Davíð Þorláksson
Davíð Þorláksson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Uppfærð kostnaðaráætlun vegna samgöngusáttmálans hljóðar upp á rúmlega 164 milljarða króna. Þar af er kostnaður við 1. áfanga borgarlínu nú áætlaður rúmlega 21 milljarður króna. Sé hins vegar bætt við kostnaði sveitarfélaganna eykst heildarkostnaður …

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Uppfærð kostnaðaráætlun vegna samgöngusáttmálans hljóðar upp á rúmlega 164 milljarða króna. Þar af er kostnaður við 1. áfanga borgarlínu nú áætlaður rúmlega 21 milljarður króna.

Sé hins vegar bætt við kostnaði sveitarfélaganna eykst heildarkostnaður við þessi verkefni í 173 milljarða og kostnaður við fyrsta áfanga borgarlínu í 28,14 milljarða, að teknu tilliti til verðlagsbreytinga.

Þetta má lesa úr skýrslu Betri samgangna um stöðu og framgang verkefna í desember 2022. Þar er að finna töflu um skiptingu kostnaðar vegna einstakra verkefna innan samgöngusáttmálans en þau skiptast í fjóra flokka: stofnvegi, borgarlínu, virka ferðamáta og öryggi og flæði.

Dýrari stofnvegir

Áætlaður kostnaður við þrjú verkefni við stofnvegi hefur verið endurskoðaður til hækkunar. Kostnaður við Suðurlandsveg [Norðlingavað – Bæjarháls] fer úr tæpum 1,5 milljörðum króna í tæpa 2,9 milljarða. Þá eykst kostnaður við vegaframkvæmdir við Sæbraut úr 2,74 milljörðum í 17,72 milljarða, eða um tæpa 15 milljarða. Þá fer kostnaður við vegtenginguna Arnarnesvegur – Breiðholtsbraut úr tæpum tveimur milljörðum í 4,9 milljarða.

Loks er kostnaður við fyrsta áfanga borgarlínu – Ártún – Hlemm – Hamraborg – talinn nema 21,3 milljörðum og 28,14 milljörðum króna samtals með tengdum framkvæmdum sveitarfélaga, m.t.t. verðlagsbreytinga.

Til upprifjunar undirrituðu ríkið, Reykjavíkurborg, Kópavogsbær, Hafnarfjarðarkaupstaður, Garðabær, Mosfellsbær og Seltjarnarnesbær sáttmála um samgönguframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu haustið 2019. Ákveðið var að framkvæmdirnar yrðu í höndum fyrirtækis sem yrði stofnað í kringum þær. Það heitir Betri samgöngur og framkvæmdastjóri þess er Davíð Þorláksson.

Kostnaður vegna hjólastíga

Davíð segir aðspurður að áætlaður kostnaður Betri samgangna við Suðurlandsveg aukist úr 1.494 milljónum í 1.941 milljón. Við það bætist svo rúmar 900 milljónir af hálfu viðkomandi sveitarfélags, þ.e. Reykjavíkur. Það sama gildi um vegtenginguna Arnarnesvegur – Breiðholtsbraut en þar fari kostnaður Betri samgangna úr 1.992 milljónum í 3.600 milljónir en svo bætist við 1.300 milljónir sem skiptist milli Kópavogs og Reykjavíkur. Það hafi áhrif á kostnað sveitarfélaganna að tengdar framkvæmdir bætist nú við. Þar með talið hjólastígar við Bæjarháls.

Hvað varðar kostnað við stokk á Sæbraut segir Davíð ekki um sömu framkvæmd að ræða og upphaflega vart lagt út frá. Þannig hafi verið horfið frá hugmyndum um mislæg gatnamót heldur sé nú gengið út frá því að Sæbraut verði lögð í stokk. Það sé allt önnur framkvæmd og eftir atvikum mun dýrari en sú fyrri.

Hvað varðar fyrsta áfanga borgar­línu hafi kostnaðurinn verið endurmetinn til hækkunar úr 17,1 milljarði í 21,3 milljarða, meðal annars vegna hækkandi byggingarkostnaðar og verðlagsþróunar. Að viðbættum kostnaði sveitarfélaganna eykst heildarkostnaðurinn við fyrsta áfanga borgarlínu sem áður segir í 28,14 milljarða, samkvæmt verðbættri og uppfærðri heildaráætlun framkvæmda. Skiptist hann milli Reykjavíkur og Kópavogs.

Hafi hækkað um 17 milljarða

Við undirritun samgöngusáttmálans voru verkefnin talin kosta 117,3 milljarða og var einum milljarði svo bætt við þá upphæð. Verðbættur sáttmáli hljóðaði upp á 147,2 milljarða og segir Davíð þá upphæð hafa hækkað í 164,2 milljarða, eða um 17 milljarða. Sú aukning skýrist fyrst og fremst af verðlagsþróun og breyttum áformum á Sæbraut. Við það bætast tengd verk­efni á vegum sveitarfélaganna en að þeim meðtöldum fer kostnaðurinn í rúma 173 millarða.

Framlög og gjaldtaka

Á vef Betri samgangna er vikið að fjármögnun fyrirtækisins. „Ríkið og sveitarfélögin leggja til þrjá milljarða á ári og fyrirtækinu er ætlað að fjármagna það sem eftir stendur. Annars vegar með þróun Keldnalandsins, sem ríkið leggur fyrirtækinu til, og hins vegar með innheimtu flýti- og umferðargjalda, verði ákveðið að leggja þau á,“ segir þar orðrétt.

Flýtifé á þátt í að áætlaður kostnaður við tvo efstu stofnvegina vinstra megin í grafinu hækkar umfram verðbætur. Annars vegar við Vesturlandsveg – leiðin Skarhólabraut – Langitangi – Hafravatnsvegur – en þar er gert ráð fyrir 350 milljóna flýtifé. Þá er gert ráð fyrir 650 milljóna flýtifé á leiðinni Suðurlandsvegur – Bæjarháls – Vesturlandsvegur.

Höf.: Baldur Arnarson