Nýtt upphaf Van de Perre á lestarstöð í Lundúnum árið 1947. Þar settist hún að eftir stríð.
Nýtt upphaf Van de Perre á lestarstöð í Lundúnum árið 1947. Þar settist hún að eftir stríð.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Má ég biðja þig um að tala svolítið hægar, ég er yfir 100 ára sjáðu til og frekar gömul.“ Þannig hefst samtal okkar Selmu van de Perre, hollensks gyðings og andspyrnuhetju sem lifði af fangabúðir nasista

Viðtal

Ragnheiður Birgisdóttir

ragnheidurb@mbl.is

„Má ég biðja þig um að tala svolítið hægar, ég er yfir 100 ára sjáðu til og frekar gömul.“ Þannig hefst samtal okkar Selmu van de Perre, hollensks gyðings og andspyrnuhetju sem lifði af fangabúðir nasista. Hún gaf út endurminningar sínar, Ég heiti Selma (Mijn naam is Selma), árið 2020 þegar hún var 98 ára og er íslensk þýðing Rögnu Sigurðardóttur komin út á hljóðbók og rafbók hjá Storytel.

Selma, þá Velleman, ólst upp í Amsterdam, ásamt tveimur eldri bræðrum og yngri systur. „Við lifðum algjörlega venjulegu fjölskyldulífi þar til stríðið braust út og Þjóðverjarnir hertóku Holland.“ Það var í maí 1940, Van de Perre þá 17 ára.

„Til að byrja með var lífið áfram nokkuð hefðbundið. Við höfðum áhyggjur af bræðrum mínum sem við vissum ekki hvar voru niðurkomnir, vorum hrædd um að þeir væru í höndum Þjóðverja. Til allrar hamingju var það ekki raunin. Annar vann á flutningaskipi meðan á stríðinu stóð en hinn var liðsmaður í herdeild sem fór fyrst til Belgíu og síðan til Englands. Svo þeir voru nokkuð öruggir en við höfðum ekki hugmynd um það. Foreldrar mínir höfðu miklar áhyggjur og það smitaði út frá sér.“

Þjóðverjar hófu fljótlega að gefa út tilskipanir og reglur um gyðinga. Þeir máttu sem dæmi ekki ferðast með almenningssamgöngum, fara í bíó eða heimsækja kristna vini. En Van de Perre og fjölskylda hennar gerðu sér þó engan veginn grein fyrir því hve slæmt ástandið myndi verða.

Árið 1942 fóru Þjóðverjar að handtaka hollenska gyðinga. Van de Perre var sú fyrsta úr fjölskyldunni sem senda átti á brott. Þann 7. júní 1942 fékk hún bréf þess efnis að hún ætti að gera vart við sig á aðallestarstöð borgarinnar og síðan ætti að senda hana til vinnu í Austur-Evrópu. „Við héldum öll að þetta væri satt. Það er erfitt að trúa því núna að við skyldum hafa haldið það en við gerðum það öll.“

Faðir hennar brá á það ráð að útvega henni veikindavottorð sem dugði í það skiptið. En viku síðar átti hún að koma aftur. Þá fékk hún lánaðan búning vinkonu sinnar sem var hjúkrunarkona og reyndi þannig að komast hjá því að vera send burt. Þjóðverjarnir tóku það ekki gilt, hún gæti ekki verið veik eina vikuna og hjúkrunarkona þá næstu. Það sem bjargaði henni þó var að henni bauðst vinna í verksmiðju sem framleiddi hanska og aðra loðvöru fyrir þýska herinn og þótti sú vinna nægilega mikilvæg til þess að hún slyppi við að vera send á brott.

Í andspyrnuhreyfinguna

Í október sama ár fékk faðir hennar sambærilegt bréf. „Allir sögðu að ef karlmaðurinn færi þá væru eiginkonan og börnin látin í friði svo hann ákvað að fara.“ Hann var sendur í Westerbork-búðirnar og síðan til Auschwitz þar sem hann var tekinn af lífi.

Sama kvöld sóttu Þjóðverjar eiginkonur og börn margra manna sem höfðu verið handteknir „Það var skelfilegur hávaði, fólk grét og öskraði. Þeir hentu fólkinu í stóra vörubíla. Þá sagði ég við móður mína að úr því þeir hefðu ekki komið að sækja okkur þetta kvöld þá kæmu þeir daginn eftir svo við yrðum að fara í felur. Ég fann fólk sem gat hýst móður mína og systur. En það var dýrt og erfitt að finna felustaði svo ég varð eftir.“ Hún átti ekki eftir að hitta móður sína og systur aftur.

