Diane Keaton er heldur ekki þessi freimna týpa. Og kann að henda í sprell.
Diane Keaton er heldur ekki þessi freimna týpa. Og kann að henda í sprell. — AFP/Michael Tran
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hafi ykkur alltaf dreymt um að sjá hnefabardaga milli Richards Geres og Williams H. Macys þá ættuð þið að skella ykkur á bandarísku gamanmyndina Maybe I Do sem var heimsfrumsýnd í gærkvöldi, meðal annars hér á landi

Hafi ykkur alltaf dreymt um að sjá hnefabardaga milli Richards Geres og Williams H. Macys þá ættuð þið að skella ykkur á bandarísku gamanmyndina Maybe I Do sem var heimsfrumsýnd í gærkvöldi, meðal annars hér á landi. Nú hugsið þið ábyggilega með ykkur: „Hvernig getur maðurinn verið búinn að sjá myndina, er ekki deddlæn á Sunnudagsblaðinu um miðjan dag á föstudegi?“ Þetta er skarplega athugað hjá ykkur; ég er alls ekki búinn að sjá myndina. Alla vega ekki meðan ég skrifa þessa grein. Hugsanlega hef ég skellt mér á hana í gærkvöldi en það er þó ólíklegt í ljósi þess að það var stórleikur í enska bikarnum í knattspyrnu á sama tíma. Þegar ég rita þessi orð hef ég ekki hugmynd um hvernig leikurinn fór en þegar þú lest þau þá veit ég allt um það. Er lífið ekki makalaust? En jæja, mér er sumsé kunnugt um téð atriði vegna þess að stillt er upp í þennan æsilega hnefabardaga í stiklu Maybe I Do sem aðgengileg hefur verið netfróðum í nokkrar vikur.

Gere og Macy leika feður tilvonandi brúðhjóna í myndinni. Mæður þeirra eru heldur engir nýgræðingar á hvíta tjaldinu, Susan Sarandon og Diane Keaton. Sumsé stórskotalið. Engum sögum fer af því hvort þær láta hendur skipta í myndinni. Færri kannast líklega við leikarana sem fara með hlutverk brúðhjónanna en þau eru á öruggri uppleið vestur í Hollywood, Emma Roberts og Luke Bracey.

Ekki er langt síðan einhver fékk þá bráðsnjöllu hugmynd vestra að eldri borgarar gætu líka borið uppi rómantískar gamanmyndir enda er ástin fræg fyrir að spyrja hvorki um aldur né stöðu. Maybe I Do kemur breikdansandi inn í þessa sviðsmynd. Michelle og Allen ætla að ganga í heilagt hjónaband en fyrst finnst þeim mikilvægt að foreldrar þeirra hittist. Það reynist hin versta hugmynd enda þekkja foreldrarnir hverjir aðra og ekki með þeim hætti sem börn þeirra bjuggust endilega við. Þegar Gere rekst á Sarandon, sem hann er ekki kvæntur, í stofunni heima hjá sér verður honum um og ó og mælir andstuttur: „Þú mátt ekki koma hingað núna, ég er með félagsskap!“ Sarandon horfir áhyggjufull á hann á móti og segir: „Ég er félagsskapurinn!“

Þið skiljið hvað ég er að fara! Seinna detta menn í „elskarðu konuna mína?“ og allan pakkann. Ég er ekkert að höskuldast í ykkur; allt kemur þetta fram í stiklunni, sem ég gat um áðan.

Fer allt í vaskinn?

En alltént. Í ljós kemur að hugmyndir foreldranna um hjónaband eru kannski aðeins frjálslegri en unga fólkið hafði gert ráð fyrir. Kvöldverðurinn er á góðri leið í vaskinn og foreldrarnir þurfa ekki bara að taka á honum stóra sínum til að fela leyndarmál sín, heldur líka til að sannfæra unga fólkið um að það geti hugsanlega, mögulega og ef til vill verið góð hugmynd að gifta sig. Mun þeim takast að halda þessum leyndarleik gangandi eða mun kvöldið verða að verstu martröð þeirra allra?

Hvur veit?

