Kjötvinnsla Unnið við pylsugerð í kjötvinnslu. Heimila átti hagræðingu í slátrun og hluta kjötvinnslunnar.
Kjötvinnsla Unnið við pylsugerð í kjötvinnslu. Heimila átti hagræðingu í slátrun og hluta kjötvinnslunnar. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

„Það veldur mér vonbrigðum að ráðherra skuli ekki treysta sér að leggja fram frumvarpið á Alþingi í febrúar líkt og til stóð og í þeirri mynd sem það var kynnt í samráðsgátt í nóvember 2022,“ segir Sigurjón Rafnsson, formaður Samtaka fyrirtækja í landbúnaði, SAFL, um þá ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra að falla frá framlagningu frumvarps sem heimilar hagræðingu í slátrun og kjötiðnaði vegna athugasemda sem bárust. Hún hyggst láta semja nýtt frumvarp og leggja fram á haustþingi.

Lakari rekstrarskilyrði

Sigurjón segir að frumvarpið hafi raunar ekki gengið nógu langt, að mati samtakanna, en hafi verið góður grunnur til að byggja á. „Hagræðingarheimild til handa afurðastöðvum í kjötiðnaði er einn af mörgum þáttum sem innleiða þarf til að jafna starfsskilyrði og stuðning við landbúnað á Íslandi til samræmis við önnur ríki Evrópu,“ segir hann og heldur áfram:

„Ég held að skilningur á þessu máli sé vaxandi. Fólk sér þörfina á endurskipulagningu og hagræðingu innan greinarinnar, enda til mikils að vinna. Það er hlutverk stjórnvalda að skapa og þróa þá umgjörð sem íslenskur landbúnaður býr við og við höfum mikið svigrúm til þess, mun meira en ég tel að margir átti sig á. Því er eðlilegt að frumvarp sem heimilar hvers konar undanþágur frá samkeppnisreglum sé lagað að innlendum aðstæðum, rétt eins og er gert við lagasetningu í þeim löndum sem við berum okkur saman við.“

Sigurjón ítrekar að íslenskir bændur og fyrirtæki þeirra hafi búið við mun lakari rekstrarskilyrði og þrengri samkeppnislöggjöf en bændur og fyrirtæki þeirra í Noregi og innan aðildarríkja ESB. Það liggi fyrir að undanþágureglur frá samkeppnisreglum í Noregi og innan aðildarríkja ESB tryggi að bændur og fyrirtæki þeirra séu undanþegin ákvæðum samkeppnislaga viðkomandi ríkja. Því til viðbótar séu í gildi tilteknar undanþágur frá samkeppnisreglum í ESB-rétti en umræddar reglur tryggi ákveðin forgangsáhrif landbúnaðarstefnu ESB gagnvart samkeppnisreglum sambandsins. „Þarna er aðstöðumunur íslenskra fyrirtækja hrópandi og dregur mjög úr samkeppnishæfni. Þetta þarf að leiðrétta og allar tafir á því eru miður,“ segir Sigurjón.

Láti sanngirni ráða för

Ráðherra vitnaði sérstaklega til umsagnar Samkeppniseftirlitsins sem lýsti andstöðu við frumvarpið. „Við sjáum vissulega skiptar skoðanir í umsögnum um málið en þar er lítið sem kemur á óvart. Við sjáum gagnrýni úr þekktum áttum. En það má segja að það hafi komið á óvart hve pólitískar sumar umsagnir frá ríkisstofnunum voru í raun og lagðar fram til þess að drepa málinu á dreif. Ég vona hins vegar að íslensk stjórnvöld sjái stóru myndina, láti sanngirni ráða för og taki sína sjálfstæðu ákvörðun. Þá efast ég ekki um niðurstöðuna.

Þá tel ég mikilvægt að við áttum okkur á því að umræða um fæðuöryggi og þjóðaröryggi, sérstakt heilnæmi íslenskrar framleiðslu, hringrásarhagkerfið, heimsmarkmið í umhverfismálum og svo framvegis eru orðin tóm ef við búum ekki landbúnaðinum það umhverfi sem hann nauðsynlega þarf til að komast af, þar er ekki verið að biðja um meira en aðrar þjóðir gera, síður en svo,“ segir Sigurjón. » 23

Höf.: Helgi Bjarnason