Van de Perre flakkaði milli felustaða í Amsterdam og gekk í ýmis störf. Það varð fljótt ansi hættulegt og að lokum fór hún í felur hjá lækni í borginni Leiden. Hópur lækna þar hafði komið upp sérstakri andspyrnuhreyfingu sem aðstoðaði fólk við að finna felustaði og meðlimir komu oft til kvöldverðar á heimilinu þar sem hún dvaldi.

„Eitt kvöldið sögðust þeir vera í vandræðum með að finna fólk til þess að aðstoða svo ég sagði: „Get ég hjálpað?“ Ég hafði séð hvað það voru margir sem lögðu fram aðstoð sína svo mér fannst ég verða að gera það líka.“ Þar með var Van de Perre orðin meðlimur í andspyrnuhreyfingu Hollands.

Til að byrja með voru störfin einföld, t.d. að setja ólögleg dagblöð í umslög, en smám saman urðu þau flóknari og hættumeiri. Hún fór að ferðast með stóra ferðatösku fulla af ólöglegum pappírum, skilríkjum og peningum milli borga. Þá var hún send á stefnumót með þýskum hermanni til þess að geta stolið af honum skilríkjum. Stærsta og hættulegasta verkefni var líklega þegar hún var send inn á skrifstofur nasista í Frakklandi til þess að afhenda bandamanni andspyrnunnar, sem þar starfaði, tösku með skjölum.

„Þetta var allt svakalega stressandi en þegar öllu er á botninn hvolft þá leit ég bara á þetta sem hverja aðra vinnu. Maður vandist þessu fljótt. Og ég var ung, bara 19 ára þegar ég byrjaði.“

Selma litaði hárið á sér ljóst og tókst að leyna því að hún væri af gyðingaættum. Hún tók upp dulnefnið Margareta van der Kuit, stytt í Marga, og útvegaði sér opinber skilríki með því nafni. „Það bjargaði lífi mínu. Það er ég handviss um.“

Handsömuð og yfirheyrð

Van de Perre var nokkrum sinnum stoppuð af lögreglu og hermönnum. Hún var til dæmis eitt sinn stöðvuð á lestarstöð með ferðastösku fulla af ólöglegum pappírum. Hún var beðin að opna töskuna og þar blöstu við fimm stórir pakkar en til allrar hamingju báðu lögreglumennirnir hana ekki um að opna pakkana og sögðu henni að fara heim til sín.

Í annað sinn var ferðatöskunni stolið. Þegar kona sem var með henni í klefa vakti athygli á því að töskunni hefði verið stolið og Van de Perre var spurð um innihaldið þá laug hún því að hún hefði verið full af nærfötum. Og fyrir einhverja tilviljun hafði fundist taska sem var einmitt full af nærfötum sem hún gat sagt að væri sú tapaða. Þar með var hún laus við að vera bendluð við ólöglegu pappírana ef hin taskan kæmi síðar í leitirnar. „Það var algjör heppni, hún hefði getað verið full af einhverju allt öðru.“

Van de Perre var þó á endanum handsömuð sumarið 1944 og segir hún það hafa verið hreina óheppni. Hún hafði mælt sér mót við félaga sinn heima hjá yfirmanni þeirra í andspyrnunni. Þann sama dag hafði yfirmaðurinn verið handtekinn og var leiddur af þýskum hermönnum á heimili sitt til þess að þeir gætu gert húsleit. „Þarna stóð Peter milli lögreglumanna og SS-liða. Hann hvítnaði í framan þegar hann sá okkur.“

Þá var Van de Perre handsömuð og færð til yfirheyrslu. Hún hélt því fram allan tímann að hún væri bara vinkona mannanna og hefði ekkert haft með andspyrnuna að gera. Því var trúað framan af. „Ég brosti framan í fólkið eins og ég hefði ekkert til að hafa áhyggjur af.“ Hún var viss um að þarna kæmist upp um að hún væri ekki sú sem hún sagðist vera og það væri úti um hana. En skilríkin reyndust duga, hún var áfram Marga.