Gere er giftur Keaton í myndinni en þau deildu síðast hvíta tjaldinu í glæpadramanu Looking for Mr. Goodbar árið 1977. Ótrúlegt að það hafi tekið þessa stórleikara 46 ár að finnast á ný. Þau eru nú bæði á áttræðisaldri – hann 73 ára en hún 77 – en í vargaformi og hvergi nærri farin að huga að því að rifa seglin. Sarandon fæddist sama ár og Keaton, 1946, en Macy er kjúklingurinn í hópnum – ekki nema 72 ára og er auðvitað að brölta inn í bíóið eftir að hafa leikið hlutverk lífs síns, heimspekinginn og eilífðarbyttuna ódrepandi Frank Gallagher, í hinum mergjuðu sjónvarpsþáttum Shameless, sem nú hafa runnið sitt skeið á enda. Af stiklunni að dæma er kappinn búinn að skafa rækilega undan nöglunum.

Ekki allt sem sýnist

Títtnefnd stikla segir óvenju margt og plottið virðist liggja fyrir. Bíómiðillinn Collider gerir sér mat úr þessu en hvetur fólk eigi að síður eindregið til að skella sér á myndina, ekki sé nefnilega allt sem sýnist. Um þetta get ég að sjálfsögðu ekki tjáð mig enda ekki búinn að sjá myndina. „Þið getið búið ykkur undir óvæntan sveig á söguþræðinum er líður á myndina,“ segir miðillinn.

Úllala, segjum við!

Collider segir einnig augljóst að leikendur njóti sín til hins ýtrasta og persónurnar séu uppfullar af sjarma og gleði. Sérstaklega séu aðalleikkonurnar ósparar á kryddið, eins og þeirra sé von og vísa. „Mest er þó um vert að stiklan færir okkur heim sanninn um að þetta er ekki sú gerð af rómkómedíu sem maður myndi búast við frá stálpuðum leikurum og það gerir þessa mynd spennandi og einstaka á sinn hátt. Búið ykkur undir að að hlæja dátt en einnig að dramatíkin skelli á ykkur eins og flóðbylgja. Sumsé eitthvað fyrir alla sem unna þessari gerð kvikmynda.“

Hópurinn hendir sér nú beint í næstu verkefni en fyrir liggur að Gere mun leika í gamandramanu Longing eftir ísraelska leikstjórann Savi Gabizon. Sarandon sjáum við að óbreyttu næst í ofurhetjumyndinni Blue Beetle eða Bláu bjöllunni og Keaton verður með í framhaldinu af hinni vinsælu gamanmynd Book Club sem kallast mun því viðeigandi nafni Book Club 2 – The Next Chapter. Þar verða einnig Jane Fonda, Candice Bergen og Mary Steenbergen. Allt leikkonur á virðulegum aldri. Macy er nú við tökur á vísindahasarnum Kingdom of the Planet of the Apes.

Frumraun leikstjórans

Maybe I Do er frumraun Michaels Jacobs á leikstjórastóli en hann skrifaði einnig handritið. Hann er þó enginn nýgræðingur í faginu enda orðinn 67 ára. Fram að þessu hefur hann þó verið þekktari sem framleiðandi, handritshöfundur, skapari sjónvarpsefnis og leikskáld. Verk hans hafa bæði verið sýnd á Broadway og Off Broadway. Af þáttum sem hann hefur skrifað má nefna The Torkelsons, Boy Meets World, Dinosaurs og My Two Dads.

Þekktastur er Michaels þó líklega fyrir að hafa framleitt hina vinsælu mynd Roberts Redfords, Quiz Show, árið 1994, en fyrir það var hann tilnefndur til Óskarsverðlauna.

The Torkelsons vekur, nafnsins vegna, áreiðanlega áhuga margra, en gerðar voru tvær seríur af þættinum snemma á 10. áratugnum. Hermt var af Millicent Torkelson, sem ugglaust hefur verið af íslenskum ættum, einstæðri móður sem þurfti að hafa verulega fyrir lífinu. Connie Ray lék hana og meðal annarra leikenda má nefna Brittany heitna Murphy.