Um 200 sölusvæði voru á kaupstefnunni. Stór hluti þeirra var frá Íslandi en einnig frá Bandaríkjunum, Kanada, Grænlandi, Noregi og Finnlandi.
Um 200 sölusvæði voru á kaupstefnunni. Stór hluti þeirra var frá Íslandi en einnig frá Bandaríkjunum, Kanada, Grænlandi, Noregi og Finnlandi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Um 700 kaupendur og seljendur voru skráðir til þátttöku á Icelandair Mid Atlantic-ferðakaupstefnunni sem fram fór í Laugardalshöll í gær. Þetta er í 29. sinn sem kaupstefnan er haldin, en hún er sú stærsta sinnar tegundar hér á landi og einn af lykilviðburðunum í íslenskri ferðaþjónustu

Gísli Freyr Valdórsson

gislifreyr@mbl.is

Um 700 kaupendur og seljendur voru skráðir til þátttöku á Icelandair Mid Atlantic-ferðakaupstefnunni sem fram fór í Laugardalshöll í gær. Þetta er í 29. sinn sem kaupstefnan er haldin, en hún er sú stærsta sinnar tegundar hér á landi og einn af lykilviðburðunum í íslenskri ferðaþjónustu. Þar hittast kaupendur og seljendur ferðaþjónustu beggja vegna Atlantshafsins í þeim tilgangi að mynda tengsl og viðskiptasambönd sín á milli. Heildarfjöldi gesta á kaupstefnunni er um 1.000 manns.

Eliza Reid forsetafrú og Lilja D. Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra kynntu sér kaupstefnuna í gær í fylgd Boga Nils Bogasonar forstjóra Icelandair. Þar var einnig Pétur Þ. Óskarsson forstjóri Íslandsstofu, Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, forseti borgarstjórnar Reykjavíkur.

Þá átti Bogi Nils ásamt öðrum stjórnendum Icelandair hádegisverð með hópi erlendra blaðamanna í hádeginu í gær þar sem hann svaraði spurningum um stöðu félagsins eftir heimsfaraldur, um framtíðarvöxt þess, flotamál og fleira.

Hefur stækkað mikið

Icelandair Mid Atlantic-kaupstefnan óx mikið fram að heimsfaraldi. Aðeins tíu ár eru liðin frá því að gestir voru um 300 talsins frá tólf löndum. Þrjú ár eru liðin frá því að kaupstefnan var haldin síðast, en eðli málsins samkvæmt var hún ekki haldin meðan á heimsfaraldri stóð.

Sölusvæði á kaupstefnunni í ár voru um 200 og á þeim fóru fram yfir 5.400 fundir. Íslensk fyrirtæki, víðs vegar af að landinu, fylltu stóran hluta sölusvæðanna. Þar var að finna hótel, afþreyingaraðila, fyrirtæki í jöklaferðum og farþegaþjónustu, baðstaði og fleira. Þá voru þar einnig fulltrúar fjölmargra fyrirtækja beggja vegna Atlantshafsins, allt frá hótelum yfir í afþreyingaraðila.

Mikilvæg tengsl

Sem fyrr segir er tilgangur kaupstefnunnar að skapa tengsl og viðskiptasambönd milli aðila í ferðaþjónustu. Fjölmargir heildsalar sækja kaupstefnur sem þessa og í mörgum tilvikum verða til viðskiptasambönd sem vara um árabil.

Slíkar kaupstefnur eru eftirsóttar víða um heim enda leggur stór hluti ferðaþjónustuaðila, hvort sem er ferðaskipuleggjendur sem starfa á heimamarkaði eða á milli landa, mikið upp úr persónulegum tengslum við birgja sína og heildsala.

Sýni viðskiptalíkanið í verki

Bogi Nils Bogason sagði í tilkynningu sem send var fjölmiðlum í gær að kaupstefnan sýndi viðskiptalíkan Icelandair í verki, þ.e. að Ísland væri tengipunktur á milli Evrópu og Norður-Ameríku.

„Við erum mjög stolt af þeim mikla árangri sem Icelandair Mid-Atlantic hefur skilað, bæði ferðaþjónustuaðilum hérlendis og erlendis og af þessu framlagi okkar til ferðaþjónustu á Íslandi,“ sagði Bogi Nils.

Höf.: Gísli Freyr Valdórsson