Fríhöfn Viðræður eru í gangi fyrir starfsmenn opinberra hlutafélaga.
Fríhöfn Viðræður eru í gangi fyrir starfsmenn opinberra hlutafélaga. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kjaraviðræður félaga og bandalaga opinberra starfsmanna við viðsemjendur hafa verið í fullum gangi að undanförnu og er við það miðað að gerðir verði skammtímasamningar með líkum hætti og samið hefur verið um á almenna vinnumarkaðnum

Kjaraviðræður félaga og bandalaga opinberra starfsmanna við viðsemjendur hafa verið í fullum gangi að undanförnu og er við það miðað að gerðir verði skammtímasamningar með líkum hætti og samið hefur verið um á almenna vinnumarkaðnum. Ekki verður þó skrifað undir samninga nema fyrst verði lokið við að ganga endanlega frá samkomulaginu sem gert var 2016 um jöfnun launa á milli markaða.

Sameyki, sem er stærsta stéttarfélag opinberra starfsmanna, er þessa dagana í viðræðum við Samtök atvinnulífsins vegna starfsmanna hjá opinberu hlutafélögunum, Isavia, Rarik, Fríhöfninni og Ríkisútvarpinu. Þórarinn Eyfjörð formaður Sameykis segir að samningar þeirra hafi losnað samtímis samningunum á almenna vinnumarkaðnum. Kjarasamingar SA við SGS-félögin, samflot iðnaðarmanna og VR í desember geta þó ekki að öllu leyti orðið fyrirmynd samninga Sameykis við ohf-félögin þar sem launasetningin er ekki sambærileg.

Þórarinn segir að stóri ramminn sem settur var um þá samninga sem SA gerði við ASÍ-félögin geti alveg hentað en vandinn sem menn standi frammi fyrir sé sá að stór hluti félagsmanna VR er á markaðslaunum en félagsmenn í Sameyki hjá þessum félögum taki einvörðungu laun samkvæmt launatöxtum. Finna þurfi leið til að tryggja þeim kjarabætur skv. launatöflum sem endurspegli þetta og innan þessa ramma.

Heildarsamtökin BSRB, BHM og KÍ hafa verið í samfloti í viðræðum við samninganefnd ríkisins, Reykjavíkurborg og sveitarfélögin og setja á oddinn að náð verði niðurstöðu um jöfnun launa á milli markaða. „Samninganefnd ríkisins og ráðherrar vita vel að þetta er forsenda kjarasamninga,“ segir Þórarinn.

Vekur spurningar

Hann segir hins vegar að síðustu vendingar á almenna markaðinum, eftir að miðlunartillaga ríkissáttasemjara kom fram, hafi skapað mikla óvissu á vinnumarkaðnum og vakið spurningar um hvernig stéttarfélögin eigi að bregðast við. „Í raun er samningsrétturinn hjá SA og Eflingu tekinn af með þessari aðgerð,“ segir hann. Margir séu eins og eitt spurningarmerki vegna þess að ljóst sé að þau úrræði sem viðsemjendur hafa til að ná samningum hafi ekki verið fullunnin þegar tillagan var lögð fram að mati hans.

Í sameiginlegri yfirlýsingu BHM, BSRB og KÍ í gær eru gerðar alvarlegar athugasemdir við „inngrip ríkissáttasemjara í kjaradeilu Eflingar og SA“. Þetta sé stórt og alvarlegt inngrip í vinnudeilu, sérstaklega þegar horft sé til þess að þátttaka í kosningu þurfi að vera mjög mikil svo unnt sé að fella tillöguna.