Hún var þó færð í fangelsi og yfirheyrslurnar héldu áfram. Einn daginn var henni boðin sígaretta og það gladdi hana eitt augnablik þar til hún þekkti sína eigin rithönd á sígarettupakkanum og áttaði sig á því að þær kæmu úr ferðatösku í herberginu hennar þar sem ýmislegt ólöglegt var að finna. Sá sem yfirheyrði sá að henni brá í brún og sagði að nú skyldi hún segja þeim allt af létta. „En ég hélt áfram að halda því fram að ég væri bara vinkona.“ Hún lýsir því hve hrædd hún hafi verið um að koma upp um sig, hún hafi varla þorað að leggjast til svefns af hræðslu við að segja eitthvað óvarlegt upp úr svefni.

Í fangabúðum nasista

Van de Perre var send í fangabúðir sem pólitískur fangi fyrir þátttöku í andspyrnunni. Fyrst var hún send til kvenfangabúðanna Vught í Suður-Hollandi þar sem aðstæður voru skaplegar af fangabúðum að vera en síðan til Ravensbrück í Þýskalandi þar sem aðstæðurnar voru algjörlega ómannúðlegar. Þangað voru konurnar í Vught fluttar með gripaflutningalestum.

„Þegar við komum þangað tóku hermenn með stóra hunda á móti okkur sem öskruðu og öskruðu: „schnell, schnell“, „fljótar, fljótar“. Og þeir lömdu fólk með prikum. Við vorum ekki vanar þess konar framkomu,“ segir hún. Konurnar hafi því strax áttað sig á að þær væru komnar á miklu verri stað. „Það var skrítið að koma til Ravensbrück því umhverfið var svo fallegt en búðirnar sjálfar voru skelfilegar.“

Eftir nokkrar vikur í Ravensbrück gekk Selma til liðs við vinnuflokk sem starfaði í verksmiðju Siemens og dvaldi í minni búðum rétt utan við aðalbúðirnar. „Maturinn var ekkert til þess að tala um, við fengum eina sneið af svokölluðu brauði á morgnana sem maður þurfti að fela svo henni yrði ekki stolið og eitthvað sem kallað var kaffi. Við unnum síðan frá sex til sex og á kvöldin fengum við súpu, sem var bara vatn með einhverjum grösum í. Það var allt og sumt.“

Spurð hvort hún hafi aldrei misst vonina segir hún að það hafi gerst þegar hún varð eitt sinn alvarlega veik. „Ég gat ekki haldið neinu niðri og var með slæman niðurgang. Mér leið hörmulega og hélt ég myndi deyja. En yfirmaðurinn í verksmiðjunni sagði: „Van der Kuit, ekki fara í gegnum pípuna“ og átti við líkbrennsluna sem kölluð var „pípan“. Hann sagði mér að leggjast á legubekk á skrifstofunni sem ég gerði. Einmitt það kvöld tók yfirvaktkonan manntal og það vantaði einn, mig. Þau áttuðu sig á endanum á því hvar ég var og sóttu mig. Yfirvaktkonan var bálreið út í mig og ekki síður út í vaktkonuna, þessa sem fylgdist með okkur dagsdaglega og var alls ekki slæm. Ég hélt að það væri endirinn. En yfirmaðurinn hlýtur að hafa viðurkennt að hann hafi sagt mér að leggjast fyrir. En á þessu augnabliki hélt ég að farið yrði með mig yfir í stóru búðirnar og ég tekin af lífi.“

„Við vorum skelfilega hræddar“

Veturinn 1944-45 fór stríðsrekstur Þjóðverja að ganga æ verr. „Það gengu sögur um að við myndum verða frelsaðar en aldrei gerðist neitt,“ segir Van de Perre. Sífellt fleiri fangar voru sendir í gasklefana enda vildu Þjóðverjarnir að sem fæst vitni yrðu eftir til þess að segja frá hinum hörmulegu meðförum.

„Þegar við vorum einn daginn leiddar úr Siemens-búðunum og yfir í aðalbúðirnar þá vorum við allar handvissar um að það ætti að drepa okkur. Það var ekkert sem við gátum gert. Við dvöldum í nokkra daga í aðalbúðunum og á hverjum degi þegar við þurftum að raða okkur upp og tekið var manntal þá héldum við að okkar síðasti dagur væri runninn upp,“ rifjar hún upp.

