Formað Allt er blátt er metnaðarfullt og óvenju fágað verk.
Formað Allt er blátt er metnaðarfullt og óvenju fágað verk.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Vita skuluð þið, ég hefði hæglega getað hlaðið í tíu svona pistla til viðbótar, enda eftir nógu að slægjast á akri íslenskrar tónlistar nú um stundir.

TÓNLIST

Arnar Eggert Thoroddsen

arnareggert@arnareggert.is

Áslaug Dungal er ung söngkona, gítarleikari og lagahöfundur sem ég vissi ekkert um fyrr en mér barst plata hennar, Óviss, til eyrna á síðasta ári. Sex laga plata sem kallast hinu dásamlega nafni Óviss. Ég les m.a. í þetta að þetta eru fyrstu skref höfundar á útgáfu- og lagasmíðasviðinu (geri ég ráð fyrir) þannig að það er sumpart verið að feta þessa slóð hikandi og margt „óvíst“ enn. Platan og hljóðheimurinn er einkar lofandi verður að segjast. Fyrsta lagið, „Inní mér“, hljómar eins og það gæti verið af Hejira með Joni Mitchell, bergmálskennt gítarglamur og lokkandi indísöngur þar sem tilfinning trompar „lagvissu“. Lagið er og í ætt við þessa ambient-legnu handanheimstónlist sem listakonur eins og Grouper, Juliana Barwick, jafnvel okkar eigin Asalaus, eru að gera. Skældir og „unnir“ gítarar, lögin dansa um loftið í ókennilegu glitri, eru draumkennd og stemningsmyndandi. Annað lagið, „Fyrir þig“, er nákvæmlega þannig og „Einn daginn“ fylgir svipaðri forskrift. Fallegt, brotthætt og dulrænt – allt í senn.

Áslaug sagði frá því í Ólátagarði, hinum stórgóða grasrótarþætti Rásar 2, að hún hefði tekið plötuna upp í herberginu sínu og hefði einfaldlega gefið hana út. Hún ræddi lítt um texta eða einhverja dýpri merkingu í plötunni, þetta væri bara „eitthvað dót sem ég var að vinna með“. Áslaug er í LHÍ um þessar mundir og tónlistarnemar þaðan, útskrifaðir sem óútskrifaðir, hafa verið að koma fram með henni á hljómleikum.

Iðunn Einars er og LHÍ-tengd og er með BA í tónsmíðum þaðan. Allt er blátt er líkt og í tilfelli Áslaugar sex laga stuttskífa, en inniheldur rækilega „samda“ tónlist og formaða. Á Bandcamp-síðu sinni segist Iðunn koma úr klassískum bakgrunni en hafi fundið sig í poppi og Allt er blátt sé samsláttur þessa. Betri lýsingu er eiginlega ekki hægt að finna á verkinu, það er nákvæmlega þannig.

Samnemendur hennar koma nokkuð við sögu á plötunni, hin nýja kynslóð íslensks tónlistarfólks, fólk fætt í kringum 2000. Elvar Smári Júlíusson sá um hljóðupptökur og hljóðblöndun m.a. Aðrir sem komu við sögu voru Brynjar Daðason, Ísidór Jökull Bjarnason, Hafrún Birna Björnsdóttir, Móeiður Una Ingimarsdóttir, Svanhildur Lóa Bergsveinsdóttir og Þórey Einarsdóttir.

Tónlistin er eins og segir langt komin og tilkomumikil. Haganlega skrifaðir rafpartar renna samsíða strengjaútsetningum og barnslegri söngrödd Iðunnar. Ég heyri í Sigur Rós og Björk, Joönnu Newsom líka, en þetta eru áhrifavaldar sem lúra utan við, þetta er engan veginn eitthvert hermikrákuverk. Samantekið er þetta virkilega efnilegur frumburður frá ungu tónskáldi sem á ábyggilega eftir að láta að sér kveða á næstu árum sé vel á spöðum haldið. Sjá t.d. „Venus“, hrífandi falleg smíð sem sprettur úr nútímatónlistarheiminum, jafnvel þessum síðklassíska þar sem Jóhann Jóhannsson og Ólafur Arnalds hafa farið mikinn.

Ég talaði um þá Stirni og Oliver Devaney í síðustu viku. Vita skuluð þið, ég hefði hæglega getað hlaðið í tíu svona pistla til viðbótar, enda eftir nógu að slægjast á akri íslenskrar tónlistar nú um stundir. Það sem hefur líka breyst á undanförnum áratug, kannski áratugum, eru útgáfu- og dreifileiðir sem færa tónlistina nær okkur. Streymisveitur stytta bið og auðvelda aðgang, þetta líkan er komið til að vera, þó að sannarlega eigi eftir að leysa úr ýmsu varðandi hagkerfið í kringum það. En það er önnur grein.

Höf.: Arnar Eggert Thoroddsen