Grund við Hringbraut Nýi laufskálinn á að rísa fyrir framan aðalbygginguna, í góðu skjóli fyrir norðanáttinni.
Grund við Hringbraut Nýi laufskálinn á að rísa fyrir framan aðalbygginguna, í góðu skjóli fyrir norðanáttinni. — Ljósmynd/Grund
Skipulagsfulltrúi Reykjavíkur hefur tekið jákvætt í ósk hjúkrunarheimilisins Grundar að fá að reisa laufskála sunnan aðalbyggingar heimilisins við Hringbraut. Fram kemur í umsögn verkefnisstjóra embættisins að byggingin á lóð nr

Skipulagsfulltrúi Reykjavíkur hefur tekið jákvætt í ósk hjúkrunarheimilisins Grundar að fá að reisa laufskála sunnan aðalbyggingar heimilisins við Hringbraut.

Fram kemur í umsögn verkefnisstjóra embættisins að byggingin á lóð nr. 50 við Hringbraut, hjúkrunarheimilið Grund, hafi verið reist í nokkrum áföngum á árunum 1929-2005. Hún er friðuð samkvæmt rauðum flokki en honum tilheyra einstök hús, húsaraðir eða götumyndir með varðveislugildi.

Bent er á að laufaskálinn/garðskálinn hafi þegar fengið jákvæða umsögn Minjastofnunar. Þar er bent á að laufskálinn sé sjálfstæð bygging sem tengist aðalbyggingunni aðeins með yfirbyggðum gangi. Hann sé að nokkru leyfi niðurgrafinn og steyptur stoðveggur muni draga enn frekar úr sýnileika hans frá götu. Mikilvægt sé að laufskálinn falli vel að aðalbyggingu hvað varðar útlit og efnisval.

„Laufskáli og tilheyrandi útisvæði mun bæta aðstöðu heimilismanna til útivistar og hefur ekki afgerandi eða óafturkræfar breytingar í för með sér á aðalbyggingunni sjálfri. Ekki er talið að hann muni hafa neikvæð áhrif á nágranna þar sem hann er staðsettur í inngarði fyrir aftan stóran, sígrænan runna,“ segir í umsögninni.

Grund, dvalar- og hjúkrunarheimili, fagnaði aldarafmæli 29. október árið 2022. Grund er elsta starfandi heimili fyrir aldraða hér á landi. Í dag eru heimilismenn Grundar um 175 talsins. Starfsmenn eru um 300, margir í hlutastörfum. sisi@mbl.is