„Dag einn vorum við leiddar út fyrir hliðið og þá héldum við enn að það ætti að drepa okkur. Við vorum allar skelfilega hræddar. En við stóðum úti í nokkra daga og á meðan voru konur sem enn voru inni í búðunum færðar í gasklefana. En allt í einu sáum við lítinn sportbíl koma keyrandi og úr honum stökk ungur Svíi. Hann sagði að von væri á rútum frá Rauða krossinum sem myndu bjarga okkur.“

En Van de Perre og hinar konurnar biðu allan daginn og ekkert bólaði á rútunum. Svíinn hvatti þær til þess að fara aftur inn í búðirnar til þess að sofa en þær fúlsuðu við því. Þangað færu þær ekki aftur sjálfviljugar.

Svíinn bauð þeim súkkulaði og sígarettur. Þegar Van de Perre þáði sígarettu stakk vaktkonan sem hafði gætt þeirra höfðinu út um glugga og skipaði henni að láta sígarettuna frá sér. „Þá sagði Svíinn: „Þú mátt reykja eins mikið og þú vilt, hún hefur engin völd yfir þér lengur.” Á því augnabliki vissi ég að við værum raunverulega frjálsar.“

Daginn eftir komu þrír vörubílar og Svíinn sagði ungu konunum að hoppa um borð og þær hlýddu. Leiðin lá til Svíþjóðar þar sem tekið var vel á móti þeim. Þar var staddur hollenskur sendiráðsritari sem skráði niður nöfn þeirra. Í fyrstu þorði Van de Perre ekki annað en að gefa upp dulnefnið Margareta van der Kuit en seinna sama dag fór hún aftur á fund mannsins og gekk úr skugga um að nafnalistinn færi ekki til Hollands sem enn var í óvinahöndum. Þegar hún fékk að vita að listinn ætti að fara til Englands sagði hún hikandi: „Ég heiti ekki Margareta van der Kuit heldur Selma Velleman.“ Þar með var feluleiknum loksins lokið.

Aftur var heppnin með henni því listinn rataði til deildar innan hersins þar sem bróðir hennar David var við störf og hann sendi símskeyti til hennar um hæl. „Í matsalnum var kallað upp: „Er Selma Velleman hér?” svo ég stóð upp og sagði til nafns. Hinar konurnar höfðu ekki hugmynd um að ég héti Selma. Í símskeytinu sagðist bróðir minn feginn að heyra að ég væri á lífi og spurði hvort ég vissi hvað hefði orðið um foreldra okkar og systur.“

Fræðir næstu kynslóðir

Van de Perre segir það hafa verið mjög erfitt að reyna að lifa venjulegu lífi á ný. Foreldrar hennar og systir höfðu verið tekin af lífi og margir vinir hennar sömuleiðis. „Amsterdam var breytt og mér leið eins og aðkomumanni af því að ég átti hvorki fjölskyldu þar né heimili lengur.“

Til að byrja með reyndi hún að gleyma reynslu sinni úr stríðinu og lagði kapp á að skapa sér nýtt líf. Hún settist að á Bretlandi, starfaði lengi sem blaðamaður, bæði hjá BBC og hollenskri útvarpsstöð, giftist öðrum blaðamanni, Hugo van de Perre, og eignaðist með honum son.

Lengi vel hafði hún lítinn áhuga á að rifja upp tímann í Ravensbrück en þegar hún var beðin um að fylgja hóp af kennurum þangað sló hún til vegna þess að henni fannst mikilvægt að kennararnir gætu frætt næstu kynslóðir um hörmungar stríðsins. Þangað fór hún á hverju ári í tvo áratugi. „Það er svo mikilvægt að næstu kynslóðir heyri um það sem gerðist. Þetta gæti gerst aftur, öll lönd eru eins.“

Hún tók eftir því að Bretar höfðu fæstir hugmynd um að það hefðu verið fangabúðir í Hollandi eða virk andspyrnuhreyfing. Hún fór þess vegna að velta fyrir sér hvernig hún gæti miðlað áfram sögu Hollands í stríðinu og bræðrabörn hennar hvöttu hana eindregið til þess að skrifa sögu sína. Það tók tímann sinn að koma allri sögunni á blað en 98 ára gaf hún út sjálfsævisöguna Ég heiti Selma.

Hún segist hlessa á viðtökunum en bókin hefur verið gefin út í flestum Evrópulöndunum. „Ég bjóst ekki við því að neinn hefði áhuga á að lesa söguna mína. Það hafa verið skrifaðar svo margar bækur um helförina en mín saga er auðvitað saga andspyrnunnar, ekki hefðbundin saga gyðings.“

Höf.: Ragnheiður Birgisdóttir