Um leið og enska yfirtekur allt í ferðaþjónustunni er ímynd landsins gjaldfelld

Íslensku virðist almennt ýtt til hliðar í ferðaþjónustu. Kveður svo rammt að þessu að freistandi er að segja að það sé markvisst, en ef til vill væri nær að tala um andvaraleysi þar sem einn hermir eftir öðrum því vart er hér um að ræða samantekin ráð.

Tvær nýjar skýrslur á vegum ferðamáladeildar Háskólans á Hólum voru í fréttum í vikunni. Þar voru birtar niðurstöður rannsókna á enskuvæðingu í íslenskri ferðaþjónustu. Önnur er um nöfn fyrirtækja í íslenskri ferðaþjónustu og hin um stöðu málstefnu í stoðkerfi ferðaþjónustunnar þar sem sett er fram spurningin hvort hún skipti máli.

„Við erum auðvitað áhyggjufullar gagnvart þessari stöðu. Ef enginn hugsar sig um tvisvar þegar hann gefur fyrirtæki sínu erlent nafn og yfirvöld bregðast ekki við þá gerist ekkert annað en að við tökum enskuna upp fyrir tungumál ferðþjónustunnar. Mér sýnist allt liggja í þá átt,“ sagði Sigríður Sigurðardóttir, lektor við Háskólann á Hólum, í viðtali, sem birtist í Morgunblaðinu á fimmtudag.

Sigríður er höfundur skýrslnanna ásamt Önnu Vilborgu Einarsdóttur, lektor á Hólum, og Ágústu Þorbergsdóttur, deildarstjóra hjá Árnastofnun. Í skýrslunni um nöfn fyrirtækja lýsa þær áhyggjum sínum í niðurstöðukafla: „Verði íslenska ekki gjaldgeng í ferðaþjónustu á Íslandi og enska verður tekin fram yfir hana mun hljómur og ásýnd landsins breytast. Þar með glatast mikilvæg sérstaða og um leið verðmæti.“

Þetta er mikilvæg ábending. Ferðamenn koma til Íslands af annarri ástæðu en þegar þeir halda til sólarlanda. Í sólarlandaferð mætti til einföldunar segja að verið sé að leita að sem mestum þægindum fyrir sem minnstan pening.

Fólk fer sjaldnast í slíkar ferðir gagngert til að upplifa nýja menningu og kanna framandi slóðir þótt slíkt skemmi ekki fyrir, heldur til að eiga áhyggjulausa daga og hlaða batteríin. Þegar ferðamenn koma hingað til lands er Ísland aðdráttaraflið, íslensk náttúra og íslensk menning. Ísland er í hugum margra framandi land í seilingarfjarlægð frá bæði Evrópu og Ameríku, en þó afvikið frá þeirri einsleitni sem er að yfirtaka borgir um allan heim. En hversu lengi? Um leið og enskan yfirtekur allt í ferðaþjónustunni er þessi ímynd gjaldfelld og landið verður sjoppulegt.

Það getur verið undarlegt að ganga um miðbæinn og við blasa skilti á ensku. „World Cup Deals, Buy 2, Get 1 Free,“ eða „Best Price in Iceland“.

Það er hins vegar erfitt að skamma einkafyrirtækin þegar hið opinbera getur ekki farið fram með góðu fordæmi.

Ítrekað hefur verið fjallað um það að enska sé í fyrsta sæti þegar komið er í Leifsstöð. Þar trónir enskan efst á öllum skiltum í stað móðurmáls heimamanna og tónninn er sleginn.

Icelandair var eitt af þeim fyrirtækjum sem riðu á vaðið með að nota erlent heiti jafnt innan lands sem erlendis. Þar var íslenska komin í annað sæti, en eftir að Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra skoraði á fyrirtækið að taka sér tak var því snúið við.

Í niðurstöðukafla skýrslunnar um stöðu málstefnu í ferðaþjónustu kemur fram að sveitarfélögin hafi fæst svarað ítrekuðum fyrirspurnum skýrsluhöfunda um málstefnu. Markaðsstofur hafi einnig verið tregar til svars. Svar höfuðborgarstofu hefði verið lýsandi fyrir ástandið. „Greetings from Reykjavík,“ sagði í sjálfvirku svari og svo kom texti á ensku.

Málstefna þarf ekki að vera flókin. Mótun hennar krefst þess ekki að skipaðar verði nefndir sem verði að störfum svo misserum skiptir. Lykilatriði er að íslenska hafi forgang og um leið sé auðvelt að nálgast upplýsingar á öðrum málum. Það blasi við að hér sé töluð íslenska og málið sé í hávegum haft.