá 2021 hefur Guðbjörg starfað sem meðeigandi á lögmannsstofunni Deloitte Legal og hún er enn fremur stjórnarformaður lögmannsstofunnar. Á árunum 2015-2018 starfaði Guðbjörg einnig í hlutastarfi á lögmannsstofunni Lögvit ehf. Árin 2012-2014 kom Guðbjörg að rannsóknum og ritun skýrslu fyrir Rannsóknarnefnd Alþingis um orsakir og fall sparisjóðanna, og á árinu 2013 dvaldi Guðbjörg í Genf í Sviss vegna vinnu fyrir Deloitte þar í landi.

Guðbjörg er sérfræðingur í skattarétti og félagarétti, og veitir lögfræðiráðgjöf varðandi alla helstu þætti í rekstri fyrirtækja, s.s. stjórnun, kaup og sölu fyrirtækja, slit, samruna og yfirtökur, og gerð lögfræðilegra og skattalegra áreiðanleikakannana. Guðbjörg hefur haldið fjölmörg námskeið og erindi um slík mál á ýmsum opinberum vettvangi, auk þess að sinna gestakennslu í félagarétti hjá Háskólanum í Reykjavík.

„Ég hef áhuga á stangveiði, ferðalögum og útivist, auk þess að hafa brennandi ástríðu fyrir mat og matargerð. Ég fer árlega í veiðiferð í Laxá í Aðaldal með vinkonum í veiðifélaginu „Alltaf smart á bakkanum“, auk þess sem það er að verða árleg hefð að fara með vinnufélögum í veiðiferð í Eldvatn í V-Skaftafellssýslu.

Við Haukur höfum mikinn áhuga á því að ferðast saman og skipuleggjum allar okkar ferðir í kringum heimsóknir á áhugaverða veitingastaði, allt frá stöðum með Michelin stjörnur niður í hinn besta götubita. Síðasta sumar áttum við einstaklega góðar slíkar stundir þegar við heimsóttum saman í fyrsta skipti París, Prag og Dubrovnik, auk þess sem við höfum náð að fara í önnur góð ferðalög eftir Covid. Sömuleiðis skipuleggjum við mörg ferðalög í kringum heimsóknir í brugghús eða vínekrur, sérstaklega á ferðalögum í Bandaríkjunum. Þorsteinn bróðir minn hefur verið búsettur í Bandaríkjunum í rúm 20 ár og höfum við ansi oft farið að heimsækja hann í Norður-Karólínu og Flórída.“

Guðbjörg hefur alltaf haft mikinn tónlistaráhuga og reynir að fara sem oftast á tónleika, hvort sem það er með innlendum hljómsveitum eða erlendis. „Ég er með tvær tónleikaferðir planaðar og er sérstaklega spennt fyrir ferðinni með saumaklúbbnum sem ætlar að fara sjá Madonnu í Köben seinna á þessu ári.

Fyrir rúmu ári fengum við okkur hund sem er af tegundinni ástralskur fjárhundur og fékk nafnið Vaskur. Þar sem ég er skattalögfræðingur þá finnst mér mjög fyndið að segja brandarann að nafnið „Virðisaukaskattur“ hafi verið of langt. Hundurinn hefur verið yndisleg viðbót við fjölskylduna og frábært að hafa þeirri skyldu að gegna að fara reglulega í góða göngutúra.

Ég hef í tvígang sigrast á krabbameini, annars vegar á leghálskrabbameini þegar ég var 27 ára gömul og hins vegar á brjóstakrabbameini 37 ára. Það að fara í slíkar erfiðar aðgerðir og meðferðir, í bæði skiptin þannig að ég missti allt hárið, hefur á endanum styrkt mig og kennt mér að njóta lífsins, lifa í núinu og bíða ekki eftir því að gera hlutina seinna.“

Fjölskylda

Eiginmaður Guðbjargar er Haukur Heiðar Leifsson, f. 24.8. 1980, vörumerkjastjóri hjá Ölgerðinni. Þau eru búsett í Kórahverfinu í Kópavogi. Foreldrar Hauks: Unnur Ragnheiður Hauksdóttir, f. 8.9. 1960, húsfreyja á Akranesi, og Leifur Hjálmarsson, f. 16.11. 1955, d. 21.12. 1989, verkamaður.

Börn Guðbjargar og Hauks eru Góa Kolbrún Skúladóttir, f. 25.2. 2006, menntaskólanemi, maki: Kristófer Kári Alexandersson, f. 23.10. 2006, og Þorsteinn Kári Hauksson, f. 22.12. 2016, grunnskólanemi.

Alsystkin Guðbjargar eru Guðmundur Þorsteinsson, f. 2.8. 1965, sagnfræðingur, búsettur í Kópavogi; Bergljót Þorsteinsdóttir, f. 15.5. 1967, eigandi Austurbæjarapóteks, búsett í Reykjavík, og Þorsteinn Þorsteinsson, f. 9.12. 1968, doktor í lyfjafræði og sjálfstætt starfandi í Flórída. Hálfsystur, samfeðra eru Svanhildur Silja Þingey Þorsteinsdóttir, f. 1.12. 1999, viðskiptafræðingur, búsett í Garðabæ, og Sóldís Eik Þorsteinsdóttir, f. 3.7. 2002, nemi í innanhússarkitektúr í Flórens á Ítalíu.

Foreldrar Guðbjargar: Þorsteinn Þorsteinsson, f. 22.12. 1944, fyrrv. skólameistari Fjölbrautaskólans í Garðabæ, búsettur í Garðabæ, og Elín Edda Guðmundsdóttir, f. 2.10. 1946, d. 10.5. 1997, læknaritari. Þau voru gift. Þorsteinn giftist núverandi eiginkonu árið 2001, Sigríði Huldu Jónsdóttur, f. 18.9. 1964, forseta bæjarstjórnar í Garðabæ og framkvæmdastjóra SHJ ráðgjafar.